09. mar. 2010 - 15:45Skúli Helgason

Icesave tefur atvinnuuppbyggingu

Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til margvíslegra aðgerða í atvinnumálum. Við verðum þó að viðurkenna um það að meðan atvinnuleysi er nærri 10% þá er ekki nóg að gert og meira þarf að koma til svo ástandið verði viðunandi. 

Ýmis verkefni eru framundan en ég vil árétta að mikilvægasta aðgerðin er vitanlega sú að skapa forsendur fyrir jöfnum og góðum hagvexti m.a. með áframhaldandi lækkun vaxta og eðlilegu fjármagnsstreymi inn í landið í formi fjárfestinga og lánsfjár til uppbyggingar atvinnulífs.  Þar er lausn Icesave málsins lykilatriði, og það er mikið ábyrgðarleysi og lýsir miklu skilningsleysi á stöðu efnahagsmála í landinu þegar menn segja að Icesave málið geti bara beðið.  Það er ekki þannig – lausn Icesave deilunnar er mikilvæg forsenda fyrir fjármögnun efnahagsáætlunar stjórnvalda og undirstaða þess að við endurheimtum traust á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og meðal erlendra fjárfesta. 

Enginn vafi er á því að sá dráttur sem orðið hefur á niðurstöðu Icesave málsins hefur þegar tafið endurreisn atvinnulífsins, jafnt hvað varðar erlendar fjárfestingar og lánveitingar m.a. til orkufyrirtækjanna.  Sem dæmi má nefna Búðarhálsvirkjun þar sem ljóst má vera að fjármögnun verður ekki tryggð á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum fyrr en Icesave málið hefur verið leitt til lykta.  Þar eru hvorki fleiri né færri en 800 störf í húfi.  Með hliðsjón af gögnum frá ASÍ og Seðlabanka Íslands má áætla að fórnarkostnaður fyrir þjóðarbúið af töf á lausn Icesave geti numið 35-40 milljörðum króna á þessu ári.

Á fjórða þúsund störf á einu ári

En þó Icesave deilan sé óleyst hefur margt verið gert í atvinnumálum.  Átak ríkisstjórnarinnar frá 6. mars 2009 hefur þegar skilað 2400 störfum og yfir þúsund afleiddum störfum,  í byggingaiðnaði, nýsköpunarfyrirtækjum, kvikmyndaiðnaði,ferðaþjónustu og víðar. Ný áætlun stjórnvalda sem kynnt var í síðasta mánuði felur í sér fjölmargar aðgerðir til viðbótar sem örva munu atvinnusköpun í fjölmörgum atvinnugreinum með sérstaka áherslu á úrræði fyrir ungt fólk.

Í tengslum við stöðugleikasáttmálann er undirbúningur hafinn að byggingu nýs Landspítala.  Framundan er hönnunarsamkeppni þar sem fimm hundruð íslenskir sérfræðingar í byggingagreinum,  munu vinna fram á sumar við að fullbúa tillögur sínar.  Fjárfestingin sjálf nemur ríflega 33 milljörðum og mun skapa a.m.k. 3000 störf á byggingatímanum. 

Stórframkvæmdir í vegamálum eru framundan, stjórnvöld hafa þegar forgangsraðað verkefnum og fremst í röðinni eru tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.  Ein af forsendum fjármögnunar þessara verka er að þingmenn allra flokka komi sér saman um hvort og þá með hvaða hætti eigi að taka upp veggjöld til að standa undir þessum fjárfestingum.  Sú vinna er komin á rekspöl og ef flokkarnir ná saman um það mál innan fárra vikna á að vera hægt að koma framkvæmdum í gang fyrir vorið.  Þessar vegabætur fela í sér 23 milljarða fjárfestingu sem mun skapa 465 ársverk. 

Uppbygging hjúkrunarrýma um land allt

Framundan er löngu tímabær uppbyggingu hjúkrunarheimila um land allt.  Um er að ræða 9 milljarða fjárfestingu í uppbyggingu 360 hjúkrunarrýma í 9 sveitarfélögum á næstu 3 árum.  Á næstu dögum og vikum verður gengið frá samningum við viðkomandi sveitarfélög um þessa uppbyggingu.  Þessi verkefni munu skapa um 1200 störf.

Mikil þörf er fyrir uppbyggingu aðstöðu og afþreyingarmöguleika á fjölsóttum ferðamannastöðum og er nýjum framkvæmdasjóði ferðaþjónustunnar ætlað að svara þessari þörf.  Stjórnvöld og lífeyrissjóðirnir eiga einnig í viðræðum um fjármögnun á annars vegar nýrri samgöngumiðstöð í Reykjavík og hins vegar stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri en þessi verkefni eru bæði það langt komin í undirbúningi að framkvæmdir gætu hafist strax í sumar.  Um er að ræða fjárfestingar fyrir 4-4,5 milljarða króna sem ætla má að skapi um eða yfir 200 störf á byggingatíma.

Í orkugeiranum höfum við hingað til einblínt á álver en áhugi erlendra fjárfesta í öðrum greinum, þar á meðal grænum iðnaði hefur sjaldan verið meiri.  Þar vantar okkur hins vegar skýra orkunýtingarstefnu sem tryggir nýjum greinum framboð á orku sérstaklega hér á SV horninu. Þetta kallar á nýja hugsun, kjark til að forgangsraða í þágu fjölbreytts atvinnulífs, sem skilar hámarks verðmætum í þjóðarbúið.

Aðgerðir fyrir atvinnuleitendur

En skyldur okkar í atvinnumálum eru ekki síst við þann mikla fjölda sem ekki hefur atvinnu, þá 15 þúsund einstaklinga sem eru án atvinnu og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa skipað starfshóp með aðilum vinnumarkaðarins sem m.a. á að leggja fram tillögur um frekari aðgerðir sem beinist sérstaklega að þessum hópi atvinnuleitenda.

Meginmálið er þetta, ríkisstjórnarflokkarnir eru mjög meðvitaðir um það forgangsverkefni sitt að efla atvinnulífið í landinu og draga úr atvinnuleysi.  Margt hefur verið gert, enn fleira er á döfinni eins og ég hef rakið og verkefninu er ekki lokið fyrr en við höfum komið öllum vinnufúsum höndum til verka í þessu landi.  Það kallar á stórátak og nána samvinnu stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta sem vilja leggja okkur lið við að endurreisa íslenskt atvinnulíf með fjölbreytni og sjálfbæran vöxt að leiðarljósi.
27.nóv. 2011 - 17:30 Skúli Helgason

Vistaskipti

Ég hef ákveðið að flytja mig um set í bloggheimum og kveð nú Pressuna en held á nýjar slóðir.  

16.ágú. 2011 - 19:00 Skúli Helgason

Alvöru lausn

Málefni Kvikmyndaskóla Íslands hafa verið í brennidepli undanfarnar vikur en skólinn glímir við erfiðan rekstrarvanda. Starfsfólk hefur ekki fengið greidd laun í nokkra mánuði og þungur skuldabaggi hvílir á rekstrinum. Nemendur og aðstandendur hafa því verið í nokkurri óvissu um framtíð skólans.
20.maí 2011 - 18:00 Skúli Helgason

Þjóðtungan og táknmálið

Nú hyllir undir að Alþingi samþykki sögulegt frumvarp menntamálaráðherra þar sem í fyrsta sinn er sett í lög að íslenskan skuli vera þjóðtunga Íslendinga.  Frumvarpið markar líka tímamót því þar er í fyrsta sinn viðurkennd staða íslensks táknmáls sem fyrsta máls heyrnarlausra, heyrnarskertra, daufblindra og annarra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta.  Menntamálanefnd Alþingis afgreiddi málið frá sér í vikunni í fullri sátt þvert á flokka.  

23.apr. 2011 - 14:00 Skúli Helgason

Fjölmiðlalög staðfest

Forseti Íslands hefur staðfest heildarlög um fjölmiðla sem Alþingi samþykkti með tveimur þriðju hluta atkvæða þann 15. apríl.  Lögin hafa fengið nokkra umfjöllun að undanförnu m.a. í tengslum við undirskriftasöfnun sem nokkrir fjölmiðlar s.s. Útvarp Saga, ÍNN og 365 miðlar stóðu fyrir.  Þar var skorað á forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar m.a. með vísan til fyrri ákvörðunar forsetans um að synja lögum staðfestingar sem Alþingi setti í maí 2004 og hafa jafnan verið kölluð fjölmiðlalög.  Forseta var þar freistað með sömu rökum og hann beitti sjálfur til að styðja þá ákvörðun sína að vísa Icesave 3 til þjóðarinnar rétt eins og Icesave 2.  
19.apr. 2011 - 18:00 Skúli Helgason

Þjóðin kjósi um kvótann

Samtök atvinnulífsins hafa tekið kjarabætur almennra launþega í gíslingu með kröfu sinni um að samþykkja ekki kjarasamninga nema sjávarútvegsmál verði leidd til lykta með niðurstöðu sem þjónar hagsmunum útgerðarmanna. 
15.apr. 2011 - 18:10 Skúli Helgason

Fjölmiðlalög samþykkt

Ný heildarlög um fjölmiðla voru samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á Alþingi í dag.  Það er í fyrsta sinn sem heildarlög um fjölmiðla eru sett á Íslandi og erum við þar með komin á blað með öðrum þjóðum álfunnar sem sett hafa almennan ramma um starfsemi fjölmiðla.
05.apr. 2011 - 12:30 Skúli Helgason

Helst um Icesave

Með því að segja nei á laugardag borgum við skuldir óreiðumanna í formi hærri skatta, meiri niðurskurðar, lægri hagvaxtar, hærri vaxtakostnaðar og minni fjárfestinga á næstu árum. 
16.feb. 2011 - 22:00 Skúli Helgason

Hálfur annar Icesave

Icesave samningurinn var samþykktur á Alþingi í dag með öruggum meirihluta þingmanna. Málið er kýrskýrt í mínum huga, það er ekkert vit í öðru en að samþykkja þennan samning. Hér er á borðinu samningur sem getur kostað þjóðina 47 milljarða króna miðað við núverandi mat á heimtum eigna úr þrotabúi gamla Landsbankans. 

09.feb. 2011 - 13:30 Skúli Helgason

Stærsta atvinnumálið

Allir vita að atvinnuleysi er eitt af helstu vandamálum samfélagsins eftir bankahrun. Harðast kemur það niður á ungu fólki en 15,2% ungmenna á aldrinum 16-24 ára var án atvinnu á síðasta ársfjórðungi 2010 samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Það skýtur því skökku við að í helstu vaxtargreinum atvinnulífsins, þar með talið hugverkaiðnaðinum er mikil eftirspurn eftir nýju vinnuafli – en framboð lítið sem ekkert. 
31.des. 2010 - 20:00 Skúli Helgason

Ár umhleypinga kveður

Árið 2010 siglir nú inn í fortíðina. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár og það rammast inn af Icesave deilunni, árið hófst á því að forsetinn neitaði að staðfesta lög Alþingis um Icesave samning sem þá voru borin undir þjóðina og felld úr gildi í allsherjar atkvæðagreiðslu. Nú tæpu ári síðar liggur nýr samningur á borðinu, öllu hagstæðari en sá fyrri og von til þess að hann verði lögfestur á Alþingi fljótlega á nýju ári.
15.des. 2010 - 22:15 Skúli Helgason

Þetta er að koma

Ríkisstjórnin er að koma afdrifaríkum málum í höfn þessa dagana eftir langar og strangar fæðingarhríðir. 

14.des. 2010 - 20:35 Skúli Helgason

Menntaskólinn Hraðbraut

Menntamálanefnd Alþingis hefur lokið umfjöllun sinni um skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Menntaskólans Hraðbrautar og er gerð grein fyrir henni í skýrslu nefndarinnar sem aðgengileg er á vef Alþingis.  Hér á eftir fara valdir kaflar úr skýrslunni með áherslu á álit meirihluta nefndarinnar en hann skipuðu fulltrúar Samfylkingarinnar, VG, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks skiluðu séráliti.
01.des. 2010 - 16:20 Skúli Helgason

Skapandi þjóð

Skapandi greinar hefur burði til að verða arftaki stóriðjunnar sem aflstöð íslensks atvinnulífs. Þessa ályktun má draga af fyrstu niðurstöðum rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina á Íslandi, sem kynntar voru á opnum fundi í Bíó Paradís í morgun. Þar kom fram að virðisaukaskyld velta í greininni nam heilum 191 milljarði króna árið 2009 og tæp 10 þúsund manns störfuðu í greininni árið 2009. Það eru tæp 6% af heildarfjölda á vinnumarkaði.
02.nóv. 2010 - 11:00 Skúli Helgason

Næst á dagskrá: Framtíðin

Við tölum alltof mikið um fortíðina. Við Íslendingar erum því miður með augun fest í baksýnisspeglinum.  Viðfangsefni dagsins eru skuldavandi heimila og fyrirtækja, almenn niðurfærsla skulda, sökudólgar bankahrunsins o.s.frv. Allt mikilvæg verkefni sem þarf að leysa en þar fyrir utan er nauðsynlegt að varða veginn inn í framtíðina og þar eigum við mikið verk að vinna. 
20.okt. 2010 - 17:00 Skúli Helgason

Ríkisendurskoðun gagnrýnir samningsbrot

Á fundi menntamálanefndar Alþingis í gær var fjallað um tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamninga menntamálaráðuneytis við tvo einkaskóla: Menntaskólann Hraðbraut og Keili á Suðurnesjum. 
13.okt. 2010 - 12:01 Skúli Helgason

Gullkálfur berst í bökkum

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefst í dag og stendur í fimm daga.  Hátíðin er nú haldin í ellefta sinn og hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg svo maður beiti nú fyrir sig líkingamáli sem mörlandinn skilur.  Iceland Airwaves er langstærsta tónlistarhátíð landsins og skartar 280 tónleikum, 300 listamönnum og nokkur hundruð hliðarviðburðum að auki.  Yfir 2300 erlendir gestir sækja hátíðina heim, þar af 400 blaðamenn, auk útsendara erlendra tónlistarhátíða, útgefenda og áhugamanna um tónlist frá öllum heimhornum.    Fjallað er um hátíðina, ekki aðeins í löndum engilsaxa og skandinava heldur hefur hróður hátíðarinnar borist til Japan og Brasilíu svo dæmi séu tekin.
07.okt. 2010 - 14:25 Skúli Helgason

Nýjar lausnir á skuldavanda heimila

Mótmælin síðustu daga staðfesta að við erum enn stödd í miðri byltingu, bankahrunið hefur skilið eftir sig langan slóða sem mun taka mörg ár að vinna úr.
28.sep. 2010 - 21:22 Skúli Helgason

Ákærur á hendur ráðherrum

Þingheimur greiddi í dag atkvæði um ákærur á hendur fjórum ráðherrum í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, sem sat frá vormánuðum 2007 fram yfir bankahrun.   Ég greiddi atkvæði með ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde en gegn ákærum á hina ráðherrana þrjá: Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrrverandi utanríkisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra.  Rökin er að finna hér í útdrætti af ræðu sem ég flutti við síðari umræðu málsins á Alþingi í dag.
21.sep. 2010 - 15:30 Skúli Helgason

Réttlæti eða fyrning?

Við í Samfylkingunni berum sannarlega ákveðna ábyrgð á mistökum og vanrækslusyndum mánuðina fyrir bankahrun.  Minn flokkur sýndi andvaraleysi og hefði átt að bregðast við með kröftugri aðgerðum þegar ljóst var að stefndi í hreint óefni.   Það hefði ekki afstýrt hruninu ef marka má niðurstöðu RNA en það hefði getað dregið úr afleiðingum þess fyrir almenning.  En það er viðsnúningur á staðreyndum og í hrópandi mótsögn við eina meginniðurstöðu skýrslu RNA að skella skuldinni fyrst og fremst á þá ráðherra sem sátu í ríkisstjórn eftir 2006 þegar fjármálakerfið var þegar komið í slíkt öngstræti að því var í reynd ekki við bjargandi. 
05.sep. 2010 - 11:48 Skúli Helgason

Gjald fellur niður

Nú þegar stoppa þarf í stóra fjárlagagatið eftir bankahrunið þarf því miður að leggja meiri byrðar á landsmenn, skítt sem það nú er.  Þá er gott að geta létt af gjöldum sem ekki er lengur grundvöllur fyrir.  Nú hyllir undir að eitt slíkt heyri sögunni til.

Skúli Helgason

Þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Hann er formaður menntamálanefndar Alþingis og situr jafnframt í viðskiptanefnd og umhverfisnefnd.

Framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar frá 2006 til 2009.  Útgáfustjóri tónlistardeildar Eddu útgáfu frá 2001-2003, framkvæmdastjóri innlendra viðburða hjá Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000 og starfaði um árabil í fjölmiðlum, á Ríkisútvarpinu og hjá Bylgjunni.  

Skúli er stjórnmálafræðingur að mennt, með meistaragráðu frá Minnesota háskóla í Bandaríkjunum.  BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.3.2018
Klæðast eins og niðursetningar í þingsal
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 28.2.2018
Af högum mínum: Svar til blaðamanns
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 22.2.2018
Umskurður drengja
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson - 22.2.2018
Gyðingdómur í sögu og samtíð - námskeið
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 24.2.2018
Hann kaus frelsið
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 27.2.2018
Vita stjórnvöld hvað er barni fyrir bestu?
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 07.3.2018
Já, það er komið Vor í verkó!
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 14.3.2018
Stöðugleikasáttmáli alþýðunnar
Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson - 12.3.2018
Jafnasti oddvitinn?
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.3.2018
Þrír hugsjónamenn gegn alræði
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 18.3.2018
Hádeisverður í Stellenbosch
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.3.2018
Böðullinn drepur alltaf tvisvar
Fleiri pressupennar