01. maí 2012 - 13:11Vilhjálmur Birgisson

1. maí ræðan mín

Kæru hátíðargestir

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með daginn.

Nú eru liðin tvö ár síðan skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Skýrslan var miskunnarlaus afhjúpun á græðgi og grimmd fjármálakerfisins sem óx eins og illkynja mein inn í íslenskt hagkerfi.  Að hugsa sér, kæru félagar, að örfáir einstaklingar skuli hafa náð að rústa íslensku efnahagslífi með jafn afgerandi hætti og nú blasir við okkur, er ótrúlegt.  

Í skýrslunni kom fram afdráttarlaust  hverjir báru ábyrgðina. Það eru stjórnendur og eigendur fjármálastofnana og þær eftirlitsstofnanir sem áttu að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, þessir aðilar brugðust sínu hlutverki.  Í skýrslunni er staðfestur sá grunur að aðaleigendur bankanna, jakkafataklæddir menn á lakkskóm, rændu þá algjörlega innan frá með skelfilegum afleiðingum fyrir allan almenning í þessu landi.

Það er mér óskiljanlegt að þessir snillingar sem tæmdu bankana innan frá í eigin þágu, stórsköðuðu orðstír heillar þjóðar og hafa valdið íslensku þjóðinni, þessari kynslóð og komandi kynslóðum, ómældum þjáningum skuli enn ganga lausir.  Almenningur er agndofa yfir því að nánast enginn hefur verið látinn sæta ábyrgð þó svo að liðin séu tæp fjögur ár frá hruni.

Kæru félagar, af hverju er ég að rifja þetta upp?  Jú, það er afar mikilvægt fyrir okkur að gleyma því aldrei hvernig þessir aðilar brugðust þessari þjóð og íslenskur almenningur mun aldrei sætta sig við að þessir snillingar verði ekki látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Ég rifja þetta líka upp vegna þess að fórnarlömb hrunsins eru alþýða þessa lands en öllu hruninu hefur verið varpað á herðar alþýðunnar.  Ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar hafa vaðið ofan í vasa íslensks launafólks til að lagfæra hjá sér efnahagsreikninginn.  Við þessa aðila vil ég segja: þið eruð búin að tæma alla vasa hjá íslenskri alþýðu,  þar er ekkert meira að sækja.

Það er þyngra en tárum taki að sjá og verða vitni að því hvernig hrunið hefur leikið  íslensk heimili. Skuldir heimilanna stökkbreyttust og greiðslubyrði heimilanna hækkaði miskunnarlaust og mörgum heimilum hefur blætt út.  Aðgerðir stjórnvalda hafa því miður verið afskaplega takmarkaðar og er hægt að líkja úrræðum stjórnvalda til hjálpar skuldsettum heimilum við að setja plástur á slagæðablæðingu.  Einu alvöru leiðréttingarnar sem almenningur hefur fengið eru í gegnum dómstóla en nægir að nefna í því samhengi dóm hæstaréttar vegna gengistryggðu lánanna  sem voru dæmd ólögleg.

Ágætu félagar, ég ætla að upplýsa ykkur aðeins um gengistryggðu lánin.
Í dómi Hæstaréttar frá júní 2010 var bönkum og fjármálafyrirtækjum gert að skila ránsfeng að andvirði 120 milljarða til þeirra heimila, fyrirtækja og einstaklinga sem voru með gengistryggð lán.  Skil á þessum ránsfeng vilja fjármálastofnanir og stjórnvöld kalla „afskriftir“ til þessara aðila. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að það komi skýrt fram að hér er alls ekki um neina ölmusu að ræða frá fjármálastofnunum eða stjórnvöldum heldur voru þessir aðilar dæmdir til að skila þýfinu til baka enda voru þessi gengistryggðu lán dæmd kolólögleg í Hæstarétti eins og áður sagði.

Það sorglega í þessu er að Samtök fjármálafyrirtækja vissu vel að gengistrygging íslenskra lána væri brot á lögum enda höfðu samtökin skilað inn umsögn til Alþingis fyrir níu árum þar sem á það var bent að þetta lánaform stæðist ekki íslensk lög. Þar af leiðandi átti Alþingi einnig að vera það fullkunnugt að þessi lán stæðust ekki skoðun.


Það var ótrúleg atburðarás sem fór af stað eftir að Hæstiréttur var búinn að dæma gengistryggðu lánin ólögleg í júní 2010. Þá var aðalmálið hjá íslenskum stjórnvöldum að slá skjaldborg um fjármálastofnanir á kostnað almennings og milda áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálastofnanir. Ríkisstjórnin ákvað að fótum troða loforðið um skjaldborg utan um heimilin og var það gert meðal annars með svokölluðum Árna Páls lögum nr. 151/2010. Í þeim lögum voru vextir Seðlabankans látnir gilda afturvirkt á þessi ólöglegu gengistryggðu lán en þeir vextir voru eins og allir vita mun óhagstæðari en þeir erlendu vextir sem voru á gengistryggðu samningunum.  Rétt er í þessu samhengi að rifja upp ummæli Gylfa Magnússonar fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra  frá því í júní 2010 en í viðtali við vísir.is segir Gylfi það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir fái að standa óhaggaðir.  Þessi sami ráðherra sagði einnig í sama viðtali að ríkisstjórnin þyrfti auðvitað að haga sér á ábyrgan hátt og koma í veg fyrir að slík niðurstaða ógni fjármálastöðugleika. Hugsið ykkur þessi ummæli ráðherrans, það mátti ekki ógna fjármálastöðugleika banka og fjármálastofnanna og þess vegna þurfti að setja þessi lög að mati stjórnvalda. En hvað með fjármálastöðugleika íslenskra heimila? Mátti fórna þeim  á altari ólaga, eða með öðrum orðum setja lög sem síðan stóðust ekki skoðun Hæstaréttar?

Það ofbeldi sem íslensk heimili hafa mátt þola á sér vart hliðstæðu því það liggur fyrir að fjölmargir lögspekingar og aðrir aðilar sem komu á fund Alþingis vöruðu í umsögnum sínum eindregið við því að umrædd lög Árna Páls stæðust alls ekki. Þrátt fyrir þessar aðvaranir voru Árna Páls lögin sett á, lög sem hefðu kostað heimili, fyrirtæki og einstaklinga 64 milljarða í það minnsta ef ekki hefði komið til kasta Hæstaréttar. Til að setja þetta í samhengi þannig að fólk skilji hversu gríðarlega fjármuni átti að hafa af almenningi með þessari lagasetningu, þá gaf ein besta loðnuvertíð sem verið hefur við Íslands strendur í áratugi 30 milljarða, það átti því að fremja rán á heimilum, fyrirtækjum og einstaklingum að andvirði tveggja loðnuvertíða.

Hvernig má það vera að enginn virðist vera látinn bera ábyrgð á því að gengistryggð lán voru lánuð til einstaklinga og fyrirtækja þó svo að Samtök fjármálafyrirtækja og Alþingi hafi haft fulla vitneskju um að lánin væru ólögleg eins og ég hef rakið hér áður. Nú hefur komið í ljós, eins og áður sagði, að fjármálastofnanir hafa þurft að leiðrétta 120 milljarða vegna þessara ólöglegu lána. Árna Páls lögin sem voru dæmd ólögleg í Hæstarétti kostuðu almenning 64 milljarða. Samtals er því hér um ránsfeng að ræða að andvirði 184 milljarða og ég ítreka því: Hvernig stendur á því að ekki nokkur einasti maður er látinn sæta ábyrgð vegna þessa?

Ágætu fundarmenn, það er ánægjulegt að almenningur sem var með gengistryggð bílalán og húsnæðislán skuli vera búin að fá leiðréttingu á sínum stökkbreyttu skuldum vegna hrunsins.  Það er hins vegar dapurlegt og ömurlegt til þess að vita að ekkert hefur verið gert vegna þess forsendubrests sem varð á verðtryggðum lánum heimila.

Verðtryggingarvítisvélin hefur farið eins og skýstrókur um íslensk heimili og sogað allan eignarhluta heimilanna í burtu.  Til að sýna hvaða ofbeldi íslensk heimili þurfa að þola vegna verðtryggingarinnar þá námu verðtryggðar skuldir heimilanna 1. maí í fyrra 1.271 milljarði sem þýðir miðað við hækkun neysluvísitölunnar að skuldir heimilanna hafa hækkað um tæpa 80 milljarða á einu ári. Já kæru félagar 80 milljarða  hafa skuldir heimilanna hækkað síðan við stóðum hér í þessum sal í fyrra, bara vegna verðtryggingarinnar.  

Frá áramótum hefur neysluvísitalan hækkað um 2,9 % sem þýðir að verðtryggðar skuldir heimilanna síðustu þrjá mánuði hafa hækkað um rúma 37 milljarða króna. Til að setja þetta aftur í samhengi við eitthvað sem fólk skilur þá er þetta sama upphæð og kostar að reka Landspítalann á einu ári. Ég spyr, hvernig í ósköpunum geta íslenskir stjórnmálamenn samþykkt þetta ofbeldi sem íslensk heimili þurfa að þola vegna verðtryggingarvítisvélarinnar?


Ég spyr líka hvernig í ósköpunum stendur á því að núverandi forsætisráðherra sem hefur lagt fram þrjú frumvörp varðandi afnám verðtryggingarinnar þegar hún var í stjórnarandstöðu og færði fyrir því frábær rök skuli ekki gera það þegar hún hefur tækifæri til? Hvergi á byggðu bóli þekkist verðtrygging með þeim hætti sem íslensk heimili þurfa að búa við. Hvaða vitglóra er í því að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila geti jafnvel hækkað við uppskerubrest í Brasilíu eða ef einhver harðstjóri í Miðausturlöndum fer vitlaust framúr rúmi að morgni.  Þennan skaðvald sem verðtryggingin er þarf að afnema tafarlaust því það stenst enga skoðun að ábyrgðin liggi öll hjá almenningi á meðan að lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir.  Hverjir eru það sem berjast með kjafti og klóm fyrir því að verðtryggingin verði ekki afnumin -  Jú það eru fjármálastofnanir, fjárfestar og síðast en ekki síst lífeyrissjóðselítan.  Lífeyrissjóðirnir hafa hagnast vegna verðbóta á  verðtryggðum fasteignalánum heimilanna um rúma 140 milljarða frá 1. janúar 2008.  Nú verða stjórnvöld og Alþingi að hætta að taka stöðu með sérhagsmunahópum og taka stöðu með almenningi því það er morgunljóst að íslenskum heimilum er að blæða hægt og rólega út vegna verðtryggingarinnar.

Kæru félagar. Það fór ekki framhjá neinum þegar rannsóknarskýrsla um starfsemi lífeyrissjóðanna kom fram fyrir nokkrum mánuðum síðan. Skýrsla sem staðfesti 500 milljarða tap á lífeyri íslensks launafólks og það staðfestist í þessari skýrslu að stjórnendur lífeyrissjóðanna stigu trylltan dans með útrásarvíkingunum enda lá tap lífeyrissjóðanna fyrst og fremst í töpum í föllnu bönkunum og þeim tengdum. Tapið lá hins vegar ekki í sjóðsfélagalánum enda pössuðu stjórnendur lífeyrissjóðanna sig á því að vera með fullar tryggingar gagnvart sínum eigin sjóðsfélögum. Já kæru félagar, þessir snillingar töpuðu 500 milljörðum króna af okkar lífeyri og enginn ætlar að bera nokkra ábyrgð. Þessir aðilar keyptu líka heilsíðuauglýsingar í öllum blöðum eftir að skýrslan kom út þar sem þeir gáfu til kynna að þetta væri besta lífeyrissjóðskerfi í heimi og sögðu frá því að íslenska lífeyrissjóðskerfið ætti 2100 milljarða. En þeim láðist hins vegar að segja frá því að þá vantar 700 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar. Já, þá vantar 700 milljarða til að geta staðið við það sem lífeyrissjóðirnir eiga að greiða út til sinna félagsmanna. Hvernig skyldi þessi halli vera réttur af? Jú hann er réttur þannig af að réttindi sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði eru skert en öðru máli gegnir um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. En þann lífeyrissjóð vantar hvorki meira né minna en 440 milljarða króna til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Þessar skuldbindingar eru ríkistryggðar sem þýðir ekki nema eitt, að reikningurinn verður sendur á okkur og komandi kynslóðir.

Ég get sagt ykkur það, kæru félagar, að þetta er grafalvarlegt mál sem þarf að taka á. Hvaða réttlæti er það að almennt verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði þurfi að sæta skerðingu á sínum lífeyri á sama tíma og opinberir starfsmenn eru tryggðir hjá ríkinu? Með öðrum orðum, almennt verkafólk fær skertan lífeyri og fær síðan bakreikning frá ríkinu til að lífeyrissjóður opinberra starfsmanna geti staðið við sínar skuldbindingar. Þetta getur vart talist réttlæti og jöfnuður eins og svo margir stjórnmálamenn vilja kenna sig við. Ég hef sagt það í ræðu og riti að ég vil að stjórnendur lífeyrissjóðanna, og er ég þá fyrst og fremst að tala um forstjóra og framkvæmdastjóra, axli sína ábyrgð og taki pokann sinn. Ætíð er talað um þegar um ofurlaun er að ræða að ábyrgðin sé svo mikil hjá viðkomandi stjórnendum. Fyrirgefið orðbragðið, en hvaða fjandans ábyrgð liggur í því að tapa 500 milljörðum, vera með sáralitla ávöxtun síðustu 10 ár og halda áfram starfi eins og ekkert sé. Við þessu segi ég ekki nema eitt: Sveiattan.

Ágætu fundarmenn! Ég sagði í ræðu hér á 1. maí 2010 að þegar við vorum að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði árið 2008 þá hafi komið fram aðilar eins og greiningastjórar bankanna, seðlabankastjóri og fleiri ráðamenn og hvatt íslenska verkalýðshreyfingu til að ganga frá afar hófstilltum kjarasamningum sem þá voru í burðarliðnum. Þetta sögðu þeir að væri forsenda fyrir því að stöðugleiki myndi ríkja í íslensku samfélagi. Þessi orð féllu í janúar 2008 frá þessum aðilum. Hugsið ykkur kæru félagar, 9 mánuðum seinna var íslenskt samfélag komið á hliðina, hrunið var skollið á af fullum þunga. Og hugsið ykkur líka að forstöðumenn greiningadeildanna, þeir höfðu mestar áhyggjur af því að til að tryggja stöðugleika þyrfti að passa að íslenskt verkafólk fengi ekki of miklar launahækkanir.

Þetta var að gerast á sama tíma og verið var að ræna bankana innan frá af jakkafataklæddum mönnum. Af hverju er ég einnig  að rifja þetta upp? Jú, það er vegna þess að nú er komið ár síðan undirritaðir voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði. Kjarasamningar sem gáfu íslensku lágtekjufólki 11 þúsund króna hækkun á mánuði. Hvað gerðist eftir kjarasamningana? Jú, núverandi seðlabankastjóri og hagfræðingar seðlabankans komu og sögðu: Þetta eru of miklar launahækkanir. Þetta mun hægja á efnahagsbata íslensku þjóðarinnar. Það sækir að mér kaldur hrollur þegar ég hlusta á þessa menn. Vegna þess að þegar Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var búinn að láta þessi orð falla þá stefndi hann sínum eigin banka af því að hann vildi launahækkun. Hann vildi leiðréttingu á sínum launum, leiðréttingu sem nam 350 þúsund króna hækkun á mánuði. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að taka mark á þessum mönnum? Allt átti að fara til fjandans vegna þess að fiskvinnslukonan, ræstingarkonan og fólk sem lifir á skammarlega lágum launum fékk 11 þúsund króna hækkun. Svo krefjast þessir menn hækkunar á sínum launum sem nema 350 þúsund krónum á mánuði og leita til dómstóla vegna þess. Enn og aftur segi ég sveiattan.

Kæru félagar. Slagorð dagsins er vinna er velferð. Það er ljóst að það er ekki velferð hjá tæplega 12 þúsund manns sem nú eru án atvinnu. Það er einnig rétt að benda á það að 8.500 manns hafa flutt af landi brott, umfram aðflutta frá hruni. Það er einnig líka mikilvægt að almenningur átti sig á því að fjölmargir hafa misst sinn bótarétt til atvinnuleysisbóta og hafa færst yfir á sveitarfélögin og mælast því ekki inni í atvinnuleysistölum. Á þessum forsendum er það morgunljóst að eitt af brýnustu verkefnum íslenskra stjórnvalda, er að koma tannhjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik. Og það er mikilvægt að ný störf séu tengd útflutningi enda er það mikilvægt að almenningur í þessu landi átti sig á því að velferð okkar Íslendinga byggist á því að skapa störf sem skila þjóðinni gjaldeyristekjum.

Við Akurnesingar, við erum heppin. Við erum heppin með þau frábæru fyrirtæki sem nú eru starfrækt á Grundartanga og hafa skilað okkur þeirri velferð sem við búum við hér í okkar samfélagi. Ég verð oft dapur yfir því hversu niðrandi er talað um stóriðjuna á Grundartanga en það er ljóst að hún er að skila íslensku samfélagi gríðarlegum tekjum. Við þurfum að skapa þessum fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði þannig að þau hafi áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa þannig fleiri störf. Íslensk stjórnvöld mega ekki undir nokkrum kringumstæðum leggja þannig álögur á fyrirtækin að þau hafi ekki áhuga á að hafa starfsemi sína hér á landi. Það gerðist þegar svokallaður kolefnisskattur átti að leggjast á til dæmis Elkem Ísland. Þar var stórhætta á ferðum að fyrirtækið myndi hverfa af landi brott.

Ég hef einnig áhyggjur af því að það auðlindagjald sem nú á að leggja á útgerðina muni geta ógnað starfsöryggi og kjörum fiskvinnslufólks og sjómanna og ég hef sagt að ég vil nota það svigrúm sem útgerðin hefur til að lagfæra skammarlega lág laun fiskvinnslufólks. Það var því undarlegt að lesa í umsögn ASÍ að þeir telji að veiðileyfagjaldið muni ekki hafa áhrif á kjör og atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og sjómanna. Sérstaklega í ljósi þess að forseti og hagfræðingur ASÍ sögðu fyrir ári síðan þegar við vorum í kjarasamningsgerðinni að ekki væri hægt að fara fram á umframhækkun til handa fiskvinnslufólki vegna þess að útgerðin skuldaði svo mikið. Þeir vildu að fiskvinnslufólk yrði inni í samræmdu launastefnunni margfrægu. En núna koma þeir og segja að það sé ekkert mál að leggja á útgerðina vel á annan tug milljarða, í auðlindagjald.

Þennan málflutning forystumanna ASÍ skil ég ekki en það er svo margt sem ég skil ekki þegar kemur að forystu ASÍ. En ég vil samt sem áður segja að það eru jákvæðir punktar í þessum frumvörpum, eins og til dæmis það að það á að tryggja með afgerandi hætti að auðlindir hafsins séu ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Það sem íslenskri þjóð hefur verið misboðið varðandi útgerðina er þegar þeir hafa selt sig út úr greininni, labbað með hundruð milljóna ef ekki milljarða og skilið fólk eftir í átthagafjötrum. Það er þetta sem íslenskri þjóð hefur mislíkað illilega.

Eins og ég sagði áðan þá er margt sem ég ekki skil þegar kemur að forystu ASÍ. Það fer ekki framhjá neinum að það er gríðarleg gjá á milli hins almenna félagsmanns og forystu ASÍ. Ég hef gagnrýnt forystu ASÍ harðlega í ræðu og riti og tel að þar séu oft á tíðum ekki viðhöfð lýðræðisleg vinnubrögð. Ég get nefnt fjölmörg dæmi:
•        Hvað með stöðugleikasáttmálann þar sem verkafólk var skikkað til að fresta og afsala sér launahækkunum 2009.
•    Hvað með stuðning ASÍ við Icesave, hvað með yfirlýsingar ASÍ um að eina leiðin í gjaldeyrismálum sé innganga í ESB.
•    Hvað með andstöðu forystu ASÍ við afnámi verðtryggingarinnar.
•    Hvað með það að forysta ASÍ lagðist alfarið gegn því að auka lýðræðið við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og að atvinnurekendur víki úr stjórnum sjóðanna
•    Hvað með það að forysta ASÍ lagðist gegn almennri leiðréttingu á skuldum heimilanna.
•    Hvað með samræmdu launastefnuna þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.
•    Hvað með það að forseti ASÍ lagðist gegn því að taka neysluvísitöluna úr sambandi 2008 sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir skuldsett heimili.

Ég dreg það stórlega í efa að forysta ASÍ hafi haft meirihluta sinna félagsmanna á bak við sig í þessum málum. Ég tel að það verði að taka upp betri vinnubrögð af hálfu forystu ASÍ og þeim ber skylda til að hlusta og kanna vilja sinna félagsmanna með afgerandi hætti þegar stór og viðamikil mál eru til umfjöllunar.
 
Ég tel einnig að það sé afar mikilvægt að forseti ASÍ sé kosinn í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna innan ASÍ, en ekki á ársfundum ASÍ eins og fyrirkomulagið er núna. Á þessari forsendu mun ég vinna að því að leggja fram lagabreytingu á næsta ársfundi ASÍ þar slíkt kosningafyrirkomulag yrði tekið upp. Það er gríðarlega mikilvægt að forseti ASÍ sé með sterkt bakland, en eins og fyrirkomulagið er núna eru meiri líkur fyrir frambjóðendur að ná kjöri sem forseti Norður-Kóreu en sem forseti ASÍ.


Kæru félagar. Að lokum vil ég segja þetta. Við erum rík. Við eigum gríðarleg verðmæti hér á landi. Nægir að nefna í því samhengi sjávarauðlindina okkar, orkuna og svo ekki sé talað um landið sjálft en áætlað er að uppundir 600 þúsund ferðamenn muni koma hingað og heimsækja landið okkar í sumar. Á þessari forsendu liggur fyrir að enginn á að þurfa að líða skort hér á landi.

Þegar ný ríkisstjórn tók við í janúar 2009 batt ég vonir við að þau gildi sem hafa verið hér við lýði í áratugi yrðu látin víkja. Þessi gildi lúta að sérhagsmunagæslu, græðgi og einkavinavæðingu en því miður hefur ekki tekist að eyða þessum gildum frá því ný ríkisstjórn tók við. Ég vil fá að sjá ný gildi tekin upp hér á landi, gildi er lúta að réttlæti, jöfnuði og sanngirni. Ef þessi gildi verða tekin upp þá þarf ekki að óttast um framtíð Íslands.

Takk fyrir.
(26-31) Michelsen: Útskriftir - maí
18.maí 2016 - 10:24 Vilhjálmur Birgisson

Íslenskt verkafólk yfirgefið

Það virðist líka vera orðið fullreynt að hlusta á kosningaloforðaflaum stjórnarmálaflokka sem lofa oft blygðunarlaust fyrir kosningar að taka stöðu með alþýðunni og íslenskum heimilum þegar kemur að okurvöxtum og verðtryggingu. Þrátt fyrir ítrekuð loforð um að taka skuli á þessum okurvöxtum og verðtryggingu þá gerist ekki neitt og skiptir engu máli hvaða stjórnmálaflokkur á þar í hlut.
12.maí 2016 - 14:04 Vilhjálmur Birgisson

Þeir eru varðmenn valda- og auðmannastéttar í íslensku samfélagi

Það er óhætt að segja að í Tíund sem er fréttablað ríkisskattstjóra séu gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir íslenskt launafólk, en í samantekt kemur fram að íslensk fyrirtæki greiddu eigendum sínum 215 milljarða í arð á árinu 2014. Á sama tíma hækkuðu launagreiðslur fyrirtækjanna til launafólks um einungis 35 milljarða.
26.apr. 2016 - 22:29 Vilhjálmur Birgisson

Ofboðslega rotið og óréttlátt


18.apr. 2016 - 21:39 Vilhjálmur Birgisson

Skil ekki þessi hörðu viðbrögð

Ég er ekki alveg að skilja þau hörðu viðbrögð sumra vegna þess að Ólafur Ragnar ætlar að bjóða sig fram aftur. Þetta skilningsleysi mitt lýtur aðallega að þeim sem hafa verið að berjast fyrir auknu lýðræði og farið verði eftir þjóðarvilja í hinum ýmsu málum. Sem sagt þjóðin hafi meira um hlutina að segja og hafi lokaorðið.
17.apr. 2016 - 11:24 Vilhjálmur Birgisson

Sjálfstæðismenn með hnífinn á lofti

Þá liggur það endanlega fyrir. Það á ekki að afnema verðtrygginguna og taka á okurvöxtum fjármálakerfisins, enda hefur það legið lengi fyrir að sjálfstæðismenn ætla og vilja ekki taka á ofurdekri við fjármálaöflin.
15.apr. 2016 - 17:52 Vilhjálmur Birgisson

Hvaða aðilar eru á þessum lista?

Ég er dálítið hugsi yfir því af hverju það er ekki upplýst hverjir þeir 600 Íslendingar eru sem tengjast Panama-skjölunum. Eftir hverju er verið að bíða með að upplýsa það?
06.apr. 2016 - 10:46 Vilhjálmur Birgisson

Ég vil fá svör

Nú þegar það liggur orðið nokkuð ljóst fyrir að ekki á að hlusta á vilja þjóðarinnar um að rjúfa þing og efna til kosninga þá myndi ég vilja fá skýr svör frá þingflokkum Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna um hvað þeir ætli að gera hvað varðar stóra kosningaloforðið sem er að sjálfsögðu að taka hér á okurvöxtum fjármálakerfisins og afnema verðtrygginguna.
30.mar. 2016 - 11:18 Vilhjálmur Birgisson

Íslenskir neytendur borga tæplega 300% hærri húsnæðisvexti en í Noregi

Jæja þá liggur fyrir að á Íslandi greiða íslenskir neytendur tæplega 300% hærri húsnæðisvexti en í Noregi og vaxtamunurinn heldur bara áfram að aukast. Í Noregi bjóðast neytendum húsnæðisvextir á 1,9% á meðan okkur bjóðast 7,45% óverðtryggt. Þetta þýðir að af 35 milljóna króna láni hér á landi borga neytendur 2,6 milljónir í vexti á ári en í Noregi borga neytendur af samskonar láni 665 þúsund á ári. Vaxtabyrðin af slíku láni hér á landi er á mánuði 216 þúsund en í Noregi af sama láni einungis 55 þúsund. Takið eftir, hér munar hvorki meira né minna en 161 þúsundum króna á mánuði eða eins og áður sagði tæplega 300%.
10.mar. 2016 - 13:47 Vilhjálmur Birgisson

Virðast líta á alþýðuna sem grálúsuga - brosið, borgið og þegiði!

Ég skoðaði nokkur mál sem hafa valdið úlfúð í okkar samfélagi á síðustu 12 mánuðum en þetta eru allt mál sem einkennast af óréttlæti, græðgi, spillingu og misskiptingu. Þessi mál hér að neðan sem ég hef tekið saman sýna svo ekki verður um villst að við höfum lítið sem ekkert lært af hruninu og áfram fær fámennur elítuhópur að okra á almenningi og söðla undir sig meira og meira af sameiginlegum auði þjóðarinnar.
04.mar. 2016 - 14:44 Vilhjálmur Birgisson

Endurnýjanlegur orkugjafi fyrir 800.000 heimili!

Ég skora á Alþingi Íslendinga að vinna þessu máli brautargengi og það einn, tveir og þrír því við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum verða af þessu verkefni því það mun skila íslensku þjóðarbúi miklum gjaldeyristekjum og hafa jákvæð áhrif á hnattræna mengun.
26.feb. 2016 - 15:42 Vilhjálmur Birgisson

Neyðarkall til þingmanna og ráðamanna!

Nú kynna bankarnir þrír enn og aftur afkomu sína og þá kemur í ljós að hagnaður þeirra þriggja nam um 108 milljörðum á síðasta ári, en frá hruni hefur fjármálakerfið skilað um eða yfir 500 milljörðum í hagnað.
18.feb. 2016 - 13:40 Vilhjálmur Birgisson

Íslenskir neytendur borga 251% meira í vexti hér á landi en í Noregi!!!

Var að hlusta á sérstaka umræðu á Alþingi um verðtryggingu og vaxtakjör á Íslandi. Skal fúslega viðurkenna að ég var hálf undrandi á að hlusta á þessa umræðu enda virtist ekki ríkja ýkja mikill skilningur meðal þingmanna um verðtryggingu og þá okurvexti sem íslenskir neytendur þurfa að þola og hafa þurft að þola um áratugaskeið.
12.feb. 2016 - 14:34 Vilhjálmur Birgisson

Tímaglasið að tæmast hjá Framsóknarflokknum

Nú er orðið ljóst að Sjálfstæðismenn ætla að reka heilt hnífasett í bakið á Framsóknarmönnum og ætla ekkert að standa við loforðið um að afnema hér verðtryggingu og búa til heilbrigt og eðlilegt lánaumhverfi íslenskum neytendum til hagsbóta.
20.jan. 2016 - 13:22 Vilhjálmur Birgisson

Dapurlegt að heyra í Andra Snæ

Í nóvember í fyrra spyr Andri Snær Magnason hvers vegna íslensk ungmenni ættu að vilja vinna í stóriðju í sinni heimabyggð þegar þeim stendur allur heimurinn til boða. Andri segir líka í þessari grein sem hann skrifaði að þeir sem alast upp á Íslandi njóti þeirra "forréttinda", ólíkt flestum jarðarbúum í gjörvallri mannkynssögunni, að geta valið sér starfsvettvang í öllum heiminum.
30.des. 2015 - 12:56 Vilhjálmur Birgisson

Takk Ólafur Ragnar Grímsson

Forseti Íslands ávarpar eldri félagsmenn VLFA á Bessastöðum 2012 Nú eru einungis tveir dagar þar til Ólafur Ragnar Grímsson mun tilkynna í nýársávarpi sínu hvort hann gefi áfram kost á sér til að gegna embætti forseta Íslands eða ekki. 
08.des. 2015 - 15:19 Vilhjálmur Birgisson

Framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins svarað

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins er ekki á eitt sáttur um skrif mín um Alcan deiluna í Straumsvík og segir í pistli sem hann ritaði hér á Pressuna að ég viti svarið en hafi hinsvegar ekki haft fyrir því að geta þess í Pressupistli sem ég skrifaði.

03.des. 2015 - 15:54 Vilhjálmur Birgisson

Einföld lausn á Alcan-deilunni

Þau hafa verið afar fróðleg viðtölin við forstjóra Alcan í Straumsvík á síðustu tveimur dögum en í þessum viðtölum hefur hún viljað líkja rekstri álversins við aflabrögð um borði í fiskiskipi. Forstjórinn hefur sagt í þessu samhengi að ef ekki fiskast þá neyðist menn til að grípa til hagræðingar.
20.nóv. 2015 - 19:30 Vilhjálmur Birgisson

Ég er hryggur og dapur

Í fréttum áðan var viðtal við forseta ASÍ og fjármálaráðherra vegna ákvörðunar kjararáðs um að hækka laun þeirra sem taka laun eftir kjararáði. En eins og fram hefur komið í fréttum nemur sú hækkun frá 60 þúsundum á mánuði upp allt að 200 þúsund.
13.nóv. 2015 - 17:20 Vilhjálmur Birgisson

Skuldsettir bera einir ábyrgðina

Það er óhætt að segja að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans að undanförnu hafi vakið upp mikla gremju á meðal alþýðu þessa lands enda hafa þær hækkanir það markmið að draga úr ráðstöfunartekjum heimilanna og leiða til þess að vextir allra skulda almennings hækka í kjölfarið. Þetta er algjörlega galið fyrirkomulag, að þegar Seðlabankinn ætlar að slá á verðbólguþrýsting þá sé það gert með því að færa fjármuni frá íslenskum neytendum og fyrirtækjum yfir til fjármálakerfisins. Það hlýtur hvert mannsbarn að sjá að það er eitthvað verulega rangt við þetta fyrirkomulag en Seðlabankinn hefur bent á að stýrivaxtahækkun sé í raun eina stýritækið sem þeir hafa til að reyna að draga úr þenslu og einkaneyslu almennings.
11.nóv. 2015 - 15:14 Vilhjálmur Birgisson

Seðlabankinn ætlar að nota eina skotið í byssunni á almenning!

Það er algjörlega magnað að fylgjast með fulltrúum Seðlabankans þessa dagana sem hafa ítrekað hækkað stýrivexti hér þrátt fyrir að engar forsendur séu fyrir slíku enda er verðbólgan um þessar mundir í sögulegu lágmarki eða sem nemur 1,8%.
06.nóv. 2015 - 18:38 Vilhjálmur Birgisson

Ósannindi, hálfsannleikur og óheiðarleiki

Þetta er eitt óheiðarlegasta viðtal sem ég hef hlustað á nánast frá upphafi en að sjálfsögðu er þetta viðtal við sjálfan forseta Alþýðusambands Íslands. Þetta viðtal er stútfullt af ósannindum, hálfsannleik og öðrum slíkum óheiðarleika. Hér er verið að fjalla um gagnrýni Verkalýðsfélags Akraness á þá bláköldu staðreynd að hið nýja rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins hjá svokölluðum SALEK hóp skerði samningsrétt og frelsi stéttarfélaga til kjarasamningsgerðar.
30.okt. 2015 - 09:51 Vilhjálmur Birgisson

Minningarorð um Guðbjart Hannesson

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast Guðbjarti Hannessyni og fór ekki milli mála að þar fór maður sem hafði mikla réttlætiskennd og vildi ávallt berjast fyrir jöfnuði og réttlæti í okkar samfélagi.  Með öðrum orðum, Gutti eins og hann var ávallt kallaður var gegnum heill jafnaðarmaður sem vildi svo sannarlega rétta hlut verkafólks, enda veit ég að hann þoldi ekki óréttlæti og misskiptingu í okkar samfélagi.
21.okt. 2015 - 13:07 Vilhjálmur Birgisson

Algjörlega ótrúlegt!

Það er algjörlega ótrúlegt að verða vitni að því að verð á bensíni hefur lækkað um 12,1 prósent á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 57 prósent. Í staðinn fyrir að skila þessu til íslenskra neytenda þá hafa olíufélögin frekar kosið að auka álagningu sína heldur en að láta íslenska neytendur njóta góðs af því. Það þýðir ekki fyrir olíufélögin að skýla sér á bakvið íslensku krónuna því hún hefur lækkað umtalsvert gegn dollara.
15.sep. 2015 - 13:06 Vilhjálmur Birgisson

Íslenskir skattgreiðendur niðurgreiða okurvexti bankanna um 62 milljarða!

Ég geri þá skýlausu kröfu á stjórnvöld og Alþingi í heild sinni að tekið verði á bankakerfinu öllu af fullri hörku hvað varðar það vaxtaokur sem almenningur hér á landi þarf að þola. Vaxtaokrið er það mikið að ríkissjóður sér sig knúinn, eðlilega, til að aðstoða íslensk heimili í formi vaxtabóta á hverju einasta ári. Á árinu 2015 þurftu íslenskir skattgreiðendur að niðurgreiða vexti fyrir bankakerfið um upphæð sem nam 7 milljörðum, en 38.000 einstaklingar skiptu þeirri upphæð á milli sín.
10.sep. 2015 - 12:53 Vilhjálmur Birgisson

Vaxtaokrið er ofbeldi gegn íslenskum neytendum

Það er óhætt að segja að vaxtaokrið sem íslensk heimili mega þola hér á landi ríði vart við einteyming enda eru húsnæðisvextir hér á landi mun hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og því til viðbótar eru flest húsnæðislán verðtryggð.
28.ágú. 2015 - 15:07 Vilhjálmur Birgisson

Gullkálfur íslensku þjóðarinnar

Gullkálfur íslensku þjóðarinnar í dag er klárlega Landsvirkjun en hún skilaði 8,4 milljörðum í hagnað fyrstu 6 mánuðina sem er 83% meiri hagnaður miðað við sama tíma og í fyrra. Skuldir lækkuðu um 23 milljarða á fyrstu 6 mánuðum ársins og því orðið ljóst að Landsvirkjun er búin að greiða niður um 100 milljarða af skuldum sínum á liðnum árum og verður orðin skuldlaus eftir örfá ár. Takið eftir að það er að gerast þrátt fyrir að Landsvirkjun hafi ráðist í dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar sem var bygging Kárahnjúkavirkjunar.
27.ágú. 2015 - 12:07 Vilhjálmur Birgisson

Neyðarástand á leigumarkaði

Í Morgunblaðinu í dag er mjög forvitnilegt viðtal við Helga S. Gunnarsson forstjóra Fasteignafélagsins Regins. Í þessu viðtali kemur fram að hann telji afar brýnt að vextir lækki verulega til að hægt verði að vinna íbúðaleigumarkaðinn úr þeim skelfilegu ógöngum sem hann er í. 
25.ágú. 2015 - 18:30 Vilhjálmur Birgisson

Er þetta virkilega hlutverk Seðlabankans?

Þegar fulltrúar Seðlabankans eru að rökstyðja stýrivaxtahækkanir sínar þá segja þeir að kjarasamningar verkafólks hafi hækkað laun of mikið og þeim beri skylda til að benda á það og bregðast við því.
20.ágú. 2015 - 11:56 Vilhjálmur Birgisson

Afmá þarf Má úr Seðlabankanum

Það er óhætt að segja að Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi hafi tekið Má Guðmundsson Seðlabankastjóra og meðreiðarsveina hans innan bankans, skellt þeim á lærið á sér og rassskellt þá vegna stýrivaxtahækkunar bankans í gær. Eins og allir vita þá tilkynnti framkvæmdastjórinn að IKEA ætli að lækka vöruverð um 2,8%,  m.a. vegna þess að gengi íslensku krónunnar gagnvart evrunni hafi styrkst umtalsvert á liðnum misserum og síðast en ekki síst þá voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði mun skaplegri og kostnaðarminni en fyrirtækið hafði gert ráð fyrir.

Vilhjálmur Birgisson

Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.

Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson - 19.5.2016
Að sýna sjálfum sér virðingu
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson - 21.5.2016
Icesave - enn og aftur
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson - 14.5.2016
Aflandsreikningar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 27.5.2016
Vanþekking og vanstilling fréttamanns
Akureyri vikublað
Akureyri vikublað - 24.5.2016
Ekkert djók heldur lífsins alvara
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 18.5.2016
Íslenskt verkafólk yfirgefið
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 22.5.2016
Dósentsmálið 1937
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.5.2016
Nordau á Íslandi
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 25.5.2016
Icesave-málið, Jón og menntamennirnir
Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson - 27.5.2016
Vinstra megin við miðju
Aðsend grein
Aðsend grein - 27.5.2016
Aftur heim
Fleiri pressupennar