09. feb. 2017 - 14:14Smári Pálmarsson

Hið myrka mannkyn

Umræðan um hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvöruverslunum er alltaf skrautleg þegar hún dúkkar upp. Hegðun hinna fáu, sem eiga við áfengisvandamál að stríða, er oft notuð til þess að rökstyðja takmarkað aðgengi allra að áfengi. Óneitanlega hefur misnotkun þess skelfileg áhrif á lýðheilsu. Sjálfsagt skiptir litlu máli hvar áfengið er selt, þegar upp er staðið. Sumir myndu helst kjósa blátt bann við áfengi. Landasalar taka eflaust undir þá tillögu.

Það er mikið um boð og bönn í samfélaginu. Sumt þykir okkur skiljanlegt en annað getum við deilt um út í hið óendanlega. Sígarettur eru til að mynda ekki bannaðar þó herferð gegn þeim hafi fengið byr undir báða vængi á undanförnum áratugum. Það eru auðvitað nær ómögulegt að verja reykingar enda eru þær skaðlegar reykingamönnum og nærstöddum einstaklingum. Reykingamenn hafa því lært að viðhalda fíkn sinni skömmustulega.

Vímugjafar, aðrir en áfengi og tóbak, eru í flestum tilfellum ólöglegir. Þess vegna er neysla slíkra fíkniefna nær óþekkt í okkar samfélagi. Það eru lög og reglur, boð og bönn, sem knýja samfélag okkar áfram. Nei, ég er að ruglast. Það er víst framboð og eftirspurn. Fíknin þrífst því vel á bakvið tjöldin þar sem við hin sjáum ekki til – eða eigum í það minnsta auðvelt með að líta undan. Við köllum þetta „undirheima“ svo það hljómi örugglega dularfullt og framandi. Þetta er ekki staður þar sem venjulegt fólk heldur til.

Það er í raun aðeins eitt sem aðskilur alkóhólistann og „dópistann“. Annar matar fíkn sína með löglegum hætti. Ef upp kemst um fíkn hans sýnir samfélagið veikindum hans skilning. Hinn er álitinn glæpamaður. Sá þrífst best í heimi sem samfélagið hefur skapað honum með því að glæpavæða fíkn hans. Það sama ætti auðvitað við um hvern þann sem smakkar áfengi væri sú ákvörðun tekin að banna alla vímugjafa með lögum. Við sáum nú hvað bannárin lögðust vel í lýðinn.

Það hefur lengi verið hefð fyrir því að stýra neyslu og lifnaðarháttum fólks með boðum og bönnum. Þegar þau hafa náð fótfestu í samfélaginu vaknar einhver djúpstæður ótti um hvar heimurinn væri án þeirra. Alkóhólismi yrði umsvifalaust að landlægum sjúkdómi ef sala áfengis væri víðar en í ríkisreknum Vínbúðum. Unglingadrykkja myndi ganga frá komandi kynslóðum dauðum. Þá fengjum við sko að vita hvar Davíð keypti ölið. En fólk neytir samt fíkniefna, beitir ofbeldi, stelur, drepur og nauðgar. Vitandi að þetta er kolólöglegt.

Lög og reglur eru betur til þess fallnar að taka á glæpum en að koma í veg fyrir þá. Þetta er grundvallar atriði sem margir láta eins og vind um eyru þjóta. Ef ekki væri fyrir boðorðin tíu myndu allir leggja nafn drottins við hégóma, vanhelga hvíldardaginn, svívirða föður sinn og móður, fremja morð, drýgja hór, stela, ljúga upp á náungann og girnast hús, konu, asna eða aðrar eigur hans. Jafnvel þótt konan eigi sig sjálf í nútíma samfélagi.

Ef ekki væri fyrir lög og reglur dagsins í dag myndi hið myrka mannkyn taka yfir. Illskan sem hvílir innra með okkur öllum myndi vakna úr prísund siðmenningarinnar og taka völdin. Því inn við beinið erum við þjófóttir, morðóðir, ofbeldishneigðir nauðgarar sem bíða stilltir og prúðir eftir leyfi. Er óttinn við afleiðingar það eina sem aðskilur manneskju og skrímsli? Ef svo er þurfum við að sætta okkur við þá staðreynd að það sé ekkert gott í þessum heimi.

Lög og reglur eru mikilvægur hluti af siðmenntuð samfélagi, svo það komi skýrt fram. En ef við þekkjum ekki muninn á lögum og siðferði, þá er úti um siðmenninguna. Ef við þekkum ekki muninn á manngæsku og boðum eða bönnum hins opinbera, þá er úti um okkur. Ef kærleikurinn er ekki frá okkur sjálfum kominn, þá er hann einskis virði. Kannski erum við lítið annað en vel tamin villidýr sem bíða þess að allt fari úr böndunum. En ég neita að trúa því.
03.jan. 2017 - 21:00 Smári Pálmarsson

Það er allt í lagi að grenja í leikhúsi

Þegar ég var ellefu ára opnaði ég jólapakka sem virtist ekkert merkilegri en hinir. Í honum var bók með rauðri kápu. Framan á henni stóð einhver krakki með ör á enninu. Aldrei hefði mér dottið í hug hversu mikil áhrif þessi bók átti eftir að hafa á líf mitt. Ég hafði heldur ekki hugmynd um að þessi heillandi söguheimur, þar sem galdramenn fara huldu höfði meðal okkar mugganna, myndi halda áfram að stækka um ókomna tíð.
12.des. 2016 - 14:15 Smári Pálmarsson

Alvarleg afglöp jólasveinsins um síðustu nótt

Svitinn rann undan þykkri ullarhúfunni niður rauðþrútið andlitið því þótt fjallgöngur væru daglegt brauð var þessi jólasveinn lítt hrifinn af flatlendinu. Hann var vanur því að hafa báða fætur á jörðinni sem á þessum slóðum lá gleymd og grafin undir tjörunni. Nú þurfti hann að etja kappi við vélknúna vagna á gúmmídekkjum til að komast leiðar sinnar en kunni betur við sig innan um ær og kýr.
29.nóv. 2016 - 15:00 Smári Pálmarsson

Ef lögreglan starfaði eftir sama verklagi og MAST

Lögreglan hefur uppi á innbrotsþjófi sem tekið hafði töluverða fjármuni ófrjálsri hendi. Lögreglan sektar þjófinn en leyfir honum að halda þýfinu. Hann greiðir sektina með hluta af ránsfengnum svo ekki sér högg á vatni. Síðar grípur lögreglan þrjótinn glóðvolgan við stórfellt búðahnupl. Hún tilkynnir honum að þjófnaður sé bannaður með lögum, hann verði að leita viðunandi leiða til að verða sér úti um vörur og þjónustu, auk þess að greiða sektir þar til hann hafi hætt öllum þjófnaði.
17.nóv. 2016 - 15:41 Smári Pálmarsson

Örfá orð um buffið hans Guðna

Hatrammar deilur á samfélagsmiðlum eru um það bil að gera út af við íslensku þjóðina, og ekki í fyrsta sinn, ekki einu sinni í þessum mánuði. Þá er ég ekki að tala um niðurstöður þingkosninga, Trump, stjórnarmyndunarviðræður eða IKEA geitina. Ég er að tala um forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, sem gerðist svo djarfur að mæta á viðburð með buff á höfði sér. Þjóðin er klofin að vanda yfir því sem sumir kalla ófyrirgefanlegt tískuslys.
11.okt. 2016 - 11:50 Smári Pálmarsson

Sáðlát er líflát

Holdið rís. Gamanið hefst og spennan magnast. Ævintýrin blasa við og allir möguleikar eru opnir. Sáðrásin opnast og fjölmargir lífsneistar brjótast út úr öruggu fylgsni sínu en þeirra bíður ekkert egg… og skyndilega breytist fjörið í fjöldagröf. Lífsneistinn kæfður í klósettpappír. Ljósin slokkna.
12.sep. 2016 - 10:00 Smári Pálmarsson

Dauðans alvara

Ímyndum okkur að ég finni skyndilega fyrir líkamlegum verkjum. Ég geri ekkert í fyrstu. Bíð og sé hvort þetta skáni. En tíminn líður og ekkert breytist. Síðan versnar þetta.
05.sep. 2016 - 08:00 Smári Pálmarsson

Borðar þú ekki kjúkling?

Það er flókið að vera dýravinur þegar þú sparar þína væntumþykju handa ákveðnum tegundum. Einhverra hluta vegna þarf viðhorf þitt gagnvart einni að bitna á annarri – ertu hundavinur eða kattavinur?
22.ágú. 2016 - 08:00 Smári Pálmarsson

Fórnarlömb góða fólksins

Þjóðernishyggja, útlendingahatur og rasismi hefur annað hvort aukist eða vaknað úr dvala. Ég ólst að minnsta kosti ekki upp í umhverfi sem einkenndist af ótta og hatri í garð annarra. En kannski sá ég Ísland öðruvísi fyrir mér í móðu barnæskunnar.
15.ágú. 2016 - 12:00 Smári Pálmarsson

Hinn ógeðslegi mannslíkami

Á Facebook sá ég mynd af manni sem búið var að afhöfða. Ég tilkynnti hana. Ekki sökum þess að ég sé svo viðkvæm sál. Myndin þjónaði einfaldlega engum tilgangi öðrum en að sjokkera. Færslunni var ætlað að kynda undir hatri og ala á fordómum. Látum ekki ósagt að ég hef engan sérstakan áhuga á því að sjá afskorið mannshöfuð. Það fer ýmislegt betur með morgunkaffinu.
19.júl. 2016 - 16:13 Smári Pálmarsson

Draugabanar, kvenfyrirlitning og kynþáttahatur

Það getur verið vandasamt verk að endurgera sígilda kvikmynd. Maður spyr sig hvers vegna einhver finni sig knúinn til að laga það sem ekki er brotið. Að hjakka í sama farinu. Að segja sömu söguna aftur og aftur og aftur. Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt. Eru skapandi greinar ekki til þess gerðar?
07.jún. 2016 - 14:46 Smári Pálmarsson

Íslenska kvennalandsliðið er bara upp á punt

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er ágætt en saman stendur af amatör leikmönnum sé það borið saman við karlalandsliðið – eða, finnst okkur það ekki annars?
21.jan. 2016 - 21:49 Smári Pálmarsson

Ónytjungar á spena ríkisins

Samfélagið stendur á brauðfótum. Afæturnar narta í þá meðan þjóðin sveltur. Venjulegt fólk gefur blóð, svita og tár í heiðarlega vinnu og kemst svo ekki í hreint vatn til að bæta upp vökvatapið. Á meðan liggja jórturdýrin á spena hins opinbera. Við líðum ekki aðeins skort vegna þeirra. Heimsendir er yfirvofandi.
31.júl. 2015 - 12:37 Smári Pálmarsson

Elliði Vignisson, hvað er óraunverulegt kynferðisbrot?

Á Vísi.is er haft eftir bæjarstjóra Vestmannaeyja, Elliða Vignissyni, að „raunveruleg brot fari í rannsókn og eftir atvikum ákæru og endi fyrir dómstólum.“ Hér lýsir viðkomandi yfir gríðarlegri vanþekkingu, enda virðist hann líta svo á að liggi ekki fyrir kæra sé um eins konar „óraunverulegt“ kynferðisbrot að ræða. Mál sem ekki séu kærð til lögreglu og endi fyrir dómstólum teljist ekki brot.
10.jún. 2015 - 11:37 Smári Pálmarsson

Er Hildur Lillendahl holdgerving femínismans?

Það er ekkert leiðinlegra en að byrja pistil á orðabókarskilgreiningu svo ég er að hugsa um að sleppa því.
Femínisminn hefur komið í bylgjum undanfarna áratugi með mismiklum ofsa, misjöfnum árangri, og ólíkum áherslum. Það kvartar enginn yfir kosningarétti kvenna í dag þó einhverjar rauðsokkatussur hafi á sínum tíma látið illum látum og þóst æðri karlkyninu. Nei, ég segi svona. Þetta er ekki svo langt frá því hvernig umræðan er orðin um þessar mundir. Femínisminn hefur nefnilega verið í uppsveiflu.
27.mar. 2015 - 15:53 Smári Pálmarsson

Voru mistök að frelsa geirvörtuna?

Brjóstin kalla eftir frelsi og geirvartan vill vera sýnilegri í hversdagsleikanum óháð kyni. Íslenskar konur birta sjálfviljugar myndir af brjóstunum sínum og taka þátt í byltingu sem margir fagna en aðrir óttast. Engin veit hvort breyting tekur fótfestu eða hvort ríkjandi hugmyndafræði feðraveldisins nær að lokum að halda sínu striki.