15. feb. 2016 - 17:00Sigurvin Ólafsson

Þegar ég tapaði fyrir Hæstarétti

Einhverjir helsjúkir áhugamenn um réttarríkið og endurútreikning gengistryggðra lána hafa kannski rekið augun í að á síðasta ári fór ég í mál við Landsbankann, þ.e.a.s. ég prívat og persónulega. Það mál rataði að lokum til Hæstaréttar þar sem ég að endingu tapaði, með dómi sem féll núna rétt fyrir jól.

Mig langar í sem fæstum mögulegum orðum að útskýra þetta brölt mitt fyrir dómstólum, á eins einfaldan hátt og mér er unnt, og segja frá því hvernig þessi upplifun var.

Þrátt fyrir að ég vilji segja sögu mína í fáum orðum, þá er greinin dálítið löng. Á köflum kann greinin að vera flókin og þurr en það er algengur fylgikvilli texta um lögfræði. Ég reyni mitt besta að hafa þetta létt en ég bendi ykkur líka á þann valkost að „skrolla“ niður í kaflann sem heitir „Á mannamáli“ ef þið viljið styttri leiðina að kjarna þess sem ég vil segja af svaðilförum mínum fyrir dómstólum.

.

Aðdragandi málsins

Aðdragandi málsins er sá að ég hef alveg frá því byrjað var að endurútreikna og leiðrétta gengislán, árið 2010, talið að í útreikningum bankanna hafi verið ólögmæt skekkja. Skekkjan var almennt ekki mikil í krónum talið en gat þó numið töluverðum fjárhæðum ef lánin voru stór. Upphæðirnar trufluðu mig þó ekki mest heldur frekar að skekkjan var óhjákvæmilega alltaf bönkunum í vil. Mér fannst það dálítið ósanngjarnt.

Mörgum þótti þetta vera ómerkilegt tuð í mér, enda munaði oft bara einhverjum þúsundköllum til eða frá í útreikningunum. En þannig vill það oft vera með prinsipp-málin. Svo spurði ég líka á móti: Fyrst þetta eru svona litlar upphæðir, mega þær þá ekki bara lenda hjá lántakendum frekar en hjá bönkunum?

En yfir hverju var ég að tuða? Jú, ég var að tuða yfir því að bankarnir endurútreiknuðu lánin með svokölluðum vaxtavöxtum. Ég ætla að reyna að útskýra vaxtavexti á mannamáli.

.

Vaxtavextir

Samkvæmt íslenskum lögum þá eru vaxtavextir í lánum þannig, sem einfalt dæmi:

 • a) Þú tekur 1.000 kr. að láni og semur um að greiða 10% ársvexti, sem þýðir að bankinn á rétt á 100 kr. í vexti á ári.
 • b) Í heilt ár greiðir þú enga vexti til bankans.
 • c) Bankinn má þá taka þessar 100 kr. sem þú greiddir ekki og bæta þeim við lánið, sem stendur þá í 1.100 kr.
 • d) Í framhaldinu má bankinn reikna 10% ársvexti af 1.100 kr., í stað 1.000 kr. eins og árið áður. Hann fær þá 110 kr. í vexti það árið í staðinn fyrir 100 kr. árið áður. Og svo koll af kolli.

Þetta eru sumsé vaxtavextir, þegar ógreiddum vöxtum er bætt við höfuðstól og vextir eru svo reiknaðir af þeirri nýju upphæð sem þar fæst. Hugmyndin að baki þessu fyrirbæri er að bæta stöðu kröfuhafa sem átti rétt á vöxtum en fékk þá ekki greidda í heilt ár eða meira, því hann hefur þá misst af tækifæri til að ávaxta eða nýta vaxtatekjurnar sínar. Vaxtavextir bæta honum þann missi.

.

Málið mitt

Árið 2008 tók ég lán. Árið 2010 var lánið leiðrétt og endurútreiknað, þannig að þá stóð það í 1,4 m.kr. Árið 2013 kom í ljós að leiðréttingin frá 2010 var röng, lánið hefði með réttu átt að standa í 1,2 m.kr. árið 2010. Það lá því fyrir að frá 2010 til 2013 hafði ég greitt mánaðarlega af of háu láni. Ég hafði sumsé verið rukkaður um of mikið í hverjum mánuði, bæði í afborganir og vexti. Bankinn viðurkenndi það og tók til við að leiðrétta lánið vegna þessara ofgreiðslna minna.

Bankinn leiðrétti lánið í samræmi við aðferðafræði vaxtalaga, þannig að hann tók rétta stöðu lánsins 2010, sem var 1,2 m.kr., og lagði á hana seðlabankavexti til 2013. Það var í góðu lagi mín vegna en verra var að bankinn bætti við vaxtavöxtum á hverju ári sem leið á útreikningstímabilinu. Sá útreikningur gaf bankanum auðvitað hærri vaxtafjárhæð en ella.

Út úr þessum útreikningi fékk bankinn töluna 1,6 m.kr. og í samræmi við vaxtalög þá dró hann frá þeirri tölu allar mínar innborganir á sama tímabili, vaxtareiknaðar með sama hætti, sem sagt með vöxtum og vaxtavöxtum. Augljóslega græddi ég minna á útreikningi með vaxtavöxtum heldur en bankinn, enda voru mínar upphæðir miklu lægri. Niðurstaða bankans eftir útreikninginn var að ég skuldaði honum ennþá 520 þús. kr.

Ég tók mig til og endurútreiknaði lánið sjálfur, með nákvæmlega sama hætti og bankinn hafði gert, nema að ég sleppti því að reikna með vaxtavöxtum, bæði á lánið og mínar afborganir. Niðurstaða mín var að ég skuldaði bankanum 505 þús. kr., eða um 15 þús. kr. minna en bankinn vildi meina.

Ég taldi að bankanum hafi ekki verið heimilt samkvæmt lögum að endurútreikna lánið með vaxtavöxtum og krafðist viðurkenningar á því fyrir dómi.

.

Vaxtavextir í íslenskum lögum

Í málinu vísaði ég til þess að í íslenskum lögum er aðeins að finna eitt lagaákvæði sem heimilar vaxtavexti, það er í 12. gr. vaxtalaga. Þar eru sett skýr skilyrði fyrir því hvenær má reikna sér vaxtavexti, sem hljóða svona:

 sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð.

 Á mannamáli: Til að einhver geti reiknað sér vaxtavexti, þá þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt;

 1. vaxtatímabilið þarf að vera lengra en ár og
 2. að vextirnir hafi ekki verið greiddir á vaxtatímabilinu.

Í endurútreikningi míns láns voru reiknaðir vextir á lánið frá 2010 til 2013, sem sagt, vaxtatímabilið var lengra en tólf mánuðir. Allt í góðu þar, skilyrði nr. 1 uppfyllt. En skilyrði nr. 2, um að vextirnir hafi ekki verið greiddir á tímabilinu, það var ekki uppfyllt í mínu tilviki. Eiginlega bara alls ekki, því ég hafði ekki aðeins greitt bankanum vextina, heldur hafði ég ofgreitt vexti á hverjum einasta gjalddaga. Þessar vaxtaofgreiðslur mínar voru einmitt ástæðan fyrir því að bankinn var yfirhöfuð að leiðrétta lánið!

Ég fór því með það sjónarmið fyrir dóm að þessi vaxtataka bankans væri ólögleg. Þar fyrir utan benti ég á að mér þætti vaxtatakan órökrétt enda væri hún í mótsögn við hugmyndina að baki þessu fyrirbæri sem vaxtavextir eru, sem er eins og fyrr segir, að bæta einhverjum að hafa ekki fengið greidda vexti í heilt ár eða meira. Bankinn var svo sannarlega ekki í þeirri stöðu í mínu máli, enda hafði hann fengið vextina ofgreidda.

.

Niðurstaða Hæstaréttar

Héraðsdómur dæmdi mér í óhag, því að hann komst að þeirri undarlegu niðurstöðu að ég hafi ekki greitt vextina, og þess vegna hafi bankanum verið heimilt samkvæmt lögum að reikna sér vaxtavexti. Það er óumdeilt að það er rangt, ég auðvitað greiddi vextina, óþarfi að eyða frekari orðum í það. Ég áfrýjaði því málinu til Hæstaréttar en tapaði líka þar, naumlega þó, 2-1.

Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar var ekki byggt á röksemdum bankans í málinu og ekki byggt á niðurstöðu héraðsdóms. En af hverju vann ég þá ekki málið? Hvernig komst meirihluti Hæstiréttur að því að bankanum hafi verið heimilt að reikna sér vaxtavexti þó að skilyrði laga fyrir því hafi ekki verið fullnægt í mínu tilviki?

Það er undarlegt að segja frá því en Hæstiréttur útskýrði ekki hvernig það samrýmist lögum að leggja vaxtavexti á lán þegar vextirnir hafa sannarlega verið greiddir. Niðurstaða meirihlutans virðist því beinlínis stangast á við lög landsins. Og ekki bara venjuleg lög, því það má líka benda á eitt af fáum ákvæðum Stjórnarskrárinnar um dómstóla, en þar segir í 61. gr. að:

Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.

Eitthvað varð meirihluti réttarins þó að nefna sem ástæðu eða rökstuðning fyrir því að dæma mér í óhag. Hann fór þá leið að segja að í rökstuðningi mínum hafi ég haldið því fram að það mætti aðeins reikna vaxtavexti í tilviki vanskila. Það vissi meirihlutinn þó að var ekki rétt, ég byggði ekki á því, eins og ég minntist sérstaklega á í greinargerð minni og ræðu fyrir dóminum.

Það skiptir hins vegar engu máli jafnvel þó að ég hefði haldið því fram og byggt á því, alveg eins og það hefði engu máli skipt þó að ég hefði fullyrt fyrir réttinum að himinninn væri grænn eða jörðin flöt. Það breytti engu um þá fullyrðingu mína, að lagaskilyrði fyrir töku vaxtavaxta var ekki fullnægt í mínu tilviki því að ég hafði greitt vextina. Sú fullyrðing stóð óhögguð hvað sem öðru leið og henni var ekki hnekkt eða svarað af meirihluta dómsins. Samt tapaði ég.

.

Á mannamáli

Eflaust eru einhverjir búnir að missa þráðinn. Við getum prófað, til einföldunar, að breyta málinu í samræður á milli mín og Hæstaréttar, á mannamáli. Það kæmi einhvern veginn svona út:

 • Ég: „Ég vil fá dóm sem segir að bankinn mátti ekki reikna vaxtavexti, því það segir í lögum að það megi bara reikna vaxtavexti ef vextir hafa ekki verið greiddir. Ég greiddi vextina. Bankinn hefði bara mátt reikna vaxtavexti ef ég hefði verið í vanskilum með lánið.“
 • Hæstiréttur: „Ertu að segja að það megi bara reikna vaxtavexti ef lán er í vanskilum? Það er ekki alveg rétt hjá þér, það má alveg hugsa sér dæmi um vaxtavexti á lán þó að þau séu ekki vanskilum.“
 • Ég: „Nei, ég er ekki að meina það. Ég er að meina að í mínu tilfelli hefðu vanskil verið eina leiðin fyrir bankann að reikna sér vaxtavexti, sem sagt ef ég hefði ekki greitt vextina. En þetta skiptir engu máli hvort eð er, ég greiddi vextina og ég er að spyrja ykkur hvort að þá sé nokkuð hægt að reikna vaxtavexti.“
 • Hæstiréttur: „Jú, við teljum að þú sért víst að meina þetta, að það verði að vera vanskil til að mega reikna vaxtavexti.“
 • Ég: „Ha? Nei. En hvað um það, getum við þá snúið okkur að spurningu málsins: Mátti bankinn reikna vaxtavexti þó að ég hafi greitt vextina?“
 • Hæstiréttur: „Já, við lítum svo á að bankinn hafi mátt reikna með vaxtavöxtum af því okkur finnst þú hafa sagt að það megi bara reikna vaxtavexti í tilviki vanskila. Og það er ekki alveg rétt.“ (stendur upp)
 • Ég: „Já, en lögin segja að það megi bara reikna vaxtavexti ef vextirnir hafa ekki verið greiddir, og ég greiddi vextina. Hvað segið þið um það?“
 • Hæstiréttur: (farinn)

Niðurstaðan er því sú að krafan mín í málinu er rétt en Hæstiréttur hafnað henni samt, vegna þess að hann taldi sig sjá staðreyndavillu í rökstuðningi mínum fyrir kröfunni.

Þetta rugl minnir dálítið á þegar náunginn fíflaðist með útilokunarregluna í „Viltu vinna milljón“ um árið. Keppandinn var þar spurður, hvaða forseti var myrtur í Dallas árið 1963? Hann hugsaði upphátt og sagði:

Það getur ekki verið A: Reagan, því hann var aldrei forseti; það getur ekki verið B: Washington, því hann er ekki einu sinni dáinn; og ekki er það C: Obama, hann dó þegar hann flaug á turnana um árið. Þannig að þetta hlýtur að vera D: Kennedy.

Keppandinn fékk að halda áfram því að þrátt fyrir allt ruglið þá svaraði hann því rétt sem um var spurt og skipti máli. Hæstiréttur hefði hins vegar dæmt hann úr leik af því að Washington er dáinn.

.

Að lokum

Ég segi í heiti þessarar greinar að ég hafi tapað fyrir Hæstarétti. Það meina ég í þeim skilningi að mér líður eins og Hæstiréttur hafi lagt mig. Bankinn gat ekki sýnt fram á að lagaskilyrðum til að leggja vaxtavexti á mitt lán væri fullnægt, þannig að ég get eiginlega ekki samþykkt að ég hafi tapað fyrir bankanum.

Mér finnst eins og Hæstiréttur hafi gripið inní og bjargað bankanum. Það þykir mér heldur súrt enda var mér ekki kunnugt um að Hæstiréttur væri með í leiknum, ég hélt að hann ætti bara að dæma. Og dæma eftir lögunum.

Og já. Ég er tapsár.
19.jan. 2015 - 07:00 Sigurvin Ólafsson

Má þetta?

Hjá fjármálafyrirtækinu Lýsingu starfar sérstakur upplýsingafulltrúi. Hann hefur gagnast vel þegar ég og aðrir höfum verið að forvitnast, jafnvel agnúast, út í eitt og annað sem Lýsing gerir eða gerir ekki. Yfirleitt hefur hann þá verið með svör og upplýsingar á reiðum höndum. Jafnvel mjög reiðum. Alla vega, ég er með eina spurningu sem ég vona að umræddur upplýsingafulltrúi sjái sér fært um að svara fyrir hönd Lýsingar.
12.jan. 2015 - 12:00 Sigurvin Ólafsson

Slæm Lýsing (Staðfest)

Fyrir um það bil hálfu ári birti ég grein á Pressunni undir heitinu ,,Slæm Lýsing”. Tilefni þeirra skrifa var sú háttsemi Lýsingar að leiðrétta ekki lán umbjóðanda míns þó að dómur lægi fyrir um rétt hans til leiðréttingar. Í kjölfar greinarinnar höfðu margir samband við mig og spurðu hreint út hvort að Lýsing gæti virkilega komist upp með þetta og hvað væri eiginlega hægt að gera.
15.ágú. 2014 - 11:30 Sigurvin Ólafsson

Slæm Lýsing

Það hefur verið kostulegt að fylgjast með fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu síðustu misserin og oft hefur manni klæjað í rithöndina að deila uppátækjum fyrirtækisins með þjóðinni á síðum fjölmiðla.
13.feb. 2014 - 18:12 Sigurvin Ólafsson

Opið bréf til þeirra sem tóku gengislán eða gerðu gengistryggða bílasamninga

Það er óhætt að segja að það hafi verið stormasamt hjá ykkur síðustu misserin, með hæðum og lægðum á víxl. Ég ætla að rifja það aðeins upp með ykkur. Þetta byrjaði á því að þið tókuð lán og/eða gerðuð bílasamning sem leit út fyrir að vera nokkuð hagstæður. Að minnsta kosti kynntu sérfræðingar fjármálafyrirtækjanna ykkur lánin þannig þegar þið tókuð þau. Þá var veðrið fínt.
 
08.okt. 2013 - 17:15 Sigurvin Ólafsson

Um sporðdreka og froska

Enn liggur mér á hjarta að fjalla um gengislán og endurútreikninga. Þeir sem eru komnir með leið á þeim málum geta fært sig yfir á aðrar síður núna, en ég hvet lesendur þó til að gefa þessu fimm mínútur.
26.ágú. 2013 - 09:30 Sigurvin Ólafsson

Happdrætti Hæstaréttar

Fyrr í sumar birti ég grein hér á Pressunni um „Leif óheppna“. Með því vildi ég vekja athygli á þeirri einkennilegu stöðu sem nú er uppi varðandi ágreiningsmál um hvort lán teljist hafa verið ólögmæt gengistryggð lán eða lögmæt erlend lán. Í því sambandi virðist skipta máli hjá hvaða banka lánið var tekið, jafnvel þó allir bankarnir hafi grímulaust auglýst og kynnt fyrir lántakendum að þeir byðu upp á gengistryggð lán. Í mínum huga er þessi niðurstaða órökrétt og ósanngjörn enda leiðir hún til þess að á grundvelli tilviljunar stendur einn lántakandi eftir með leiðrétt og sanngjarnt lán en annar situr uppi með lán sem hefur tvöfaldast eða þrefaldast að höfuðstól, jafnvel þó báðir hafi í raun verið að gera það nákvæmlega sama.
06.jún. 2013 - 15:00 Sigurvin Ólafsson

Leifur óheppni

Einu sinni var maður sem hét Leifur. Hann þurfti að taka krónur að láni hjá banka. Þetta var snemma árs 2005. Hann ákvað að kíkja aðeins í greinasafn Morgunblaðsins til að athuga hvað bankarnir hefðu verið að auglýsa í þeim efnum upp á síðkastið. 
25.apr. 2013 - 11:00 Sigurvin Ólafsson

Computer says no

Í störfum mínum sem lögmaður hef ég kynnst ýmsu.  Við að sinna hagsmunum umbjóðenda minna mæti ég til dæmis einstaka sinnum hindrunum sem eru ósanngjarnar og órökréttar.  Oft er þá erfitt fyrir mig að útskýra fyrir þeim sem leita til mín hvers vegna þeir geti ekki náð því fram sem þeir voru að leitast eftir.
15.ágú. 2012 - 10:07 Sigurvin Ólafsson

Geta ólögmæt lán verið í vanskilum?

Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson, lögmenn. Heildarniðurstaðan af uppgjöri Hæstaréttar um gengislán bankanna, sem þjóðin beið í ofvæni eftir, er því sú, því miður, að fyrir lántakendur er það tilviljun háð hvort að gengislán þeirra teljist lögmæt eða ólögmæt. Útaf fyrir sig er sú niðurstaða óeðlileg og ósanngjörn, en sú staða verður enn alvarlegri þegar fyrrgreind háttsemi og ástæður bankanna fyrir lánveitingunum eru hafðar í huga.
23.feb. 2012 - 18:20 Sigurvin Ólafsson

Lúðvík og Sigurvin: Hæstiréttur eyðir óvissu

Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson. Eftir að Hæstiréttur sveiflaði nýverið lagasverðinu bjarta og skar á hnúta viðvarandi deilna um uppgjör á ólögmætum gengistryggðum lánum hefur mikilli óvissu um það verið eytt, öfugt við það sem talsmenn fjármálafyrirtækja og einstaka stjórnmálamenn hafa haldið fram. Rétturinn kvað uppúr um að fyrri greiðslur skuldara af lánum sínum teldust fullnaðargreiðslur og að kröfuhafar ættu engan rétt til þess að krefjast frekari greiðslna vegna tímabilsins fram til þess að viðurkennt var að þeir höfðu veitt þeim ólögmæt lán. 
03.des. 2011 - 10:00 Sigurvin Ólafsson

Blinda auga Hæstaréttar

 Sigurvin Ólafsson. Strútsaðferðin í gengistryggingarmálum

Þegar lögfræðileg ágreiningsmál eru krufin hættir lögfræðingum og öðrum lögspekingum oft til að gerast full bókstaflegir og flækja sig gjarnan í fen orðalagstúlkana og þess sem skráð hefur verið á blað, jafnvel þannig að formið verði æðra efninu. Undirritaður er engin undantekning frá því.

Sigurvin Ólafsson
Héraðsdómslögmaður og meðeigandi Bonafide lögmanna.
sætaSvínið: pasrtýkaroke
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar