01. maí 2012 - 13:11Vilhjálmur Birgisson

1. maí ræðan mín

Kæru hátíðargestir

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með daginn.

Nú eru liðin tvö ár síðan skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Skýrslan var miskunnarlaus afhjúpun á græðgi og grimmd fjármálakerfisins sem óx eins og illkynja mein inn í íslenskt hagkerfi.  Að hugsa sér, kæru félagar, að örfáir einstaklingar skuli hafa náð að rústa íslensku efnahagslífi með jafn afgerandi hætti og nú blasir við okkur, er ótrúlegt.  

Í skýrslunni kom fram afdráttarlaust  hverjir báru ábyrgðina. Það eru stjórnendur og eigendur fjármálastofnana og þær eftirlitsstofnanir sem áttu að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, þessir aðilar brugðust sínu hlutverki.  Í skýrslunni er staðfestur sá grunur að aðaleigendur bankanna, jakkafataklæddir menn á lakkskóm, rændu þá algjörlega innan frá með skelfilegum afleiðingum fyrir allan almenning í þessu landi.

Það er mér óskiljanlegt að þessir snillingar sem tæmdu bankana innan frá í eigin þágu, stórsköðuðu orðstír heillar þjóðar og hafa valdið íslensku þjóðinni, þessari kynslóð og komandi kynslóðum, ómældum þjáningum skuli enn ganga lausir.  Almenningur er agndofa yfir því að nánast enginn hefur verið látinn sæta ábyrgð þó svo að liðin séu tæp fjögur ár frá hruni.

Kæru félagar, af hverju er ég að rifja þetta upp?  Jú, það er afar mikilvægt fyrir okkur að gleyma því aldrei hvernig þessir aðilar brugðust þessari þjóð og íslenskur almenningur mun aldrei sætta sig við að þessir snillingar verði ekki látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Ég rifja þetta líka upp vegna þess að fórnarlömb hrunsins eru alþýða þessa lands en öllu hruninu hefur verið varpað á herðar alþýðunnar.  Ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar hafa vaðið ofan í vasa íslensks launafólks til að lagfæra hjá sér efnahagsreikninginn.  Við þessa aðila vil ég segja: þið eruð búin að tæma alla vasa hjá íslenskri alþýðu,  þar er ekkert meira að sækja.

Það er þyngra en tárum taki að sjá og verða vitni að því hvernig hrunið hefur leikið  íslensk heimili. Skuldir heimilanna stökkbreyttust og greiðslubyrði heimilanna hækkaði miskunnarlaust og mörgum heimilum hefur blætt út.  Aðgerðir stjórnvalda hafa því miður verið afskaplega takmarkaðar og er hægt að líkja úrræðum stjórnvalda til hjálpar skuldsettum heimilum við að setja plástur á slagæðablæðingu.  Einu alvöru leiðréttingarnar sem almenningur hefur fengið eru í gegnum dómstóla en nægir að nefna í því samhengi dóm hæstaréttar vegna gengistryggðu lánanna  sem voru dæmd ólögleg.

Ágætu félagar, ég ætla að upplýsa ykkur aðeins um gengistryggðu lánin.
Í dómi Hæstaréttar frá júní 2010 var bönkum og fjármálafyrirtækjum gert að skila ránsfeng að andvirði 120 milljarða til þeirra heimila, fyrirtækja og einstaklinga sem voru með gengistryggð lán.  Skil á þessum ránsfeng vilja fjármálastofnanir og stjórnvöld kalla „afskriftir“ til þessara aðila. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að það komi skýrt fram að hér er alls ekki um neina ölmusu að ræða frá fjármálastofnunum eða stjórnvöldum heldur voru þessir aðilar dæmdir til að skila þýfinu til baka enda voru þessi gengistryggðu lán dæmd kolólögleg í Hæstarétti eins og áður sagði.

Það sorglega í þessu er að Samtök fjármálafyrirtækja vissu vel að gengistrygging íslenskra lána væri brot á lögum enda höfðu samtökin skilað inn umsögn til Alþingis fyrir níu árum þar sem á það var bent að þetta lánaform stæðist ekki íslensk lög. Þar af leiðandi átti Alþingi einnig að vera það fullkunnugt að þessi lán stæðust ekki skoðun.


Það var ótrúleg atburðarás sem fór af stað eftir að Hæstiréttur var búinn að dæma gengistryggðu lánin ólögleg í júní 2010. Þá var aðalmálið hjá íslenskum stjórnvöldum að slá skjaldborg um fjármálastofnanir á kostnað almennings og milda áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálastofnanir. Ríkisstjórnin ákvað að fótum troða loforðið um skjaldborg utan um heimilin og var það gert meðal annars með svokölluðum Árna Páls lögum nr. 151/2010. Í þeim lögum voru vextir Seðlabankans látnir gilda afturvirkt á þessi ólöglegu gengistryggðu lán en þeir vextir voru eins og allir vita mun óhagstæðari en þeir erlendu vextir sem voru á gengistryggðu samningunum.  Rétt er í þessu samhengi að rifja upp ummæli Gylfa Magnússonar fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra  frá því í júní 2010 en í viðtali við vísir.is segir Gylfi það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir fái að standa óhaggaðir.  Þessi sami ráðherra sagði einnig í sama viðtali að ríkisstjórnin þyrfti auðvitað að haga sér á ábyrgan hátt og koma í veg fyrir að slík niðurstaða ógni fjármálastöðugleika. Hugsið ykkur þessi ummæli ráðherrans, það mátti ekki ógna fjármálastöðugleika banka og fjármálastofnanna og þess vegna þurfti að setja þessi lög að mati stjórnvalda. En hvað með fjármálastöðugleika íslenskra heimila? Mátti fórna þeim  á altari ólaga, eða með öðrum orðum setja lög sem síðan stóðust ekki skoðun Hæstaréttar?

Það ofbeldi sem íslensk heimili hafa mátt þola á sér vart hliðstæðu því það liggur fyrir að fjölmargir lögspekingar og aðrir aðilar sem komu á fund Alþingis vöruðu í umsögnum sínum eindregið við því að umrædd lög Árna Páls stæðust alls ekki. Þrátt fyrir þessar aðvaranir voru Árna Páls lögin sett á, lög sem hefðu kostað heimili, fyrirtæki og einstaklinga 64 milljarða í það minnsta ef ekki hefði komið til kasta Hæstaréttar. Til að setja þetta í samhengi þannig að fólk skilji hversu gríðarlega fjármuni átti að hafa af almenningi með þessari lagasetningu, þá gaf ein besta loðnuvertíð sem verið hefur við Íslands strendur í áratugi 30 milljarða, það átti því að fremja rán á heimilum, fyrirtækjum og einstaklingum að andvirði tveggja loðnuvertíða.

Hvernig má það vera að enginn virðist vera látinn bera ábyrgð á því að gengistryggð lán voru lánuð til einstaklinga og fyrirtækja þó svo að Samtök fjármálafyrirtækja og Alþingi hafi haft fulla vitneskju um að lánin væru ólögleg eins og ég hef rakið hér áður. Nú hefur komið í ljós, eins og áður sagði, að fjármálastofnanir hafa þurft að leiðrétta 120 milljarða vegna þessara ólöglegu lána. Árna Páls lögin sem voru dæmd ólögleg í Hæstarétti kostuðu almenning 64 milljarða. Samtals er því hér um ránsfeng að ræða að andvirði 184 milljarða og ég ítreka því: Hvernig stendur á því að ekki nokkur einasti maður er látinn sæta ábyrgð vegna þessa?

Ágætu fundarmenn, það er ánægjulegt að almenningur sem var með gengistryggð bílalán og húsnæðislán skuli vera búin að fá leiðréttingu á sínum stökkbreyttu skuldum vegna hrunsins.  Það er hins vegar dapurlegt og ömurlegt til þess að vita að ekkert hefur verið gert vegna þess forsendubrests sem varð á verðtryggðum lánum heimila.

Verðtryggingarvítisvélin hefur farið eins og skýstrókur um íslensk heimili og sogað allan eignarhluta heimilanna í burtu.  Til að sýna hvaða ofbeldi íslensk heimili þurfa að þola vegna verðtryggingarinnar þá námu verðtryggðar skuldir heimilanna 1. maí í fyrra 1.271 milljarði sem þýðir miðað við hækkun neysluvísitölunnar að skuldir heimilanna hafa hækkað um tæpa 80 milljarða á einu ári. Já kæru félagar 80 milljarða  hafa skuldir heimilanna hækkað síðan við stóðum hér í þessum sal í fyrra, bara vegna verðtryggingarinnar.  

Frá áramótum hefur neysluvísitalan hækkað um 2,9 % sem þýðir að verðtryggðar skuldir heimilanna síðustu þrjá mánuði hafa hækkað um rúma 37 milljarða króna. Til að setja þetta aftur í samhengi við eitthvað sem fólk skilur þá er þetta sama upphæð og kostar að reka Landspítalann á einu ári. Ég spyr, hvernig í ósköpunum geta íslenskir stjórnmálamenn samþykkt þetta ofbeldi sem íslensk heimili þurfa að þola vegna verðtryggingarvítisvélarinnar?


Ég spyr líka hvernig í ósköpunum stendur á því að núverandi forsætisráðherra sem hefur lagt fram þrjú frumvörp varðandi afnám verðtryggingarinnar þegar hún var í stjórnarandstöðu og færði fyrir því frábær rök skuli ekki gera það þegar hún hefur tækifæri til? Hvergi á byggðu bóli þekkist verðtrygging með þeim hætti sem íslensk heimili þurfa að búa við. Hvaða vitglóra er í því að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila geti jafnvel hækkað við uppskerubrest í Brasilíu eða ef einhver harðstjóri í Miðausturlöndum fer vitlaust framúr rúmi að morgni.  Þennan skaðvald sem verðtryggingin er þarf að afnema tafarlaust því það stenst enga skoðun að ábyrgðin liggi öll hjá almenningi á meðan að lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir.  Hverjir eru það sem berjast með kjafti og klóm fyrir því að verðtryggingin verði ekki afnumin -  Jú það eru fjármálastofnanir, fjárfestar og síðast en ekki síst lífeyrissjóðselítan.  Lífeyrissjóðirnir hafa hagnast vegna verðbóta á  verðtryggðum fasteignalánum heimilanna um rúma 140 milljarða frá 1. janúar 2008.  Nú verða stjórnvöld og Alþingi að hætta að taka stöðu með sérhagsmunahópum og taka stöðu með almenningi því það er morgunljóst að íslenskum heimilum er að blæða hægt og rólega út vegna verðtryggingarinnar.

Kæru félagar. Það fór ekki framhjá neinum þegar rannsóknarskýrsla um starfsemi lífeyrissjóðanna kom fram fyrir nokkrum mánuðum síðan. Skýrsla sem staðfesti 500 milljarða tap á lífeyri íslensks launafólks og það staðfestist í þessari skýrslu að stjórnendur lífeyrissjóðanna stigu trylltan dans með útrásarvíkingunum enda lá tap lífeyrissjóðanna fyrst og fremst í töpum í föllnu bönkunum og þeim tengdum. Tapið lá hins vegar ekki í sjóðsfélagalánum enda pössuðu stjórnendur lífeyrissjóðanna sig á því að vera með fullar tryggingar gagnvart sínum eigin sjóðsfélögum. Já kæru félagar, þessir snillingar töpuðu 500 milljörðum króna af okkar lífeyri og enginn ætlar að bera nokkra ábyrgð. Þessir aðilar keyptu líka heilsíðuauglýsingar í öllum blöðum eftir að skýrslan kom út þar sem þeir gáfu til kynna að þetta væri besta lífeyrissjóðskerfi í heimi og sögðu frá því að íslenska lífeyrissjóðskerfið ætti 2100 milljarða. En þeim láðist hins vegar að segja frá því að þá vantar 700 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar. Já, þá vantar 700 milljarða til að geta staðið við það sem lífeyrissjóðirnir eiga að greiða út til sinna félagsmanna. Hvernig skyldi þessi halli vera réttur af? Jú hann er réttur þannig af að réttindi sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði eru skert en öðru máli gegnir um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. En þann lífeyrissjóð vantar hvorki meira né minna en 440 milljarða króna til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Þessar skuldbindingar eru ríkistryggðar sem þýðir ekki nema eitt, að reikningurinn verður sendur á okkur og komandi kynslóðir.

Ég get sagt ykkur það, kæru félagar, að þetta er grafalvarlegt mál sem þarf að taka á. Hvaða réttlæti er það að almennt verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði þurfi að sæta skerðingu á sínum lífeyri á sama tíma og opinberir starfsmenn eru tryggðir hjá ríkinu? Með öðrum orðum, almennt verkafólk fær skertan lífeyri og fær síðan bakreikning frá ríkinu til að lífeyrissjóður opinberra starfsmanna geti staðið við sínar skuldbindingar. Þetta getur vart talist réttlæti og jöfnuður eins og svo margir stjórnmálamenn vilja kenna sig við. Ég hef sagt það í ræðu og riti að ég vil að stjórnendur lífeyrissjóðanna, og er ég þá fyrst og fremst að tala um forstjóra og framkvæmdastjóra, axli sína ábyrgð og taki pokann sinn. Ætíð er talað um þegar um ofurlaun er að ræða að ábyrgðin sé svo mikil hjá viðkomandi stjórnendum. Fyrirgefið orðbragðið, en hvaða fjandans ábyrgð liggur í því að tapa 500 milljörðum, vera með sáralitla ávöxtun síðustu 10 ár og halda áfram starfi eins og ekkert sé. Við þessu segi ég ekki nema eitt: Sveiattan.

Ágætu fundarmenn! Ég sagði í ræðu hér á 1. maí 2010 að þegar við vorum að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði árið 2008 þá hafi komið fram aðilar eins og greiningastjórar bankanna, seðlabankastjóri og fleiri ráðamenn og hvatt íslenska verkalýðshreyfingu til að ganga frá afar hófstilltum kjarasamningum sem þá voru í burðarliðnum. Þetta sögðu þeir að væri forsenda fyrir því að stöðugleiki myndi ríkja í íslensku samfélagi. Þessi orð féllu í janúar 2008 frá þessum aðilum. Hugsið ykkur kæru félagar, 9 mánuðum seinna var íslenskt samfélag komið á hliðina, hrunið var skollið á af fullum þunga. Og hugsið ykkur líka að forstöðumenn greiningadeildanna, þeir höfðu mestar áhyggjur af því að til að tryggja stöðugleika þyrfti að passa að íslenskt verkafólk fengi ekki of miklar launahækkanir.

Þetta var að gerast á sama tíma og verið var að ræna bankana innan frá af jakkafataklæddum mönnum. Af hverju er ég einnig  að rifja þetta upp? Jú, það er vegna þess að nú er komið ár síðan undirritaðir voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði. Kjarasamningar sem gáfu íslensku lágtekjufólki 11 þúsund króna hækkun á mánuði. Hvað gerðist eftir kjarasamningana? Jú, núverandi seðlabankastjóri og hagfræðingar seðlabankans komu og sögðu: Þetta eru of miklar launahækkanir. Þetta mun hægja á efnahagsbata íslensku þjóðarinnar. Það sækir að mér kaldur hrollur þegar ég hlusta á þessa menn. Vegna þess að þegar Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var búinn að láta þessi orð falla þá stefndi hann sínum eigin banka af því að hann vildi launahækkun. Hann vildi leiðréttingu á sínum launum, leiðréttingu sem nam 350 þúsund króna hækkun á mánuði. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að taka mark á þessum mönnum? Allt átti að fara til fjandans vegna þess að fiskvinnslukonan, ræstingarkonan og fólk sem lifir á skammarlega lágum launum fékk 11 þúsund króna hækkun. Svo krefjast þessir menn hækkunar á sínum launum sem nema 350 þúsund krónum á mánuði og leita til dómstóla vegna þess. Enn og aftur segi ég sveiattan.

Kæru félagar. Slagorð dagsins er vinna er velferð. Það er ljóst að það er ekki velferð hjá tæplega 12 þúsund manns sem nú eru án atvinnu. Það er einnig rétt að benda á það að 8.500 manns hafa flutt af landi brott, umfram aðflutta frá hruni. Það er einnig líka mikilvægt að almenningur átti sig á því að fjölmargir hafa misst sinn bótarétt til atvinnuleysisbóta og hafa færst yfir á sveitarfélögin og mælast því ekki inni í atvinnuleysistölum. Á þessum forsendum er það morgunljóst að eitt af brýnustu verkefnum íslenskra stjórnvalda, er að koma tannhjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik. Og það er mikilvægt að ný störf séu tengd útflutningi enda er það mikilvægt að almenningur í þessu landi átti sig á því að velferð okkar Íslendinga byggist á því að skapa störf sem skila þjóðinni gjaldeyristekjum.

Við Akurnesingar, við erum heppin. Við erum heppin með þau frábæru fyrirtæki sem nú eru starfrækt á Grundartanga og hafa skilað okkur þeirri velferð sem við búum við hér í okkar samfélagi. Ég verð oft dapur yfir því hversu niðrandi er talað um stóriðjuna á Grundartanga en það er ljóst að hún er að skila íslensku samfélagi gríðarlegum tekjum. Við þurfum að skapa þessum fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði þannig að þau hafi áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa þannig fleiri störf. Íslensk stjórnvöld mega ekki undir nokkrum kringumstæðum leggja þannig álögur á fyrirtækin að þau hafi ekki áhuga á að hafa starfsemi sína hér á landi. Það gerðist þegar svokallaður kolefnisskattur átti að leggjast á til dæmis Elkem Ísland. Þar var stórhætta á ferðum að fyrirtækið myndi hverfa af landi brott.

Ég hef einnig áhyggjur af því að það auðlindagjald sem nú á að leggja á útgerðina muni geta ógnað starfsöryggi og kjörum fiskvinnslufólks og sjómanna og ég hef sagt að ég vil nota það svigrúm sem útgerðin hefur til að lagfæra skammarlega lág laun fiskvinnslufólks. Það var því undarlegt að lesa í umsögn ASÍ að þeir telji að veiðileyfagjaldið muni ekki hafa áhrif á kjör og atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og sjómanna. Sérstaklega í ljósi þess að forseti og hagfræðingur ASÍ sögðu fyrir ári síðan þegar við vorum í kjarasamningsgerðinni að ekki væri hægt að fara fram á umframhækkun til handa fiskvinnslufólki vegna þess að útgerðin skuldaði svo mikið. Þeir vildu að fiskvinnslufólk yrði inni í samræmdu launastefnunni margfrægu. En núna koma þeir og segja að það sé ekkert mál að leggja á útgerðina vel á annan tug milljarða, í auðlindagjald.

Þennan málflutning forystumanna ASÍ skil ég ekki en það er svo margt sem ég skil ekki þegar kemur að forystu ASÍ. En ég vil samt sem áður segja að það eru jákvæðir punktar í þessum frumvörpum, eins og til dæmis það að það á að tryggja með afgerandi hætti að auðlindir hafsins séu ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Það sem íslenskri þjóð hefur verið misboðið varðandi útgerðina er þegar þeir hafa selt sig út úr greininni, labbað með hundruð milljóna ef ekki milljarða og skilið fólk eftir í átthagafjötrum. Það er þetta sem íslenskri þjóð hefur mislíkað illilega.

Eins og ég sagði áðan þá er margt sem ég ekki skil þegar kemur að forystu ASÍ. Það fer ekki framhjá neinum að það er gríðarleg gjá á milli hins almenna félagsmanns og forystu ASÍ. Ég hef gagnrýnt forystu ASÍ harðlega í ræðu og riti og tel að þar séu oft á tíðum ekki viðhöfð lýðræðisleg vinnubrögð. Ég get nefnt fjölmörg dæmi:
•        Hvað með stöðugleikasáttmálann þar sem verkafólk var skikkað til að fresta og afsala sér launahækkunum 2009.
•    Hvað með stuðning ASÍ við Icesave, hvað með yfirlýsingar ASÍ um að eina leiðin í gjaldeyrismálum sé innganga í ESB.
•    Hvað með andstöðu forystu ASÍ við afnámi verðtryggingarinnar.
•    Hvað með það að forysta ASÍ lagðist alfarið gegn því að auka lýðræðið við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og að atvinnurekendur víki úr stjórnum sjóðanna
•    Hvað með það að forysta ASÍ lagðist gegn almennri leiðréttingu á skuldum heimilanna.
•    Hvað með samræmdu launastefnuna þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.
•    Hvað með það að forseti ASÍ lagðist gegn því að taka neysluvísitöluna úr sambandi 2008 sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir skuldsett heimili.

Ég dreg það stórlega í efa að forysta ASÍ hafi haft meirihluta sinna félagsmanna á bak við sig í þessum málum. Ég tel að það verði að taka upp betri vinnubrögð af hálfu forystu ASÍ og þeim ber skylda til að hlusta og kanna vilja sinna félagsmanna með afgerandi hætti þegar stór og viðamikil mál eru til umfjöllunar.
 
Ég tel einnig að það sé afar mikilvægt að forseti ASÍ sé kosinn í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna innan ASÍ, en ekki á ársfundum ASÍ eins og fyrirkomulagið er núna. Á þessari forsendu mun ég vinna að því að leggja fram lagabreytingu á næsta ársfundi ASÍ þar slíkt kosningafyrirkomulag yrði tekið upp. Það er gríðarlega mikilvægt að forseti ASÍ sé með sterkt bakland, en eins og fyrirkomulagið er núna eru meiri líkur fyrir frambjóðendur að ná kjöri sem forseti Norður-Kóreu en sem forseti ASÍ.


Kæru félagar. Að lokum vil ég segja þetta. Við erum rík. Við eigum gríðarleg verðmæti hér á landi. Nægir að nefna í því samhengi sjávarauðlindina okkar, orkuna og svo ekki sé talað um landið sjálft en áætlað er að uppundir 600 þúsund ferðamenn muni koma hingað og heimsækja landið okkar í sumar. Á þessari forsendu liggur fyrir að enginn á að þurfa að líða skort hér á landi.

Þegar ný ríkisstjórn tók við í janúar 2009 batt ég vonir við að þau gildi sem hafa verið hér við lýði í áratugi yrðu látin víkja. Þessi gildi lúta að sérhagsmunagæslu, græðgi og einkavinavæðingu en því miður hefur ekki tekist að eyða þessum gildum frá því ný ríkisstjórn tók við. Ég vil fá að sjá ný gildi tekin upp hér á landi, gildi er lúta að réttlæti, jöfnuði og sanngirni. Ef þessi gildi verða tekin upp þá þarf ekki að óttast um framtíð Íslands.

Takk fyrir.
15.jún. 2017 - 13:21 Vilhjálmur Birgisson

Einn maður stjórnar lífeyrissjóði sem er jafn stór og allir íslensku sjóðirnir til samans

Hugsið ykkur að einn maður að nafni Steve Edmundson stýrir 35 milljarða dala lífeyrissjóði fyrir opinbera starfsmenn í Nevada í Bandaríkjunum. Takið eftir að miðað við gengi Bandaríkjadollarans í gær er þessi lífeyrissjóður sem þessi eini maður stjórnar jafn stór og allt lífeyriskerfið okkar eða um 3500 milljarðar íslenskrar króna. Það kemur líka fram í þessari frétt að árslaun Steve eru rétt rúmir 127 þúsund dalir, eða sem nemur 1,1 milljón á mánuði.
14.jún. 2017 - 10:42 Vilhjálmur Birgisson

Þetta rugl sem er í kringum lífeyrissjóðina

Ég er ekki í neinum vafa um að nú verður að skoða þetta rugl sem er í kringum lífeyrissjóðina en það kostar um eða yfir 10 milljarða að reka lífeyriskerfið á ári. Hér er til dæmis verið að greiða framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands 20 milljóna mætingarbónus fyrir það eitt að hafa náð að vinna fyrir sjóðinn í 3 ár! Í þessu samhengi er mikilvægt að átta sig á því að það eru íslensku lífeyrissjóðirnir sem eiga uppundir 70% í Framtakssjóði Íslands.
06.jún. 2017 - 13:44 Vilhjálmur Birgisson

Blóðtaka í atvinnulífi okkar Akurnesinga

Vissulega er það jákvætt skref að boðið verður upp á rútuferðir, en því miður eru alltof margir sem ekki munu hafa tök á að þiggja vinnu í Reykjavík og ástæðan er einföld, vinnudagurinn lengist um 2 tíma án þess að starfsmenn muni fá greitt fyrir ferðatímann. Einnig gengur það ekki upp hjá mörgum að þiggja starf í Reykjavík, sérstaklega fyrir þá sem eru með börn í leik- eða grunnskóla.
01.jún. 2017 - 12:58 Vilhjálmur Birgisson

Er það lögbrot að lækka verð til heimila og fyrirtækja?

Ég tek svo sannarlega undir þessi sjónarmið hjá Viðari Garðarsyni að stjórnvöld verði að marka sér skýra eigendastefnu fyrir Landsvirkjun. Ég skora á fólk að horfa á myndbrotin sem koma fram með þessum pistli frá aðalfundi Landsvirkjunar, en í þeim kemur fram hjá forstjóra Landsvirkjunar að á síðustu 7 árum hafi Landsvirkjun átt eftir 200 milljarða og takið eftir, þá hefur allur rekstrarkostnaður fyrirtækisins verið greiddur, allur!
29.maí 2017 - 11:23 Vilhjálmur Birgisson

Hvaða mál eru brýnni fyrir hagsmuni almennings og skuldsettra heimila?

Ruglið í kringum hækkun á neysluvísitölunni heldur áfram. Í dag er 12 mánaða verðbólgan 1,7% en án húsnæðisliðar er hún neikvæð sem nemur 2,6%. Sem sagt, enn og aftur er það hækkun á fasteignaverði og leigu sem knýr verðbólguna áfram og enn og aftur horfa ráðamenn og þingmenn aðgerðalausir á þessa staðreynd.
23.maí 2017 - 13:08 Vilhjálmur Birgisson

Stjórnvöld eiga að vera á tánum en ekki hnjánum

Þetta eru nú meiri snillingarnir hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi en nú kallast það ábyrg byggðastefna hjá HB Granda að stúta fjöreggi okkar Skagamanna í atvinnumálum á einni nóttu. Að hugsa sér að sjávargreifarnir reyni að réttlæta það að það fyrirkomulag sem við erum með við stjórnun fiskveiða sé búið að leggja að velli þriðju stærstu verstöð landsins á nokkrum árum er ótrúlegt og jafnvel ósvífið.
27.apr. 2017 - 15:48 Vilhjálmur Birgisson

Hví í ósköpunum gera alþingismenn ekkert í þessu?

Hví í ósköpunum gera alþingismenn ekkert í þessu? Nú kemur í ljós að 12 mánaða verðbólga á Íslandi er 1,9% en takið eftir án húsnæðisliðar þá er hún neikvæð um 1,8%. Þetta þýðir á mannamáli að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um 38 milljarða á síðustu 12 mánuðum en ef fjárskuldbindingar heimilanna myndu miða við neysluvísitölu án húsnæðisliðar þá hefðu skuldir heimilanna lækkað um 36 milljarða, en hér hafa verið hafðir af heimilnum 74 milljarðar! Með öðrum orðum þá er það einungis hækkun á húsnæðisverði og leiguverði sem knýr verðbólguna áfram en það er bullandi verðhjöðnun á öðrum liðum neysluvísitölunnar.
27.mar. 2017 - 18:37 Vilhjálmur Birgisson

„Sorglegt og dapurt“

Kátir voru karlar á kútter Haraldi. Til fiskiveiða fóru frá Akranesi. Og allir komu þeir aftur!
21.mar. 2017 - 12:35 Vilhjálmur Birgisson

Af hverju er verið að selja erlendum hrægömmum slíka gullgæs?

Það er sorglegt til þess að vita að hrægömmunum hefur nú tekist að steypa sér niður og læsa klónum í einn af viðskiptabönkum landsmanna, en eins og allir vita hafa hrægammarnir flögrað yfir íslensku viðskiptalífi um langt skeið í þeirri von að fá tækifæri til læsa klónum í arðsama bráð sína og nú hefur þeim svo sannarlega tekist það.
19.mar. 2017 - 16:47 Vilhjálmur Birgisson

Fyrirgefið orðbragðið

Fyrirgefið orðbragðið, en djöfull er ég sammála Mikael Torfasyni að við eigum að skammast okkur hvernig við komum fram við þá sem höllumstum fæti standa í íslensku samfélagi. Ég veit ekki hvað ég hef skrifað marga pistla og flutt ræður um að það er með ólíkindum að vera með lágmarkslaun og launataxta sem eru langt undir öllum neysluviðmiðum sem velferðaráðuneytið hefur gefið út.
16.mar. 2017 - 13:23 Vilhjálmur Birgisson

Ófriður er ekki verkafólki og iðnaðarmönnum að kenna

Það er alltaf gaman og fróðlegt að hlusta á félaga Brynjar sem sagði að hér væri alltaf allt logandi í verkföllum og að besti árangurinn til að lækka vexti væri friður á vinnumarkaði! Það er mikilvægt fyrir Brynjar og fleiri að vita að verslunarmenn, verkafólk og iðnaðarmenn á Íslandi hafa vart farið í verkfall 30 til 40 ár! Svo tala menn um ófrið á vinnumarkaði! Þessi ófriður er alls ekki verkafólki og iðnaðarmönnum að kenna.

14.mar. 2017 - 13:56 Vilhjálmur Birgisson

Til hamingju Ragnar Þór!

Ég get ekki annað en óskað vini mínum Ragnar Þór Ingólfsson innilega til hamingju með þennan glæsilega sigur og trúðu mér, þú áttir hann svo sannarlega skilið. Þetta mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á baráttu verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni því samstarf og samvinna Verkalýðsfélags Akraness og Ragnars Þórs á þingum ASÍ hefur verið órjúfanleg. Nægir að nefna í stórum hagsmunamálum eins og afnámi verðtryggingar, að tekið sé á okurvöxtum og auknu lýðræði í lífeyrisjóðunum, allt eru þetta mál sem Ragnar Þór hefur tekið þátt í að styðja okkur í VLFA með.

13.mar. 2017 - 15:50 Vilhjálmur Birgisson

Krjúpa við hreiður hrægamma

Já, það verður að segjast alveg eins og er að það er eilítið undarlegt að hrægömmunum hafi verið gefinn afsláttur sem nemur allt að 54 milljörðum sem er nánast sama upphæð og kostar að reka Landspítalann á einu ári! Það verður fróðlegt að fylgjast með gengi krónunnar á næstu dögum eftir þessa samninga við hrægammana, en krónan hefur nú þegar fallið um rúm 3%.

09.mar. 2017 - 12:26 Vilhjálmur Birgisson

Er ekki komin tími til að stjórnvöld marki eigendastefnu fyrir Landsvirkjun?

Er ekki komin tími til að stjórnvöld marki eigendastefnu fyrir Landsvirkjun? Í það minnsta væri fróðlegt að vita hversu miklum fjármumum Landsvirkjun hefur eytt í að kanna möguleika á því að leggja raforkusæstreng til Skotlands.
07.mar. 2017 - 13:40 Vilhjálmur Birgisson

Hvar er lækkunin á okurvöxtum til almennings sem þið lofuðuð?

Ég hlustaði á þetta viðtal í morgun við fjármálaráðherra og varð gríðarlega spenntur að heyra það þegar Heimir þáttastjórnandi spurði fjármálaráðherra um okurvextina á Íslandi og hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera hvað það varðar. Áður en ég fjalla um svarið sem fjármálaráðherra gaf vegna okurvaxta sem almenningur þarf að þola þá vil ég rifja upp kosningaloforð Viðreisnar fyrir síðustu kosningar. En það byggðist á því að koma á myntráði þar sem gengið yrði fest sem myndi leiða strax til þess að vextir til almennings og fyrirtækja myndu lækka um 2 til 4%.

23.feb. 2017 - 16:20 Vilhjálmur Birgisson

Þetta á og má ekki undir nokkrum kringumstæðum láta átölulaust!

Í þessari frétt frá Fiskifréttum er vitnað í vef norska síldarsamlagsins og upplýst að heildarverðmæti loðnuafla norsku skipanna, sem hafa verið við veiðar hér við Ísland og landað stórum hluta af afla sínum hér á landi, hefur verið 239 milljónir norskra króna (tæpir 3,2 milljarðar ISK). Meðalverðið er 5,8 krónur á kíló (76,9 ISK).
13.des. 2016 - 16:09 Vilhjálmur Birgisson

ASÍ og SA slá skjaldborg um stjórnarval í lífeyrissjóðunum

Í ljósi þess að þann 21. desember næstkomandi muni miðstjórn Alþýðusambands Íslands staðfesta endurskoðun á samningi á milli ASÍ og SA um lífeyrismál, þá er rétt að það komi fram að gert er ráð fyrir nánast óbreyttu fyrirkomulagi við val á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóðanna, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness barist um langt árabil fyrir því að lýðræði við stjórnarkjör í lífeyrissjóðunum verði stóraukið og aðkoma sjóðsfélaga sjálfra að ákvörðunartöku sjóðanna verði efld til muna.
28.nóv. 2016 - 15:00 Vilhjálmur Birgisson

Hrós dagsins

Hrós dagsins fá forsvarsmenn IKEA. Ekki bara fyrir að hafa lækkað verð síðastliðin 3 ár og reynt þannig að skila styrkingu krónunnar til neytenda, heldur líka fyrir að ætla að greiða starfsmönnum bónus sem nemur einum mánaðarlaunum, eða svokallaðan 13. mánuð. Þetta gerir fyrirtækið samhliða því að hafa hækkað laun starfsmanna um 5% umfram kjarasamningsbundnar launahækkanir á síðastliðnum 3 árum.
11.nóv. 2016 - 14:32 Vilhjálmur Birgisson

Hagnaður bankanna 522 milljarðar frá hruni!

Hugsið ykkur að samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka hefur frá hruni eða nánar til getið frá 2009 til ársloka 2015 numið 522 milljörðum og það eftir skatta. Takið eftir 522 milljörðum og ekki ólíklegt að bankarnir rjúfi 600 milljarða hagnaðarmúrinn á þessu ári. Að meðaltali hafa bankarnir þrír hagnast um 74,5 milljarða á ári frá hruni!
07.nóv. 2016 - 16:20 Vilhjálmur Birgisson

Samræmd láglaunastefna verður meitluð í stein

Í nýju vinnumarkaðsmódeli er gert ráð fyrir að ætíð verði samið um afar hóflegar launahækkanir og að allir verði að framfylgja samræmdum launahækkunum og enginn megi víkjast þar undan.
02.nóv. 2016 - 14:16 Vilhjálmur Birgisson

Ég tel mjög marga ekki vita um hvað norrænt vinnumarkaðsmódel snýst

Eins og flestir vita þá er mikið rætt um að hér þurfi að taka upp nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd. Það veldur mér hins vegar áhyggjum að ég tel mjög marga ekki vita um hvað norrænt vinnumarkaðsmódel snýst.

Það liggur fyrir að það er innbyggt í öll norrænu vinnumarkaðsmódelin er að samningsréttur launafólks er skertur verulega enda er ákvörðunartaka um hámarkslaunabreytingar færð frá launafólki yfir á fámennan miðstýrðan hóp manna.

01.nóv. 2016 - 14:29 Vilhjálmur Birgisson

Eigum við að skoða þetta aðeins?

Hver kannast ekki við þau orð að búið sé að hækka lægstu launin sérstaklega á undanförnum árum og áratugum umfram aðra. Með öðrum orðum að þeir tekjulægstu hafi hækkað mest!

Eigum við að skoða þetta aðeins?

25.sep. 2016 - 13:26 Vilhjálmur Birgisson

Vissir þú þetta?


20.sep. 2016 - 12:00 Vilhjálmur Birgisson

Þetta er algert rugl og stenst ekki nokkra skoðun

Það er morgunljóst að æðstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, fulltrúar atvinnurekanda og stjórnvöld vinna leynt og ljóst að því að koma á nýju vinnumarkaðsmódeli sem gengur út að skerða gróflega frjálsan samningsrétt launafólks
09.sep. 2016 - 16:56 Vilhjálmur Birgisson

Alþjóðlegur dagur gegn sjálfsvígum

Á morgun 10. september  er Alþjóðlegur dagur gegn sjálfsvígum en eins og margir vita ríkir mikil þöggun og skömm í kringum sjálfsvíg og því er mikilvægt að þessi dagur sé m.a. notaður til að opna umræðuna um þetta vandamál sem sjálfsvíg eru. Þunglyndi, kvíðaröskun og áfengis- og fíkniefnaneysla eru því miður oft og tíðum lífshættulegir sjúkdómar sem ber að taka alvarlega. Það liggur fyrir að oft eru sjálfsvíg samofin þessum sjúkdómum.  Því verður alls ekki lýst með orðum hvernig það er að missa barnið sitt eða einhvern nákominn eftir sjálfsvíg. Þá sálarangist þekkja einungis þeir sem í því hafa lent og það þekki ég og mín fjölskylda, enda misstum við son okkar einungis þrítugan að aldri á þann hátt 11. apríl 2014.
05.sep. 2016 - 16:00 Vilhjálmur Birgisson

Þetta frumvarp hefur enga þýðingu, ekki nokkra!

Nýtt verðtryggingarfrumvarp fær falleinkunn.
23.ágú. 2016 - 12:15 Vilhjálmur Birgisson

Kunna greiningarstjórar bankanna ekki að skammast sín?

Ég skal fúslega viðurkenna að að mér sækir kaldur hrollur þegar fréttamenn kalla eftir áliti um verðtryggingu og okurvexti frá greiningarstjórum bankanna.


17.ágú. 2016 - 19:39 Vilhjálmur Birgisson

Íslendingurinn myndi greiða 539% hærri vexti en sá danski

Hugsið ykkur kæru vinir á ári greiðum við 2 milljónum meira en Danir og þetta er ekkert annað en rán um hábjartan dag og það heyrist ekki hósta né stuna frá stjórnmálamönnum.

Þetta vaxtaofbeldi sem íslensk heimili þurfa að búa við verður að linna enda er þetta mál langbrýnasta hagsmunamál sem íslensk alþýða og heimili hafa staðið frammi fyrir!

15.ágú. 2016 - 15:16 Vilhjálmur Birgisson

Af hverju tekur ríkisstjórnin ekki á okurvöxtum fjármálakerfisins?

Ég skal fúslega viðurkenna að ég er mjög hugsi eftir að hafa horft á kynningu ríkisstjórnarinnar áðan. Í fyrsta lagi er ekkert í þessun sem kveður á um afnám verðtryggingar og tekið sé á okurvöxtum fjármálakrefisins enda ná þessar aðgerðir einungis til ungsfólks sem eru að kaupa sína fyrstu húseign. Það sem var jákvætt við þessa kynningu var að það var staðfest svo ekki verður um villst hversu skaðleg 40 ára jafngreiðslulán eru íslenskum neytendum enda kom fram að greiðslubyrði verðtryggðsláns er fyrstu 14 árin hærri en óverðtryggða og eftir það skiljast leiðir algerlega og eftir 14 ár heldur höfuðstól og greiðlubyrði verðtryggðalánsins áfram að snarhækka á meðan óverðtryggðalánið lækkar bæði höfuðstól og greiðslubyrði.


Vilhjálmur Birgisson

Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.

jón og óskar: Trúlofunarhringar
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 14.6.2017
Þetta rugl sem er í kringum lífeyrissjóðina
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.6.2017
Reiði og hefnd
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 17.6.2017
Úrslitaleikur á móti Úkraínu
Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson - 18.6.2017
Glórulaus hugmynd hjá forsetanum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 17.6.2017
Kammerherrann fær fyrir kampavíni
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson - 17.6.2017
Independence day - free from Icelandic
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 20.6.2017
Blaðabarnið gleymir
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 24.6.2017
Auðjöfur af íslenskum ættum
Fleiri pressupennar