15. jún. 2012 - 20:00Vilhjálmur Steinarsson
Án alls vafa, þá eru sýnilegir kviðvöðvar eitt það allra eftirsóttasta í líkamsræktarbransanum. Í 90% tilvika þegar ég fer með kúnnunum mínum yfir þeirra markmið, þá leiðast umræðurnar í þessa áttina: „Ég vil missa kviðfituna og fá sixpakk“.
Að næla sér í eitt stykki „sixpakk“ er ekki auðvelt og þarfnast mikils aga í mataræði og æfingum. Að vera grannur og með sýnilega kviðvöðva, er ekki það sama. Hér eru nokkrir þættir sem gætu hjálpað þér við að móta kviðvöðvana.
Þjálfaðu kviðvöðvana með mótstöðu
Mótstaðan er það sem örvar vöðvaþræðina í líkamanum og ýtir undir vöðvavöxt. Ef þú ert að hamast í 50-100+ uppsetum á dag til þess að þjálfa upp á þér kviðvöðvana, hættu því. Jú þú yrðir svakalega fær í að framkvæma þetta mikinn fjölda af uppsetum eða álíka æfingum en þvottabrettið kæmi ekki endilega fram í þessari aðferð.
Ráð: Notastu við færri endurtekningar og bættu við mótstöðuna.
Ertu að þjálfa kviðvöðvana of mikið?
Þó kviðvöðvarnir séu frekar fljótir að jafna sig eftir átök, þá eru þeir ekkert frábrugðnir öðrum vöðvum að því leyti að þá þarf að hvíla líka. Margir einstaklingar taka alltaf sínar hefbundnu kviðæfingar eftir hverja æfingu og nánast alltaf sömu „rútínuna“.
Ráð: Þjálfaðu kviðvöðvana 1-2x í viku og gefðu þeim tíma til að jafna sig á milli æfinga, til að bæta frammistðu.
Þú ert of mikið á gólfinu!
Þegar talað er um kviðæfingar, þá hugsa flestir um æfingar þar sem maður liggur á gólfinu og framkvæmir afbrigði af uppsetum og fótalyftum. Að mínu mati skiptir fjölbreytni máli þegar kemur að því að þjálfa miðjuna. Æfingar sem krefjast þess að þú standir, ert á hnjám, vindur upp á þig eða haldir stöðu/spennu, eru æfingar sem fá þig til að vinna í jafnvægi og stöðugleika og örva þar af leiðandi fleiri vöðvaþræði. Þannig álag ætti að skila þér betri árangri.
Ráð: Ekki vera feiminn við að nota stóra jafnvægisbolta, þunga medicine bolta, lóð, cable-vélar, kaðla og TRX (o.m.fl) þegar kemur að því að þjálfa kviðvöðvana.
Ég þarf auðvitað ekki að taka fram að mataræðið skiptir hrikalega miklu máli þegar verið er að skera niður lýsið. Þú ræður ekki hvar líkaminn losar sig við fituna (spot reduction) og það þýðir ekkert að hamast í kviðæfingum dag eftir dag til þess að losa sig við fitu á því svæði. Líkaminn sér alfarið um það sjálfur.