01. feb. 2011 - 14:00Víðir Smári Petersen

Búrkubann er barátta við vindmyllur

Hið eldfima mál um búrkubann hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu í sölum Alþingis. Hafa þingmenn ýmissa flokka lýst því yfir að nauðsynlegt sé að banna búrkur þar sem búrkur samrýmist ekki þeim grundvelli sem íslensk þjóð byggi á. Til þess að gera langa sögu mjög stutta er ég hjartanlega ósammála þeim þingmönnum. Áður en lengra er haldið, til þess að fyrirbyggja misskilning og upphrópanir, vil ég hins vegar gera þann fyrirvara að ég ætla ekki að réttlæta það að konur gangi í búrkum. Persónulega finnst mér óeðlilegt að nokkur maður kjósi að hylja sig á almannafæri þannig að ekki sé hægt að bera kennsl á hann. Hins vegar tel ég mig ekki þess umkominn að geta sagt þeim sem iðka trú sína að þeirra iðkun sé beinlínis röng, óeðlileg og óvelkomin í okkar samfélag.

Trúfrelsi er hornsteinn réttláts samfélags

Trú- og tjáningarfrelsi fólks eru ein af grundvallarmannréttindum þess frjálsa og lýðræðislega samfélags sem stjórnarskrá okkar byggir á og þeirra mannréttindasáttmála sem við erum aðilar að. Hver og einn á að fá að iðka sína trú og tjá hana að vild án þess að stjórnmálamenn geti haft afskipti af því. Þetta er er sú hugsjón sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum byggt á, þ.e. að hver og einn eigi rétt á því að athafna sig án afskipta ríkisvaldsins, og er leiðinlegt að æ oftar skuli þurfa að rifja þetta upp fyrir þingmönnum flokksins. Þessu frelsi eru hins vegar sett ákveðin eðlileg mörk. Þannig má viðkomandi í athöfnum sínum ekki ganga á frelsi annarra manna.

Trúfrelsi er veitt mjög víðtæk vernd í flestum réttarkerfum og á aðeins að takmarka það ef algjör nauðsyn krefur, t.d. með tilliti til almannaheillar eða til verndar allsherjarreglu. Ég tel að það hafi ekki verið sýnt með nokkru móti fram á að slíkt sé fyrir hendi varðandi búrkuna. Þannig stafar engin hætta af þeim konum sem klæðast búrkum og þær gera engum mein með þessum klæðnaði sínum. Þá finnst mér óeðlilegt að leggja til búrkubann á Íslandi, enda er ekki vitað til þess að nokkur kona beri slíkan klæðnað hér á landi, og er því synd að verið sé að eyða tíma Alþingis í baráttu við vindmyllur af þessu tagi meðan hægt er að ræða mikilvægari mál.

Kvenkúgun?

Í umræðum um bann við búrkum (sem hylja allt andlit konunnar) og því sem kallast niqab (sem hylja alla andlitsdrætti konunnar nema augun) hafa fylgismenn búrkubanns bent á að konurnar sem beri slíkan klæðnað, sem er gríðarlegur minnihluti múslimskra kvenna, séu undirokaðar og kúgaðar af eiginmönnum sínum til að bera búrkurnar.

Þó við gefum okkur það að allar múslimskar konur sem klæðast búrkum séu kúgaðar til þess af eiginmönnum sínum, er það samt sem áður mín skoðun að ekki eigi að banna klæðnaðinn. Verði búrkur bannaðar er líklegt að konurnar muni einangrast á heimilum sínum af hræðslu við að verða refsað fyrir að bera klæðnaðinn á almannafæri og lúta þá frekar vilja meints kúgara síns. Fráleitt væri að halda því fram að þær muni hætta að nota búrkurnar ef bannið gengi í gegn, enda er klæðnaðurinn hluti af þeirra trú og lífsstíl (þó margir fræðimenn haldi því fram að þessi trú kvennanna sé oftúlkun á orðum Kóransins). Þá vil ég benda áhugasömum á að lesa bókina Arabíukonur eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur þar sem hún fjallar m.a. um konur sem hún kynntist á ferðum sínum sem báru búrkur ókúgaðar.

Vissulega er kvenfrelsi víða fótum troðið í Arabalöndunum, en það er ekki lausnin að banna fámennum og mjög trúuðum hópi kvenna að ganga í búrkum. Telji þingmenn sig þurfa að hafa afskipti af þessum konum væri eðlilegra að þeir myndu fara hóflegri leiðir, t.d. með því að auka fræðslu um jafnrétti kynjanna eða banna búrkur einungis á stöðum þar sem er nauðsynlegt að auðkenna sjálfan sig, eins og t.d. á flugvöllum o.þ.h.

Búrkubann er mannréttindabrot

Nú nýverið hafa verið samþykkt lög um búrkubann í Frakklandi og Belgíu og hafa kærur tengdar þessum lögum borist Mannréttindadómstól Evrópu. Fróðlegt verður að sjá hver niðurstaðan í þeim málaferlum verður, en virtir fræðimenn á sviði mannréttinda hafa þegar lýst því yfir að slíkt búrkubann sé líklegt til að brjóta gegn trú- og tjáningarfrelsisákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu og annarra mannréttindasáttmála. Þannig hefur Heiner Bielefeldt, sérstakur umsjónarmaður trúfrelsismála hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, sagt að algjört búrkubann sé óhóflegt og frekar eigi að einbeita sér að kennslu og fræðslu á sviði kvenfrelsis en að banna slíkan klæðnað. Þá birti Thomas Hammarberg, yfirmaður mannréttindamála hjá Evrópuráðinu, grein í Guardian á síðasta ári með fyrirsögninni Europe must not ban the burqa, þar sem hann lýsti því yfir að líklegt sé að bannið muni brjóta gegn tjáningar- eða trúfrelsisákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég tel að full ástæða sé til að taka mark á þessum sérfræðingum á sviði mannréttinda.

Meirihlutavilji?

Í umræðum um búrkubann í Frakklandi notuðu stuðningsmenn bannsins iðulega þá röksemd að eðlilegt væri að banna búrkur þar sem stór meirihlutavilji þjóðarinnar væri fyrir því. Þetta hef ég einnig þóst heyra í umræðum um bannið hér á landi, þó ekki hafi komið til þess hingað til að þingmenn hafi látið þetta út úr sér. Þessar röksemdir er hreint út sagt hræðilegt að heyra í lýðræðisríki. Það er vissulega eðlilegt að fordómar fólks í garð framandi siða leiði til þeirra frumhvata að vilja banna þá. Slík hentisemi og geðþótti leiðir hins vegar til þess að hugtakið mannréttindi verður merkingarlaust. Ef hægt er að troða á mannréttindum fólks eingöngu vegna þess að það er „meirihlutavilji“ fyrir því á Alþingi, þá eigum við á hættu að missa sjónar á því sem mannréttindi eiga að vera. Mannréttindi eru meðfæddur réttur hvers og eins til að ákveða sjálfur hvað honum er fyrir bestu. Í því felst t.d. rétturinn til þess að vera öðruvísi en meirihlutinn, jafnvel þótt meirihlutinn kunni ekki að meta það.

Að lokum langar mig að fagna því að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi lýst því yfir á Alþingi í gær að hann teldi að ekki ætti að banna búrkur á Íslandi. Vona ég að sama skapi að Sjálfstæðisflokkurinn taki ekki þátt í því mannréttindabroti sem líklegt er að vanhugsað búrkubann verði. Sjálfstæðisflokkurinn á frekar að verða leiðandi afl í almennri umræðu um mannréttindi – en það svið hefur flokkurinn látið sitja á hakanum og mæta afgangi alltof lengi.  
12.feb. 2011 - 17:00 Víðir Smári Petersen

Georg og félagar

Hæstiréttur staðfesti á fimmtudaginn að Svandís Svavarsdóttir hefði brotið lög í starfi sínu sem umhverfisráðherra. Í stað þess að biðjast afsökunar og játa mistök sín segir hún í viðtali við mbl.is að engin lög hafi í raun verið brotin heldur væri aðeins um túlkunarágreining að ræða milli ráðuneytisins og Flóahrepps. Það er hreint út sagt magnað að ráðherra í vestrænu lýðræðisríki skuli láta svona hluti út úr sér eftir að hafa gerst brotlegur við lög. Ef maður vissi ekki betur myndi maður mun frekar giska á að um væri að ræða afsakanir ráðamanna í einræðisríki eða afsakanir Georgs Bjarnfreðarsonar. Svandís og Georg virðast eiga það sameiginlegt að þau gera ekkert rangt heldur er um „misskilning“ að ræða. 

Víðir Smári Petersen
Áhugamaður um mannréttindi, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna og tilvonandi lögfræðingur með burtfararpróf á klarínett.
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Fleiri pressupennar