17. jún. 2012 - 18:00Vilhjálmur Steinarsson
Hörður Axel Vilhjálmsson er íþróttamaður sem allir íþróttamenn geta tekið sér til fyrimyndar og lært af. Hann er fastamaður í íslenska landsliðinu í körfubolta og spilar á næstu leiktíð í efstu deild í Þýskalandi, sem er mjög sterk deild.
Hörður hefur lent í mótlæti á sínum ferli þar sem hann fór mjög ungur út að reyna fyrir sér í atvinnumennsku en þurfti að koma aftur heim. Hann hefur bætt sig á ári hverju, þökk sé metnaði og sjálfsaga og er hvergi nærri hættur. Hann tók sér tíma til að svara nokkrum spurningum um lífið í atvinnumennskunni.
Hver Hörður Axel Vilhjálmsson?
Hörður Axel er mjög margt. En í þessu samhengi er hann mjög metnaðarfullur íþróttarmaður sem ýtir flestu öðru til hliðar til þess að ná árangri í íþróttinni sinni. Er semsagt körfuboltamaður sem spilar í Þýskalandi.
Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér í atvinnumennskunni?
Ég vakna um 8:30 fæ mér góðan morgunmat. Er mættur upp í hús um 9:30 tek mér tíma í að hita mig upp, ná extra skotum og svo byrjar official æfing klukkan 10 og er til 12. Eftir það fer ég yfirleitt eitthvað með Hafdísi konunni minni í hádegismat og við finnum okkur svo eitthvað að gera. Svo er æfing aftur frá 18-20. Ég reyni að mæta fyrr til að gera mig til og gera smá auka. Er síðan yfirleitt alltaf seinastur út úr salnum líka, sem ég hef alltaf talið mikilvægt fyrir mig þ.e.a.s að vera seinastur af öllum út úr salnum. Eftir æfingu er svo bara kvöldmatur, síðan farið til liðsfélagana eða þeir til okkar. Förum svo alltaf að sofa í kringum 12 leytið svo ég fái alltaf að minnsta kosti 8 tíma svefn.
Leggur þú mikið uppúr aukaæfingum eins og styrktar- og snerpuþjálfun?
Ég legg allt upp úr aukaæfingum. Þannig hef ég náð forskoti á þá sem voru fyrir framan mig eða á svipuðu getustigi og þannig mun ég halda áfram að reyna að ná þeim sem eru enn fyrir framan mig. Ég hef yfirleitt lyft mikið og lagt mikið upp úr hoppþjálfun (plyometrics). Þannig ég verð að segja að ég leggi gríðarlega vinnu og stolt í það að vera alltaf í topp formi.
Hugsar þú mikið um mataræðið? Ef svo, hversu mikil áhrif hefur það á þig?
Ég hugsa mikið um mataræði en samt ekki eins og ég gerði. Ég var farinn út í miklar öfgar í mataræði og var stöðvaður af, af liðinu úti. Þannig ég hugsa alltaf út í það sem ég set ofan í mig en ég er hættur að skrá niður fæðuna og hitaeiningar, slumpa bara. Ég reyni t.d. að láta hvítan sykur vera, og reyna að borða eins mikið af flóknum kolvetnum og ég get til þess að hafa orku í allar þær æfingar sem eru fyrir höndum.
Notar þú fæðubótarefni til þess að hámarka árangur í þinni íþrótt? Ef svo, hvað?
Það fer mikið eftir því hvað kallast fæðubót. Ég nota glútamín, multivitamin, magnesíum og kalsíum, svo er ég með próteindrykki sem ég fæ mér við og við. Þá prótein drykki sem innihalda mikið kolvetni. Ég tel þetta samsvara vel þeirri næringu sem ég þarfnast og er meðvitaður um það sem ég þarf að borða til þess að halda mér gangandi.
Setur þú þér markmið?
Ég set mér markmið um allt tengt körfubolta. Ég mætti samt vera duglegri við að setja mér markmið með eitthvað annað í leiðarljósi en körfubolta.
Ég tel markmiðssetningu eina mikilvægustu leiðunum að árangri. Með því að skrifa niður markmið og leiðina til að ná þeim, þá hefuru alltaf eitthvað til að miða þig við hvort þú sért á áætlun til áfangarstaðar eða ekki.
Hver er furðulegasti liðsfélaginn/mótherjinn sem þú hefur spilað á móti?
Ætli það sé ekki Þröstur Leó Jóhannsson. Alveg ótrúlegt eintak, maður veit aldrei hverju hann tekur upp á hvorki inná vellinum né utan hans. Samt hef ég spilað með honum í einhver 6 ár. Nóg af sögum til af þeim manni.
Hver eru þín ráð til ungra íþróttamanna sem vilja ná langt í sinni grein?
Ef þú leggur meira á þig en allir aðrir, muntu verða betri en þeir á eitthverjum tímapunkti. Sama hversu mikið betri þeir eru í dag.
Meðan ég er í tölvunni að svara þessum spurningum, er einhver einhverstaðar í heiminum að æfa sig til þess að verða betri en ég og reyna að ná forskoti á mig. Þessi hugsunarháttur hefur hjálpað mér gífurlega.
Hvar eigum við eftir að sjá Hörð Axel í nánustu framtíð?
Á hærri stað, á hærra leveli með hverju árinu sem líður.