07. júl. 2012 - 19:00Lára Björg Björnsdóttir
Já hæ. Vitiði hvað? Ég er búin að vera að drepast í bakinu síðan ég var 17 ára. Bara algjörlega. Að drepast. Reglulega, kannski þrisvar á ári, festist ég og er alveg frá í kannski fjóra daga. Hina dagana er ég svona aðeins að drepast. Ég hef því verið meira og minna kvalin í öll þessi ár. Verkir eru mitt millinafn. Jebb. Ái. Það er ég.
Nema hvað. Um daginn eignaðist ég son. Eitthvað gaf sig í fæðingunni, ég rófubeinsbrotnaði og gamli bakverkurinn tók sig upp sem aldrei fyrr. Ég hef ekki getað legið, setið eða staðið í tvo mánuði. Ég hef bara gólað úr kvölum. Segulómun nú í vikunni leiddi í ljós að ég er með móður (!) allra brjósklosa. Þar sem ég sit í hnipri og skrifa þessi orð er ég að bíða eftir að komast í svokallaðan bráðauppskurð við þessum djöfli.
Grenjandi blóði og ælandi úr sársauka spurði ég lækninn sem mun framkvæma aðgerðina: “Og hvernig í helvítinu verð ég eftir þennan uppskurð?” Og hann svaraði: “Þetta er eins og losna úr álögum, þú munt ekki finna til eftir að þú vaknar.”
Ég varð hugsi eftir þessi orð læknisins. Ég mun ekki finna til. Ég verð ekki kvalin. Ég mun ekki blóta í hverju skrefi eða við hverja hreyfingu. Það er því ekki laust við að ég velti því fyrir mér hvort ég muni ef til vill breytast sem týpa eftir að ég vakna úr svæfingunni. Mun ég hætta að hata allt svona mikið?
Ég hef pirrað mig á öllu mögulegu síðan ég man eftir mér. Mannþröng. Byrjum á henni. Þorláksmessa. 17. júní. Menningarnótt. Allir hressir og kátir í bænum með kandífloss gólandi og hjalandi og ælandi úr gleði. Á þessum dögum ligg ég undir rúmi með dregið fyrir.
Frasar eins og: “Lifðu lífinu lifandi” hafa sært úr mér lifrina af pirringi. Lífsleiknisfrasar, ráð til að komast í gegnum daginn með bros á vör og “upplífgandi” stjörnuspár eru eitthvað sem mér finnst að eigi að banna með lögum. Hvers vegna má fólk ekki bara þjást í einrúmi?
Eða hvað með þegar ættingjar hringja með fimm mínútna fyrirvara og spyrja: “Eruði heima? Við erum á rúntinum og ætlum að kíkja við!” Svona símtöl senda mig beint inn í lyfjaskápinn þar sem ég finn panódíl sem ég bryð eins og smartís á meðan ég hendi mér undir borð og þykist ekki vera heima.
Svo, hvernig mun ég verða eftir þennan uppskurð? Hvernig verður líf mitt án kvala?
Hvað ef umskiptin verða það rosaleg að ég finn ekki reiðina aftur? Lífið þarf ekki á fleiri blikkbroskörlum að halda. Hvað ef ég byrja að rækta blóm og kryddjurtir sem ég klippi smátt með litlum skærum og strái yfir kvöldmatinn fyrir heimilisfólkið? Hvað ef ég bið um það í næsta flugi að fá að fara fram í flugstjórnarklefann með kveðjukort og sérrítár í stað þess að bölva flugmönnunum í huganum fyrir að reyna að myrða mig og alla hina í fluginu?
Mun ég fara að kalla syni mína prinsa? Verður næsti status á facebook hjá mér: “Dásamleg helgi að baki í faðmi fjölskyldunnar, stóri prins fékk ís en litli prins bara duddu lol! í Húsdýragarðinum (ég hata engan stað heitar en þann pytt vítis) og kallinn var með sörpræs um kvöldið, trítaði mig með humarsúpu og gaf mér gjafakort í dekur í Laugum spa, jummí!!”
Mun ég deila krúttlegum youtube myndböndum af slefandi börnum og gæludýrum? Mun ég setja hjarta yfir i-ið þegar ég skrifa hótunarbréf til fólks sem ég þoli ekki? Mun ég bjóða fólki að droppa inn í kaffi á öllum tímum sólarhrings? Mun ég kalla fótleggjavax “dekur” og pósta myndum af sushi og öðrum matarslettum þegar ég fer út að borða því ég mun auðvitað nenna að fara út að borða og hitta fólk því ég verð ekki alltaf brjáluð úr reiði og pirringi?
Nú er ég hysterísk lífhrædd og óttast allt og býst alltaf við hinu versta. Því ætti svæfing og hugsanlega áhættusamur bakuppskurður að hræða úr mér miltað. En í öllu þessu stressi er ég þó mun hræddari við týpuna sem ég mun breytast í eftir uppskurðinn. Mun ég geta lifað með sjálfri mér kvalalaus?
Það kemur í ljós á mánudaginn.