13. ágú. 2012 - 10:55Ólafur Margeirsson

Gjaldeyrisneysla Íslendinga

Andri Guðmundsson, forstjóri H.F. Verðbréfa, hefur hárrétt fyrir sér: Íslendingar eyða of miklum gjaldeyri í neyslu m.v. þann gjaldeyri sem við öflum okkur. Það hefur sýnt sig í þeirri staðreynd að þeir örfáu dollarar sem Íslendingar eiga í handraðanum (í Seðlabankanum) eru í fyrsta lagi fengnir að láni og í öðru lagi líklega of fáir. Aflandskrónu- og gjaldeyrishaftavandinn er svo í raun birtingarmynd þessarar ofneyslu á innfluttum vörum.

Spurningin er: hvernig fórum við að því að koma okkur í þetta aflandskrónu-gjaldeyrishafta klandur?

Á nákvæmlega sama hátt og áður: við tókum lán í banka og prentuðum með því krónur. Nýprentuðu krónurnar voru svo notaðar til að kaupa innfluttar vörur en til þess þarf gjaldeyri. Þegar gjaldeyrisskortur á sér svo stað verður að fella gengi krónunnar til að fá fólk til að draga úr kaupum á innfluttum vörum. Gengisveiking auðveldar líka útflutning íslenskra vara.

Örstutt hagsaga

Fyrsta gjaldeyriskreppa Íslendinga átti sér stað um og upp úr 1920. Árin þar áður hafði þáverandi Íslandsbanki farið offorsi í að veita Íslendingum lán. Sú útlánastarfsemi varð einkar áberandi eftir að gullinnlausnin, sem þá var í gildi, var tekin úr sambandi 1914. Íslendingar fóru á lánafyllerí! Það lánafyllerí, ásamt því að Bretar tóku sér vald til að stjórna skipasiglingum Íslendinga árið 1917, olli gjaldeyrisskorti þegar nýju krónurnar, búnar til með útlánum Íslandsbanka og annarra banka, voru notaðar til að flytja inn nauðsynjavöru, eins og t.d. kol, að utan. Reynt var að klóra í bakkann með því að selja nokkra togara úr landi árið 1917 en það dugði ekki til: gjaldeyriskrísa varð óumflýjanleg.

Bankakerfið endaði í henglum vegna þess að fólk gat ekki endurgreitt lánin sem það tók örfáum árum áður og þurfti ríkissjóður að taka lán hjá Bretum til að redda bönkunum árið 1921. Staðan skánaði árið 1922 þegar krónan var felld um 23% og aukinn fiskafli og fiskútflutningur kom með gjaldeyri aftur inn í landið. Þeirri þróun var klúðrað þegar krónan var bundin við pundið sem fór árið 1925 aftur á alltof sterkan gullfót (mistök sem Churchill síðar viðurkenndi að hann hefði ekki gert hefði hann tekið mark á aðvörunum Keynes).

Íslandsbanki fór loksins í gjaldþrot árið 1930. Gjaldeyriskrísa númer tvö varð að veruleika og gjaldeyrishöft eru tekin upp árið 1931. Þau entust til 1960.

Áður en þau voru samt afnumin fékk bankakerfið aftur frítt spil til að lána út mikið af ferskum og nýmynduðum krónum yfir stríðsárin. Þegar loksins hægðist á eftir stríð og gjaldeyrisforðanum hafði verið eytt í fjárfestingarfyllerí – t.d. aðkeypta skuttogara í hvert einasta krummaskuð á landinu – var krónan felld aftur árið 1950 þrátt fyrir hörð innflutningshöft. Sú veiking var ekki nóg og það þurfti að fella krónuna aftur 10 árum síðar. Útlánaaukningin sem átti sér stað í bankakerfinu á árunum 1954-1958 hjálpaði heldur ekki til.

Næsta útlánagusa átti sér stað um miðjan sjöunda áratuginn. Það endaði með því að krónan var aftur felld árið í lok þess áratugs.

Á 8. áratugunum  varð svo sprenging í útlánum. Og alltaf féll krónan skömmu síðar til að gefa Íslendingum séns á því að nota útflutning til að koma sér út úr mestu gjaldeyrisvandræðunum. Verðtrygging var tekin upp vegna þess að sparifjáreigendur urðu illa fyrir barðinu á útlánagleði bankanna. Sú gleði hélt áfram út 9. áratuginn.

Á þeim 10. róaðist bankakerfið loksins. Árleg útlánaaukning dróst saman. Það hafði vitanlega þau áhrif að hagkerfið byrjaði að hægja á sér því nýmynduð útlán hafa í för með sér nýmyndaða peninga sem er eytt í hagkerfinu. En það góða var að krónan hætti loksins að falla eins og steinn enda engin ástæða til þess.

En Adam var ekki lengi í paradís. Eftir að internet- og „Litla húsnæðisbólan“, sem báðar voru fjármagnaðar með miklum nýmynduðum útlánum hjá bankakerifnu, sprungu upp úr aldamótum féll krónan aftur. Hún féll svo einu sinni enn eftir að útlánabólan í kjölfar einkavæðingar bankanna fór, loksins, út um þúfur árið 2008.

Alltaf skal krónan falla í kjölfar mikillar útlánaaukningar hjá bankakerfinu. Auðveldlega má sjá fjögur áberandi tímabil í hagsögu Íslands á meðfylgjandi grafi: 1914-1922, 1940-1960, 1970-1990 og 1998-2009. Alltaf skal bankakerfið spýta út miklu magni af nýjum útlánum inn í hagkerfið í upphafi þessara tímabila og krónan falla í lok þeirra.


Hvernig virkar þetta?

Nú spyr einhver hví í ósköpunum það ætti að vera samband á milli útlánaaukningar bankastofnana og gengis krónunnar. Það verður nú útskýrt á sem einfaldastan hátt.

Guðjón labbar inn í banka og ætlar að taka lán upp á eina milljón króna. Ef bankinn heldur að hann fái lánið endurgreitt veitir hann Guðjóni lánið.

Þegar bankinn veitir lánið er hann ALLS EKKI að taka innlán einhvers og lána Guðjóni peningana. Bankinn er ekki milligönguaðili milli Gunnu sem lagði milljón inn í bankann og Guðjóns sem tók milljón að láni.

Ferlið er í raun mun einfaldara: bankinn skrifar hjá sér að Guðjón skuldar honum eina milljón. Þessi innsláttur fer fram á lánabók bankans. Á sama tíma skrifar bankinn hjá sér að hann skuldi Guðjóni eina milljón króna. Þessi innsláttur á sér stað á tékkareikningi Guðjóns.

Guðjón er alveg til í þetta fyrirkomulag. Guðjón veit að hann getur farið í næstu búð og notað debetkortið sitt til að kaupa þar vörur og þjónustu: skuld bankans, þ.e. innlán Guðjóns, er viðurkennd sem fullnaðargreiðsla í viðskiptum manna á milli.

Þegar Guðjón borgar t.d. 10.000kr. bensínáfyllingu hjá N1 með debetkortinu fær bankinn þær skipanir að rita hjá sér að hann, bankinn, skuldi Guðjóni ekki lengur 1.000.000kr. heldur 990.000kr. Á sama tíma ritar bankinn hjá sér að hann skuldar N1 10.000kr. Debetkortið hans Guðjóns er þannig ekkert annað en rafræn ávísun þar sem færsla peninganna milli debetreikninga gerist á augabragði í stað þess að N1 hefði annars þurft að fara með ávísunina hans Guðjóns í bankann til að leggja andvirði hennar inn á tékkareikning N1.

En hvað gerðist nú með viðskiptahallann? Bensínið var innflutt. Svo ef Guðjón hefði ekki haft þessar 10.000kr. til að kaupa bensínið hefði N1 aldrei flutt það inn.

Afleiðing af því að bankinn veitti Guðjóni lán og Guðjón notaði hluta af láninu í að kaupa bensín fyrir 10.000kr. er því að viðskiptahalli Íslands versnaði um 10.000kr.

Bætum við öllum Guðjónunum í landinu og ef þeir taka allir út lán hjá bankanum sínum munu þeir eyða þeim peningum m.a. í innfluttar vörur s.s. bensín. Neysla innfluttra vara eyða gjaldeyrisforða Íslands því N1 verður að kaupa dollara fyrst áður en fyrirtækið getur greitt fyrir bensínið í Rotterdam þaðan sem það er flutt inn til Íslands.

Til að mæta þessari þróun í síminnkandi gjaldeyrisforða verður annaðhvort að minnka magn innfluttra vara eða auka magn útfluttra vara. Ef bankakerfið er í sífellu að lána út peninga er ólíklegt að magn innfluttra vara dragist saman því fólk er ennþá að kaupa þær með nýmynduðum peningum sem það fékk að láni hjá bankanum. Þá er eina ráðið að auka magn útfluttra vara. Ef það tekst ekki með beinni framleiðsluaukningu í útflutningsgreinum verður að draga úr hvatanum til að flytja inn vörur og auka hvatann til að flytja út vörur. Það er gert með því að lækka gengi krónunnar.

Og þá er afleiðingakeðjan fullkomnuð: ef bankakerfið veitir of mikið af lánum endar það með því að Íslendingar lenda í gjaldeyrisvandræðum. Og þá verður að leyfa krónunni að falla. Og það hefur gerst ansi oft í hagsögu Íslands.

Vandinn nú

Vandinn á Íslandi í dag er sá að það er ennþá of mikið af krónum í umferð m.v. þann gjaldeyri sem við öflum okkur. Friðrik Jónsson var með afskaplega einfalda og góða greiningu á því. Mikið magn af þessum krónum vilja komast út úr hagkerfinu og allar voru þær búnar til af bankakerfinu. Enginn sparaði þessar krónur fyrst áður en þær voru búnar til. Bankarnir einfaldlega bjuggu þær til úr engu með því að bóka hjá sér að hinir og þessir hefðu tekið lán.

Gengisfellingin 2008 var ekki nóg til að redda íslenska hagkerfinu út úr þeim gjaldeyrisforðakröggum sem það var þá komið í og er enn í. Ef aflandskrónuvandinn er ekki leystur með því að minnka magn króna í umferð á einn eða annan hátt verður svo að segja ómögulegt að aflétta höftunum án þess að gengi krónunnar veikist.

Og þá verður gaman að vera með verðtryggð lán, eða hitt þó heldur.

Ensk útgáfa birtist fyrst á icelandicecon.blogspot.com
17.feb. 2013 - 18:15 Ólafur Margeirsson

Verðtrygging og raunveruleikinn

Sú forsenda er að Seðlabankinn sýni enga miskunn í sínum stýrivaxtaákvörðunum og láti lántaka óverðtryggðra lána með breytilegum nafnvöxtum finna tafarlaust fyrir því sjái Seðlabankinn fram á að verðbólga í framtíðinni verði utan þeirra verðbólgamarka sem stuðst er við við stýrivaxtaákvarðanir.
10.feb. 2013 - 09:28 Ólafur Margeirsson

Hvernig á að afnema verðtryggingu?

Nú þegar líður að kosningum er ekki úr vegi að íhuga hvernig eigi að uppfylla eitt af þeim fjölmörgu kosningaloforðum sem á þjóðinni munu dynja næstu mánuði: hvernig á að afnema verðtryggingu á lánum til einstaklinga?
12.des. 2012 - 22:51 Ólafur Margeirsson

Peningar og útlán

Ég set þennan texta hér því eins og ég tek fram í umsögninni tel ég það nauðsynlegt að fólk skilji hvernig útlánastarfsemi bankakerfisins leiðir af sér peningamyndun. Ég hef aldrei beðið fólk um að lesa það sem ég hef skrifað en í þetta skipti geri ég það.
03.des. 2012 - 14:08 Ólafur Margeirsson

Verðbólgan, verðtryggingin og raunvirði skulda

Eftir athyglisvert viðtal við Maríu Elvira Méndes Pinado, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, birti Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia háskóla í New York, pistil
19.nóv. 2012 - 12:00 Ólafur Margeirsson

Tímasprengjan Íbúðalánasjóður

Í fyrirlestri sínum á fundi Félags Viðskipta- og Hagfræðinga talaði Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri Fjármálastöðugleikasviðs hjá Seðlabanka Íslands, fyrst og fremst um aflandskrónur, erlendar skuldir og snjóhengjur.
11.nóv. 2012 - 09:51 Ólafur Margeirsson

Um „Íslandsálagið“

Viðskiptaráð Íslands gaf nýlega út plaggið „Gjaldmiðilsmál: Maastrict viðheldur valfrelsi
27.okt. 2012 - 14:08 Ólafur Margeirsson

Iðgjöld til skuldalækkunar

Mörður Árnason hefur stungið upp á því að í stað þess að fólk byggji upp framtíðarlífeyrisréttindi sín með greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða þá hafi fólk það val að iðgjöldin eru notuð til þess að borga inn á höfuðstól húsnæðislána. Margir ruku upp til handa og fóta og fundu ýmislegt hugmyndinni til foráttu. En hugmyndin er líklega ágæt. Ef eitthvað er þá gengur hún ekki nógu langt.
05.okt. 2012 - 09:27 Ólafur Margeirsson

Um atvinnuleysi og hið opinbera

Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að hinir atvinnulausu eigi ekki að fá atvinnuleysisbætur en sannast sagna finnst mér lítið efnahags- og samfélagslegt vit í því að nýta ekki vinnuafl þessa hóps meira en hingað til hefur verið gert.
13.sep. 2012 - 11:53 Ólafur Margeirsson

Framtíðarskerðingar lífeyrissjóðanna

Það þarf að vinna hratt ef ekki á að koma til skerðingar á lífeyrisréttindum árið 2014 þegar bráðabirgðaákvæðið um frestun á 5 ára 5% reglunni rennur út í árslok 2013. Ef það mun ekki gerast eru allar líkur að almennu sjóðirnir sem minnst er á hér að ofan skerði réttindi, mis mikið þó.
03.sep. 2012 - 10:22 Ólafur Margeirsson

Af hverju er Íbúðalánasjóður á hausnum?Ólafur Margeirsson

Doktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi.

icelandicecon.blogspot.com

om217@exeter.ac.uk

 

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar