03. des. 2011 - 10:00Sigurvin Ólafsson

Blinda auga Hæstaréttar

Strútsaðferðin í gengistryggingarmálum

Þegar lögfræðileg ágreiningsmál eru krufin hættir lögfræðingum og öðrum lögspekingum oft til að gerast full bókstaflegir og flækja sig gjarnan í fen orðalagstúlkana og þess sem skráð hefur verið á blað, jafnvel þannig að formið verði æðra efninu. Undirritaður er engin undantekning frá því.

Nýlegir dómar Hæstaréttar í svokölluðum "gengistryggingarmálum" ættu hins vegar að vera hvatning til að a.m.k. gera tilraun til að rísa upp úr þessu feni og líta á málin í stærra samhengi.

Leiðarvísir að réttlæti

Í því samhengi má t.d. velta örlítið fyrir sér grunnhugmyndunum sem ætla má að liggi að baki því fyrirkomulagi sem við höfum komið upp til að leysa úr réttarágreiningi, þ.e. dómstólameðferðinni.  Þar má nefna tvö grundvallaratriði sem verður að telja "tímalaus" og óháð tískusveiflum eða sveiflum í almenningsáliti.  Það fyrra er að fyrirkomulagið sé hannað þannig að leitast verði eftir því að fá fram eins rétta og réttláta niðurstöðu og unnt er hverju sinni.  Seinna atriðið er að dómstólar komist að sömu niðurstöðu í sambærilegum málum.

Til þess að ná þessum grundvallarsjónarmiðum fram með sem bestum hætti mætti ætla að almennt væri það heppileg nálgun dómstóla við úrlausn í efnislegum ágreiningi að láta hin efnislegu atriði máls standa skör hærra en hin formlegu atriði máls.  Með öðrum orðum, að ríkari áhersla verði lögð á að skoða hina efnislegu og raunverulegu atburði sem áttu sér stað í viðkomandi máli, en að minna máli skipti hvernig málsaðilar hafi formlega skráð atburðina eða aðdraganda þeirra í sínu samningssambandi.  Í leit að réttustu niðurstöðunni hljóti því almennt að vera hagfelldara að litið sé fyrst og fremst til þess sem raunverulega gerðist.

Hæstiréttur beygir af leið

Af nýlegum dómum Hæstaréttar í "gengistryggingarmálum" verður ekki annað séð en að dómurinn víki frá því sjónarmiði sem hann áður taldi gilda í slíkum málum, þ.e. að efni og framkvæmd samninganna gildi umfram form þeirra, og að nú sé formið orðið allsráðandi.

Þannig var það síðast í hinum kunna Mótormax-dómi frá því í sumar sem að Hæstiréttur mat það svo, með hliðsjón af því sem að raunverulega gerðist í því máli, að um væri að ræða íslenskt gengistryggt lán, og þar með ólögmætt, enda hefði bankinn afhent lántaka íslenskar krónur og fengið greiddar íslenskar krónur til baka miðað við gengi erlendra mynta.

Í síðasta mánuði tók Hæstiréttur hins vegar upp á því í þremur málum að fallast ekki á að um íslensk gengistryggð lán væri að ræða í þeim tilvikum, jafnvel þó að ágreiningslaust væri að banki hefði í öllum tilvikum afhent lántaka íslenskar krónur og fengið þær endurgreiddar í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra mynta.  Rökstuðningur niðurstaðna í þessum málum virðist vera sá að ef að einungis samkvæmt forsíðu eða fyrstu línum lánssamnings leiki ekki vafi á því hvort um íslenskt eða erlent lán sé að ræða, þá sé óþarft að beita frekar reglum um túlkun samningsins eða skoða frekar hvað raunverulega átti sér stað.  

Samkvæmt dómunum virðist Hæstiréttur jafnframt leggja línurnar um hvað falli undir vafatilvik og hvað ekki.  Þannig teljist það ekki vafatilvik ef að á forsíðu lánsins eða í fyrstu línum þess séu tilgreindar erlendar fjárhæðir, það teljist þá erlent lán og óþarfi að skoða það frekar.  Komi hins vegar ekki fram tilgreindar erlendar fjárhæðir, heldur einungis hlutfallstölur erlendra mynta, þá leiki vafi á um hvort að lánið teljist íslenskt eða erlent, og að þá skuli túlka samninginn og framkvæmd hans frekar til að komast að niðurstöðu.

Blinda augað

Af umræddum dómum verður ekki séð að þessi stefnubreyting Hæstaréttar hafi verið óviljaverk eða að engin önnur niðurstaða hafi verið möguleg vegna málavaxta eða málatilbúnaðar í viðkomandi málum.  Þvert á móti virðist sem að Hæstiréttur hafi með fullum vilja og vitund kosið að beita blinda auganu á það sem raunverulega gerðist í málunum, þrátt fyrir að í héraðsdómum viðkomandi mála hafi hinum raunverulegu málavöxtum verið rækilega lýst.

Þessi nýja leið Hæstaréttar hefur þann kost, ef svo má að orði komast, að mál sem áður þóttu flókin og erfið úrlausnar eru nú orðin að einföldustu málum.  Það eina sem þarf að gera er að skoða forsíðu og fyrstu línur viðkomandi lánssamnings.  Ef þar er tilgreind erlend fjárhæð þá eru önnur málsgögn lögð fyrir blinda augað, t.d. önnur ákvæði lánssamningsins, lánsumsóknin og kvittanir um útgreiðslu lánsins og afborganir.  Þannig "sjá" dómararnir engin merki um það sem raunverulega átti sér stað, t.d. að lántakinn hafi beðið um íslenskt lán, til fjárfestinga í íslenskum krónum, fengið lánið afhent í íslenskum krónum og greitt af því í íslenskum krónum, miðað við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þó að öll þessi atriði séu grundvöllur þeirra dóma sem fallið hafa um ólögmæta gengistryggingu þá dugar það ekki til, því að blinda augað sér þau auðvitað ekki.

Sama niðurstaða í sömu málum

Nú kunna menn að hafa mismunandi skoðanir á því hver teljist rétt niðurstaða í málum af þessu tagi enda réttlætið að mörgu leyti afstætt hugtak.  Langflestir hljóta þó að vera sammála því að réttlátt sé að sama niðurstaða skuli ganga yfir alla sem eiga í sambærilegum ágreiningi.  Þessi nýja nálgun Hæstaréttar veldur því nokkrum áhyggjum enda verður ekki annað séð en að hún leiði til þess að lántakendur í fullkomlega sambærilegri stöðu eigi á hættu að njóta mismunandi réttar á afar hæpnum forsendum, í raun einungis á grundvelli tilviljunar, þ.e. eftir því hvernig viðkomandi fjármálafyrirtæki hagaði skjalagerð sinni og orðaði hlutina á forsíðu eða í fyrstu línum viðkomandi lánssamnings.

Vissulega er í þessum tilvikum um að ræða tvíhliða samninga, undirritaða af báðum aðilum.  Það getur hins vegar vart talist sanngjarnt að halda því fram að neytendur eða fyrirtæki hafi átt að gæta betur að sér þegar fyrir þau voru lagðir samningar og samningsskilmálar frá fjármálafyrirtækjum, hinum sérfróðu aðilum á þessu sviði.  Það er því óeðlilegt að lántakendur verði látnir gjalda fyrir það að hafa ekki áttað sig á því að það gæti skipt máli á síðari stigum að sama hlutinn mætti orða með tvennum hætti.

Svo virðist því vera sem að niðurstöður í ágreiningsmálum um gengistryggð lán séu nú að miklu leyti orðnar tilviljunum háðar.  Varla getur það talist heppileg leið við úrlausn ágreiningsmála í því réttarríki sem við svo oft stærum okkur af að vera.  Það má benda á að í umfjöllun sinni um uppgjör lána af þessu tagi varaði löggjafinn sérstaklega við því að málum skyldi hagað þannig að staða sem þessi kæmi upp.  Þannig segir í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 151/2010 um breytingu á vaxtalögum:
Þá er hætt við því að réttlætiskennd almennings verði misboðið og greiðsluvilji einstaklinga þverri ef fjárhagsleg staða heimila verður látin ráðast af stórum hluta af tilviljunarkenndu orðalagi í samningum sem einstaklingar höfðu ekki forsendur til þess að meta á sjálfstæðan hátt.  Því er hætt við að það ójafnræði sem myndast þegar einn aðili fær gengistryggingu dæmda ólöglega en annar stendur uppi með lögmætan lánssamning dragi úr greiðsluvilja þeirra síðarnefndu.  Af þeim sökum er sanngjarnt sem og mikilvægt fyrir fjármálastöðugleika að jafnræðis sé gætt í meðferð sams konar og eðlislíkra neytendalána.
Undirritaður telur löggjafann þarna hafa hitt naglann á höfuðið, þó að flest önnur hamarshögg við smíði þessa tiltekna frumvarps hafi rækilega geigað, sem er önnur saga.

Í hnotskurn

Að lokum má benda á að í málum af þessu tagi er ekki um neina smáhagsmuni að ræða enda hefur niðurstaðan oft úrslitaáhrif um það hvort að viðkomandi einstaklingur eða fyrirtæki heldur lífi sínu fjárhagslega.  Það hlýtur því að verða erfitt fyrir þann einstakling eða það fyrirtæki að kyngja því að þurfa að sætta sig við gjaldþrot eða stórtap í kjölfar dóms um lögmæti láns sem var að öllu leyti veitt í samræmi við önnur lán sem hafa verið dæmd ólögmæt, nema að forsíða lánssamninganna eða fyrstu línur þeirra voru orðaðar með mismunandi hætti.

Sem dæmi gæti staðan litið þannig út:

Einstaklingur A    - Keypti íbúð 1. janúar 2007, tók 30 m.kr. lán. - Á forsíðu lánsins stóð:

Fjölmyntalán að jafnvirði 30 m.kr. í hlutföllunum EUR 50% - CHF 50%

Einstaklingur B    - Keypti íbúð 1. janúar 2007, tók 30 m.kr. lán. - Á forsíðu lánsins stóð:

Fjölmyntalán að jafnvirði 30 m.kr. í eftirtöldum myntum: EUR 159.676 - CHF 257.025


Lánsumsóknir, útgreiðslur og afborganir beggja aðila eru nákvæmlega eins upp á krónu, báðir fengu lánin afhent í íslenskum krónum og greiddu báðir eins af þeim í íslenskum krónum.

Segjum að lánin komi bæði til skoðunar fyrir Hæstarétti.  Sé tekið mið af nýjustu niðurstöðum hans þá gæti staða lánanna að loknum dómum verið eitthvað nærri eftirfarandi:

    Staða láns einstaklings A  28.000.000 kr.

    Staða láns einstaklings B  65.000.000 kr.

Eru allir sammála um að þetta yrði rétt og sanngjörn niðurstaða?

Sigurvin Ólafsson,
héraðsdómslögmaður hjá Bonafide lögmönnum.15.feb. 2016 - 17:00 Sigurvin Ólafsson

Þegar ég tapaði fyrir Hæstarétti

Einhverjir helsjúkir áhugamenn um réttarríkið og endurútreikning gengistryggðra lána hafa kannski rekið augun í að á síðasta ári fór ég í mál við Landsbankann, þ.e.a.s. ég prívat og persónulega. Það mál rataði að lokum til Hæstaréttar þar sem ég að endingu tapaði, með dómi sem féll núna rétt fyrir jól. Mig langar í sem fæstum mögulegum orðum að útskýra þetta brölt mitt fyrir dómstólum, á eins einfaldan hátt og mér er unnt, og segja frá því hvernig þessi upplifun var.

19.jan. 2015 - 07:00 Sigurvin Ólafsson

Má þetta?

Hjá fjármálafyrirtækinu Lýsingu starfar sérstakur upplýsingafulltrúi. Hann hefur gagnast vel þegar ég og aðrir höfum verið að forvitnast, jafnvel agnúast, út í eitt og annað sem Lýsing gerir eða gerir ekki. Yfirleitt hefur hann þá verið með svör og upplýsingar á reiðum höndum. Jafnvel mjög reiðum. Alla vega, ég er með eina spurningu sem ég vona að umræddur upplýsingafulltrúi sjái sér fært um að svara fyrir hönd Lýsingar.
12.jan. 2015 - 12:00 Sigurvin Ólafsson

Slæm Lýsing (Staðfest)

Fyrir um það bil hálfu ári birti ég grein á Pressunni undir heitinu ,,Slæm Lýsing”. Tilefni þeirra skrifa var sú háttsemi Lýsingar að leiðrétta ekki lán umbjóðanda míns þó að dómur lægi fyrir um rétt hans til leiðréttingar. Í kjölfar greinarinnar höfðu margir samband við mig og spurðu hreint út hvort að Lýsing gæti virkilega komist upp með þetta og hvað væri eiginlega hægt að gera.
15.ágú. 2014 - 11:30 Sigurvin Ólafsson

Slæm Lýsing

Það hefur verið kostulegt að fylgjast með fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu síðustu misserin og oft hefur manni klæjað í rithöndina að deila uppátækjum fyrirtækisins með þjóðinni á síðum fjölmiðla.
13.feb. 2014 - 18:12 Sigurvin Ólafsson

Opið bréf til þeirra sem tóku gengislán eða gerðu gengistryggða bílasamninga

Það er óhætt að segja að það hafi verið stormasamt hjá ykkur síðustu misserin, með hæðum og lægðum á víxl. Ég ætla að rifja það aðeins upp með ykkur. Þetta byrjaði á því að þið tókuð lán og/eða gerðuð bílasamning sem leit út fyrir að vera nokkuð hagstæður. Að minnsta kosti kynntu sérfræðingar fjármálafyrirtækjanna ykkur lánin þannig þegar þið tókuð þau. Þá var veðrið fínt.
 
08.okt. 2013 - 17:15 Sigurvin Ólafsson

Um sporðdreka og froska

Enn liggur mér á hjarta að fjalla um gengislán og endurútreikninga. Þeir sem eru komnir með leið á þeim málum geta fært sig yfir á aðrar síður núna, en ég hvet lesendur þó til að gefa þessu fimm mínútur.
26.ágú. 2013 - 09:30 Sigurvin Ólafsson

Happdrætti Hæstaréttar

Fyrr í sumar birti ég grein hér á Pressunni um „Leif óheppna“. Með því vildi ég vekja athygli á þeirri einkennilegu stöðu sem nú er uppi varðandi ágreiningsmál um hvort lán teljist hafa verið ólögmæt gengistryggð lán eða lögmæt erlend lán. Í því sambandi virðist skipta máli hjá hvaða banka lánið var tekið, jafnvel þó allir bankarnir hafi grímulaust auglýst og kynnt fyrir lántakendum að þeir byðu upp á gengistryggð lán. Í mínum huga er þessi niðurstaða órökrétt og ósanngjörn enda leiðir hún til þess að á grundvelli tilviljunar stendur einn lántakandi eftir með leiðrétt og sanngjarnt lán en annar situr uppi með lán sem hefur tvöfaldast eða þrefaldast að höfuðstól, jafnvel þó báðir hafi í raun verið að gera það nákvæmlega sama.
06.jún. 2013 - 15:00 Sigurvin Ólafsson

Leifur óheppni

Einu sinni var maður sem hét Leifur. Hann þurfti að taka krónur að láni hjá banka. Þetta var snemma árs 2005. Hann ákvað að kíkja aðeins í greinasafn Morgunblaðsins til að athuga hvað bankarnir hefðu verið að auglýsa í þeim efnum upp á síðkastið. 
25.apr. 2013 - 11:00 Sigurvin Ólafsson

Computer says no

Í störfum mínum sem lögmaður hef ég kynnst ýmsu.  Við að sinna hagsmunum umbjóðenda minna mæti ég til dæmis einstaka sinnum hindrunum sem eru ósanngjarnar og órökréttar.  Oft er þá erfitt fyrir mig að útskýra fyrir þeim sem leita til mín hvers vegna þeir geti ekki náð því fram sem þeir voru að leitast eftir.
15.ágú. 2012 - 10:07 Sigurvin Ólafsson

Geta ólögmæt lán verið í vanskilum?

Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson, lögmenn. Heildarniðurstaðan af uppgjöri Hæstaréttar um gengislán bankanna, sem þjóðin beið í ofvæni eftir, er því sú, því miður, að fyrir lántakendur er það tilviljun háð hvort að gengislán þeirra teljist lögmæt eða ólögmæt. Útaf fyrir sig er sú niðurstaða óeðlileg og ósanngjörn, en sú staða verður enn alvarlegri þegar fyrrgreind háttsemi og ástæður bankanna fyrir lánveitingunum eru hafðar í huga.
23.feb. 2012 - 18:20 Sigurvin Ólafsson

Lúðvík og Sigurvin: Hæstiréttur eyðir óvissu

Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson. Eftir að Hæstiréttur sveiflaði nýverið lagasverðinu bjarta og skar á hnúta viðvarandi deilna um uppgjör á ólögmætum gengistryggðum lánum hefur mikilli óvissu um það verið eytt, öfugt við það sem talsmenn fjármálafyrirtækja og einstaka stjórnmálamenn hafa haldið fram. Rétturinn kvað uppúr um að fyrri greiðslur skuldara af lánum sínum teldust fullnaðargreiðslur og að kröfuhafar ættu engan rétt til þess að krefjast frekari greiðslna vegna tímabilsins fram til þess að viðurkennt var að þeir höfðu veitt þeim ólögmæt lán. 

Sigurvin Ólafsson
Héraðsdómslögmaður og meðeigandi Bonafide lögmanna.
SætaSvínið: PertýBinbo
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar