27. feb. 2018 - 15:49Sara Pálsdóttir

Vita stjórnvöld hvað er barni fyrir bestu?

Í pistli mínum frá 5. febrúar s.l. benti ég á að Ísland hefur hvorki undirritað né fullgilt fjórðu valkvæðu bókunina við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem mælir fyrir um rétt einstaklinga til að beina kærum vegna brota á sáttmálanum til barnaréttarnefndar SÞ. Skoraði undirrituð á stjórnvöld til að bæta úr þessu. Það er ánægjulegt að málið skuli nú vera til skoðunar hjá stjórnvöldum.

Undirrituð hefur enn fremur bent stjórnvöldum á að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. barnasáttmálans sem lögfestur var með lögum nr. 19/2013, ber stjórnvöldum lagaleg skylda til að setja starfsreglur fyrir allar stofnanir, þjónustu og aðstöðu sem ætluð er börnum. Þá er einnig gerð sú krafa að ríkisvaldið tryggi að þær kröfur séu uppfylltar. Í þessu felst að ríkisvaldið setji leiðbeiningarreglur til þeirra sem taka ákvarðanir í málefnum barna, t.a.m. sýslumanna og barnaverndarnefnda um það hvernig beri að túlka meginregluna um að það sem sé börnum fyrir bestu eigi ávallt að hafa forgang þegar hið opinbera, jafnt sem einkaaðilar, gera ráðstafanir sem varða börn sbr. 1. mgr. 3. gr. barnasáttmálans.

Þegar undirrituð sendi fyrirspurn varðandi ofangreinda skyldu stjórnvalda til dómsmálaráðuneytisins var svarið að engar slíkar reglur hefðu verið settar, þrátt fyrir skýra lagaskyldu þar að lútandi. Vísaði ráðuneytið í almenn lög og eftirlitshlutverk hinna ýmsu ráðuneyta auk Barnaverndarstofu. Þá vísar ráðuneytið til þess að þar sem að ákvæðið nær til margra stofnana, þ.á.m. skóla, heilbrigðisstofnana, barnaverndarnefnda o.fl., yrði ,,erfitt að setja almennar reglur sem taka nægilega vel til allra nauðsynlegra atriða”.

Þessar skýringar ráðuneytisins eiga ekki við rök að styðjast. Stjórnvöld geta ekki komið sér undan skyldu sinni til að setja leiðbeiningarreglur fyrir opinberar stofnanir og aðra þá, sem taka ákvarðanir sem varða börn, um það hvernig beri að meta hvað sé barni fyrir bestu, með því að visa í almenn lög og ,,ýmsar reglugerðir”. Þá koma stjórnvöld sér ekki undan þessari skyldu með því að vísa til þess að það að framfylgja henni yrði of mikið vesen.

Aðferðafræðin við mat á því hvað teljist vera barni fyrir bestu er ekki breytileg eftir því um hvaða stofnun er að ræða. Í gögnum frá barnaréttarnefnd SÞ er að finna ítarlegar skýringar nefndarinnar á þessu hugtaki sem er flókið og felur í sér m.a. efnislegan rétt, meginreglu um hvernig beri að túlka lög og reglur og svo formreglu sem t.d. mælir fyrir um skyldubundið mat á afleiðingum ákvörðunar fyrir barn þegar ákvörðun er tekin. Um er að ræða meginreglu barnalaga, barnaverndarlaga og barnasáttmálans og byggja önnur ákvæði þessara laga á meginreglunni um að það sem er barni fyrir bestu skuli ráða. Það þarf ekki að útskýra mikilvægi þess að stjórnvöld setji leiðbeiningarreglur líkt og áskilið er í 3. mgr. 3. gr. barnasáttmálans.

Maður hefði haldið að það væri lágmarkskrafa að stjórnvöld færu eftir ákvæðum barnasáttmálans auk þess að fullgilda þær bókanir sem eru hluti af sáttmálanum, áður en þau leggja allt kapp á að koma fulltrúa Íslands inn í barnaréttarnefnd SÞ. Annað er hreinlega vandræðalegt.
22.feb. 2018 - 10:04 Sara Pálsdóttir

Umskurður drengja

Umskurður drengja hefur sterk tengsl við trúarbrögð Gyðinga og Íslam. Drengir um allan heim eru umskornir og er um að ræða rótgróna hefð í mörgum samfélögum. 
05.feb. 2018 - 09:15 Sara Pálsdóttir

Ríkari mannréttindavernd barna á Íslandi

Með lögum nr. 19/2013 var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur á Íslandi. Er þetta í annað skipti sem alþjóðlegum mannréttindasáttmála hefur verið veitt beint lagalegt gildi hér á landi, hinn sáttmálinn er mannréttindasáttmáli Evrópu sem var lögfestur árið 1994. Af þessu leiðir að barnasáttmálanum verður beitt hér á landi um hagsmuni og mannréttindi barna með sama hætti og t.d. barnalögum eða öðrum íslenskum lögum.

28.júl. 2017 - 14:21 Sara Pálsdóttir

Færð þú skuldir í arf?

Þegar ástvinur fellur frá eru tvær leiðir færar þegar kemur að skiptum úr búi hins látna. Unnt er að fá leyfi hjá sýslumanni til einkaskipta ef allir erfingjar eru sammála um það hvernig eignum og skuldum dánarbúsins verður skipt. Ef ekki næst samkomulag um slíkt þurfa að fara fram opinber skipti á dánarbúinu.
09.jún. 2017 - 09:16 Sara Pálsdóttir

Réttur leigutaka gagnvart leigusala

Um réttarsamband leigutaka og leigusala gilda húsaleigulög nr. 36/1994. Samkvæmt lögunum má að jafnaði ekki mæla fyrir um lakari rétt til handa leigjanda en þar er mælt fyrir um. Tryggast er að hafa leigusamning skriflegan og skulu breytingar á samningi einnig vera skriflegar.
30.mar. 2017 - 10:30 Sara Pálsdóttir

Bætur greiddar fyrir að sæta rannsóknaraðgerðum lögreglu

Í 228. gr. laga um meðferð sakamála er mælt fyrir um rétt manns til að fá greiddar bætur ef hann hefur verið borinn sökum í sakamáli og mál hans var fellt niður eða hann sýknaður með endanlegum dómi.