14. júl. 2017 - 11:45Kristjón Kormákur Guðjónsson

Ég barði nauðgarann minn

Þann 16. september síðastliðinn hlaut Róbert Árni Hreiðarsson, eða Robert Downey líkt og hann kallar sig, uppreist æru og lögmannsréttindi sín aftur. Hann var dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir barnaníð árið 2007 vegna viðurstyggilegra kynferðisbrota gegn fjórum stúlkum. Að minnsta kosti tvær ungar konur, Nína og Glódís Tara, sem Róbert braut á grétu þegar þær heyrðu af ákvörðun dómsmálaráðuneytisins. Ég talaði við þær báðar. Eftir samtalið grét ég ekki. Ég var hinsvegar illur. Brjálaður. Reiður. Síðan sorgmæddur.

Ég er sorgmæddur fyrir hönd samfélagsins, fyrir hönd kvenna, karla og allra þeirra sem hefur verið nauðgað. Ég varð sjálfur fyrir grófu kynferðisofbeldi sem unglingur. Ég var dauðadrukkinn. Ég sagði engum frá. Ég kærði ekki. Ég skammaðist mín. Réttarkerfið færði mér ekki lokun á mitt mál. Þegar víman var runnin af mér fór ég til baka og sá vart út um augun af trylltri heift, niðurlægingu, reiði, sorg og sektarkennd. Í ofsareiði misþyrmdi ég níðingnum mínum hrottalega.

Okkur er kennt og sagt að svoleiðis geri maður ekki. Við eigum að fara að lögum. Við eigum ekki að taka lögin í eigin hendur. Ég tek undir það. En ég bjó ekki yfir sama hugrekki og konurnar sem kærðu Róbert. Skömm og sjálfsásakanir komu í veg fyrir það. Þess vegna dáist ég að öllum sem þora að leita réttar síns í stað þess að beita ofbeldi.

Ef hann hefði kært mig hefði ég líklega fengið fangelsisdóm. Ef ég hefði hins vegar beitt hann grimmu kynferðisofbeldi á móti hefði ég örugglega sloppið. Þannig er það nú bara. En ég sagði engum. Og ég skammaðist mín.

Kynferðisbrot drepa

Refsingin við að eyðileggja fólk er oft hlægileg og æran bíður í þvottavélinni í ráðuneytinu á meðan. Kynferðisbrot drepa líka. Ég átti vinkonu sem framdi sjálfsmorð. Pabbi hennar nauðgaði henni. Hún rogaðist um með skelfilegar minningar og reyndi að drekkja þeim í brennivíni og dópi en ekkert gekk. Minningarnar flutu alltaf upp á yfirborðið og vöfðu sig að lokum utan um hana og þegar þær loks sukku tóku þær hana með niður í djúpið.

Eins og að vinna í lottó

Að kæra er eitt. Við tekur völundarhús með endalausum ranghölum og að ná kynferðisbrotamáli inn í réttarsal er eins og að vinna í lottó. ­Leið þolenda í gegnum réttarkerfið er oft niðurlægjandi og þeir mæta fordómum í réttarkerfinu. Ferlið frá því að kært er og þar til málið er tekið fyrir er alltof langt, getur tekið nokkur ár. Á þeim tíma er algengt að ósjálfráð langtímaviðbrögð aukist. Svipmyndir eða brot úr nauðgunarárásinni birtast í huga þolandans við ólíklegustu aðstæður.

Að sigra í héraðsdómi og í Hæstarétti er eins og að næla í þann stóra tvisvar á sama árinu. Síðan kemur dómurinn. Hann er yfirleitt skammarlega vægur.

Og allt þetta gerðu unglingsstúlkurnar fjórar. Ákváðu að gera það sem okkur er kennt. Þær kærðu. Þær fengu viðurkenningu á því að Róbert hefði brotið á þeim. Róbert fór í fangelsi. Þær fengu einhverja trú á réttlætið. Síðan liðu nokkur ár og þá urðu þær vitni að því að fortíð Róberts er þurrkuð út. Þær unnu málið á sínum tíma en þann dag sem Róbert hlaut uppreist æru töpuðu þær. Samfélagið allt tapaði.

Lögmaður Róberts, Jón Steinar Gunnlaugsson, spurði:

Vill fólk að ef manni verður eitthvað á í lífinu að hann sé þá bara dæmdur út úr okkar samfélagi til æviloka?

Seinna sagði hann:

„Fólk á bara láta manninn í friði.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins talaði um myrkar miðaldir, gapastokka og líkti við útskúfun samkynhneigðra og trúlausra á árum áður að fólki væri misboðið.

Forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson var spurður á RÚV:

Forseti Íslands sagði í hádegisfréttum hjá okkur að honum þætti málið ömurlegt og hann hefði mikla samúð með fórnarlömbum þessa manns. Tekur þú á einhvern hátt undir það sem hann segir?

Bjarni svaraði ekki spurningunni. Hann minntist ekki einu orði á hvort hann hefði samúð með þolendum Róberts. Hann sagði:

Ég myndi frekar hallast að því að í okkar samfélagi viljum við gefa fólki tækifæri aftur í lífinu, sem hefur tekið út sína refsingu. Við getum ekki látið tilfinningar kannski ráða of miklu í þeim efnum.

En það er alveg sama hvað nokkrir starfsmenn í þvottahúsi innanríkisráðuneytisins ákveða

... æra þeirra sem brjóta á börnum verður aldrei söm.

Vertu prúð og góð

Konunum og ættingjum þeirra var sagt að þeim myndi líða betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu. Karlmaðurinn hefur lengi ráðið yfir ástarlífi og kynlífi kvenna. Áður var konum drekkt ef þær urðu óléttar eftir nauðgun skyldmennis eða valdmanns. Og þegar Drekkingarhylur er uppþornaður höfum við í staðinn valdsmenn sem vilja þagga niður í konum með því að segja þeim að vera prúðar og góðar og benda þeim á að fyrirgefa. Ráðamenn og embættismenn eiga ekki að tala um fyrirgefningu eða myrkar miðaldir. Þeir eiga að lyfta stúlkunum upp þegar minningarnar koma öskrandi til baka og vernda okkur hin og börnin okkar fyrir níðingum.

Á ég að fyrirgefa manninum sem í stað þess að hjálpa mér 16 ára gömlum þegar ég var ósjálfbjarga, tók niðrum mig gallabuxurnar og nærbuxurnar og stundi í eyrað á mér á meðan hann nauðgaði mér?

Nei, hann má fokka sér.

Ég þarf ekki að fyrirgefa honum til að líða betur og komast yfir fortíðina. Ég á ástvini og hef aðgang að sálfræðingum. Hver finnur sína leið.

Ég stend uppréttur og segi frá. Ég lifði af og mér finnst það skylda mín fyrst ég stend hér uppréttur, að segja að það sé hægt að eiga bærilegt líf þrátt fyrir þetta skelfilega ofbeldi.

Ég ætla að standa með þessum stelpum og skila skömminni. Ég veit núna að það kostar ótrúlegt átak að leita réttar síns. Að setja þessi orð á blað hefur tekið vikur.

En ég læt ekki sussa á mig.

Ég sussa á gömlu tilfinningarnar, raddirnar sem reyna að segja mér að stíga ekki fram. Því skömmin er ekki mín.

Ég hef hátt fyrir Glódísi, Höllu, Nínu Rún, Önnu Katrínu og alla aðrar konur og karla.

Ég hef eins hátt og mér sýnist.
08.jún. 2017 - 13:10 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Ég biðst afsökunar

Í morgun fjallaði dv.is um líkamsárás og manndrápsmál sem átti sér stað í Mosfellsdal í gærkvöldi. Fyrir mistök birti ég nafn konu, Andreu Kristínar Unnarsdóttur, sem var ekki á staðnum. Nafnbirtingin var byggð á heimildum sem ég taldi öruggar en voru það ekki.
28.feb. 2017 - 22:06 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Jæja, kæru hálfvitar sem eru að deila kynlífsmyndbandinu

Undanfarna daga hefur myndskeið af ungu fólki að stunda kynlíf á ónefndum bar gengið manna á milli á Facebook. Það er rétt. Fjölmiðill fyrir norðan hefur gert því skil og lýsir blaðamaður nokkuð nákvæmlega hvað á sér stað. Segir að myndbandið hafi ferðast hratt á samskiptamiðlum. Það er líka rétt. Og eru fleiri en ein útgáfa á ferðinni. Líklega rétt. Ég er með eina útgáfu í tölvunni hjá mér. Í fréttinni segir að dreifingu megi flokka sem svokallað hrelliklám.
24.sep. 2015 - 09:20 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Stelpurnar sem „sváfu“ hjá Justin Bieber

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að kanadíski söngvarinn Justin Bieber dvaldi hér á landi í tvo daga. Fjölmiðlar greindu frá ferðum Bieber og vina hans um landið. Söngvarinn skoðaði meðal annars Gullfoss og Geysi, skellti sér í Bláa lónið og heimsótti Vestmannaeyjar.  Hann hélt svo af landi brott í gærmorgun.
28.maí 2015 - 21:10 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Ekki vera fávitar: Leyfið fólkinu hans að syrgja

Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins lést þann 18. maí síðastliðin. Halldór var fæddur 8. september árið 1947. Útför hans var gerð frá Hallgrímskirkju í dag. Halldór hefði orðið sextíu og átta ára gamall í haust.
19.apr. 2015 - 21:37 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Vinir mínir sem þið drápuð

Á meðan amma mín sat hjá mér og las mig í svefn, með silfurgrátt hárið bundið í fléttu, sjal yfir herðarnar og í kjól sem var sprunginn út í blómum og hvíslaði Ævintýraeyjunni með sinni fögru röddu lá pabbi vinkonu minnar uppi í rúmi hjá dóttur sinni og nauðgaði henni.  Hann nauðgaði barninu sínu í mörg ár.
09.mar. 2015 - 10:00 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Hver er skrímslið? Samsæriskenningar lögmanns í LÖKE málinu

Garðar St. Ólafsson héraðsdómslögmaður skrifar opið bréf til Björns Inga Hrafnssonar sem birt var á Kjarnanum og  Vísi.  Bréfið er uppfullt af ósannindum og samsæriskenningum og í raun nokkur vandi á höndum hvar skal byrja að hrekja furðulega þvæluna.
15.feb. 2014 - 11:30 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Ég sá hluti sem ekkert barn á að verða vitni að

Þegar ég var fimm ára var ég tekinn frá mömmu minni vegna þess að hún var ekki fær um að sjá um mig vegna geðveiki og alkóhólisma. Hún var ung og í sambúð með manni sem einnig átti við áfengisvanda að stríða.
17.sep. 2012 - 11:30 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Urðu fyrir kynferðislegri áreitni vegna leti og óþekktar

Seint í sumar sagði fimmtán ára dóttir mín mér frá því að yfirmaður hennar í unglingavinnunni hefði beitt stelpurnar í hópnum kynferðislegri áreitni.

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Ritstjóri DV. Netfang kristjon@dv.is
Apótekið: Viktor Örn
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Fleiri pressupennar