04. des. 2014 - 15:03Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Veruleikinn að baki myndunum

Víetnam-stríðinu lauk með því, að kommúnistar í Norður-Víetnam sviku friðarsamninga, sem þeir höfðu gert við Bandaríkjastjórn í París 1973, réðust á Suður-Víetnam og hertóku 1975, á meðan Bandaríkjaher hafðist ekki að, enda hafði þingið bannað forsetanum að veita þar frekari aðstoð. Víetnam-stríðið var undir lokin mjög umdeilt. Ein ástæðan er, hversu opin Bandaríkin eru: Fréttamenn gátu lýst hörmungum stríðsins frá annarri hliðinni, en enginn fékk að skoða það frá hinni. Tvær áhrifamiklar ljósmyndir eru jafnan birtar úr stríðinu.

 

Önnur myndin var frá hinni misheppnuðu Tet-sókn kommúnista í ársbyrjun 1968. Hún var af lögreglustjóranum í Saigon, Nguyen Ngoc Loan, að skjóta til bana kommúnista, Nguyen Van Lem, á götu í borginni. Lem var talinn hafa stjórnað dauðasveitum kommúnista. Ljósmyndarinn, Eddie Adams, fékk Pulitzer-verðlaunin fyrir myndina, en hafnaði þeim, því að honum fannst birting myndarinnar hafa haft óæskileg áhrif. Hann bað Loan lögreglustjóra síðar afsökunar á þeim skaða, sem hann hefði valdið honum og fjölskyldu hans. Loan flýði til Bandaríkjanna eftir hertöku Suður-Víetnams 1975 og opnaði pítsustað í úthverfi Washington-borgar. Hann rak staðinn til 1991, þegar uppskátt varð um fortíð hans. Loan andaðist 1998. Komið hefur út bók um hann og Tet-sóknina eftir James S. Robbins.