06. jún. 2013 - 15:00Sigurvin Ólafsson

Leifur óheppni

Einu sinni var maður sem hét Leifur. Hann þurfti að taka krónur að láni hjá banka. Þetta var snemma árs 2005. Hann ákvað að kíkja aðeins í greinasafn Morgunblaðsins til að athuga hvað bankarnir hefðu verið að auglýsa í þeim efnum upp á síðkastið. 

Hann rak augun strax í það að Íslandsbanki virtist nýverið hafa gerst frumkvöðull þess að bjóða viðskiptavinum upp á svokölluð gengislán eða gengistryggð lán. 

Fyrst rakst hann á þessa gömlu grein frá framkvæmdastjóra Íslandsbanka. Þar fjallaði framkvæmdastjórinn um hin svokölluðu gengislán sem bankinn hafði nýverið hleypt af stokkunum og lýsti þeim þannig að þau væru í íslenskum krónum tengd erlendum gjaldmiðlum.

Næst sá hann þessa grein eftir annan starfsmann Íslandsbanka þar sem var fjallað um kosti og galla gengistryggðra lána. Í greininni var varað við þeirri áhættu að höfuðstóll lánsins myndi hækka ef að krónan myndi veikjast (sem nota bene getur ekki átt við um erlent lán).

Svo fletti hann loks upp þessari grein eftir þriðja starfsmann Íslandsbanka þar sem farið var yfir kosti og galla þeirra lána sem bankinn bauð upp á. Þau voru í grunninn tvenns konar, annars vegar verðtryggð lán og hins vegar gengistryggð lán með jöfnum afborgunum. Leifi leist vel á það síðarnefnda.

Eftir þessa skoðun Leifs virtist þetta vera alveg borðliggjandi. Hann gat fengið lán með áður óþekktum lágum vöxtum og þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af verðbólgunni á Íslandi. Af greinunum gat hann séð að eina áhættan var ef að krónan myndi veikjast en bæði sagan og sérfræðingar Íslandsbanka sögðu honum að það þyrfti mikið að gerast til þess að lánið kæmist í grennd við þau lán sem almennt buðust. Hann var því alveg reiðubúinn að taka á sig þessa gengisáhættu. Það sem hann vissi hins vegar ekki, en Íslandsbanki vissi eða átti að vita, var að lán af þessu tagi höfðu verið bönnuð með lögum árið 2001, einmitt í því skyni að vernda lántakendur fyrir þessari áhættu.

Alla vega, Leifur kýldi á þetta og fór í Íslandsbanka og bað um 10 milljón króna gengistryggt lán. Þar skrifaði hann undir yfirlýsingu um að bankinn hefði gert honum grein fyrir því að þróun gengis gæti haft áhrif á höfuðstól lánsins. Það var nú lítið mál að rita undir það, enda vissi Leifur vel af gengisáhættunni, hafandi kynnt sér gengistryggðu lánin í auglýsingum bankans. Degi síðar var hann kallaður aftur í bankann til að skrifa undir skuldabréf og í framhaldinu lagði bankinn 10 milljónir króna inn á reikning hjá honum.

Næstu árin voru áfallalaus, Leifur borgaði af láninu eins og um hafði verið samið, í íslenskum krónum, og allt var bara í fínu standi. Þegar nálgaðist árið 2008 fóru afborganirnar að hækka dálítið. Eftir hrunið þá höfðu þær næstum þrefaldast frá því árið 2005 og lánið stóð nú skyndilega í u.þ.b. 25 milljónum króna.

Nú var illt í efni og Leifur barðist í bökkum við að halda sér á floti fjárhagslega. Það birti hins vegar til árið 2010 þegar dómstólar staðfestu að gengistryggð lán væru ólögmæt. Það vakti með Leifi von um betri tíð og ekki versnaði það þegar hann frétti af því að nágranni hans sem hafði tekið gengistryggt lán hjá Landsbanka Íslands hefði fengið leiðréttingu á láninu vegna dómanna.

Leifur beið því eftir að fá sömu leiðréttingu frá Íslandsbanka en gafst upp á biðinni og kíkti í heimsókn til bankans. Þar fékk hann þær fréttir að Íslandsbanki væri eitthvað að gæla við að skilgreina lánið hans sem lán í erlendri mynt en ekki í íslenskum krónum, þannig að það væri þá kannski eftir allt saman ekki gengistryggt lán. Leifur varð auðvitað hissa á þessu, því bankinn sjálfur hafði aldrei talað við hann um neitt annað en gengistryggt lán í íslenskum krónum. 

Hann varð þó fyrst furðu lostinn þegar hann frétti að Hæstiréttur hefði fallist á þessi sjónarmið Íslandsbanka og komist að þeirri niðurstöðu að lán eins og það sem hann tók hafi bara ekkert verið gengistryggt lán heldur löglegt erlent lán. Ekki nóg með það, þá voru allir sjö dómararnir sammála og alveg vissir um þessa niðurstöðu; 

            jafnvel þó lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum;

            jafnvel þó lánið hafi verið greitt til baka í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra mynta;

            jafnvel þó bankinn hafi ekki notað neinar erlendar myntir við lánveitinguna;

            jafnvel þó yfirlýstur tilgangur lántaka hafi verið að nota lánið á Íslandi;

            jafnvel þó tekjur lántakanda væru í íslenskum krónum. 

Sem sagt, þá var þetta niðurstaða dómsins jafnvel þó óumdeilt væri að lánið hefði falið í sér gengisáhættu fyrir lántakandann, gengisáhættu sem löggjafinn hafði sett bann við að mætti bjóða lántakendum upp á.

Það sem blasir við Leifi er því þetta: Íslandsbanki auglýsti og bauð honum gengistryggt lán, hann sótti um gengistryggt lán og hann fékk gengistryggt lán. Niðurstaða dómstóla í dag; þetta er ekki gengistryggt lán.

Ef hann hefði hins vegar á sínum tíma rekið augun í þessa auglýsingu frá Landsbankanum og farið í þann banka til að taka sama lán og hann gerði í Íslandsbanka, þá hefði lánið hans verið dæmt ólögmætt gengislán og verið leiðrétt í snatri. Þar var Leifur óheppinn.
15.feb. 2016 - 17:00 Sigurvin Ólafsson

Þegar ég tapaði fyrir Hæstarétti

Einhverjir helsjúkir áhugamenn um réttarríkið og endurútreikning gengistryggðra lána hafa kannski rekið augun í að á síðasta ári fór ég í mál við Landsbankann, þ.e.a.s. ég prívat og persónulega. Það mál rataði að lokum til Hæstaréttar þar sem ég að endingu tapaði, með dómi sem féll núna rétt fyrir jól. Mig langar í sem fæstum mögulegum orðum að útskýra þetta brölt mitt fyrir dómstólum, á eins einfaldan hátt og mér er unnt, og segja frá því hvernig þessi upplifun var.

19.jan. 2015 - 07:00 Sigurvin Ólafsson

Má þetta?

Hjá fjármálafyrirtækinu Lýsingu starfar sérstakur upplýsingafulltrúi. Hann hefur gagnast vel þegar ég og aðrir höfum verið að forvitnast, jafnvel agnúast, út í eitt og annað sem Lýsing gerir eða gerir ekki. Yfirleitt hefur hann þá verið með svör og upplýsingar á reiðum höndum. Jafnvel mjög reiðum. Alla vega, ég er með eina spurningu sem ég vona að umræddur upplýsingafulltrúi sjái sér fært um að svara fyrir hönd Lýsingar.
12.jan. 2015 - 12:00 Sigurvin Ólafsson

Slæm Lýsing (Staðfest)

Fyrir um það bil hálfu ári birti ég grein á Pressunni undir heitinu ,,Slæm Lýsing”. Tilefni þeirra skrifa var sú háttsemi Lýsingar að leiðrétta ekki lán umbjóðanda míns þó að dómur lægi fyrir um rétt hans til leiðréttingar. Í kjölfar greinarinnar höfðu margir samband við mig og spurðu hreint út hvort að Lýsing gæti virkilega komist upp með þetta og hvað væri eiginlega hægt að gera.
15.ágú. 2014 - 11:30 Sigurvin Ólafsson

Slæm Lýsing

Það hefur verið kostulegt að fylgjast með fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu síðustu misserin og oft hefur manni klæjað í rithöndina að deila uppátækjum fyrirtækisins með þjóðinni á síðum fjölmiðla.
13.feb. 2014 - 18:12 Sigurvin Ólafsson

Opið bréf til þeirra sem tóku gengislán eða gerðu gengistryggða bílasamninga

Það er óhætt að segja að það hafi verið stormasamt hjá ykkur síðustu misserin, með hæðum og lægðum á víxl. Ég ætla að rifja það aðeins upp með ykkur. Þetta byrjaði á því að þið tókuð lán og/eða gerðuð bílasamning sem leit út fyrir að vera nokkuð hagstæður. Að minnsta kosti kynntu sérfræðingar fjármálafyrirtækjanna ykkur lánin þannig þegar þið tókuð þau. Þá var veðrið fínt.
 
08.okt. 2013 - 17:15 Sigurvin Ólafsson

Um sporðdreka og froska

Enn liggur mér á hjarta að fjalla um gengislán og endurútreikninga. Þeir sem eru komnir með leið á þeim málum geta fært sig yfir á aðrar síður núna, en ég hvet lesendur þó til að gefa þessu fimm mínútur.
26.ágú. 2013 - 09:30 Sigurvin Ólafsson

Happdrætti Hæstaréttar

Fyrr í sumar birti ég grein hér á Pressunni um „Leif óheppna“. Með því vildi ég vekja athygli á þeirri einkennilegu stöðu sem nú er uppi varðandi ágreiningsmál um hvort lán teljist hafa verið ólögmæt gengistryggð lán eða lögmæt erlend lán. Í því sambandi virðist skipta máli hjá hvaða banka lánið var tekið, jafnvel þó allir bankarnir hafi grímulaust auglýst og kynnt fyrir lántakendum að þeir byðu upp á gengistryggð lán. Í mínum huga er þessi niðurstaða órökrétt og ósanngjörn enda leiðir hún til þess að á grundvelli tilviljunar stendur einn lántakandi eftir með leiðrétt og sanngjarnt lán en annar situr uppi með lán sem hefur tvöfaldast eða þrefaldast að höfuðstól, jafnvel þó báðir hafi í raun verið að gera það nákvæmlega sama.
25.apr. 2013 - 11:00 Sigurvin Ólafsson

Computer says no

Í störfum mínum sem lögmaður hef ég kynnst ýmsu.  Við að sinna hagsmunum umbjóðenda minna mæti ég til dæmis einstaka sinnum hindrunum sem eru ósanngjarnar og órökréttar.  Oft er þá erfitt fyrir mig að útskýra fyrir þeim sem leita til mín hvers vegna þeir geti ekki náð því fram sem þeir voru að leitast eftir.
15.ágú. 2012 - 10:07 Sigurvin Ólafsson

Geta ólögmæt lán verið í vanskilum?

Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson, lögmenn. Heildarniðurstaðan af uppgjöri Hæstaréttar um gengislán bankanna, sem þjóðin beið í ofvæni eftir, er því sú, því miður, að fyrir lántakendur er það tilviljun háð hvort að gengislán þeirra teljist lögmæt eða ólögmæt. Útaf fyrir sig er sú niðurstaða óeðlileg og ósanngjörn, en sú staða verður enn alvarlegri þegar fyrrgreind háttsemi og ástæður bankanna fyrir lánveitingunum eru hafðar í huga.
23.feb. 2012 - 18:20 Sigurvin Ólafsson

Lúðvík og Sigurvin: Hæstiréttur eyðir óvissu

Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson. Eftir að Hæstiréttur sveiflaði nýverið lagasverðinu bjarta og skar á hnúta viðvarandi deilna um uppgjör á ólögmætum gengistryggðum lánum hefur mikilli óvissu um það verið eytt, öfugt við það sem talsmenn fjármálafyrirtækja og einstaka stjórnmálamenn hafa haldið fram. Rétturinn kvað uppúr um að fyrri greiðslur skuldara af lánum sínum teldust fullnaðargreiðslur og að kröfuhafar ættu engan rétt til þess að krefjast frekari greiðslna vegna tímabilsins fram til þess að viðurkennt var að þeir höfðu veitt þeim ólögmæt lán. 
03.des. 2011 - 10:00 Sigurvin Ólafsson

Blinda auga Hæstaréttar

 Sigurvin Ólafsson. Strútsaðferðin í gengistryggingarmálum

Þegar lögfræðileg ágreiningsmál eru krufin hættir lögfræðingum og öðrum lögspekingum oft til að gerast full bókstaflegir og flækja sig gjarnan í fen orðalagstúlkana og þess sem skráð hefur verið á blað, jafnvel þannig að formið verði æðra efninu. Undirritaður er engin undantekning frá því.

Sigurvin Ólafsson
Héraðsdómslögmaður og meðeigandi Bonafide lögmanna.
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar