19. des. 2011 - 12:00Ólafur Margeirsson

Verður hans vilji?

Í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 þann 26. nóvember síðastliðinn birtist athyglisverð frétt. Þar var vakin athygli á misslæmum verðbólguspám Seðlabanka Íslands. Mesta athygli vakti myndin sem fylgdi fréttinni en hún sýndi að sama hversu há ársverðbólga er á hverjum tíma, alltaf skyldi Seðlabankinn spá því að hún færðist í átt að verðbólgumarkmiðinu á ca. tveimur árum. Ef hún er undir markmiðinu hækkar hún í átt að því. Ef verðbólga er hærri en markmiðið færist hún neðar. Myndin sem fylgdi fréttinni er mjög lýsandi.Þetta er gamall sannleikur en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Fyrir þremur árum birtu Friðrik Már Baldursson og Axel Hall, við Háskólann í Reykjavík, rannsókn sem sýndi að, merkilegt nokk, „[h]in hraða aðlögun í átt að verðbólgumarkmiði  sem sést í verðbólguspám Seðlabankans... virðist vera kerfislægur eiginleiki haglíkans bankans.“

Verðbólgan í haglíkani Seðlabankans

Friðrik og Axel sögðu skýringuna fyrir því hví Seðlabankinn spáði hraðri aðlögun í átt að verðbólgumarkmiði vera sú að „í líkaninu er gert ráð fyrir því að peningastefnan sé trúverðug.“ En skýringin, hver sem hún er, getur vel verið einfaldari.

Í grein sem Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur við Seðlabankann, birti í nóvember 2009 tiltók hann sérstaklega jöfnuna sem haglíkan Seðlabankans segir að gildi um verðbólgu. Samkvæmt haglíkani Seðlabankans er verðbólga á hverjum tíma háð 1) verðbólgu í fortíð og væntinga um verðbólgu í framtíð, 2) verðbólgumarkmiði Seðlabankans, 3) breytingum á leitni raunlaunakostnaðar á hvern einstakling, 4) breytingum á raungengi krónunnar og 5) hversu mikil framleiðsluspennan (e. output gap) er.

Í módelinu hefur verðbólga í fortíð og væntingar um verðbólgu í framtíð dvínandi áhrif á spáða verðbólgu í framtíðinni eftir því sem tíminn líður frá núinu. Þá eru forsendur líkansins þær að þróun raunlaunakostnaðar á einstakling, raungengi krónunnar og framleiðsluspennan endi allt í einhvers konar stöðugu langtíma jafnvægi. Þegar því langtímajafnvægi er náð, eða svo gott sem, hafa þeir þættir engin áhrif á verðbólgu á hverjum tíma.

Eftir stendur verðbólgumarkmiðið eitt sem áhrifavaldur á verðbólgu til langs tíma. Þess vegna, eftir því sem spátímabilið lengist og hagkerfið færist nær „stöðugu langtíma jafnvægi“, fellur spáð verðbólga alltaf í átt að verðbólgumarkmiði Seðlabankans, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Afskaplega hentugur eiginleiki: það geta orðið stríð, náttúruhamfarir, erlendar og innlendar fjármálakrísur, skyndigjaldþrot banka og jafnvel hins opinbera en alltaf skal verðbólga enda í 2,5% eftir 2-3 ár! Í nóvember 2008 spáði Seðlabankinn t.d. 2,4% verðbólgu árið 2010.

Það skondna við spálíkanið þegar kemur að verðbólgu er að aðrir þættir – s.s. útþensla peningamagns í umferð, skuldir heimila, fyrirtækja eða hins opinbera, tekjudreifing einstaklinga og fákeppnisþróun á markaði til að nefna nokkra – hafa engin áhrif á verðbólguspár Seðlabankans jafnvel þótt allt þetta geti sannarlega haft teljandi áhrif. Hins vegar hafa nafnlaunahækkanir, sérstaklega ef þær eru óvæntar eða fyrir ofan langtímaþróun, mjög áberandi áhrif enda er sérstaklega tekið tillit til þeirra í jöfnu haglíkansins fyrir verðbólgu. Í því sambandi er gaman að minnast spurningar Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, til aðila vinnumarkaðarins á nýlegum fundi Viðskiptaráðs þegar samband nýlegra (nafn)launahækkana og stýrivaxtahækkana var rætt: „Hvernig datt ykkur þetta í hug?!“ Spyr sá sem ekki veit.

Meira um haglíkan Seðlabankans

En fáranleiki haglíkans Seðlabankans stoppar aldeilis ekki við verðbólguspár sem af því spretta. Í líkaninu er gert ráð fyrir fjölda forsendna  sem ekki nokkur stuðningur hefur fundist fyrir í raunveruleikanum heldur oftar en ekki þvert á móti. Þannig er t.d. gert ráð fyrir langtíma hlutleysi peninga. Í líkaninu fer launa- og vaxtaþróun til langs tíma eingöngu eftir jaðarframleiðni vinnuafls og fjármagns. Einkaneysla heimila hefur ekkert með lánveitingar eða afborganir lána að gera heldur er heimilið – það er í raun bara eitt slíkt í líkaninu – álitið „eilíft“ og hámarkar það einhvers konar ótilgreint neyslu-nytjafall til allrar framtíðar þar sem tekið er tillit til raunlauna, raunvaxta og nettó eignastöðu frá nútíð til allrar framtíðar. Skammtímasveiflur einkaneyslu eiga sér eingöngu rætur að rekja til atvinnuleysis yfir eða undir áætluðu langtíma jafnvægisatvinnuleysi. Væntingar fjárfestisins – hann er bara einn í líkaninu – um framtíðina hafa engin áhrif á fjárfestingu heldur aðeins jaðarframleiðni fjármagns a.t.t. launakostnaðar og raunvaxta (ekki nafnvaxta). Og allt saman endar, til langs tíma, í stöðugu jafnvægi þar sem í raun ekkert óvænt gerist. Allt eru þetta vinsælar forsendur í hagfræði sem þegar á hólminn, þ.e. hinn raunverulega heim, er komið eru allar rangar. Allar með tölu!

Enn skemmtilegra þó, fyrir utan fyrrnefndar óskhyggjur um samband og þróun hinna og þessara hagstærða, er að skoða hvaða stærðir eru ekki í líkaninu. Það er ekkert bankakerfi og raunar birtist orðið „banki“ aldrei á öllum 154 blaðsíðum handbókar Seðlabankans um haglíkanið. Hið sama gildir um orð á borð við  „lánveitingar“, „lán“, „afborganir“ og „gjaldþrot“. Raunar er sérstaklega tekið fram að áhrif peningamálastefnunnar á lánveitingar innan hagkerfisins „spili í raun ekki áberandi rulu“ í líkaninu! Ekkert tillit er tekið til hugsanlegrar misskiptingar tekna heimila og fyrirtækja þótt slíkt hafi augljósar efnahagsafleiðingar fari það úr böndunum eða taki stórkostlegum breytingum á skömmum tíma. En rúsínan í pylsuendanum: fyrir utan að ekkert er bankakerfið – örlítið fjármálakerfi er meðhöndlað sem ytri stærð – er í líkaninu öllu aðeins einn atvinnugeiri sem skuldar ekki krónu. Er nema von að hagspár Seðlabankans séu „ónákvæmar“ ástundum.

Framtíð haglíkans Seðlabankans

Fyrir rúmri öld sannaði franski stærðfræðingurinn Poincaré að ekki væri hægt að finna jöfnu fyrir sporbaug plánetna í stjörnukerfi með tvær eða fleiri plánetur, vandamál sem m.a. Newton hafði barist við en aldrei náð að leysa. Almenna niðurstaðan var að ekki væri hægt að finna jöfnu fyrir stöðuþróun þriggja hluta sem hreyfast og hafa áhrif hvorn á annan. Í tilviki Poincaré var stöðuþróunin jafngild sporbaugi pláneta. Áhrifin sem um var að ræða var þyngdaraflið milli plánetnanna.

Niðurstaða Poincaré er mjög mikilvæg fyrir hagfræðinga því hið nákvæmlega sama gildir um hagkerfið: það er ekki til jafna sem segir nákvæmlega til um framþróun hagkerfisins einfaldlega vegna þess að hagstærðir hafa sífelld áhrif á hverja aðra og því er ekki hægt að finna jöfnu fyrir þróun þeirra. Þetta er ástæðan fyrir því að allar hagspár eru gisk sem í besta falli hafa skýrar útlínur. Allt tal og óskhyggja um „jafnvægi“ eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, hvorki út frá sjónarmiði stærðfræðinnar né hagsögunnar. Við lifum í náttúrulega óstöðugu og síbreytilegu hagkerfi þar sem ófyrirséðar innri sveiflur eru eiginleikar og óaðskiljanlegur hluti kerfisins en ekki utanaðkomandi atburðir. En því miður var haglíkan Seðlabankans beinlínis þróað með „jafnvægi“ í huga, þvert á það sem sannað var fyrir rúmri öld að væri ekki hægt.

Út af þessu einfalda grundvallaratriði er haglíkan Seðlabankans dauðadæmt og það var það frá byrjun. Fyrsta útgáfa þess á sér rætur að rekja til ársins 2006 en það var gagnslaust þegar kom að því að sjá fyrir hættuna sem hagkerfinu stafaði af vegna útþenslu skulda einkaaðila, jafnt bankanna sem  annarra fyrirtækja og heimila. Þannig má t.d. sjá að í nóvember 2007, minna en ári fyrir hrun, spáði Seðlabankinn verðbólgu í kringum 4,1% árið 2008 og 2,7% árið 2009. Raunin varð önnur: 12,4% verðbólga árið 2008 og 12,0% árið 2009. Hagvöxtur átti að vera samtals 0,7% árin 2008-2010. Reyndin varð -9,3%.

Seðlabankinn getur og á að gera betur! Möguleikinn á því að innra ójafnvægi geti þróast út í sístækkandi hagsveiflu sem að lokum endar í fjármálakrísu eða neyslu- og fjárfestingaræði á að vera frumskilyrði haglíkana. Slíkt má t.d. setja fram með dýnamísku „rándýr-bráð“ líkani (e. predator-prey model). „Jafnvægi“ á að vera bannorð því slíkt er einfaldlega ekki stærðfræðilegur eiginleiki dýnamískra kerfa á borð við hagkerfi, sama hvaða tímabil um er að ræða. Innifela ætti fróðleik frá sál- og félagsfræðingum sem sýnt hafa fram á hluti eins og hópmyndanir á markaði, óhlutleysi peninga og vaxtaþróun sem er undir áhrifum óvissu – sem er mjög áberandi í Evrópu þessa dagana – en ekki framboðs og eftirspurnar eftir fjármagni. Síðast en ekki síst væri mikið framfaraskref að byggja haglíkanið á flæði peninga, greiðsluflæði, milli ólíkra stoða hagkerfisins – banka, heimila, fyrirtækja, hins opinbera – en ekki á vöruskiptum eins og í raun er gert. Margar aðrar betrumbætur væru hugsanlegar sem færa myndu líkanið í átt að raunveruleikanum.

Í raun er hér verið tala fyrir algjörri umturnun á haglíkanagerð frá því sem gengur nú og gerist. Og því miður er fátt annað sem dugir. Reyni Seðlabankinn t.d. aðeins að betrumbæta haglíkan sitt, eins og nokkrum sinnum hefur verið gert síðan 2006, mun lítil framför verða á hagspám hans. Það verður, sem hingað til, því miður lítið mark á þeim takandi.
17.feb. 2013 - 18:15 Ólafur Margeirsson

Verðtrygging og raunveruleikinn

Sú forsenda er að Seðlabankinn sýni enga miskunn í sínum stýrivaxtaákvörðunum og láti lántaka óverðtryggðra lána með breytilegum nafnvöxtum finna tafarlaust fyrir því sjái Seðlabankinn fram á að verðbólga í framtíðinni verði utan þeirra verðbólgamarka sem stuðst er við við stýrivaxtaákvarðanir.
10.feb. 2013 - 09:28 Ólafur Margeirsson

Hvernig á að afnema verðtryggingu?

Nú þegar líður að kosningum er ekki úr vegi að íhuga hvernig eigi að uppfylla eitt af þeim fjölmörgu kosningaloforðum sem á þjóðinni munu dynja næstu mánuði: hvernig á að afnema verðtryggingu á lánum til einstaklinga?
12.des. 2012 - 22:51 Ólafur Margeirsson

Peningar og útlán

Ég set þennan texta hér því eins og ég tek fram í umsögninni tel ég það nauðsynlegt að fólk skilji hvernig útlánastarfsemi bankakerfisins leiðir af sér peningamyndun. Ég hef aldrei beðið fólk um að lesa það sem ég hef skrifað en í þetta skipti geri ég það.
03.des. 2012 - 14:08 Ólafur Margeirsson

Verðbólgan, verðtryggingin og raunvirði skulda

Eftir athyglisvert viðtal við Maríu Elvira Méndes Pinado, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, birti Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia háskóla í New York, pistil
19.nóv. 2012 - 12:00 Ólafur Margeirsson

Tímasprengjan Íbúðalánasjóður

Í fyrirlestri sínum á fundi Félags Viðskipta- og Hagfræðinga talaði Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri Fjármálastöðugleikasviðs hjá Seðlabanka Íslands, fyrst og fremst um aflandskrónur, erlendar skuldir og snjóhengjur.
11.nóv. 2012 - 09:51 Ólafur Margeirsson

Um „Íslandsálagið“

Viðskiptaráð Íslands gaf nýlega út plaggið „Gjaldmiðilsmál: Maastrict viðheldur valfrelsi
27.okt. 2012 - 14:08 Ólafur Margeirsson

Iðgjöld til skuldalækkunar

Mörður Árnason hefur stungið upp á því að í stað þess að fólk byggji upp framtíðarlífeyrisréttindi sín með greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða þá hafi fólk það val að iðgjöldin eru notuð til þess að borga inn á höfuðstól húsnæðislána. Margir ruku upp til handa og fóta og fundu ýmislegt hugmyndinni til foráttu. En hugmyndin er líklega ágæt. Ef eitthvað er þá gengur hún ekki nógu langt.
05.okt. 2012 - 09:27 Ólafur Margeirsson

Um atvinnuleysi og hið opinbera

Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að hinir atvinnulausu eigi ekki að fá atvinnuleysisbætur en sannast sagna finnst mér lítið efnahags- og samfélagslegt vit í því að nýta ekki vinnuafl þessa hóps meira en hingað til hefur verið gert.
13.sep. 2012 - 11:53 Ólafur Margeirsson

Framtíðarskerðingar lífeyrissjóðanna

Það þarf að vinna hratt ef ekki á að koma til skerðingar á lífeyrisréttindum árið 2014 þegar bráðabirgðaákvæðið um frestun á 5 ára 5% reglunni rennur út í árslok 2013. Ef það mun ekki gerast eru allar líkur að almennu sjóðirnir sem minnst er á hér að ofan skerði réttindi, mis mikið þó.
03.sep. 2012 - 10:22 Ólafur Margeirsson

Af hverju er Íbúðalánasjóður á hausnum?Ólafur Margeirsson

Doktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi.

icelandicecon.blogspot.com

om217@exeter.ac.uk

 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 28.2.2018
Af högum mínum: Svar til blaðamanns
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 22.2.2018
Umskurður drengja
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson - 22.2.2018
Gyðingdómur í sögu og samtíð - námskeið
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 24.2.2018
Hann kaus frelsið
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.3.2018
Klæðast eins og niðursetningar í þingsal
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 27.2.2018
Vita stjórnvöld hvað er barni fyrir bestu?
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 07.3.2018
Já, það er komið Vor í verkó!
Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson - 12.3.2018
Jafnasti oddvitinn?
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 14.3.2018
Stöðugleikasáttmáli alþýðunnar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 18.3.2018
Hádeisverður í Stellenbosch
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.3.2018
Þrír hugsjónamenn gegn alræði
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.3.2018
Böðullinn drepur alltaf tvisvar
Fleiri pressupennar