Lára Björg Björnsdóttir
07. júl. 2012 - 19:00Lára Björg Björnsdóttir

Að tapa reiðinni

Já hæ. Vitiði hvað? Ég er búin að vera að drepast í bakinu síðan ég var 17 ára. Bara algjörlega. Að drepast. Reglulega, kannski þrisvar á ári, festist ég og er alveg frá í kannski fjóra daga. Hina dagana er ég svona aðeins að drepast.  Ég hef því verið meira og minna kvalin í öll þessi ár.  Verkir eru mitt millinafn. Jebb. Ái. Það er ég.
 
Nema hvað. Um daginn eignaðist ég son. Eitthvað gaf sig í fæðingunni, ég rófubeinsbrotnaði og gamli bakverkurinn tók sig upp sem aldrei fyrr. Ég hef ekki getað legið, setið eða staðið í tvo mánuði. Ég hef bara gólað úr kvölum. Segulómun nú í vikunni leiddi í ljós að ég er með móður (!) allra brjósklosa. Þar sem ég sit í hnipri og skrifa þessi orð er ég að bíða eftir að komast í svokallaðan bráðauppskurð við þessum djöfli.
 
Grenjandi blóði og ælandi úr sársauka spurði ég lækninn sem mun framkvæma aðgerðina: “Og hvernig í helvítinu verð ég eftir þennan uppskurð?” Og hann svaraði: “Þetta er eins og losna úr álögum, þú munt ekki finna til eftir að þú vaknar.”
 
Ég varð hugsi eftir þessi orð læknisins. Ég mun ekki finna til. Ég verð ekki kvalin. Ég mun ekki blóta í hverju skrefi eða við hverja hreyfingu. Það er því ekki laust við að ég velti því fyrir mér hvort ég muni ef til vill breytast sem týpa eftir að ég vakna úr svæfingunni. Mun ég hætta að hata allt svona mikið?
 
Ég hef pirrað mig á öllu mögulegu síðan ég man eftir mér. Mannþröng. Byrjum á henni. Þorláksmessa. 17. júní. Menningarnótt. Allir hressir og kátir í bænum með kandífloss gólandi og hjalandi og ælandi úr gleði. Á þessum dögum ligg ég undir rúmi með dregið fyrir.  
 
Frasar eins og: “Lifðu lífinu lifandi” hafa sært úr mér lifrina af pirringi.  Lífsleiknisfrasar, ráð til að komast í gegnum daginn með bros á vör og “upplífgandi” stjörnuspár eru eitthvað sem mér finnst að eigi að banna með lögum. Hvers vegna má fólk ekki bara þjást í einrúmi? 
 
Eða hvað með þegar ættingjar hringja með fimm mínútna fyrirvara og spyrja: “Eruði heima? Við erum á rúntinum og ætlum að kíkja við!” Svona símtöl senda mig beint inn í lyfjaskápinn þar sem ég finn panódíl sem ég bryð eins og smartís á meðan ég hendi mér undir borð og þykist ekki vera heima.
 
Svo, hvernig mun ég verða eftir þennan uppskurð? Hvernig verður líf mitt án kvala?
 
Hvað ef umskiptin verða það rosaleg að ég finn ekki reiðina aftur? Lífið þarf ekki á fleiri blikkbroskörlum að halda. Hvað ef ég byrja að rækta blóm og kryddjurtir sem ég klippi smátt með litlum skærum og strái yfir kvöldmatinn fyrir heimilisfólkið? Hvað ef ég bið um það í næsta flugi að fá að fara fram í flugstjórnarklefann með kveðjukort og sérrítár í stað þess að bölva flugmönnunum í huganum fyrir að reyna að myrða mig og alla hina í fluginu?
 
Mun ég fara að kalla syni mína prinsa? Verður næsti status á facebook hjá mér: “Dásamleg helgi að baki í faðmi fjölskyldunnar, stóri prins fékk ís en litli prins bara duddu lol! í Húsdýragarðinum (ég hata engan stað heitar en þann pytt vítis) og kallinn var með sörpræs um kvöldið, trítaði mig með humarsúpu og gaf mér gjafakort í dekur í Laugum spa, jummí!!”
 
Mun ég deila krúttlegum youtube myndböndum af slefandi börnum og gæludýrum? Mun ég setja hjarta yfir i-ið þegar ég skrifa hótunarbréf til fólks sem ég þoli ekki? Mun ég bjóða fólki að droppa inn í kaffi á öllum tímum sólarhrings? Mun ég kalla fótleggjavax “dekur” og pósta myndum af sushi og öðrum matarslettum þegar ég fer út að borða því ég mun auðvitað nenna að fara út að borða og hitta fólk því ég verð ekki alltaf brjáluð úr reiði og pirringi?
 
Nú er ég hysterísk lífhrædd og óttast allt og býst alltaf við hinu versta. Því ætti svæfing og hugsanlega áhættusamur bakuppskurður að hræða úr mér miltað. En í öllu þessu stressi er ég þó mun hræddari við týpuna sem ég mun breytast í eftir uppskurðinn. Mun ég geta lifað með sjálfri mér kvalalaus?
 
Það kemur í ljós á mánudaginn.
27.maí 2012 - 16:00 Lára Björg Björnsdóttir

Hugsað með hjartanu

Já hæ. Þið munið kannski eftir mér. Ég skrifaði einu sinni nokkra pistla um að við ættum að taka ákveðinn samning um Icesave og troða honum. Samningnum var troðið og mér var létt.
18.jan. 2012 - 19:30 Lára Björg Björnsdóttir

Lífstílsskinka á 9 mánuðum

Hollur matur hefur aldrei verið í uppáhaldi hjá mér. Ég hef forðast hann eins og heitan pytt af logandi vítisdjöflum frá því ég man eftir mér. Uppistaðan í fæðu minni er kolvetni og smjör. Lífrænt jukk og grænmeti eru óvinurinn, fita er vinurinn.
19.sep. 2011 - 21:00 Lára Björg Björnsdóttir

Sjúkrakassinn

"Ég hringdi síðan auðvitað á sjúkrabíl Júlía, en enginn annar gerði neitt. Ég hringdi líka í aðstandendur greyið mannsins, á meðan ég mældi hitann og tók púlsinn á honum. Stundum líður mér eins og ég sé eina manneskjan með viti í þessum heimi Júlía. Fyrir utan þig auðvitað. En samt alveg stundum er það bara ég."
15.júl. 2011 - 14:10 Lára Björg Björnsdóttir

Ég hata gæludýr Júlía

Ég þekki rosalega mikið af góðu fólki. Ég þekki líka alveg manneskjur sem eru hreinræktuð illmenni inn að beini. Þessi pistill mun snúast um að nefna þessi illmenni á nafn.
08.apr. 2011 - 20:00 Lára Björg Björnsdóttir

Svona rétt áður en við troðum honum

Já hæ. Eitt hérna. Og ég lofa að vera stuttorð. Djók.

22.mar. 2011 - 14:00 Lára Björg Björnsdóttir

Vitiði hvert þið megið troða honum?

Já hæ. Bara eitt hérna. Ég skrifaði pistil um daginn um að við ættum að taka Icesave samninginn og troða honum. Og maður minn hvað ég uppskar mikla reiði í kjölfarið. Ég fékk símtöl og tölvupósta frá fólki sem sagði að ég ætti ekki að skipta mér af þessu málefni. Ég var flokkuð sem hægri nöttari, eiginkona einhvers (síðast þegar ég gáði var ég ógift og það fráskilin af öllum hlutum) og Evrópuhatari.
26.feb. 2011 - 20:00 Lára Björg Björnsdóttir

Taktu þennan samning og troddu honum

Já hæ. Ég hef sjaldan skipt mér af neinu sem skiptir einhverju máli þannig lagað. Ég hef aldrei staðið froðufellandi í kokteilboði kyrkjandi gestgjafann yfir kvótakerfinu eða „ísbjörn eða ekki ísbjörn í Húsdýragarðinn“ eða hvort Steingrímur J. sé meðidda eða ekki. Þegar ég var yngri þóttist ég halda með Wham ef ég hitti Whammara og lék sama leik ef ég hitti einhvern með Duran Duran tattú á enninu. Flettið upp á „Kamelljóni“ eða „Tækifærissinna“ í orðabókinni og þar er flennistór mynd af mér með sérríglas og lagt hárið.

12.feb. 2011 - 20:00 Lára Björg Björnsdóttir

Ég er glæpamaður

Ég á við stórkostlegt vandamál að stríða. Umrætt vandamál telst að auki til umferðarlagabrota. Og einmitt núna er lögreglan í sérstöku átaki og sektar fólk fyrir þetta tiltekna brot. Þið hljótið því að sjá hvað ég á bágt þessa dagana. Mér líður eins og hráu nautahakki til sýnis sem eitthvað ógeð á matreiðslunámskeiði hjá við-borðum-bara-hrátt-grænmeti.is í Ármúlanum.
01.feb. 2011 - 10:00 Lára Björg Björnsdóttir

Dægradvöl fyrir fátækt fólk

Já hæ. Mig langar til að deila nokkrum ráðum með ykkur sem eigið engan pening og eruð þar af leiðandi fátæk. Litla og ljóta systurþorp Blankheita heitir Leiðindi og því datt mér í hug að kokka upp nokkur ráð til að stytta ykkur stundir. Þó að maður eigi ekki pening er engin ástæða til að sitja heima og stara á veggina. Og engar áhyggjur, ég er ekki að fara að kenna ykkur að búa til heimalagað andlitsskrúbb úr haframjöli og kókóssalti. Þetta eru alvöru ráð krakkar.

Lára Björg Björnsdóttir

Lára Björg Björnsdóttir er móðir, kærasta, systir, dóttir, vinkona, sagnfræðingur, pelsaeigandi og fóbísk á flest allt.

Hún hefur marga fjöruna sopið og kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að veseni og harðindum.
Lára skrifar um það sem drífur á daga hennar, daga sem fara flestir í að taka við endalausum símtölum frá föður hennar, slást í Bónus, þrífa eða berjast fyrir réttindum barna með sérþarfir. Það sagði enginn að þetta yrði auðvelt. Mamma er hér.

Apótekið: Viktor Örn
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar