20. apr. 2011 - 11:00Jón Steinsson
Nú virðist stefna í þjóðaratkvæði um kvótann. Það liggur beinast við að kosið verði um hvort staðfesta eigi frumvarp sem hefur verið samþykkt af Alþingi. Þá er í rauninni verið að kjósa um leið Alþingis og leið LÍÚ (óbreytt ástand). Ef þetta verður farvegur þessa máls, skiptir öllu máli hvers eðlis frumvarpið verður sem Alþingi samþykkir.
Lekar úr sjávarútvegsráðuneytinu benda til þess að þær hugmyndir sem þar ráða ríkjum gangi að mestu út á alls kyns potta sem stjórnvöld hverju sinni geta leikið sér með að úthluta úr, eins konar „dótakassi fullur af kvóta sem íslenskir pólitíkusar geta kubbað með.“
Ef frumvarpið sem stjórnvöld leggja fram verður á þessum nótum er líklegt að það verði fellt. Þá geta stjórnvöld engum öðrum en sjálfum sér um kennt.
Til þess að þjóðin geti haft betur gegn LÍÚ er lykilatriði að frumvarpið sem Alþingi samþykkir grafi ekki undan hagkvæmni greinarinnar. Ákvæði sem gera það munu fæla frá stóra hópa kjósenda og gera LÍÚ auðveldara fyrir í áróðursstríðinu.
Nýleg skoðanakönnun MMR sýndi að um 70% þjóðarinnar er fylgjandi því að „þeir sem fá úthlutað kvóta greiði leigu til ríkisins sem endurspeglar markaðsvirði kvótans.“ Stuðningur við þetta sjónarmið er almennur í öllum stjórnmálaflokkum. Um 60% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins lýstu sig fylgjandi þessu.
Til þess að þjóðin geti haft betur gegn LÍÚ verður frumvarpið sem Alþingi samþykkir að ganga út á eitt og aðeins eitt: að þjóðin fái sanngjarnan hluta auðlindaarðsins (t.d. helming á móti útgerðarmönnum).
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem eru fylgjandi því að þjóðin njóti arðsins munu snúast í hrönnum ef frumvarpið inniheldur dótakassa fullan af kvóta til handa stjórnvöldum hverju sinni. Og án þessara kjósenda mun frumvarpið falla.
Það eru tvær leiðir til þess að viðhalda hagkvæmni en færa sanngjarnan hluta auðlindaarðsins til þjóðarinnar:
1) Veiðigjald sem miðast við 50% af vergri hlutdeild fjármagns greinarinnar í heild að frádreginni 8% árgreiðslu og skipt er niður á fyrirtæki eftir því hvað þau fá úthlutað stórum hluta þorskígildistonna. Slíku veiðigjaldi þarf að fylgja ákvæði um að útgerðir selji allan afla á markaði.
2) Leigutilboðsleið sem miðast við að allar veiðiheimildir fyrnist um 8% á ári og séu leigðar á uppboði til eins árs í senn með 92% endurnýjunarrétti. Þessari leið er betur lýst hér:
Leigutilboðsleiðin
Fyrri leiðin er einfaldari. En ef hún er farin er ekki unnt að taka fyrir framsal aflaheimilda án þess að það valdi verulegri óhagkvæmni. Síðari leiðin býður upp á mun meiri möguleika til þess að ná öðrum markmiðum eins og takmörkun á framsali og forleigurétt smábáta og byggðalaga án þess að þessi atriði hafi veruleg áhrif á hagkvæmni greinarinnar. En leigutilboðsleiðin er flóknar. Þar að auki er hún útfærsla af fyrningarleiðinni sem LÍÚ hefur hamast á í mörg ár og með því skapað tortryggni á meðal þjóðarinnar.
(En lesendur góðir, af hverju haldið þið að LÍÚ berjist sérstaklega hatramlega gegn þessari leið? Ætli það sé vegna þess að hún tryggir betur en aðrar leiðir að sanngjarn hluti auðlindaarðsins renni úr vasa útgerðarmanna og til þjóðarinnar?)
Það virðist mikið púður stjórnvalda fara í rifrildi um það hvort LÍÚ eigi að fá samning til 15 ára eða 20 ára eða 30 ára. Útgerðarmenn brosa vísast yfir þessu þar sem þetta atriði skiptir litlu í samanburði við það hvernig leiguverðið er ákvarðað. Þetta atriði er smjörklípa af verstu gerð.
Ef stjórnvöld ætla með kvótadeiluna í þjóðaratkvæði verða þau að vanda sig vel við það að semja frumvarpið sem þjóðin á að kjósa um. Frumvarp uppfullt af skrauti mun verða fellt. Og þetta er eina tækifærið sem þjóðin mun hafa. Stjórnvöld væru því að gera þjóðinni mikinn óleik með því að setja fram slíkt frumvarp.
Þjóðaratkvæði um kvótann er stjórnarinnar að tapa.