15. des. 2016 - 18:00Vestfirðir
Margir glöddust yfir umfjöllun Morgunblaðsins þann 6. desember síðastliðinn þar sem sagt var frá áformum um uppbyggingu á Suðurtanga. Áformin eru það langt komin að búið er að skilgreina stórar iðnaðarlóðir í samstarfi við þau fyrirtæki sem í hlut eiga. Þá er Húsasmiðjan þegar byrjuð að byggja nýtt húsnæði á Suðurtanga undir verslun sína og gera má ráð fyrir að fleiri verslunar- og þjónustufyrirtæki velji sér að vera á sömu slóðum.

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðar.
Við nýjan 500 metra langan Sundabakka er gert ráð fyrir 20 þúsund fermetra lóð fyrir HG, 15 þúsund fermetrum fyrir Arctic Fish, um 7 þúsund fermetrum fyrir Háubrún og um 4 þúsund fermetrum fyrir Keresis. Staðsetning fyrirtækjanna við hafnarbakkann þýðir mikla hagræðingarmöguleika og nálægð verksmiðju Kerecis við fiskvinnsluhús HG er þýðingarmikil í þeirra framleiðslu. Vestar á Suðurtanganum er svo gert ráð fyrir fjölda annarra lóða.
Það er ekki lengra síðan en síðasta vetur að farið var að ræða þessa uppbyggingarkosti við fyrirtækin sem eiga í hlut og því sérstakt gleðiefni hve málið er langt komi. Lóðir voru auglýstar og reyndust umsækjendur margir. Að ósk þeirra fyrirtækja sem sóttu um lóðir var farið í samstarf um þarfagreiningu og endurhönnun byggingarlóða, hófst samráðið með opnum fundi í mars síðastliðnum sem fylgt var eftir með vinnu í skipulagshóp. Nú hefur náðst ágæt niðurstaða um tilhögun þessara lóða, sem á þó enn eftir að hljóta formlegt samþykki.
Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum við að fylla upp á Tanganum, byggja Sundabakka og steypa hafnarþekju. Æskilegt er að verkinu ljúki ekki seinna en árið 2020 miðað við fyrirætlanir þeirra fyrirtækja sem um ræðir. Heildarkostnaður við Sundabakka og uppfyllingar verður um 1,5 milljarður og m.v. hefðbundna uppbyggingu hafnarmannvirkja ætti hlutur Ísafjarðarbæjar að verða um 500 milljónir króna.
Aðkoma stjórnvalda
Mikilvægasta verkefnið á þessu stigi málsins er að afla skilnings hjá stjórnvöldum þannig að fjárframlög ríkisins fáist til verksins, en verkefnið er ekki á samgönguáætlun. Helst er horft til þess að fá sambærilegan samning um uppbyggingu og fékkst vegna Bakka á Húsavík – nema hvað að í okkar tilfelli er ekki verið að biðja um skattaafslátt, sem er rausnarlegur á Bakka, heldur eingöngu uppbyggingu hafnarmannvirkja. Mikil jákvæð hagvaxtaráhrif verða af þessum framkvæmdum fyrir Ísland í heild sinni auk þess að þær munu hafa mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu á norðanverðum Vestfjörðum, það er því ólíklegt annað en að ríkisvaldið sé tilbúið að leggjast á árarnar með okkur.
Ástæðurnar fyrir þessari miklu uppbyggingu eru fyrst og fremst miklir vaxtarmöguleikar í fiskeldi og gríðarleg fjölgun skipafarþega á Ísafirði. Auknir tekjumöguleikar af farþegaskipum á Sundabakka munu í raun standa undir því framlagi sem Ísafjarðarbær þarf að leggja til fjárfestinganna – og þá er aðeins verið að tala um þau skip sem nú þegar leggja leið sína hingað.
Frekari uppbygging vegna vaxandi ferðaþjónustu mun einnig verða á næstu árum og sjálfsagt mun eitthvað af þeirri uppbygginu eiga sér stað á Suðurtanga. Möguleikar til uppbyggingar vegna ferðaþjónustu eru þó um allt sveitarfélagið og strax á næsta ári verður ráðist í gerð þjónustuhúss við tjaldsvæðið á Þingeyri, en það hefur gefið Ísafjarðarbæ mestar tekjur af öllum tjaldsvæðum bæjarins.
Góður árangur í fjármálum Ísafjarðarbæjar
Frábær árangur hefur náðst á undanliðnum árum í fjármálum Ísafjarðarbæjar og ef horft er á skuldaviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga er hlutfall Ísafjarðarbæjar nú komið í um 120%, þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Hlutfallið skal vera undir 150% skv. reglum og hefur verið stefnt að því að halda því í kringum 130% á þessu kjörtímabili og núverandi staða því fagnaðarefni. Tekjur sveitarfélagsins hafa farið vaxandi og íbúafjöldi hefur staðið í stað frá ársbyrjun 2014, í stað langvarandi fækkunar íbúa áður. Gera má ráð fyrir að íbúum farið að fjölga upp úr þessu. Engu að síður verður leitað logandi ljósi að öllum þeim úrræðum sem gagnast mega til að snúa við íbúaþróun á Flateyri og Þingeyri, þar sem við erum í mikilli vörn. Samfélagsmiðstöð sem opnuð verður á Þingeyri í febrúar á næsta ári er spennandi tilraun sem vonandi getur verið mikilvægur hlekkur í lausn þessa erfiða viðfangsefnis.
Sérlega ánægjulegur er sá mikli árangur sem náðst hefur í hagræðingu hjá Ísafjarðarbæ í málefnum fatlaðra og það þrátt fyrir að þjónustan hér sé ein sú besta á öllu landinu. Góður árangur hefur einnig náðst í skólamálum og grundvallast hann fyrst og fremst á samstilltu átaki starfsfólks skólanna. Sá árangur mun skila sér í góðu umtali, betri íbúum og betri námsárangri.
Framkvæmdir og viðhald
Á næsta ári er áfram gert ráð fyrir miklum framkvæmdum enda eru þarfirnar margar og víða. En það eru ekki bara fjárfestingarnar sem verða kraftmiklar því að á árinu 2017 er einnig búið að taka til hliðar fjármuni til að sinna viðhaldi í meira mæli en áður hefur verið. Þörfin er víða brýn, svo sem í húsnæði bæjarins, gangstéttum og göngustígum – svo eitthvað sé nefnt. Góð hirða bæjarins er lykillinn að ánægju og framtakssemi íbúanna sjálfra.
Margir vilja sjá meiri framkvæmdir og fjárútlát í málefnum sem þeim tengjast. Götur í nágrenninu, meiri þjónustu í leikskólamálum, betri snjómokstur og svo má lengi telja. Þetta eru réttmætar kröfur, góður árangur á ekki að verða til þess að við sofnum á verðinum og leggjum árar í bát. Við eigum að setja markið hátt og fylgja fyrirheitum eftir með markvissum hætti og þolinmæði og trú að vopni.
Nú er verið að ljúka við framkvæmdir við nýja leikskóladeild á jarðhæðinni í Húsmæðraskólanum Ósk og verður þá hægt að taka inn öll 18 mánaða börn og gott betur en það. Þar sem augljóst er að íbúum mun fjölga hratt á næstu árum er þó þegar búið að setja á áætlun ársins 2018 stækkun leikskólans Eyrarskjóls. Vilji stendur einnig til að lækkar aldur þeirra barna sem komast að á leikskóla, en það er þó risavaxið verkefni fyrir rekstur bæjarins og lætur nærri að lækkun inntökualdurs úr 18 í 12 mánuði kosti nærri 1 milljón króna á barngildi, sem þýðir hækkun rekstrarkostnaðar um nokkra tugi milljóna á hverju ári. Vissulega teljum við fulla þörf á þessari þjónustu fyrir foreldra ungra barna og munum vinna að því að veita hana, engu að síður er nauðsynlegt að sveitarfélög nái samkomulagi við ríkið um tekjustofna til að kosta þessa þjónustu. Fæðingarorlof þarf að lengja í að lágmarki 12-15 mánuði og leikskólinn þarf að geta tekið við börnunum að því loknu.
Búið er að setja 140 milljónir króna á árunum 2017 og 2018 til uppbygginu fótboltamannvirkja og hefur þá helst verið horft til byggingu gervigrasvallar á Tornesi. Hávær umræða er þó enn um að því fé væri betur varið í knattspyrnuhús og er þeirri umræðu ekki lokið.
Samgöngubætur
Nú er loksins farið að ræða opinberlega um að gera rannsóknir á nýrri staðsetningu fyrir flugvöll til að þjóna norðanverðum Vestfjörðum. Núverandi staðsetning Ísafjarðarflugvallar er löngu orðin úrelt og óásættanlegt að ekki sé hægt að reiða sig á flug hálft árið nema með 50-70% líkum. Leita þarf til þrautar að framtíðarlausn ef flugsamgöngur eiga að verða valkostur í ferðamáta hér um slóðir. Ekki er hægt að segja til um það hvaða lausn finnst sem er fullnægjandi en vonandi býðst einhver fýsilegur kostur.
Dýrafjarðargöng hljóta að vera handan við hornið og munu þau verða bylting í samgöngum og vaxtarmöguleikum Vestfjarða til framtíðar. Veita þarf stjórnvöldum gott aðhald svo að þeim áformum verði ekki slegið á frest eina ferðina enn.
Samgöngubætur með uppbyggingu á Ísafjarðarhöfn, Dýrafjarðargöngum og nýjum flugvelli munu gjörbylta möguleikum okkar í efnahagsmálum og íbúaþróun. Með fyrirsjáanlegri uppbyggingu í ferðaþjónustu, fiskeldi og öðrum iðnaði eru möguleikar okkar til sjálfbærs vaxtar samfélaganna á Vestfjörðum góðir og framtíðin björt.
Fjölgun íbúa
Takast þarf á við fjölgun íbúa með margvíslegum hætti á næstu árum. Fyrsta verkefnið er að byggja upp íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Nú þegar eru uppi áform um byggingu íbúðarhúsa og leiðir Ísafjarðarbær eitt þeirra verkefna, byggingu fjölbýlishúss við Sindragötu. Bærinn hefur þegar sótt um stofnfjárframlög til Íbúðalánasjóðs vegna þessa verkefnis. Betur má ef duga skal og fram þarf að fara umtalsverð skipulagsvinna og undirbúningur til að finna nýju íbúðarhúsnæði stað.
Fjölgun íbúða þarf svo að fylgja eftir með nauðsynlegum framkvæmdum á borð við skólahúsnæði og leikskólahúsnæði svo það helsta sé nefnt. Þetta verða ekki síður krefjandi viðfangsefni en íbúafækkun liðinna ára en þó mun ánægjulegri.
Hluti af þessari framtíðaruppbyggingu verður að eiga sér stað í þorpunum vestan heiða og reyndar einnig í nágrannasveitarfélögum okkar. Ef til vill er kominn tími til að íhuga frekari sameiningar sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum, enda er víst að mikil uppbyggingarverkefni í Bolungarvík og Súðavíkurhreppi geta orðið þeim sveitarfélögum stór biti að kyngja. Miklir hagsmunir liggja t.d. í Ísafjarðardjúpi og strandsvæðum þess og gríðarmikið verkefnið fyrir hinn fámenna Súðavíkurhrepp að gæta hagsmuna þessa víðlenda svæðis með fullnægjandi hætti.
Að lokum
Góður árangur og björt framtíð Ísafjarðarbæjar mun að sjálfsögðu byggja á íbúunum sjálfum, fyrirtækjum þeirra og athöfnum. Sveitarfélagið getur gert þeim lífið auðveldara og ánægjulegra og það á að vera okkar helsta markmið að hjálpa íbúunum að gera sitt besta. Verkefnin er fjölmörg ennþá, þó vel hafi gengið að undanförnu. Við munum ekki skorast undan þeim verkefnum og kosta öllu til sem hægt er þannig að árangur náist.
Birtist fyrst í Vestfjörðum. Smelltu hér til að lesa blaðið.