03. okt. 2010 - 15:48Steingrímur Sævarr Ólafsson
Kæri Roy Hodgson.
Ég veit ekki hvort þú lest Pressuna, en ef þú gerir það er hægur vandi að renna þessu bréfi í gegnum Google translate og mér þætti þá vænt um að þú myndir lesa það í góðu tómi.
Mér finnst best að byrja á að upplýsa þig um að ég var andvígur ráðningu þinni frá upphafi. Mér fannst ekkert benda til þess að þú hefðir þá hæfileika til að stýra stórliði eins og Liverpool. Leikstíll þinn hæfir ekki meistaraliði með þá sögu sem Liverpool hefur og mun á ný hafa þegar styttir upp.
Og satt best að segja gerðirðu enn minna til að auka trú mína á ráðningu þinni þegar einu mennirnir sem þú reyndir að fá voru á fertugsaldri. Með fullri virðingu fyrir fertugsaldrinum, þá á Liverpool að vera að kaupa leikmenn á tvítugs- og þrítugsaldri, leikmenn sem eru að nálgast toppinn eða eru hreinlega á honum.
Konchesky og Poulsen eru því miður ekki í þeim gæðaflokki. Þeir kæmust varla að í liði Fylkis og aldrei í lið FRAM. Hvað ertu þá að hugsa með að eyða FJÓRUM KOMMA FIMM MILLJÓNUM PUNDA í að kaupa Poulsen og einhverju milljónum til í Konchesky? Poulsen hefur verið verri en Sean Dundee, verið með lélegri sendingar en Djimi Traore og varist verr en Björn Tore Kvarme. Og Konchesky? Uhhh...hann hefur verið ferlega lélegur og sem betur fer liggur manni við að segja - alltaf meiddur.
Ég veit ekki hvort þú hefur einhvern tímann orðið fyrir einelti hr. Hodgson. Ég vona ekki. En ég hef verið að upplifa það frá því að þetta keppnistímabil hófst. Geturðu ímyndað þér hvernig það er að langa ekki að mæta í vinnuna á mánudegi? Ekki af því að það er eitthvað að vinnunni, nei, af því að í vinnunni eru ekkert nema Tottenham og Man Utd menn - og þeir hafa sjaldan eða aldrei skemmt sér jafn vel. Meira að segja Everton maðurinn í vinnunni getur lagt mann í einelti!
Ég fór og horfði á leik á krá um daginn. Krá þar sem hundruð Liverpool aðdáenda hafa safnast saman í gegnum árin og horft á leiki. Við vorum kannski tuttugu að horfa og enginn hafði trú á því sem þú ert að gera.
Liðið sem milljónir styðja er nú liðið sem milljónir stynja yfir, gráta yfir og er meinilla við þig fyrir að stýra. Þig! Og af hverju ætli það sé, svona í grunninn, fyrir utan að þú kaupir vonlausa leikmenn?
Jú, þú lætur liðið spila leiðinlegustu og varnarsinnuðustu knattspyrnu sem ég hef séð liðið leika og þú virðist mikill aðdáandi „kick´n´run“ bolta. Hátt og langt held ég að stuðningsmenn Þróttara kalli þessa tegund knattspyrnu. Þú ættir kannski að velta fyrir þér að þjálfa í 1. deildinni á Íslandi?
Er eitthvað meira? Hmmm....liðið spilar ömurlegan fótbolta en þú gerir bara ekki skiptingu fyrr en á 85. mínútu nema um meiðsli sé að ræða. Bíddu...liðið er á hælunum og þú notar ekki einu sinni þrjár breytingar? Þú spilar mönnum í stöðum sem þeir þekkja ekki og hafa aldrei spilað. Þú lætur þá spila bolta sem þeir vilja ekki spila og stuðningsmenn vilja ekki sjá. Sök sér ef þetta virkaði - en þetta er ekki einu sinni að virka.
Gerðu mér og öllum öðrum aðdáendum Liverpool greiða; hættu þessu, afléttu eineltinu sem við erum að verða fyrir og leyfðu okkur að upplifa gleði að nýju.
Ég er að fá nóg!