28. sep. 2009 - 10:44Sturla Böðvarsson

Rannsóknarnefnd Alþingis er að störfum

Síðasta haust setti Alþingi  lög um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna síðla ársins 2008 og tengdra atburða. Lögin tóku gildi 18. desember 2008 og skipaði forsætisnefnd Alþingis í kjölfarið nefndina sem hefur starfað síðan. Verkefni hennar hafa ekki verið böðuð í ljósi fjölmiðla. Ég geri ráð fyrir að verkefni hennar sé þeim mun umfangsmeira og trúverðugra án þess að ég viti nokkuð um það en get mér þess til.

Og nú  nálgast sá tími sem Rannsóknarnefnd Alþingis er ætlað að skila af  sér skýrslu um þá mikilvægu vinnu sem nefndinni var falið af Alþingi með hinum sérstöku lögum. Margir bíða í ofvæni eftir að kynna sér skýrslu nefndarinnar.

Í miðju hruninu náðist samstaða á Alþingi um skipun nefndarinnar. Ég tel að það hafi verið mjög miklvægt að svo tókst til enda var hrunið slíkt að ekki var undan því vikist að á  Alþingi skapaðist samstaða um rannsóknarþátt málsins og þingið setti skýran lagaramma um rannsókn þessara ógnvænlegu atburða sem urðu í viðskiptalífi okkar og leiddu til þess að flestar fjölskyldur í landinu, atvinnufyrirtæki og opinberar stofnanir  hafa orðið fyrir miklum áföllum bæði beint og óbeint.

Þegar lögin um rannsóknarnefndina voru undirbúin var all góð samstaða um lagarammann og útfærslu löggjafarinnar. Á hinn bóginn var í fyrstu mjög togast á um hverjum  ætti að fela þetta vandasama verk. Niðurstaða fékkst að lokum í sátt og verð ég að segja að það vakti með mér nokkra von í brjósti  um samstöðu við endurreisn samfélagins eftir bankahrunið. Það var ríkur vilji  meðal formanna flokkanna og innan þáverandi forsætisnefndar Alþingis um að takast á við erfiðar aðstæður og nýta samtakamátt og samstöðu til þess að vinna á vandanum.

Því miður þróuðust mál í aðra átt.  Vinstri grænir og hluti Samfylkingarinnar ákvað að nýta sér hið alvarlega ástand til skammvinnra landvinninga á sviði stjórnmálanna og til að koma höggi á aðra flokka og því fór sem fór. Þjóðfélagið geldur þess að stjórnmálaleg upplausn hefur ríkt og sér ekki fyrir endann á henni. Mætti skrifa sérstaka grein um það við tækifæri.


En Rannsóknarnefnd Alþingis tók til starfa og henni var búinn nauðsynleg starfsaðstaða með ríflegum fjárveitingum og hefur nefndin starfað algerlega óháð eins og henni var ætlað að gera enda einstaklega hæfur hópur sem valdist í nefndina undir forustu þess mæta manns Páls Hreinssonar sem er þekktur fyrir fræðimennsku sína sem prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, sem hæstaréttardómari, og sem afkastamikill starfsmaður í fjölmörgum vandasömum verkefnum sem honum hafa verið falin á vegum ríkisns.
Það var því engin tilviljun að honum var falið þetta vandasama verkefni að stýra rannsókninni á vegum Alþingis.

Lögin gera ráð fyrir að í tengslum við athugun á fyrrgreindum atriðum fari fram rannsókn þar sem lagt verði mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði.

Til þess að vinna það verk skipaði forsætisnefnd Alþingis þriggja manna starfshóp sem vinnur að þeim þætti rannsóknarinnar með rannsóknarnefndinni.

Nú þegar dregur að því að Rannsóknarnefndin ljúki störfum tel ég ástæðu til þess að  vekja athygli lesenda Pressunnar á  hlutverki og skyldum nefndarinnar. Til þess að  minna á vinnuna sem lá að baki löggjafarinnar um Rannsóknarnefnd Alþingis leyfi ég mér að kynna málið fyrir lesendum Pressunnar með því að birta hér tvær fyrstu greinar laganna sem segja fyrir um verkefni hennar og skipun og einnig að birta ræðuna, sem ég flutti, þegar ég sem fyrsti flutningsmaður mælti fyrir frumvarpinu sem varð síðan að lögum.

Þessi löggjöf markaði að öllu leyti tímamót um eftirlitshlutverk Alþingis en ég hafði sem forseti Alþingis lagt ríka áherslu á þann þátt sem varðar þingeftirlitið. Ég mun við tækifæri skrifa um það hér á Pressunni af  því tilefni að nú hefur vinnuhópur um þingeftirlit skilað skýrslu en ég beitti mér fyrir skipun Þingeftirlitsvinnuhópsins á vegum forsætisnefndar Alþingis vorið 2008 áður en til þess kom að hrunið skæki allt samfélagið.

Ég vona að lesendur þessa pistils átti sig á þeim ríka vilja sem var á Alþingi síðasta haust til þess að vinna sem best að rannsókn bankahrunsins sem hefur haft svo alvarlegar afleiðingar. Til þess að okkur megi takast að vinnna okkur útúr vandanum þurfum við að greina ástæður og leggja á ráðin um að snúa vörn í sókn í þágu  komandi kynslóða Íslendinga og ná sátt í samfélaginu. Það mun ekki gerast undir forustu núverandi ríkisstjórnar. Það mun því aðeins gerast að til valda komi stjórn  með þátttöku allra stjórnmálaflokkanna undir traustri forustu leiðtoga sem sameinar þjóðina til sóknar og varnar.

 Tvær fyrstu greinar í löggjöf um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls  íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða hljóða svo:
    
I. kafli. Markmið rannsóknar.
 1. gr. Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því. Nefndin skal í þessu skyni:
   1. Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem varð Alþingi tilefni til að setja lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
   2. Afla upplýsinga um starfsemi fjármálafyrirtækja sem geta skýrt vanda þeirra, svo sem um fjármögnun og útlánastefnu þeirra, eignarhald, endurskoðun og tengsl þeirra við atvinnulífið.
   3. Gera úttekt á reglum íslenskra laga um fjármálamarkaðinn og tengda atvinnustarfsemi í samanburði við reglur annarra landa og framkvæmd stjórnvalda á þeim.
   4. Leggja mat á hvernig staðið hafi verið að eftirliti með fjármálastarfsemi hér á landi á síðustu árum og upplýsingagjöf af því tilefni milli stjórnvalda, til ríkisstjórnar og til Alþingis.
   5. Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera íslenskt fjármálakerfi færara um að bregðast við þróun og breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
   6. Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.
   7. Skila Alþingi skýrslu um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.
 Að því marki sem nefndin telur nauðsynlegt er henni heimilt að láta rannsókn sína taka til atburða eftir gildistöku laga nr. 125/2008 eða gera tillögu um frekari rannsókn á slíkum atburðum.
 Í tengslum við athugun á fyrrgreindum atriðum skal enn fremur fara fram rannsókn þar sem lagt verði mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði.

II. kafli. Skipan rannsóknarnefndarinnar og störf hennar.
 2. gr. Skipa skal nefnd þriggja manna til að rannsaka og leggja mat á þau atriði sem tilgreind eru í 1. gr. Í nefndinni eiga sæti:
   1. Einn dómara Hæstaréttar Íslands skipaður af forsætisnefnd og skal hann vera formaður nefndarinnar. Dómsmálaráðherra skal veita honum leyfi frá störfum réttarins á meðan nefndin starfar. Verði hann forfallaður eða geti ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu skal forsætisnefnd skipa annan dómara réttarins til að taka sæti í nefndinni eða einstakling sem fullnægir skilyrðum laga til að gegna starfi hæstaréttardómara.
   2. Umboðsmaður Alþingis. Verði hann forfallaður eða geti ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu skal forsætisnefnd Alþingis skipa annan mann í nefndina í hans stað sem uppfyllir skilyrði laga til að gegna starfi umboðsmanns.
   3. Hagfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða háskólamenntaður sérfræðingur, sem hefur víðtæka þekkingu á efnahagsmálum og/eða starfsemi fjármálamarkaða, skipaður af forsætisnefnd Alþingis.
 Rannsóknarnefndin skipar sérstaka vinnuhópa með fulltrúum innlendra og/eða erlendra sérfræðinga sem séu nefndinni til aðstoðar eða sinni ákveðnum rannsóknarverkefnum.
 Forsætisnefnd skipar þriggja manna vinnuhóp einstaklinga með háskólamenntun í heimspeki, sagnfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, fjölmiðlafræði eða öðrum hliðstæðum greinum sem fjallar í samráði við rannsóknarnefndina um þann þátt rannsóknarinnar sem getið er í 3. mgr. 1. gr.
 Rannsóknarnefndin er í störfum sínum óháð fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi. Sama gildir um vinnuhópa skv. 2. og 3. mgr. þessarar greinar.


Ræða þáverandi forseta Alþingis þegar mælt var fyrir frumvarpi til laga umrannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.
136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):
Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða sem ég flyt ásamt hv. þm. Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Valgerði Sverrisdóttur, formanni Framsóknarflokksins, og Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins.
Nú á haustmánuðum hefur íslenskt efnahagslíf orðið fyrir miklum skakkaföllum eftir alllangt skeið hagsældar. Þrír stærstu bankar landsins lentu þá í fjárhagsvanda sem leiddi til þess að gripið var til neyðarráðstafana gagnvart þeim á grundvelli laga nr. 125/2008 sem Alþingi hafði þá nýlega samþykkt. Á þessu ári hefur íslenska krónan enn fremur veikst mikið og verðbólga vaxið að sama skapi. Þessar hremmingar eru öllum kunnar enda snerta afleiðingar þeirra hvern mann og hvert einstakt fyrirtæki hér á landi sem og stjórnvöld. Þegar hefur ríkissjóður þurft að taka á sig miklar skuldbindingar til að styrkja gjaldeyrisforðann og verulegur samdráttur virðist í uppsiglingu í íslensku atvinnulífi.
Margir hafa viljað rekja ástæður þessara áfalla í íslensku efnahagslífi til lausafjárþurrðar í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Hér á landi virðist þó hin alþjóðlega fjármálakreppa koma harðar niður en víðast hvar annars staðar og taka á sig mynd djúprar efnahagslægðar. Ýmsir hafa því einnig kennt innlendum aðstæðum um hvernig komið er fyrir þjóðinni og sagt að bæði stjórnendur bankanna og stjórnvöld hafi sofið á verðinum. Eðlileg og réttmæt krafa hefur því komið fram um að ástæður þessara áfalla séu rannsakaðar á faglegan hátt og reynt að varpa ljósi á hverju sé um að kenna og hverjir kunni að bera ábyrgð á ástandinu.
Í 39. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um ákveðna leið til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Þar segir að Alþingi geti skipað nefndir alþingismanna til að annast slíkar rannsóknir og að unnt sé að veita slíkum nefndum rétt til að heimta skýrslur af embættismönnum og einstökum mönnum. Þessi heimild Alþingis er einn þáttur í því mikilvæga hlutverki þingsins að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald og hafa eftirlit með ráðherrum og þeirri stjórnsýslu sem undir þá heyrir. Hún tengist óneitanlega þeirri stöðu sem þingræðisreglan tryggir Alþingi gagnvart ráðherrum og ríkisstjórn svo og stjórnarskrárbundinni heimild þingsins til að ákæra ráðherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.
Ljóst er að rannsókn á ástæðum efnahagsáfallanna mun á einhvern hátt fjalla um þátt einstakra ráðherra við stjórnarframkvæmd, auk þess sem hún mun beinast að aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans sem báðar eru sjálfstæðar stofnanir. Af þessum sökum og með hliðsjón af mikilvægi málsins er eðlilegt að rannsóknin fari fram á vegum Alþingis. Kom þá til umræðu hvort ekki skyldi farin sú leið sem stjórnarskráin boðar, að skipa rannsóknarnefnd alþingismanna til að hafa umsjón með rannsóknarstarfinu. Í ljósi aðstæðna var fallið frá því og talið líklegra að víðtækari sátt mundi nást ef rannsóknin væri í höndum nefndar sem yrði skipuð óháðum einstaklingum sem staðið hefðu utan við átök stjórnmálanna. Á þessu byggist það lagafrumvarp sem hér er mælt fyrir. Með samþykkt þess verður komið á fót sjálfstæðri nefnd sérfræðinga utan þings sem fær það erfiða verkefni að varpa ljósi á aðdraganda og orsakir þess að bankarnir féllu hér á landi og segja til um hvort mistök hafi verið gerð við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi hér á landi á síðustu árum. Þá er nefndinni ætlað að leggja mat á hverjir kunni að bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum að þessu leyti. Því er síðan nánar lýst í sex töluliðum í 1. gr. frumvarpsins hver verkefni nefndarinnar skuli vera.
Ákveðnar líkur eru á því að margir samverkandi þættir hafi orðið til þess að bankarnir féllu og efnahagsáföll dynja núna á þjóðinni. Til að varpa ljósi á ástæðurnar verður því að skoða fjölmarga þætti sem tengjast bæði rekstri og stjórnun bankanna og viðbrögðum og ákvörðunum stjórnvalda. Það er mikil hætta að viðamikil rannsókn af þessu tagi fari út um víðan völl. Á sama tíma er afar mikilvægt að rannsókninni verði komið á sem fyrst. Erfitt er að koma til móts við þessi ólíku sjónarmið, að rannsóknin gangi hratt fyrir sig en leggi jafnframt áreiðanlegan grunn að uppbyggingu fjármálamarkaðar hér á landi og nauðsynlegu uppgjöri.
Með þessi sjónarmið í huga er í frumvarpinu lagt til að nefndin rannsaki ekki atburðina sem urðu eftir að lög nr. 125/2008, neyðarlögin svokölluðu, tóku gildi nema hún telji það nauðsynlegt. Einnig getur hún gert tillögu til Alþingis um frekari rannsókn á slíkum atburðum. Þá er það ekki hlutverk nefndarinnar að beita einstaklinga, fyrirtæki eða stjórnvöld viðurlögum, heldur ber henni að tilkynna hlutaðeigandi yfirvöldum ef grunur vaknar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað eða ef ætla má að starfsmaður hafi brotið gegn starfsskyldum sínum. Þannig er í frumvarpinu leitast við að einstök mál af þessu tagi verði lögð í viðeigandi farveg án þess að bíða þurfi lokaniðurstöðu nefndarinnar.
Meðal þess sem athuga þarf í tengslum við rannsókn á falli bankanna er hvort stjórnendur þeirra og eigendur hafi haft önnur viðhorf til hlutverks síns, ábyrgðar og siðferðis í viðskiptalífi en almennt er í nágrannalöndunum. Veikleikar á þessum sviðum kunna að hafa átt þátt í því að bankarnir riðuðu til falls. Mat á þessum þáttum nýtur ákveðinnar sérstöðu samanborið við hina lagalegu og hagfræðilegu úttekt enda kallar hún á þekkingu á öðrum sviðum. Því er í frumvarpinu lagt til að sérstakur vinnuhópur hugvísindamanna, skipaður af forsætisnefnd Alþingis, fái það hlutverk að leggja mat á þessi atriði í samráði við rannsóknarnefndina.
Fjallað er um skipan rannsóknarnefndarinnar í 2. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að í nefndinni verði þrír einstaklingar. Sá fjöldi nefndarmanna var ákveðinn með það í huga að starf nefndarinnar gæti gengið hratt og greiðlega fyrir sig. Til að koma til móts við það markmið að fá til verksins hlutlausa aðila sem flestir geti treyst var ákveðið að formaður nefndarinnar kæmi úr röðum hæstaréttardómara og að við hlið hans starfaði umboðsmaður Alþingis og einn hagfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða annar háskólamenntaður einstaklingur með reynslu og þekkingu sem nýtist við rannsóknina. Bæði hæstaréttardómarinn sem velst til verksins og umboðsmaður Alþingis þurfa að fá leyfi frá störfum sínum meðan rannsóknin fer fram og eru ákvæði í frumvarpinu sem taka mið af því.
Ljóst er að þessi þriggja manna nefnd mun ekki vinna ein að rannsókn á öllum þáttum bankahrunsins ásamt vinnuhópi hugvísindamanna. Í frumvarpinu er því mælt fyrir um að nefndin skipi sérstaka vinnuhópa með innlendum eða erlendum sérfræðingum. Er þeim ætlað að vera rannsóknarnefndinni til aðstoðar, auk þess sem þeir geta unnið að einstökum rannsóknarverkefnum fyrir nefndina. Þá er henni veitt heimild til að leita sérfræðilegrar aðstoðar annarra aðila, innlendra eða erlendra, við mat á einstökum þáttum rannsóknarinnar. Jafnframt er ráðgert að nefndin geti ráðið starfsmenn sér til aðstoðar.
Allir þeir sem vinna við þessa rannsókn, hvort sem það eru nefndarmenn, einstaklingar í vinnuhópum eða starfsmenn, eru með öllu óháðir fyrirmælum frá öðrum. Þó að rannsókn sú sem hér er boðuð fari fram á vegum Alþingis og sé reist á hlutverki þingsins við að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu er hvorki Alþingi né einstökum alþingismönnum unnt að hafa bein áhrif á framgang rannsóknarinnar. Um þetta eru fyrirmæli í 2. gr. frumvarpsins. Eftir sem áður er sú skylda lögð á nefndina í 16. gr. frumvarpsins að veita forseta Alþingis og formönnum þingflokkanna upplýsingar um framvindu rannsóknarinnar meðan hún er í gangi og getur forseti Alþingis af því tilefni gert Alþingi grein fyrir því sem fram hefur komið.
Að öllum líkindum munu nefndinni berast fjölmargar upplýsingar sem almennt eiga að fara leynt samkvæmt lögum, t.d. persónuupplýsingar um fjárhag einstaklinga. Í þessu ljósi og til að auðvelda að upplýsingar verði látnar í té er mikilvægt að leggja þagnarskyldu á þá sem vinna að rannsókninni um þau atriði sem leynt eiga að fara. Þá er sérstaklega kveðið á um það í frumvarpinu að nefndin ákveði sjálf hvaða upplýsingar hún veitir um störf sín meðan rannsóknin stendur yfir.
Það er óhjákvæmilegt að veita rannsóknarnefndinni ríkar heimildir til að afla upplýsinga bæði hjá einkaaðilum og stofnunum svo að markmiðum laganna verði náð. Um það eru fyrirmæli í III. kafla frumvarpsins. Þar er mælt fyrir um skyldu sérhvers aðila til að verða við kröfu nefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar. Hvers konar reglur í lögum um þagnarskyldu, svo sem reglur um bankaleynd, eiga að víkja fyrir þessari skyldu til að verða við beiðni nefndarinnar. Neiti maður að gegna þessari skyldu bakar hann sér refsiábyrgð auk þess sem heimilt verður að leita úrskurðar dómstóla um ágreining um skyldu samkvæmt 74. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá er nefndinni unnt að gera húsrannsókn og leggja hald á gögn í samræmi við heimildir sömu laga. Að lokum getur hún kallað menn til skýrslutöku hjá nefndinni. Verði einhver ekki við því getur hún óskað eftir því að héraðsdómari kveðji viðkomandi fyrir dóm til að bera vitni. Með þessum úrræðum er eftir fremsta megni leitast við að tryggja að nefndin geti fengið þær upplýsingar sem þörf er á.
Ákvæði 12. gr. frumvarpsins miðar í raun að sama marki. Þar er þeim sem veita nefndinni upplýsingar sem þýðingu hafa veitt ákveðin vernd þannig að þeir verði ekki látnir gjalda fyrir það á einn eða annan hátt. Þá er nefndinni veitt heimild til að beina tilmælum til hlutaðeigandi yfirvalda um að maður verði ekki ákærður eða beittur viðurlögum ef mikilvægar upplýsingar sem hann lætur að eigin frumkvæði í té gefa jafnframt vísbendingu um hlutdeild hans í brotlegri háttsemi. Með þessu er leitast við að auðvelda einstaklingum að veita nefndinni upplýsingar sem þeir hefðu ella þagað yfir.
Þó að nefndinni sé ekki ætlað það hlutverk að taka bindandi ákvarðanir um ákæru eða viðurlög hefur álit hennar óneitanlega áhrif á þá sem sæta rannsókn. Leitast er við að tryggja réttaröryggi þeirra á ýmsa lund og eiga þær reglur rætur að rekja til meginreglna stjórnsýsluréttar. Þegar einstaklingur er kallaður til skýrslutöku er honum t.d. heimilað að hafa með sér aðstoðarmann á eigin kostnað, eins og fram kemur í 10. gr. frumvarpsins, þó að skýrslutakan fari fram fyrir luktum dyrum. Þá ber rannsóknarnefndinni, eins og kemur fram í 13. gr. frumvarpsins, að gefa þeim sem ætla má að hafi orðið á mistök eða hafa orðið uppvísir að vanrækslu í starfi færi á að tjá sig um þau atriði sem nefndin íhugar að fjalla um í skýrslu sinni til Alþingis.
Eins og áður greinir fer starf nefndarinnar fram á vegum Alþingis og er reist á eftirlitshlutverki þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þess vegna ber nefndinni að skila Alþingi rökstuddri skýrslu um niðurstöður rannsóknar sinnar. Markmiðið er að sú skýrsla liggi fyrir ekki síðar en 1. nóvember 2009. Nauðsynlegt er að tryggja að þessi skýrsla fái síðan ákveðna afgreiðslu Alþingis, auk þess að koma fyrir sjónir almennings. Í því sambandi er mikilvægt að taka skýrt fram hverjum beri að eiga frumkvæði að því að móta tillögur í ljósi niðurstöðu rannsóknarinnar sem hægt er að leggja fyrir Alþingi. Í frumvarpinu er forseta Alþingis ásamt formönnum þingflokkanna ætlað það hlutverk að gera tillögu um meðferð á niðurstöðum nefndarinnar. Ábendingar hennar sem lúta að úrbótum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu skulu þó koma til meðferðar viðeigandi fastanefnda Alþingis í samræmi við tillögur forsætisnefndar Alþingis, eins og nánar er rakið í 15. gr. frumvarpsins.
Aðstæður okkar Íslendinga eru mjög alvarlegar um þessar mundir og mikil óvissa ríkir. Traust á fjármálastofnunum og þeim sem farið hafa með mál í bönkum og eftirlitsstofnunum er ekki fyrir hendi. Við þessar aðstæður, þegar bankarnir hafa komist í þrot með miklu eignatapi einstaklinga og fyrirtækja, er óhjákvæmilegt að Alþingi bregðist við og efni til þeirrar rannsóknar sem hér er mælt fyrir um.
Ljóst er að með frumvarpi þessu fikrar Alþingi að nokkru leyti sig inn á nýja braut. Rannsóknarnefnd alþingismanna samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar hefur ekki verið skipuð síðan 1955. Þá hefur verið fremur fátítt að stofnað sé með lögum til afmarkaðra rannsókna með það að markmiði að upplýsa liðna atburði og koma með ábendingar um úrbætur eða leggja mat á ábyrgð. Þó eru nokkur dæmi um það á síðustu árum og má þar nefna rannsókn á starfsemi Breiðavíkurheimilisins og athugun á opinberum gögnum í vörslu stjórnvalda um öryggismál Íslands 1945 til 1991. Í nágrannalöndum okkar er eftirlit þarlendra þinga með framkvæmdarvaldinu hins vegar með fastara skipulagi í þingstarfinu. Á það þá einkum við í alvarlegri málum sem kunna að varða ábyrgð ráðherra og embætti umboðsmanns eða Ríkisendurskoðun geta ekki tekið á eða hafa þegar lokið athugun sinni á málinu.
Eins og ég gat um í ræðu minni við þingfrestun síðasta vor er skoðun mín sú að nauðsynlegt sé að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis, enda er það auk löggjafarstarfsins veigamesta hlutverk Alþingis. Í júní síðastliðnum ákvað forsætisnefnd þingsins að skipa vinnuhóp þriggja sérfræðinga sem falið var að fara yfir núgildandi lagareglur um þennan þátt í starfi Alþingis og leggja mat á hvort breytinga sé þörf. Hópurinn mun skila skýrslu um niðurstöður sínar í júní 2009. Sú vinna mun halda áfram þó að aðstæður hafi breyst og rétt þyki að Alþingi bregðist nú við þeim áföllum sem hér hafa orðið með því að hrinda af stað þeirri rannsókn sem frumvarpið boðar. Vænti ég þess að breið samstaða geti orðið um framgang málsins á Alþingi sem miðar að því að byggja upp traust og benda á hvernig koma megi í veg fyrir að hliðstæð áföll endurtaki sig.
Við Íslendingar höfum orðið fyrir miklum áföllum. Við þær aðstæður er mikilvægt að okkur takist að snúa bökum saman og endurreisa efnahag okkar og tryggja hag heimilanna og atvinnulífsins. Til þess að það takist verður að nást sátt í samfélaginu. Mjög mikilvægur þáttur þess er ítarleg rannsókn á því hvað gerðist og leiddi til hruns bankanna með öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem því hefur fylgt. Sú rannsókn sem hér er mælt fyrir er mikilvægur liður í því.
Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka formönnum stjórnmálaflokkanna fyrir ágætt samstarf við að móta það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég vænti að það geti orðið til þess að hér á Alþingi takist sátt og samstaða við það mikilsverða verkefni að skapa bætt samfélag sem við byggjum á þeim innviðum sem kynslóðirnar hafa byggt upp og við höfum notið og nýtt hin síðustu ár.
Ég legg svo til, hæstv. forseti, að frumvarpið gangi til allsherjarnefndar að lokinni 1. umr. til frekari skoðunar.
17.mar. 2017 - 11:14 Sturla Böðvarsson

Í þágu hverra er höfuðborginni okkar stjórnað?

Enn hefur verið birt mynd af borgarstjóranum í Reykjavík undirrita samning sem stríðir gegn hagsmunum okkar sem búum utan borgarinnar.
11.des. 2016 - 09:58 Sturla Böðvarsson

Katrín og Bjarni taki við stjórn landsins

Eftir kosningarnar 2007 átti ég von á því að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Vinstri grænum. Ég varð þess var að formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Vinstri grænna áttu í einhverjum samtölum í aðdraganda kosninganna sem vörðuðu m.a. afgreiðslu Samgönguáætlunar.
09.júl. 2016 - 12:37 Sturla Böðvarsson

Hvernig er Ísland kynnt erlendis í dag?

Það er vissulega ánægulegt hversu margir erlendir ferðamenn koma til landsins. Stykkishólmur er meðal þeirra staða sem taka á móti þessum vaxandi hópi ferðamanna enda hefur bærinn uppá margt að bjóða sem ferðamen leita eftir að kynnast og upplifa. Gestir okkar sækja í söfnin, skoða gömlu uppgerðu húsin, fara í siglingar um eyjasund og með Breiðafjarðarferjunni Baldri, fara í ferðir um þjóðgarðinn Snæfellsjökul, sækja tónleika, njóta þjónustu góðra veitingastaða, hótela, gistiheimila og tjaldsvæðis.  
22.nóv. 2014 - 13:23 Sturla Böðvarsson

Leggjumst á árar og bætum samfélagið

Ég tel mig þekkja samfélagið vel og þörfina fyrir öflug og jákvæð vinnubrögð við stjórn landsins. Þegar ég sá viðbrögð stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna við afsögn innanríkisráðherra fékk ég það staðfest sem ég raunar taldi mig vita að hatrið sem er ræktað í samfélaginu er skaðlegt þjóðarmein.
09.apr. 2014 - 16:33 Sturla Böðvarsson

Framganga Rússa

Júlía Tímósjenkó fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu skrifar merkilega grein í Morgunblaðið í gær 8.apríl. Hún er nýlega sloppin úr fangelsi. Hún var dæmd til fangelsisvistar eftir að hafa verið forsætisráðherra um tíma.
24.mar. 2014 - 11:07 Sturla Böðvarsson

Komast framkvæmdir við Sundabraut aftur á dagskrá?

Árið 2003 lagði ég fram sem samgönguráðherra  og fékk samþykkta fyrstu samgönguáætlunina þar sem allir þætti framkvæmda við samgöngukerfið voru settir saman í eina áætlun. Þar var um að ræða  hafnarmannvirki, vegagerð og framkvæmdir við flugvelli auk rekstrar og öryggisaðgerða. Þessi áætlunargerð var nýmæli, en hún byggði á  lögum, sem samþykkt voru á Alþingi árið 2002 og voru liður í breyttu vinnulagi í samgöngumálum.
24.jan. 2014 - 17:55 Sturla Böðvarsson

Miklir möguleikar til framtaks og fjárfestinga á Snæfellsnesi

Íbúar fárra landshluta á Íslandi eru betur í sveit settir en íbúar á Snæfellsnesi. Þar er byggðin í mikilli nálægð við gjöful fiskimið, þar eru góðar hafnir og góð tenging samgönguæða við stærsta markaðssvæði landsins.
17.des. 2013 - 21:41 Sturla Böðvarsson

Reitir fasteignafélag gerir atlögu að innanlandsfluginu á Reykjavíkurflugvelli

Morgunblaðið færir þær fréttir í dag að á næsta leyti sé „háhraða lest“ sem er ætlað að taka við þeirri  miklu fjölgun farþega sem flytja þarf til og frá Keflavíkurflugvelli inn á höfuðborgarsvæðið.
02.des. 2013 - 16:02 Sturla Böðvarsson

Bókin Ár drekans er kennslubók í plotti og pólitískum undirmálum

Ég var að ljúka við að lesa „Ár drekans“ sem er pólitísk endurminningabók Össurar Skarphéðinssonar fyrrum ráðherra og fyrsta formanns Samfylkingarinnar.
28.okt. 2013 - 11:11 Sturla Böðvarsson

Sæstrengur og hryðjuverkalögin

Samkvæmt fréttum frá Bretlandi er forseti Íslands væntanlegur þangað til fundar um lagningu raforkustrengs frá Íslandi. Það væri fróðlegt að vita hvaða orkuver eigi að byggja til þess að framleiða orkuna sem á að tryggja almenningi í Bretlandi örugga og umhverfisvæna orku. Og væntanlega á sú orka að vera hagfelldari en sú sem verður í boði þar í framtíðinni.
16.sep. 2013 - 10:10 Sturla Böðvarsson

Endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar lauk árið 2002

Föstudaginn 1. nóvember árið 2002 var opnunarhátíð í tilefni af því að endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar var lokið. Við það tilefni flutti ég eftirfarandi ræðu sem ástæða er til að rifja upp nú þegar enn er deilt um flugvöllinn í Vatnsmýrinni.
02.feb. 2013 - 16:58 Sturla Böðvarsson

Er að vænta betri tíma í stjórnmálum á Íslandi?

Það hafa verið hörmulegir tímar í stjórnmálum frá því minnihlutastjórnin tók við 1. febrúar 2009.
16.des. 2012 - 10:16 Sturla Böðvarsson

Svavar Gestsson og Patrick Gervasoni

Sjálfsævisaga Svavars Gestssonar er komin út. Svo sem vænta mátti er bókin læsileg og vel  skrifuð. Ég geri ráð fyrir því að bæði samherjar Svavars sem og andstæðingar hans í stjórnmálum, sem þekkja vel til, telji sig hafa sitthvað að segja um gang mála og dóma Svavars um menn og málefni. Svavar hefur frá mörgu að segja af löngum ferli stjórnmálaafskipta. Hann dregur skemmtilega fram árin á Þjóðviljanum og hann rekur prýðilega raunasögu vinstrihreyfingarinnar á Íslandi. Ég ég hafði lúmskt gaman af að lesa þau skrif, ekki síst vegna þess að ég var nýbúinn að lesa þá stórmerkilegu bók Þórs Whiteheads, Sovét-Ísland Óskalandið. Þrátt fyrir að bókina skrifi fyrrum ritstjóri Þjóðviljans  er hún ærlega skrifuð, en ekki er við því að búast að sjálfstæðismenn skrifi undir alla hluti sem í bókinni birtast.
18.nóv. 2012 - 16:15 Sturla Böðvarsson

Illugi er hugsuður og pólitískur vígamaður

Illugi Gunnarsson alþingismaður Reykvíkinga hefur af mikilli einlægni sameinað stjórnmálaáhugann, hagfræðimenntun sína  og hina listrænu taug tónlistarinnar, sem hann fékk í vöggugjöf. Það er væntanlega skýringin á því að hann á svo marga stuðningsmenn og vini úr svo ólíkum áttum.
07.nóv. 2012 - 21:13 Sturla Böðvarsson

Bjarni Benediktsson er leiðtoginn sem við þurfum

Skip sem siglir um ólgusjó þarf samhenta áhöfn og traustan mann við stýrið sem lætur ekki hrekjast af leið. Sama gildir um þjóðarskútuna. Stjórnmálamönnum okkar hefur verið trúað fyrir að stýra henni.
27.okt. 2012 - 17:58 Sturla Böðvarsson

Páll Magnússon útvarpsstjóri bregst til varnar vondum málstað

Páll Magnússon útvarpsstjóri er í mikilli vörn þessa dagana. Hann og telur mikla þörf fyrir að verjast vegna skrifa ritsjóra Morgunblaðsins. Hann virðist óttast beittar ritstjórnargreinar og Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins.
28.sep. 2010 - 08:43 Sturla Böðvarsson

Bréf mitt til þingmannanefndarinnar

Að undanförnu hafa bæði Mbl.is og Fréttablaðið birt glefsur úr svarbréfi mínu til Atla Gíslasonar formanns þingnefndarinnar sem fjallað hefur um skýrslu  Rannsóknarnefndar Alþingis. Bréf mitt er hluti þeirra þingskjala sem nefndin hefur birt. Vegna fyrirspurna til mín og athugasemda í bloggheimum tel ég rétt að birta bréfið í heild sinni hér á Pressunni þar sem ég hef skrifað undanfarin misseri. Bréfið fer hér á eftir eins og það var sent til þingsins.
30.apr. 2010 - 15:55 Sturla Böðvarsson

Hlynur Bæringsson

Körfuknattleikslið Snæfells kom heim í Stykkishólm í nótt með Íslandsmeistara titilinn. Áður hafði liðið  unnið Bikarmeistara titilinn. Það er ástæða til þess að óska Snæfellsliðinu, þjálfara þess Inga Þór Steinþórssyni og forustu Ungmennafélagsins Snæfells  til hamingju með þennan stórkostlega sigur og einstæða árangur.
30.apr. 2010 - 10:35 Sturla Böðvarsson

Ný samgönguáætlun Dags B. Eggertssonar


26.apr. 2010 - 17:00 Sturla Böðvarsson

Útvegsmenn rógsins

Í nútímanum þar sem hagsæld og menntun hefur ráðið  ríkjum, þrátt fyrir allt, hefur komist á  legg stétt manna sem gerir út  á róginn og illt umtal um náungan. Rógur gegn samferðarmönnum og illmælgi er orðinn atvinnuvegur.

Sturla Böðvarsson
Fyrrverandi forseti Alþingis og samgönguráðherra.
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Fleiri pressupennar