01. jún. 2010 - 19:00Jóna Á. Gísladóttir

Úlfaldinn og mýflugan

Sá Einhverfi fór til tannlæknis um daginn. Og það er svo sannarlega í frásögur færandi því þetta var hans fyrsta heimsókn til tannlæknis á öllum sínum 11 árum og 8 mánuðum. Fram að þessu hefur tannlæknirinn komið í heimsókn í Öskjuhlíðarskóla og litið eftir að allt sé með felldu með stell stráksa. Og hefur svo verið hingað til, þó að það hreinlega stríði gegn náttúrulögmálinu því ekki er tannburstun drengsins til fyrirmyndar. Það verður bara að segjast eins og er. Langt er síðan hann fór að harðneita okkur  foreldrunum um að sjá um þessa hlið hreinlætis og á löngum tímabilum hefur það kostað handalögmál að fá hann til að bursta tennurnar.

Svo var það á laugardegi, viku fyrir hvítasunnuhelgina að Sá Einhverfi kveinkaði sér og hélt um vinstri kinnina. Með herkjum fékk ég hann til að opna munninn svo ég gæti kannað málið og kom ég strax auga á jaxl í neðri gómi sem mér fannst grunsamlegur og mjög svo  líklegur kandídat í að bera ábyrgð á tannverk.

 Nú voru góð ráð dýr. Eflaust er alltaf hægt að finna tannlækni á neyðarvakt en ég var viss um að það myndi ekki hjálpa okkur. Ekki gat ég ímyndað mér að strákurinn minn myndi fást til að gapa fyrir nokkurn mann, lengur en tekur að stinga gúmmíbangsa upp í hann. Það var ljóst að við værum að horfa á meiriháttar dæmi; svæfingu og vesen og slíka þjónustu fær maður varla um helgi.. Ég hugsaði með hryllingi til þess að elsku drengurinn minn myndi þurfa að þjást af tannverk alla helgina og jafnvel lengur. Tannpína er, held ég, það versta sem ég veit. En sem betur fer þá virtist hann bara fá stingi öðru hverju en ekki hafa stöðugan verk og það var ekki að sjá að þetta hefði mikil áhrif á hann. En ég var nú samt með hnút í maganum yfir þessu þar sem lítið virðist vera að marka sársaukaþröskuld stráksa. Til dæmis var hann með brákaðan úlnlið í þrjá daga í fyrrasumar áður en móðirin sá ástæðu til að láta kíkja á hann og þá  bara vegna þess að hann beitti höndinni öðruvísi en venjulega við skriftir.

En til að gera langa sögu stutta þá náði ég í Magnús tannlækni,  sem þjónustar Öskjuhlíðarskóla, í síma eftir helgina og bauð hann mér að koma á stofuna til sín.

Sennilega þarf Ian svæfingu sagði Magnús og slíkt er ekki lengur gert á stofum heldur á spítala. En ég verð að byrja á því að kíkja á hann.

Það var vantrúuð móðir sem gekk inn á tannlæknastofuna þennan eftirmiðdag. Ég trúði því alls ekki að þessi heimsókn myndi bera árangur. En það fóru fljótlega að renna á mig tvær grímur. Ekki bara eru Magnús tannlæknir og Sigga aðstoðarkona yndislegt fólk og fær í sínu fagi, heldur gleymdi ég líka að reikna með því að Sá Einhverfi þekkir þau þó að ég hafi verið að hitta þau í fyrsta skipti. Áður en ég vissi var stráksi lagstur makindalega í stólinn með einhvers konar  sjónauka bundinn á höfuðið. Magnús skellti teiknimynd í DVD spilara og Sá Einhverfi glápti hæstánægður á myndina   í gegnum ,,sjónaukann’’. Svo gapti hann eftir bestu getu þó að tungan virtist eitthvað vera að þvælast fyrir honum. Magnús hófst handa en varð fljótlega  að gera  hlé á skoðuninni þegar guttinn kvartaði hástöfum yfir því að gleymst hefði að stilla á íslenskt tal á teiknimyndinni.

Það var lagað í snarheitum og fljótlega kom í  ljós að það eina sem hrjáði drenginn voru þrjóskar barnatennur sem neituðu að víkja fyrir sér merkilegri tönnum og héngu á kergjunni einni saman á nokkrum þráðum. Magnús deyfði tannholdið með einhvers konar kremi sem Sá Einhverfi var reyndar ekki par hrifinn af, og gerði sér svo lítið fyrir og kippti tveimur barnatönnum í burtu.

Sá Einhverfi fékk lítinn bolta og sápukúlur í verðlaun og síðast en ekki síst, eina tönn í litlu, glæru boxi. Hina tönnina gleypti hann óvart í stólnum. Boxið var hrist í sífellu svo glamraði í og sonur minn horfði  hugfanginn og hreykinn á tönnina skrölta fram og til baka.

Bless Ian, sögðu Magnús og Sigga. Mikið varstu duglegur.

Takk fyrir hjálpina, sagði Sá Einhverfi og virtist meina það.

Þau halda eflaust að drengurinn sér sérstaklega vel upp alinn en mig grunar að Lotta í Ólátagötu eða Kalli Blómkvist hafi sagt eitthvað svipað við sinn tannlækni. Þau hafa mikið til séð um uppeldið á þessum dreng mínum.

Ég horfði á eftir syninum tölta eftir ganginum með Toy story 3 derhúfuna sína á höfðinu, bolta í annarri hendi og tönn í boxi í hinni. Sallarólegan  og allsendis ónæman fyrir því fárviðri sem geysaði hafði í heilanum á mér  síðustu sólarhringa, við skipulagningu á tannskoðun, tannviðgerðum, svæfingum, frídögum í vinnu sem gjarnan eru fylgifiskur svona gjörninga og áhyggjur af því hvort ég þyrfti að gefa honum verkjalyf, hvort ég kæmi því ofan í hann..….  

Mitt í léttinum yfir að þetta væri afstaðið og málið dautt, hvarlaði að mér að berja höfðinu við hraunmálaðan vegginn, í refsingarskyni fyrir að hafa eytt mörgum dögum í að velta mér upp úr einhverju sem var svo ekkert vandamál.  Gamla sagan um mýfluguna sem varð að úlfalda.

Ég ákvað að hvíla á mér höfuðið, lét vegginn eiga sig og rölti á eftir afkvæminu út ganginn, niður stigann og út í sólina.

Þetta er ekki  í fyrsta skipti sem ég mikla hlutina fyrir mér og örugglega ekki það síðasta heldur.

29.apr. 2011 - 19:00 Jóna Á. Gísladóttir

Fjandinn hafi það

Ég geri ekki mikið af því að skrifa reiðipistla. Mér leiðist það. Það er svo mikið um neikvæða umræðu í þjóðfélaginu. Í fjölmiðlum. Ég vil helst ekki taka þátt í því vegna þess hve niðurdrepandi það er. En ég býst við neðangreint geti vart talist annað en reiðipistill.
24.mar. 2011 - 08:30 Jóna Á. Gísladóttir

Skólinn fyrir alla.... my arse

Vonir okkar og þrár á fullorðinsárum eigi oftast rætur að rekja til barnæskunnar. 
Eitthvað sem kom eða kom ekki  fyrir okkur og við viljum hafa öðruvísi þegar við erum orðin fullorðin. 
17.feb. 2011 - 14:00 Jóna Á. Gísladóttir

Þegar Mjallhvít stal kjólnum

Febrúar og mars eru klárlega mestu event mánuðir ársins.

Hjá mér, sem aldrei fer neitt og geri aldrei neitt (segir ein vinkona mín), er ýmislegt framundan í samkvæmisbransanum. Má þar nefna  leikhúsferð, 25 ára afmælisveislu (ekki mína samt þó margir gætu haldið það), matarklúbb og tvær árshátíðir.

12.des. 2010 - 13:00 Jóna Á. Gísladóttir

Brjóst, sjóndepurð, klám, rauðvín og píkuhár

Leiðin liggur svo hratt niður á við  líkamlega eftir að fertugsaldri er náð að það er alveg hreint með ólíkindum.  Ég ætla að taka það fram að þessi pistill er á engan hátt kvörtun yfir því að vera ekki lengur tvítug, eða yfir því að vera ekki eins og Marilyn Monroe í vextinum (enda er ég það þegar ég er komin í aðhaldsbuxur, aðhaldsbol, lifstykki og spennitreyju), eða yfir hrukkum og línum og fellingum. Þetta er eingöngu samantekt á nokkrum atriðum sem ég held að séu holl lesning fyrir ungar konur. 
01.des. 2010 - 08:00 Jóna Á. Gísladóttir

Áratugalangt ástarsamband mitt við Björgvin Halldórsson

Ég hef átt í ástarsambandi við Björgvin Halldórsson í tæpa þrjá áratugi. Það hefur farið leynt en nú þykir mér tímabært að opinbera sambandið.
27.ágú. 2010 - 14:00 Jóna Á. Gísladóttir

Opið bréf til borgarstjóra

Viddi er fimm ára íslenskur fjárhundur og hefur verið hluti af fjölskyldunni frá 6 mánaða aldri. Fljótlega varð ljóst að Viddi gekk ekki alveg heill til skógar hvað vitsmuni varðar. Er örlítið klikk, ef þú skilur hvað ég á við. Hann fellur því sem flís við rass við þessa fjölskyldu.
11.ágú. 2010 - 13:00 Jóna Á. Gísladóttir

Sá Einhverfi í pólitískum hugleiðingum

Ég legg mig fram við að skrifa ekki pistla á pólitískum nótum, m.a. vegna þess að af nægu slíku er að taka í formi frétta, blaðagreina, umræðuþátta í sjónvarpi, netpistla og blogga. Ég læt mér gáfaðra og betur upplýst fólk, eftir pólitíska umfjöllun. En þrátt fyrir þennan ásetning minn þá má segja að í hverri opinberri umfjöllun leynist einhvers konar pólitík eða samfélagslegur áróður.
26.júl. 2010 - 13:10 Jóna Á. Gísladóttir

Litli Rasistinn kominn og farinn


28.jún. 2010 - 09:50 Jóna Á. Gísladóttir

Get ekki beðið eftir að losna við son minn

Í mörg ár hefur sá Einhverfi þulið upp úr sér heilu bíómyndirnar og tileinkað sér frasa úr þeim. Hann er enn að. Margt hefur þó breyst í gegnum tíðina. Til dæmis er orðaflaumurinn orðinn skiljanlegur (allavega hluti af honum) og frasarnir eru notaðir sem partur af samræðum, nú oftar á viðeigandi stöðum en áður.
09.jún. 2010 - 19:00 Jóna Á. Gísladóttir

Eru karlmenn vanvitar og konur greindarskertar?

Samankomnar í hóp, erum við konur yfirleitt sammála um að eiginmennirnir séu sinnulausir, heyrnalausir, duglausir og skilningslausir. Eitthvað er  það fleira  sem við teljum þá lausa við, sem ég man ekki í augnablikinu.  Engin leið sé að skilja eða giska á hvað þeir hugsi (ef þeir hugsa þá yfir höfuð) eða hvað þeir vilji.

Jóna Á. Gísladóttir

Besserwisser í vogarmerkinu

Kostir: of langur listi að telja upp hér

Gallar: Óákveðni og valkvíði á háu stigi

Takmark Að hætta í sveiflubransanum og koma jafnvægi á vogina til frambúðar

Lífsskoðun: Sá vægir sem vitið hefur meira

Áramótaheit: muna að sá vægir sem vitið hefur meira og að ég þarf ekki alltaf að eiga síðasta orðið

Netfang: jonagisla@internet.is

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar