12. des. 2010 - 13:00Jóna Á. Gísladóttir

Brjóst, sjóndepurð, klám, rauðvín og píkuhár

Leiðin liggur svo hratt niður á við  líkamlega eftir að fertugsaldri er náð að það er alveg hreint með ólíkindum.  Ég ætla að taka það fram að þessi pistill er á engan hátt kvörtun yfir því að vera ekki lengur tvítug, eða yfir því að vera ekki eins og Marilyn Monroe í vextinum (enda er ég það þegar ég er komin í aðhaldsbuxur, aðhaldsbol, lifstykki og spennitreyju), eða yfir hrukkum og línum og fellingum. Þetta er eingöngu samantekt á nokkrum atriðum sem ég held að séu holl lesning fyrir ungar konur. 

Það er gott að vita hvað bíður manns, upp að vissu marki, ekki satt? En aðallega eru þetta skilaboð til kvenna á þrítugsaldri. Thirty-something. Ég neita að nota íslensku skilgreininguna, þar sem allir eru gerðir eldri en þeir eru. Sjálf er ég fjörutíu og tveggja ára og eina ástæðan fyrir því að ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara í gönguferðir upp á hálendi eða keyra eftir hálft rauðvínsglas er hræðslan við eftirfarandi færslu í dagbók lögreglunnar:  Konu á fimmtugsaldri er nú leitað af björgunarsveitum.... eða: Stútur á fimmtugsaldri var tekinn ölvaður undir stýri.....

Skilaboðin til kvenna sem eru staddar einhvers staðar á þrítugsaldrinum eru sem sagt þessi: 

#1 Njótið þess að flagga brjóstaskorunni. Þið munuð ekki geta það endalaust.  

Afhverju? Það er nebblega það stelpur mínar, þetta vitið þið ekki. Vinkona okkar, brjóstaskoran, verður hrukkótt eins og allt annað.  Kona á fimmtugs- og sextugsaldri sem er í push-up og mega-flegnum bol  vekur sko athygli. Og það er ekki af sömu ástæðu og tekið er eftir ykkur þegar þið klæðist því sama.  Loksins skil ég brjósta-lýsingarnar í rauðu ástarsögunum sem ég gleypti í mig sem unglingur og barn; „Ungur, stinnur  barmur hennar reis og hneig í takt við þungan andardrátt hans .....“   eða; „Sterklegar og karlmannlegar hendur hans gældu nautnalega við ung og hvelfd brjóst hennar.“ 

Það var sko ekki verið að tala um fertugar drottningar þarna. Né gamla fola. Enda, hvern myndi langa til að lesa; „Aldraður, slappur barmur hennar reis og hneig í takt við hryglukenndan andadrátt hans....“ eða;  „Hrukkóttar og brún-blettóttar hendur hans gældu skjálfandi við öldruð og sigin brjóst hennar.“
Gott ráð:  Töff hálsfestar sem liggja akkúrat í brjóstaskorunni geta frestað rúllukraga-kaupum um einhver ár.

#2  Þið sem hafið aldrei þurft á gleraugum að halda; er á meðan er og ekki gleyma að þakka fyrir fullkomna sjón.

Í mínu ungdæmi var Planið málið. (Nokkru fyrir minn tíma hét það Hallærisplanið. Í dag heitir það Ingólfstorg).  Það var tætt niður á plan öll föstudags- og laugardagskvöld. Miðpunkturinn var Planið en svo var tekinn rúnturinn. Hring eftir hring eftir hring var gengið um Pósthússtræti, Bankastræti, Austurvöll, pissað hjá „ömmu‘‘ í Grjótaþorpinu og spjallað við lögguna sem alltaf var sjáanleg og til staðar. Brennivíns krypplingar voru teygaðir og strákarnir snöpuðu fæting, eins og það var kallað og slógust sér til gamans. Á einhvern undarlegan hátt var það alltaf drengilegur bardagi þrátt fyrir rifnar skyrtur og blóðugar nasir. En aðal málið var auðvitað að hitta fólk. 

Á þessum tíma voru gleraugu ekki tískufyrirbrigði, allavega ekki fyrir stúlkur á hátindi gelgjunnar, og vinkonur mínar sem þurftu að nota gleraugu hefðu ekki látið sjá sig dauðar með þau á nefinu. Þær voru endalaust að lenda í vandræðalegum aðstæðum þar sem þær þekktu ekki fólk því þær sáu ekki glóru gleraugnalausar. Svo fengu þær á sig merkikerta-stimpilinn vegna þess að þær heilsuðu ekki kunnugum, heldur settu nefið upp í loft og strunsuðu áfram. Mér þótti þetta fyndið og gat endalaust skemmt mér yfir uppákomunum. En mér er lítið skemmt núna, eftir að ég byrjaði sjálf að þurfa að bregða upp Tiger-gleraugunum í tíma og ótíma. 

Ellifjarsýnin (http://www.sjonlag.is/Thjonusta/Almennaraugnlaekningar/Aldurstengdfjarsyni/) læddist að mér. Hún gerði fyrst vart við sig í Bónus þar sem ég þurfti nánast að pikka í næsta mann og biðja hann að fara með kokteilsósu E. Finnsons inn í grænmetiskæli svo ég gæti lesið innihaldslýsinguna frá mjólkurkælinum. Samt áttaði ég mig ekki á því hvað var að gerast.  Svo fór ég að þurfa gleraugu til að lesa uppi í rúmi á kvöldin. Ég hélt að þetta væri augnfarðahreinsirinn sem færi svona í augun á mér. Næst fór ég að þurfa gleraugu til að lesa dagblöðin á morgnana. Ég hélt ég væri þreytt. Ég varð að viðurkenna hvernig komið væri fyrir mér þegar ég einhverju sinni var að fara að setja maskara á dóttur mína fyrir danssýningu og hún sagði; „mamma, á ég ekki að sækja gleraugun þín?“ Blessað barnið var hrætt um að ég myndi blinda hana fyrir lífstíð. Núna er stolt mitt fólgið í því að ég nái að matast skammarlaust án gleraugna. Þau skulu ekki á nef mér við matarborðið fyrr en ég er farin að blanda réttum torkennilega saman á diskinn.

En það kemur að því að ég verð að játa mig sigraða eins og vinkona mín, sem  fyrir stuttu stakk upp á við stálpuð börn sín að þau eyddu kvöldinu í sjónvarpsgláp. Veifaði framan í þau DVD mynd sem hún fann við einhverja tiltektina og spurði glaðhlakkalega hvort þau ættu ekki að leggjast yfir þessa. Hún liti nú út fyrir að vera skemmtileg. Svo brá kella sér frá til einhverra erinda. Þegar heim kom stuttu seinna , mættu henni brúnaþung börn. „Mamma, hefur þú séð þessa mynd“?  Augnaráðin voru ásakandi og tortryggin. Þá skellti móðirin á sig Tiger-gleraugunum og rannsakaði málið nánar. Það kom í ljós að þetta er klámmynd sem hún hafði ætlað að notast við til að skapa huggulega fjölskyldustemningu með poppi og tilheyrandi.

Gott ráð: áður en elli-fjarsýnin fer að gera vart við sig, festið kaup á nokkrum flottum týpum af gleraugum með venjulegu gleri og venjið ykkur við að vera með þennan aukahlut á andlitinu um leið og þið getið skipt um karakter á svipstundu. Gleraugu sem klæða mann vel  geta sett punktinn yfir i-ið útlitslega séð.

#3  Það eru 98% líkur á því að þið verðið dagdrykkjumanneskjur. Þakkið fyrir hvert ár þar sem ykkur finnst rauðvínsdrykkja tilheyra kjötáti og/eða gömlu fólki, því fyrr eða seinna fljótum við allar meira eða minna að sama ósi. Rauðvíns-ósi hinnar miðaldra húsmóður.

Ég hef átt mín móment í stuð-drykkju í gegnum árin og tek mínar tarnir ennþá. Er samt meira fyrir glaum og gleði í góðra vina hópi en skemmtistaðaráp, eins og gengur og gerist með fjölskyldufólk á mínum aldri. Ekki nema fáein ár síðan ég fór að kunna að meta rauðvín og hvítvín en bjór þykir mér ekki góður og drekk hann ekki. Ekki nema að ég sé komin á það stig drykkjunnar að ég eigi alls ekki að drekka meira. Þá einhvern veginn virðist bjór oft vera rosalega góð hugmynd. Enda þekkja það flestir sem drekka áfengi hversu ótrúlega góðar hugmyndir maður getur fengið undir áhrifum....

Fyrir örfáum mánuðum síðan hikaði ég við að opna rauðvínsflösku til að drekka eitt glas með matnum á laugardags- eða sunnudagskvöldi, því ég vissi sem var að hún myndi gleymast inn í skáp og eyðileggjast. Vá. Þvílíkt lúxus-vandamál. En það verður að segjast eins og er að þetta vandamál er ekki til staðar lengur. 

Ég hef breyst úr helgardrykkju-Íslendingi í rauðvínsteygandi dagdrykkju-Ítala eða  -Frakka. Ég hef af þessu nokkrar áhyggjur og  fór að kanna málið. Komst að því að út um allan bæ eru tuðandi eiginmenn á fertugsaldri yfir sí-rauðvínsþambandi kerlingum sem stara stíft á eldhúsklukkuna meðan þær hræra í pottunum, í þeirri von að klukkan slái 6 sem fyrst. Mér skilst að opinbera skilgreiningin sé sú að ef þú bíður með að hella í glasið til kl 18 þá sértu kúltíveraður rauðvínsspekúlant. Ef vökvinn er kominn í glasið fyrir klukkan 18 þá ertu forfallinn gardínu-alkahólisti og þín bíður bara Vogur og snúran.

Á meðan að fjöldinn allur af víntegundum af sterkara taginu liggur undir skemmdum í borðstofuskenknum og fjöldinn allur af bjórflöskum nálgast síðasta neysludag út í bílskúr, merki ég skilmerkilega á  dagatalið hversu lengi rauðvínsbeljan endist. Takmarkið er að eiga hana í þrjár vikur. Um daginn sat ég inn í stofu með rauðvínsglas sem var verðskuldað eftir að ég hafði rifið kassann utan af spenanum og mjólkað síðustu dropana í glasið. Ánægð með mig að hafa náð hálfu glasi úr einhverju sem gat talist tómt.

Skyndilega birtist dóttir mín með tættan kassann í höndunum og veifaði honum framan í mig.  „Misstirðu þig alveg mamma‘‘, sagði hún með lymskulegt glott á vörunum. Það hefur greinilega ekki farið fram hjá henni þegar ég er að gera grín að sjálfri mér yfir rauðvínsáráttunni. Alveg eins og það færi ekki fram hjá henni ef ég myndi skyndilega missa stjórnina og fara að ráfa hér um röflandi full öll kvöld.

Gott ráð:  ég hef ekkert ráð nema kannski þetta:  ekki eiga rauðvín í húsinu. Geymið það í bílskúrnum.

#4  Ekki taka sjálfgefnu að þið munuð alltaf nenna eða gefa ykkur tíma til að halda píkuhárunum í því horfi sem ykkur þykir svo sjálfsagt í dag.

Ég er hætt að láta ástand píkuhára eða annarra líkamshára stöðva mig í að fara í ræktina eða í sund. Og þó... loðnir leggir geta ennþá stoppað mig í að eyða stund, nakin, með sjálfri mér. En píkuhárin eru allt annað mál. Þau eru falin öllum stundum innan um aðra en Bretann, nema rétt á meðan ég bregð mér í sturtu í ræktinni eða í sundi. Og hverjum er ekki sama hvað annað kvenfólk er að hugsa? (Og allir karlmennirnir sem ég umgengst, eftir að hafa lesið þetta). Ég man þó hversu forviða við vinkonurnar vorum sem börn þegar við fylgdum í laumi með gömlu konunum í sturtunum í sundi. Þó ég viti nú að þessar konur voru kannski margar hverjar ekki deginum eldri en ég er í dag og sumar örugglega yngri. Í Laugardalslauginni í gamla daga lágu frammi í sturtunum í sápulegi, burstar með löngu skafti til að skrúbba á sér bakið o.þ.h. Guð minn almáttugur. 

Hver myndi í dag grípa skrúbb eftir næstu manneskju sem var að enda við að hreinsa allar dauðar húðfrumur af líkamanum. Og ekki nóg með það. Þessar konur, sem í minningunni eru allar háaldraðar, notuðu þessa bursta til og með til að skrúbba sitt allra heilagasta. Ég er ekkert að grínast með þetta. Hver á eftir annarri tóku þær burstana og skrúbbuðu eins og enginn væri morgundagurinn. Engin furða að uppgötvun sótthreinsandi og bakteríudrepandi hafi reynst gagnleg.  En ég man nú ekki eftir að hafa fylgst náið með tískusveiflum í píkuhára-stíleseríngum. 

Hvort er það merki um þroska að vera sama hvað öðrum finnst um píkuhárin á manni, eða merki um að elli kerling sé farin að knýja á dyrnar?

Kannski er þetta bara ákveðinn þroski. Þessi þroski sem ég hef beðið svo lengi eftir. Að vera örugg í eigin skinni og ánægð með hraustan og heilbrigðan líkama þó hann sé á engan hátt fullkominn útlitslega séð. 

Gott ráð: Setjið upp hársnyrtistofu í svefnaherberginu þar sem kærastinn/unnustinn/eiginmaðurinn er hárskerameistarinn. Látið hann koma ykkur á óvart. Rönd? Hjarta? Yfirvaraskegg? Hökutoppur? Ótrúlega skemmtilegur forleikur. 

 P.s. Ekki samt halda að ég sé að meina að um leið og þið farið að safna píkuhárum sé fullum andlegum þroska náð. En á einhvern skrítinn hátt þá virðist þetta tvennt samt haldast í hendur.
29.apr. 2011 - 19:00 Jóna Á. Gísladóttir

Fjandinn hafi það

Ég geri ekki mikið af því að skrifa reiðipistla. Mér leiðist það. Það er svo mikið um neikvæða umræðu í þjóðfélaginu. Í fjölmiðlum. Ég vil helst ekki taka þátt í því vegna þess hve niðurdrepandi það er. En ég býst við neðangreint geti vart talist annað en reiðipistill.
24.mar. 2011 - 08:30 Jóna Á. Gísladóttir

Skólinn fyrir alla.... my arse

Vonir okkar og þrár á fullorðinsárum eigi oftast rætur að rekja til barnæskunnar. 
Eitthvað sem kom eða kom ekki  fyrir okkur og við viljum hafa öðruvísi þegar við erum orðin fullorðin. 
17.feb. 2011 - 14:00 Jóna Á. Gísladóttir

Þegar Mjallhvít stal kjólnum

Febrúar og mars eru klárlega mestu event mánuðir ársins.

Hjá mér, sem aldrei fer neitt og geri aldrei neitt (segir ein vinkona mín), er ýmislegt framundan í samkvæmisbransanum. Má þar nefna  leikhúsferð, 25 ára afmælisveislu (ekki mína samt þó margir gætu haldið það), matarklúbb og tvær árshátíðir.

01.des. 2010 - 08:00 Jóna Á. Gísladóttir

Áratugalangt ástarsamband mitt við Björgvin Halldórsson

Ég hef átt í ástarsambandi við Björgvin Halldórsson í tæpa þrjá áratugi. Það hefur farið leynt en nú þykir mér tímabært að opinbera sambandið.
27.ágú. 2010 - 14:00 Jóna Á. Gísladóttir

Opið bréf til borgarstjóra

Viddi er fimm ára íslenskur fjárhundur og hefur verið hluti af fjölskyldunni frá 6 mánaða aldri. Fljótlega varð ljóst að Viddi gekk ekki alveg heill til skógar hvað vitsmuni varðar. Er örlítið klikk, ef þú skilur hvað ég á við. Hann fellur því sem flís við rass við þessa fjölskyldu.
11.ágú. 2010 - 13:00 Jóna Á. Gísladóttir

Sá Einhverfi í pólitískum hugleiðingum

Ég legg mig fram við að skrifa ekki pistla á pólitískum nótum, m.a. vegna þess að af nægu slíku er að taka í formi frétta, blaðagreina, umræðuþátta í sjónvarpi, netpistla og blogga. Ég læt mér gáfaðra og betur upplýst fólk, eftir pólitíska umfjöllun. En þrátt fyrir þennan ásetning minn þá má segja að í hverri opinberri umfjöllun leynist einhvers konar pólitík eða samfélagslegur áróður.
26.júl. 2010 - 13:10 Jóna Á. Gísladóttir

Litli Rasistinn kominn og farinn


28.jún. 2010 - 09:50 Jóna Á. Gísladóttir

Get ekki beðið eftir að losna við son minn

Í mörg ár hefur sá Einhverfi þulið upp úr sér heilu bíómyndirnar og tileinkað sér frasa úr þeim. Hann er enn að. Margt hefur þó breyst í gegnum tíðina. Til dæmis er orðaflaumurinn orðinn skiljanlegur (allavega hluti af honum) og frasarnir eru notaðir sem partur af samræðum, nú oftar á viðeigandi stöðum en áður.
09.jún. 2010 - 19:00 Jóna Á. Gísladóttir

Eru karlmenn vanvitar og konur greindarskertar?

Samankomnar í hóp, erum við konur yfirleitt sammála um að eiginmennirnir séu sinnulausir, heyrnalausir, duglausir og skilningslausir. Eitthvað er  það fleira  sem við teljum þá lausa við, sem ég man ekki í augnablikinu.  Engin leið sé að skilja eða giska á hvað þeir hugsi (ef þeir hugsa þá yfir höfuð) eða hvað þeir vilji.

Jóna Á. Gísladóttir

Besserwisser í vogarmerkinu

Kostir: of langur listi að telja upp hér

Gallar: Óákveðni og valkvíði á háu stigi

Takmark Að hætta í sveiflubransanum og koma jafnvægi á vogina til frambúðar

Lífsskoðun: Sá vægir sem vitið hefur meira

Áramótaheit: muna að sá vægir sem vitið hefur meira og að ég þarf ekki alltaf að eiga síðasta orðið

Netfang: jonagisla@internet.is

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar