28. apr. 2011 - 09:15Trausti Már Valgeirsson

Brjósklos – Hryggþófahlaup

Hryggþófarnir liggja á milli liðbola hryggjarliðanna og eru að verulegu leyti byggðir úr brjóski. Þess vegna er hryggþófahlaup í daglegu tali oft kallað brjósklos. Brjósklos getur valdið staðbundnum verkjum í bakinu, en getur einnig valdið verkjum í talsverðri fjarlægð frá sjálfum áverkanum, sem kemur til vegna ertingar á taugarætur og þá í sumum tilvikum veldur það litlum eða engum verk í bakinu sjálfu.

Brjósklos getur komið fram í mjóbaki, miðju baki(brjóstbaki) og í hálshrygg.

Hryggþófavandamál eru nokkuð algeng með fólks. Mesta útbungunin á brjóskinu kemur að jafnaði fyrir hjá ungu og miðaldra fólki, en það stafar  líklega af því að í hryggþófanum er hærra hlutfall hlaupkennda efnisins í þófakjarnanum en hjá öldruðum.

Í mjóbakinu getur brjósklos komið fyrirvaralaust en þó má rekja bráða verki í mjóbaki til þess að nýlega hafi verið framkvæmd hryggbeygja eða snúningur t.d. við að vinna í garðinum eða flytja til húsgögn heima. Verkurinn sem kemur er gjarnan djúpur og þungur og er staðsettur í miðju mjóbakinu eða til annarrar hvorrar hliðarinnar. Stundum leiðir hann djúpt niður í sitjanda, mjöðm eða nára og jafnvel niður í ganglim, en slík verkjaleiðni kemur gjarnan og fer.

Brjósklosið getur gengið til baka sjálfkrafa á nokkrum dögum eða vikum, það er samt háð stærð, lögun og staðsetningu brjósklosins, en einnig viðbrögðum viðkomandi við verknum sjálfum. Um helmingur þeirra sem fá brjósklos í mjóbakið fá bata innan tveggja til fjörurra vikna, alveg óháð meðferð. En fyrir kemur að brjósklos í mjóbaki gengur ekki til baka heldur þrýstir áfram á taugarætur og nálæg liðbönd og veldur þannig langvarandi verkjum. Framtíðarhorfurnar eru samt nokkuð góðar, því hryggurinn mun stífna með aldrinum og liðböndin kalka og við það verður stöðugleikinn meiri. Á árunum þangað til verður viðkomandi að treysta á þá meðferð sem völ er á til að draga úr einkennunum, svo sem sjúkraþjálfun, tog, nálastungumeðferð og liðlosun, en  fyrir kemur að grípa þurfi til skurðaðgerðar og þá er útbungandi hluti brjósksins fjarlægður en stór hluti hryggþófans er skilinn eftir.

Mikilvægast er þó af öllu er að stunda reglulega hreyfingu til þess að draga úr álagi á bakið, bæta líkamsstellingar og forðast athafnir og íþróttir sem kunna reynast bakinu hættulegar.
02.jún. 2011 - 12:00 Trausti Már Valgeirsson

Situr þú á rassinum eða á bakinu í vinnunni ?

Situr þú á rassinum eða á bakinu í vinnunni ? Ert þú ein/einn af þeim sem sígur niður í stólnum í vinnunni þegar líður á daginn? Það er að ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar maður situr í vinnunni eða heima við tölvuna. Til þess að líða sem best og draga úr eða koma í veg fyrir ýmis stoðkerfistengd vandamál þá er mjög gott að pæla aðeins í vinnu- eða setaðstöðunni þinni við tölvuna bæði heima og í vinnunni.
12.maí 2011 - 11:00 Trausti Már Valgeirsson

Er eitthvað að klikka á kollinum?

Sumarið er greinilega komið í allri sinni dýrð, grasið er að grænka, blómin eru að springa út og núna er einmitt rétti tíminn til þess nýta þessa frábæru daga og klára að losa sig við vetrarforðann og koma sér í sumarformið með því að fara út og hreyfa sig.

07.apr. 2011 - 21:00 Trausti Már Valgeirsson

Er vöðvabólgan að drepa þig?

Eitt af mörgum stoðkerfisvandamálum sem fólk er að glíma við í dag er vöðvabólga. Vöðvabólga er yfirleitt í tengslum við atvinnu okkar, streitu, eftir slys, eða í kjölfar sjúkdóma. Vöðvabólga er í raun bólgumyndun í vöðva eða nálægum bandvef, sem veldur verkjum, eymslum í vöðvum og þreytu á því svæði sem vöðvabólgan er til staðar.