27. feb. 2012 - 09:00Ólafur Margeirsson

Um myndun peninga og skulda

Til að skilja að fullu hví skuldaniðurfelling geti virkað verður að þekkja uppruna og myndun peninga. Það verður nú vonandi gerð heiðvirð tilraun til þess að segja þá 5000 ára löngu sögu.

Klassíska, og ranga, sagan af uppruna og myndun peninga

(Neó)klassíska hagfræðikenningin um myndun peninga er að peningar (sem mynt!) hafi komið fram vegna þess að einkaaðilar hafi áttað sig á því að það væri betra að notast við slíkt í viðskiptum frekar en að skiptast á vörum (e. barter). Mynt sem allir treystu myndi minnka þann kostnað sem færi í að finna einhvern sem vildi selja þér jarðarber þegar þú áttir ekkert annað en kjúklinga. Betra væri að búa til kerfi þar sem hægt væri að selja kjúklinga og fá peninga fyrir sem aftur væru nothæfir til kaupa á hvaða vöru eða þjónustu sem væri. Peningar væru ekkert annað þægilegur milligönguaðili í viðskiptum.

Í framhaldi af því að peningar (mynt) hafi verið „fundnir upp“ af einkaaðilum á bankakerfi að hafa þróast. Bankakerfið á að hafa verið öruggur staður til að geyma verðmæti í formi myntar (ímynd bankahvelfingarinnar). Þá myndu bankar sérhæfa sig í því að taka við sparnaði aðila sem aftur var hægt að nota til að fjármagna fjárfestingar. Við það myndi viðskiptakostnaður við að finna fjármagn minnka, sem aftur á að hafa jákvæð áhrif á fjárfestingar og framþróun hagkerfisins. 

Á grundvelli peninga (sem myntar) og bankastofnana fæddist svo peningamargfaldaramódelið. 

Peningamargfaldaramódelið er eftirfarandi: einstaklingur A leggur inn 100 krónur inn á bankareikning. Bankinn heldur að ólíklegt sé að A þurfi allan peninginn á sama tíma svo honum er óhætt að lána stóran hluta hans út. B labbar því næst inn í bankann og vill fá lán. Bankinn veitir honum lán upp á 90kr. því bankinn heldur að A muni ekki þurfa mikið meira en 10kr þegar hann notar innistæðuna sína hjá bankanum. 

B notar 90kr. til að kaupa vöru af C. Aðili C leggur svo peninginn aftur inn hjá bankanum og aftur heldur bankinn að C muni aðeins þurfa 10% af upphæðinni að jafnaði í sínum viðskiptum. Hann lánar því út 81kr til D. Aðili D kaupir svo vöru af E og svo koll af kolli. Þannig „margfaldast“ upprunalegi 100kr. peningurinn upp í samtals 1000kr (100/10%) af innistæðum í bankakerfinu.

Þessi saga og módel er kolrangt! En skoðum fyrst þær afleiðingar sem þetta módel hefur í för með sér.

Í fyrsta lagi eiga peningar (mynt) að hafa komið á undan innlánum (skuldir) sem notast er við sem peninga (fullnaðargreiðslu innan viðskipta) milli aðila. Þetta er rangt.

Í öðru lagi er ljóst, samkvæmt þessu módeli, að banki verður að fá innlán fyrst áður en hann getur lánað peningana út. Þetta er rangt.

Í þriðja lagi er afleiðing af peningamargfaldaramódelinu að það á að vera hægt að stjórna hversu mikið af innlánum (peningum) sé hægt að búa til í bankakerfinu. Með því að breyta lausafjárhlutfallinu (10% í sögunni hér að ofan) á að vera hægt að breyta því hversu mikið magn er af peningum í hagkerfinu. Seðlabankar stjórna margir hverjir lausafjárhlutfallinu sumpart með þetta markmið í huga, þar á meðal Seðlabanki Íslands. Þetta er rangt.

Í fjórða lagi er gefið til kynna að það sé stærðfræðilegt hámark af innlánum (peningamagni í umferð) sem hægt er að búa til í hagkerfinu. Þetta hámark er upprunalega innleggið (100kr) deilt með lausafjárhlutfallinu (10%). Þetta er rangt.

Peningar sem skuldir

Peningar í formi myntar er ekki algengasta né elsta form peninga. Peningamyntir (gull, silfur) komu ekki fram fyrr en ca. 600 árum fyrir Kristburð (vegna ástæðu sem minnst er á hér aðeins neðar). Bankastarfsemi og viðskipti byggð á færslu innlána milli reikninga á bókhaldi bankastofnunar var komin fram í frumstæðu formi þúsundum ára á undan slíkum myntum.

Elsta form peninga, og það form sem er ennþá notast við, er skuld. Sú skuld er og var bókhaldsleg stærð. Sem dæmi var fjármálakerfi Babýlon og Egyptalands byggt upp á bókfærslum milli einstaklinga þar sem bókfærð eign (skuld „bankans, sem var venjulega hof eða mjög ríkur einstaklingur sem allir þekktu til og treystu) eins aðila hjá viðkomandi „banka“ var þurrkuð út – ætti hann bókfærða eign þar inni á annað borð – og sömu tölu var bætt við á „banka“reikningi seljanda vörunnar. 

Þessi viðskipti voru rituð á leirskífur í Babýlon, í Evrópu var sum staðar notast við hnotuvið. Þessar leirskífur gátu oft orðið að peningum að sama skapi því þær stóðu fyrir bókhaldslega eign við útgefanda skífunnar (bankann). Þar með urðu leirskífurnar að nokkurs konar ávísun sem var stíluð á handhafa. Þessa ber enn merki; á breskum peningaseðlum stendur „I promise to pay the bearer on demand the sum of...“ Þetta loforð er gefið út af Seðlabanka Englands. Á tímum gullfótarins var loforðið í formi þess að borga út gull. Í dag fengi maður bara nýjan peningaseðil, sem á væri ritað nákvæmlega sami texti.

Á tíma Hammurabi (ca. 1792 – 1750 fyrir Kristburð) var bankastarfsemi og viðskipti byggð á færslu innlána (skulda) milli innlánareiknniga orðin nægilega algeng til að sett voru lög af hinu opinbera um hvernig þessi bankastarfsemi ætti að eiga sér stað; reglugerðum um bankastarfsemi var komið á fót fyrir tæplega 3800 árum! 

Rúmlega 3000 árum síðar komu fram fyrstu myntirnar fram en venjulega kemur slíkt form peninga fyrst upp í hugann þegar orðið „peningar“ er nefnt. Þótt engin eiginleg skuld hafi verið að baki þessara mynta þegar þær voru gefnar út þá voru þær notaðar og komust í umferð vegna þess að hið opinbera krafðist þess að opinber gjöld skyldu borguð með slíkri mynt: skuld til ríkisins skyldi borguð í þessari mynt, sem hið opinbera gaf venjulega út til þess að fjármagna stríðsrekstur. 

Það stórkostlega við bankastarfsemina í Babýlon og víðar var að ekkert var á bakvið notkun slíkra innlána (skulda „bankans“) nema trú og traust þeirra sem áttu ávísanir á „verðmæti“ (bókfært innlán) inni hjá viðkomandi banka fyrir því að í fyrsta lagi geta notast við þær innistæður sem fullnaðargreiðslu í viðskiptum og í öðru lagi að innistæðan væri alltaf aðgengileg hvenær sem viðkomandi vildi komast í eða nota hana. Það er ástæða fyrir því að enska orðið „credit“ á sér rætur til latneska orðsins „credere“ sem þýðir „að treysta fyrir“ eða „að trúa fyrir“. Þetta gildir enn þann dag í dag og hið sama gildir um hvernig myndun peninga fer fram. 

Myndun peninga samhliða skuldum

Myndun peninga á sér enga aðra undirstöðu en traust. Og myndun peninga innan bankakerfisins er svo einföld að fólk trúir því oftast ekki að þetta eigi sér virkilega stað í eins flóknu kerfi og bankakerfið er.

Myndun peninga er sú nákvæmlega sama í dag og hún var í Babýlon fyrir meira en 3700 árum. Einstaklingur fer í banka og biður um lán. Treysti bankinn (og lántakinn sjálfur) honum fyrir því að geta borgað lánið til baka og treysti einstaklingurinn á að geta eytt láninu á þann hátt sem honum sýnist mun útlánið og innlán lántaka samhliða því verða búin til. Úr algjörlega engu! 

Útlánið og innlánið sem lántakinn ætlar að nota til að gera hvað sem honum lystir við eru búin til á eftirfarandi hátt: bankinn bókar hjá sér að lántaki skuldi honum upphæð lánsins og bókar um leið að lántaki eigi hjá sér innistæðu sem er jafnhá upphæð lánsins. 

Flóknara er ferlið ekki. Myndun peninga hefur átt sér stað því lántaki getur nú t.d. farið í hraðbanka og tekið innistæðuna á bankareikningnum út eða farið til kaupmannsins á horninu og borgað með debetkortinu sínu (sem er rafrænt ávísanahefti) fyrir þær vörur og þjónustu sem hann kaupir þar. Þegar hann borgar með debetkortinu færir bankinn það til bókar að innistæða þess sem kaupir vöruna hefur lækkað um verð vörunnar. Samtímis er gerð bókun um að innistæða þess sem selur vöruna hækki um sömu upphæð. Skuld bankans, þ.e. innlán, er viðurkennd sem peningar, þ.e. fullnaðargreiðsla í viðskiptum. Þannig hafa peningar alltaf verið; þeir hafa aldrei verið neitt annað en skuld einhvers. 

Þetta kerfi gengur upp vegna þess að bæði kaupandi og seljandi vörunnar treysta bankanum fyrir því að bóka færsluna rétt. Færslan er samt ekkert annað en innsláttur á bókhaldi bankans. Ef traustið á bankastofnun hverfur verður hins vegar áhlaup á bankann: fólk vill selja eign sína hjá bankanum (innlán sem bókað er í bókhaldi bankans) og kaupa lausafé í staðinn.

Athugið eftirfarandi atriði:

1. Það er kolrangt að innlán (sparnaður einhvers) verði að vera til staðar til að hægt sé að lána út fé frá banka. Innlán og útlán eru búin til á sama tíma án þess að sparnaður nokkurs manns sé notaður til að mynda útlánið. Þetta er ástæðan fyrir því að Schumpeter kallaði bankastofnanir „framleiðendur kaupmáttar“ (e. producers of purchasing power).

2. Lausafjárhlutfallið skiptir engu máli fyrir hversu mikið er hægt að búa til af peningum í hagkerfinu. Það er ástæðan fyrir því að margir seðlabankar hafa einfaldlega fellt það niður: það skiptir ekki máli. 

3. Það er ekkert stærðfræðilegt hámark á hversu mikið af peningum er hægt að búa til í hagkerfinu. 

Einu takmarkandi stærðirnar eru vilji bankastofnana til að veita lán og vilji lántaka til taka lán. Ef bæði er til staðar er útlánið og innlánið búið til, algjörlega úr engu. Á sama tíma er kaupmáttur lántakans – innlánið – framleiddur, algjörlega úr engu. 

Hví í ósköpunum þetta skiptir einhverju máli í sambandi við skuldaniðurfærsluna verður fjallað um í næsta pistli.

Nánari fróðleik um þetta ferli og samband peninga og skulda má t.d. finna í eftirfarandi bókum:

Schumpeter – The Theory of Economic Development

Keynes – Treatise on Money

Graeber  - Debt: The First 5,000 Years
17.feb. 2013 - 18:15 Ólafur Margeirsson

Verðtrygging og raunveruleikinn

Sú forsenda er að Seðlabankinn sýni enga miskunn í sínum stýrivaxtaákvörðunum og láti lántaka óverðtryggðra lána með breytilegum nafnvöxtum finna tafarlaust fyrir því sjái Seðlabankinn fram á að verðbólga í framtíðinni verði utan þeirra verðbólgamarka sem stuðst er við við stýrivaxtaákvarðanir.
10.feb. 2013 - 09:28 Ólafur Margeirsson

Hvernig á að afnema verðtryggingu?

Nú þegar líður að kosningum er ekki úr vegi að íhuga hvernig eigi að uppfylla eitt af þeim fjölmörgu kosningaloforðum sem á þjóðinni munu dynja næstu mánuði: hvernig á að afnema verðtryggingu á lánum til einstaklinga?
12.des. 2012 - 22:51 Ólafur Margeirsson

Peningar og útlán

Ég set þennan texta hér því eins og ég tek fram í umsögninni tel ég það nauðsynlegt að fólk skilji hvernig útlánastarfsemi bankakerfisins leiðir af sér peningamyndun. Ég hef aldrei beðið fólk um að lesa það sem ég hef skrifað en í þetta skipti geri ég það.
03.des. 2012 - 14:08 Ólafur Margeirsson

Verðbólgan, verðtryggingin og raunvirði skulda

Eftir athyglisvert viðtal við Maríu Elvira Méndes Pinado, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, birti Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia háskóla í New York, pistil
19.nóv. 2012 - 12:00 Ólafur Margeirsson

Tímasprengjan Íbúðalánasjóður

Í fyrirlestri sínum á fundi Félags Viðskipta- og Hagfræðinga talaði Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri Fjármálastöðugleikasviðs hjá Seðlabanka Íslands, fyrst og fremst um aflandskrónur, erlendar skuldir og snjóhengjur.
11.nóv. 2012 - 09:51 Ólafur Margeirsson

Um „Íslandsálagið“

Viðskiptaráð Íslands gaf nýlega út plaggið „Gjaldmiðilsmál: Maastrict viðheldur valfrelsi
27.okt. 2012 - 14:08 Ólafur Margeirsson

Iðgjöld til skuldalækkunar

Mörður Árnason hefur stungið upp á því að í stað þess að fólk byggji upp framtíðarlífeyrisréttindi sín með greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða þá hafi fólk það val að iðgjöldin eru notuð til þess að borga inn á höfuðstól húsnæðislána. Margir ruku upp til handa og fóta og fundu ýmislegt hugmyndinni til foráttu. En hugmyndin er líklega ágæt. Ef eitthvað er þá gengur hún ekki nógu langt.
05.okt. 2012 - 09:27 Ólafur Margeirsson

Um atvinnuleysi og hið opinbera

Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að hinir atvinnulausu eigi ekki að fá atvinnuleysisbætur en sannast sagna finnst mér lítið efnahags- og samfélagslegt vit í því að nýta ekki vinnuafl þessa hóps meira en hingað til hefur verið gert.
13.sep. 2012 - 11:53 Ólafur Margeirsson

Framtíðarskerðingar lífeyrissjóðanna

Það þarf að vinna hratt ef ekki á að koma til skerðingar á lífeyrisréttindum árið 2014 þegar bráðabirgðaákvæðið um frestun á 5 ára 5% reglunni rennur út í árslok 2013. Ef það mun ekki gerast eru allar líkur að almennu sjóðirnir sem minnst er á hér að ofan skerði réttindi, mis mikið þó.
03.sep. 2012 - 10:22 Ólafur Margeirsson

Af hverju er Íbúðalánasjóður á hausnum?Ólafur Margeirsson

Doktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi.

icelandicecon.blogspot.com

om217@exeter.ac.uk

 

ford Transit   mars
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.3.2018
Klæðast eins og niðursetningar í þingsal
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 28.2.2018
Af högum mínum: Svar til blaðamanns
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 22.2.2018
Umskurður drengja
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson - 22.2.2018
Gyðingdómur í sögu og samtíð - námskeið
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 24.2.2018
Hann kaus frelsið
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 27.2.2018
Vita stjórnvöld hvað er barni fyrir bestu?
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 07.3.2018
Já, það er komið Vor í verkó!
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 14.3.2018
Stöðugleikasáttmáli alþýðunnar
Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson - 12.3.2018
Jafnasti oddvitinn?
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.3.2018
Þrír hugsjónamenn gegn alræði
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 18.3.2018
Hádeisverður í Stellenbosch
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.3.2018
Böðullinn drepur alltaf tvisvar
Fleiri pressupennar