14. jún. 2012 - 11:23Heimir Hannesson

Til varnar stjórnmálaflokkum

Margt hefur verið sagt, og mikið skrifað um „fjórflokkinn svokallaða‟ og skipulögðum stjórnmálaflokkum landsins fundið flest til foráttu.  Ég tel að oft liggi vanþekking á hlutverki og raunverulegum tilgangi stjórnmálaflokka að baki þessarri gagnrýni, þó það sé að sjálfsögðu ekki alltaf tilfellið.

Fjórir megin stjórnmálaflokkar landsins eru Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur. Þessi skipting hefur viðhaldið sér í nánast óbreyttri mynd síðan 1937, ef frá er taldar nafnabreytingar og riðlun á fylkingum vinstri manna 1938, 1956 og 1999, og raunar miklu oftar.  Eftir kosningarnar 1937 voru þessir fjórir flokkar: Kommúnistaflokkur Íslands, Alþýðuflokkurinn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn. Þrír síðarnefndu flokkarnir voru lýðræðisflokkar, en Kommúnistaflokkurinn stefndi að alræðisskipulagi og var deild í alþjóðasamtökum kommúnista.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkur hafa lifað fram til dagsins í dag.  Sósíalistaflokkinn varð til upp úr Kommúnistaflokknum og flokksbroti úr Alþýðuflokknum árið 1938. Í kosningunum 1956 nefndu sósíalistar sig Alþýðubandalagið og hélst sú nafngift fram til ársins 1999. Það ár enduðu sameiningartilraunir vinstri manna með stofnun Samfylkingar – og nýjum klofningi að vanda, en nýja klofningsbrotið fékk nafnið Vinstri grænir, en fjölmargir sósíalistaflokkar Vesturlanda hafa tekið að skreyta sig með fjöðrum umhverfisverndar og feminisma eftir fall Sovétríkjanna, þrátt fyrir að sú hugmyndafræði þeirra sé vafalítið meira í orði en á borði.

Alþýðuflokkurinn, sem líkt og Framsóknarflokkur var stofnaður 1916, hét það alveg þar til að sameiningartilrauninni 1999 kom, og ran þá inn í Samfylkinguna. Hins vegar fer lítið fyrir arfleifð Alþýðuflokksins í Samfylkingunni og svo að sjá sem hinir róttækari vinstrimenn hafi haft yfirhöndina.

Fjölmargir aðrir flokkar hafa átt sæti á Alþingi síðan þá. Raunar er það svo að alls 25 stjórnmálaflokkar hafa átt þingmenn á Alþingi og síðan 1983 hafa fimm eða fleiri flokkar alltaf átt sæti á Alþingi. Einnig er vert að benda á að Samfylkingin varð til við sameiningu Kvennalistans, Þjóðvaka og Alþýðuflokksins, ásamt stærsta hluta Alþýðubandalagsins. En Kvennalistinn hafði þá náð fulltrúum inn á þing fernar kosningar í röð, og varð þar með langlífasti stjórnmálaflokkur landsins utan þessarra fjögurra sem áður voru ræddir.

En eins og áður sagði er margt skrifað og enn fleira sagt um gagnsleysi stjórnmálaflokka svo að ekki tel ég úr vegi að rifja upp hvert sé hlutverk og hver sé tilgangur stjórnmálaflokka.

Tilgangur stjórnmálanna sjálfra er að koma skoðunum fólks í verk. En hverjar eru skoðanir fólks? Þeir sem hafa stýrt félagi, eða komið að skipulagningu viðburðar vita að það getur verið ansi erfitt að finna lendingu í hinum einföldustu málum sem upp koma. Lykilatriðið er að finna eitthverskonar miðpunkt. Fullkomnlega vonlaust er að eltast við niðurstöðu sem allir geta sætt sig við að fullu, og því hentugast að finna þá lausn sem minnst mótlæti fær á sig. En þó gefist sé upp á leitinni að hinni fullkomnu sátt, hvernig á þá að bera sig að? Svarið liggur í innra starfi stjórnmálaflokkanna.

Stjórnmálaflokkar eru stofnanir í sjálfu sér. Þeir sjá um að laða fólk til sín, fólk sem að samsamar sig við megin stefnu flokksins. Flokkar sem ekki eru stofnaðir um eitt tiltekið mál, eða einn málaflokk geta t.d. kallast breiðflokkar, en þeir spanna yfir öll mál, með eina megin stefnu í þeim öllum. Sjálfstæðisflokkurinn setti sér t.d. kjarnyrta stefnu strax við stofnun hans 1929, og á hún jafnvel við nú og hún átti við þá:

„Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ 

Í Sjálfstæðisflokknum eru rúmlega fimmtíu þúsund Íslendingar. Flokksmenn sjálfir hringinn í kringum landið vinna að daglegu starfi hans, en starfsemin er sérlega umfangsmikil í aðdraganda kosninga. Flokksmennirnir móta stefnu flokksins fyrir komandi kosningar. Jafnframt velur hann hvaða mál leggja skal áherslu á, ekki síst út frá því hversu mikils fylgis þessi tilteknu mál eru líkleg til að afla. Svo felur flokkurinn sínum kjörnu fulltrúum að koma hugmyndum og hugsjónum í verk. Þarna skiptir aðkoma flokksmanna að listaröðun fyrir kosningar miklu máli, til dæmis með prófkjörum eða uppstillinganefndum. Þannig tryggir flokkurinn líka að það fólk sem best deilir hugmyndafræði og skoðunum flokksmanna, komist til valda fyrir hönd flokksins.

Stærð stjórnmálaflokka skiptir einnig miklu máli. Eftir því sem að stærð flokkanna eykst, verður innra starfið virkara. En það er einmitt í innra starfinu þar sem skerpt er á hugmyndum og hugsjónum og þeim komið  í málefnalegri búning en þann sem að birtist á fjölmennum fundum og í kappræðum. Eftir því sem að flokkur verður rótgrónari fjölgar bæði skráðum félögum hans og upp spretta sjálfstætt starfandi félög, t.d. úti í hverfum borgarinnar og á landsbyggðinni. Í Sjálfstæðisflokknum eru á annað hundrað starfandi flokksfélög.. Nægir þar að nefna félög í langflestum sveitarfélögum en þar eru einnig að finna félög ungra, kvennafélög, verkalýðsfélög sjálfstæðismanna o.s.frv. Það er hin raunverulega grasrót stjórnmálanna. Þessi grasrót, í vel smíðuðu flokksskipulagi getur svo sett sína forystu af á næsta aðalfundi, Landsfundir kalla t.d. Sjálfstæðismenn sína aðalfundi. Þannig veitir hún sinni forystu aðhald og hvetur hana áfram til dáða. Hvar er aðhaldið hans Jóns Gnarr? Hvar er grasrót Besta flokksins?

Grasrót stjórnmálanna er ekki fólgin í nýjum framboðum, sem fæst munu lifa framyfir kosningar, hvað þá út kjörtímabilið. Þessum nýju flokkum og framboðum skortir allt það innra gangvirki sem þarf til þess að ná til kjósenda, til þess að sækja hugmyndirnar til þeirra og til að vinna úr þeim. Nýju litlu framboðin skortir getu og uppbyggingu til þess að halda sambandi við landsbyggðina, til þess að funda reglulega með hverfafélögum sínum, til þess að fá ólíka sýn á hin ýmsu mál sem stjórnmálaflokkur verður að taka á. Þannig má líkja stórum, rótgrónum stjórnmálaflokki við vinnsluvél sem gleypir fjöldan allan af hugmyndum, hugsjónum, kenningum, hagsmunum og stefnum úr öllum áttum – og breytir þeim í kosningaloforð, frumvörp, og stundum – í lög.

Þannig er ekkert rangt, athugunarvert eða ólýðræðislegt við það þegar alþingismenn dansa eftir flokkslínunni svokallaðri, það er einfaldlega fulltrúalýðræði í góðum gír. Eins er nauðsynlegt að sætta sig við tap af og til, enda eitt frumskilyrði fyrir hollri starfsemi lýðræðis að þátttakendur í stjórnmálum sætti öðru hvoru við að lenda minnihlutamegin í atkvæðagreiðslum.

Mikilvægasta hlutverk stjórnmálaflokka er þó, og verður alltaf að mínu viti, að bera ábyrgð. Stjórnmálaflokkar bera ábyrgð á því þegar illa fer og eru þá settir af í kosningum. Þess vegna verður kjósendum að vera það ljóst, hverjir eru við stjórnvölin. Þá er auðveldara að geta bent á einn aðila, í stað þess að benda í allar áttir. Þannig er lýðræðisleg ábyrgð skýrust í tveggja flokka kerfi, eða Westminster kerfinu, þar sem algengast er að einn stjórnmálaflokkur sitji við völd. Ábyrgðarkeðjan verður svo óljósari eftir því sem fjöldi aðila sem að stjórninni kemur eykst. Þannig má segja að ábyrgðin verði óljósari í samsteypustjórn og óljósust þegar kemur að óflokksbundnu persónukjöri. Einnig er mikilvægt fyrir kjósendur að geta tengt jafnt vel heppnuð sem illa heppnuð stefnumál beint til ákveðinna flokka, og þá verðlaunað, eða refsað, í næstu kosningum.

En lýðræðið er alls ekki fullkomin hugmynd, og Winston Churchill sagði nú eitt sinn, að lýðræðið væri versta form stjórnar sem til væri, ef frá væru talin öll hin. En ein af grundvallarforsendum virks lýðræðis eru öflugir stjórnmálaflokkar.
10.ágú. 2015 - 18:53

Hugleiðingar um Atómsprengju og stríðslok í Asíu

Um þessar mundir eru 70 ár liðin síðan Bandaríkjamenn sprengdu kjarnorkusprengjur yfir borgunum Hiroshima og Nagasaki í suðurhluta Japan. Þann 6. ágúst, kl 08:15 sprakk sprengjan Little Boy í um 600 metra hæð yfir Hiroshima. Mínútum seinna hafði eldhnötturinn gleypt allt í tæplega tveggja kílómetra radíus og “sveppurinn” klifrað í 6 kílómetra hæð. B-29 sprengjuvél Bandaríkjahers slapp naumlega við höggbylgjuna, þó hún væri í um 12 km fjarlægð. Áhöfn flugvélarinnar Enola Gay samanstóð af 12 mönnum, meðalaldur þeirra var innan við 30 ár. Áður en þeir 12 fundu fyrir höggbylgjunni höfðu tugir þúsunda látist á jörðu niðri. Enn fleiri áttu eftir að láta lífið í eldhafinu sem breiddi snögglega úr sér í tré- og pappírshúsum Hiroshimaborgar.
23.jan. 2013 - 10:56 Heimir Hannesson

Í framtíðinni…

Í framtíðinni mun bensínið kosta tæpan 300 kall líterinn og ódýrara verður að fljúga til Kaupmannahafnar en að keyra til Akureyrar.
18.jan. 2013 - 11:11 Heimir Hannesson

Í bjargálnir með bjórnum

ÁTVR er þó nærtækara dæmi um stórfengleika stjórnmálamanna, sem hirða tækifæri af kaupmönnum og færa þau í einokun ríkisvaldsins. Svo eru þeir steinhissa á því þegar kaupmenn á hornum bæjarins renna hver af öðrum á kúpuna.
21.des. 2012 - 11:22 Heimir Hannesson

Skattaskjól græna hliðsins

Tollar leggjast þyngst á fyrirtæki í landinu, starfsmenn fyrirtækjanna, atvinnulausa sem misstu vinnuna til H&M útibúa erlendis, og svo auðvitað efnaminna fólkið sem ekki á aur fyrir verslunarferðum til Boston eða hvert sem fólk vill fara. Þeir eru ósanngjarnir í eðli sínu og drepa verslun í landinu sem kostar samfélagið uppsagnir og atvinnuleysi, horfnar skatttekjur, gjaldþrot og miklu meiri pening en sem nemur tekjum hins opinbera af tollunum sjálfum.
28.okt. 2012 - 15:35 Heimir Hannesson

Meiri harka. Meira ofbeldi

Margir helstu heimspekingar heimssögunnar hafa skrifað um eðli laganna. Ekki mun ég rekja þeirra frásagnir hér, nema hvað að allflestir hafa þeir sammælst um að lögin ná aldrei lengra en að þeim punkti sem almenningur getur sætt sig við. Þá á ég við að lög þau sem ganga lengra en samfélagssáttmáli sá er lagasetningin byggir á, eru alls engin lög.
22.okt. 2012 - 10:46 Heimir Hannesson

Óður til Álftaness

Mér þótti þá og þykir enn vænt um Álftnesinga, jafnvel þó ég hafi stundum gert grín að sundlauginni þeirra. Ég vil því bjóða öllum Álftnesingum velkomna heim í Garðabæinn. Ennfremur vil ég þakka Álftnesingum fyrir þau skýru skilaboð sem þau sendu í sínum kosningum. Tæp 90% eru nefninlega býsna skýr skilaboð. Mér þykir vænt um þau skilaboð. Verið velkomin kæru vinir.
17.okt. 2012 - 20:00 Heimir Hannesson

Nöttaravaktin – þriðji hluti

Í kjölfar skoðanakannanarinnar margræddu, sem setti Graves í tæknilegt jafntefli við Bachmann, (2% fylgismunur með 4,9% vikmörkum), tók kosningabaráttan aðra mynd.
02.okt. 2012 - 10:30 Heimir Hannesson

Nöttarvaktin - annar hluti

Nú eru rétt rúmar sex vikur þar til Bandaríkjamenn ganga til kosninga, og nöttaravaktin stendur sína vakt að venju.
27.sep. 2012 - 11:43 Heimir Hannesson

Hvernig er forsetinn kosinn?

Nú nálgast forsetakosningar í Bandaríkjunum og er því ekki úr vegi að setja niður á blað nokkur orð um það hvernig þessi valdamesti maður heims er valinn.
26.sep. 2012 - 09:50 Heimir Hannesson

Nöttaravaktin: Fyrsti hluti

Undanfarna mánuði – og jafnvel ár, hefur hreyfing sem kennir sig við teboðið fræga í Boston látið mikið fyrir sér fara. Margir hafa eflaust vel fyrir sér hvernig góður, stöðugur og margreyndur hægri flokkur gat tekið svona margar rangar beygjur á svo skömmum tíma. Þessu hef ég raunar líka velt fyrir mér mjög lengi.
31.júl. 2012 - 20:16 Heimir Hannesson

Fjölmiðlatilkynning vegna framboðs míns til formanns Heimdallar

Hér er fréttatilkynning birt í heild sinni vegna framboðs míns til formanns Heimdallar sem send var fjölmiðlum í morgun.

29.jún. 2012 - 09:56 Heimir Hannesson

Raunasaga ofnæmissjúklings

Þegar þetta er skrifað er klukkan 00:41 á miðvikudagskvöldi – eða aðfararnótt fimmtudags öllu heldur, þó að nótt sé kannski ekki tengjanleg við sólsetrið sem nú blasir við borgarbúum.
24.maí 2012 - 12:00 Heimir Hannesson

Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir

Þann 28. maí 2009 ákvað hin nýkjörna samsteypustjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd. Atkvæðagreiðslan fór svo að 33 greiddu atkvæði með umsókninni, tveir sátu hjá, en 28 sögðu nei

Heimir Hannesson
Heimir Hannesson er stjórnmálafræðingur í meistaranámi í Japan og Bandaríkjunum. Hann hefur búið í Tokyo undanfarin tvö ár, en er nú staddur tímabundið í Washingtonborg.

Hann starfaði með ungum sjálfstæðismönnum um árabil, en er nú óflokksbundinn hægri maður.

Ef Heimir fengi að ráða, myndi hann alltaf lenda á gulum eða bláum reit í Trivial Pursuit.

Apótekið: Viktor Örn
Pressupennar
vinsælast í vikunni
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Fleiri pressupennar