17. jan. 2018 - 10:45Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Því var bjargað sem bjargað varð

Því var vel tekið þegar tilkynnt var í öndverðum september 2005 að Davíð Oddsson hefði verið skipaður formaður bankastjórnar Seðlabankans frá og með 20. október. Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogi Vinstri grænna, sagði í Morgunblaðinu 8. september: „Sem forsætisráðherra um árabil hefur hann sýslað þannig við efnahagsmál,að hann hefur reynslu á því sviði. Ég efast ekki um að hann hafi það til brunns að bera sem þarf í starf seðlabankastjóra.“ Daginn eftir sagði Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, í Fréttablaðinu: „Vafalaust munu sumir agnúast út í það að hann skuli fara í Seðlabankann. Hins vegar er erfitt að halda því fram að maður sem hefur stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar í þrettán ár sé ekki hæfur til að vera seðlabankastjóri.“ Allt virtist um þær mundir standa í blóma.

Skjótt skipaðist þó veður í lofti. Haustið 2007, eftir rétt tvö ár í Seðlabankanum, settist Davíð niður heima hjá sér og ræddi við konu sína um hvort hann ætti að segja af sér. Hann hefði þungar áhyggjur af bönkunum: Þeir hefðu safnað feikilegum skuldum erlendis og ólíklegt væri að þeir gætu endurfjármagnað erlend lán að fullu næstu misseri, en alþjóðleg lánsfjárkreppa hafði skollið á sumarið á undan. Fáir sem engir vildu hlusta á varnaðarorð hans og hann gerði ráð fyrir að sér yrði kennt um ef bankarnir féllu. Davíð ákvað samt að þrauka í bankanum. „Annars er ég að hlaupa frá borði,“ sagði hann konu sinni. Áhyggjur Davíðs reyndust á rökum reistar. Lánsfjárkreppan harðnaði þegar leið fram á árið 2008 Seðlabankinn fékk ekki þá fyrirgreiðslu erlendis sem hann bað um og bankarnir féllu þá um haustið. Vinstristjórn, sem þeir Steingrímur og Össur sátu í báðir, lét það verða sitt fyrsta verk í febrúar 2009 að hrekja Davíð og tvo starfsbræður hans úr Seðlabankanum með sérstökum lögum. Hvað hafði gerst á þessum þremur árum? Hver verður dómur sögunnar um seðlabankastjóratíð Davíðs Oddssonar?

 

Snjóbolti niður hlíð

Davíð Oddsson hafði aðeins verið einhverjar vikur í bankanum þegar hann bauð hinum gamalreynda forvera sínum dr. Jóhannesi Nordal í hádegisverð. Hann sagði Jóhannesi að sér litist ekki á hinn öra vöxt bankanna. Þeir nýttu sér alþjóðlegt lánstraust Íslands til skuldasöfnunar erlendis. Jóhannes sagði: „Ég er hræddur um að þetta sé snjóbolti sem sé að rúlla niður hlíðina og þú verðir að lokum undir honum. Gallinn er sá að líklega er hvergi hægt að stöðva hann því að þá kann að vera að bankamönnunum fipist og þá verða afleiðingarnar enn verri.“ Um svipað leyti, í nóvember 2005, heimsóttu þeir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra sinn gamla samstarfsmann í Seðlabankann. Þá hafði Davíð orð á því að bankakerfið kynni að standa á brauðfótum og gæti hrunið. Þeir Halldór og Geir töldu það ólíklegt. Þá höfðu nýlega birst fyrstu skýrslurnar erlendis þar sem lýst var efasemdum um sjálfbærni íslenska bankakerfisins. Var nú kyrrt að kalla í nokkra mánuði. En sunnudaginn 26. mars 2006 hringdi Halldór í Davíð þar sem hann var í sumarbústað sínum á Móeiðarhvoli og kvað stjórnendur bankanna þriggja segja sér að þeir gætu fallið eftir helgi. Líklega yrðu lánalínur þeirra erlendis ekki endurnýjaðar. Davíð þeysti til Reykjavíkur og kallaði bankastjórana á leynilegan fund heima hjá sér. Niðurstaðan þar varð að hans ráði að bíða átekta. Ekkert gerðist næstu daga og lánalínur voru endurnýjaðar.

Stjórnendum íslensku bankanna var mjög brugðið og næstu mánuði lengdu þeir eins og þeir gátu í lánum, minnkuðu krosseignatengsl og huguðu að nýrri fjármögnun. Landsbankinn hóf haustið 2006 að safna innstæðum á svonefnda Icesave-reikninga í Bretlandi og Kaupþing á Edge-reikninga þar, í Þýskalandi og víðar. Bönkunum tókst einnig að selja skuldabréf í Bandaríkjunum. Vorið 2007 eignuðust Jón Ásgeir Jóhannesson og samstarfsmenn hans ráðandi hlut í Glitni en þegar var Jón Ásgeir orðinn stærsti skuldunautur hinna bankanna. Af Jóni Ásgeiri fór misjafnt orð erlendis þar sem hann hafði keypt fjölda fyrirtækja. Hann hafði jafnvel gert út blað í Danmörku í samkeppni við dönsku stórblöðin sem vönduðu honum ekki kveðjur. Stórjukust nú útlán til Jóns Ásgeirs í Glitni. Árið 2007 tók mjög að bera erlendis á ádeilum á íslensku bankana og stærstu viðskiptavini þeirra. Það spurðist líka út að haustið 2007 efndu seðlabankar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum til eins konar æfingar þar sem íslenski seðlabankinn hætti þátttöku í miðjum klíðum af því að hann vildi ekki upplýsa hvort íslenska ríkið myndi koma til bjargar stórum íslenskum banka í vandræðum.

Mestu máli skipti þó að í ágúst 2007 hófst alþjóðleg lánsfjárkreppa þegar franski bankinn BNP Paribas hætti að greiða út úr fjárfestingarsjóðum, aðallega af því að ekki var ljóst hvers virði bandarískir skuldabréfavafningar væru. Þótt evrópski seðlabankinn flýtti sér að dæla fé í bankann urðu aðrir bankar varir um sig og tregir til útlána. Mánuði síðar varð breska ríkið að bjarga Northern Rock-bankanum í Norður-Englandi eftir að sparifjáreigendur höfðu gert á hann áhlaup, hið fyrsta á breskan banka frá 1866. Afskriftir erlendra risabanka stórjukust. Forstjórar sumra þeirra urðu að segja upp.

 

Sverfur að bönkunum

Lánsfjárkreppan bitnaði strax á íslensku bönkunum. Haustið 2007 héldu bankastjórar Seðlabankans einn af hefðbundnum samráðsfundum sínum með forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Geir H. Haarde, sem nú var orðinn forsætisráðherra, ákvað að bjóða Þorgerði K. Gunnarsdóttur menntamálaráðherra með sér á fundinn, sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu. Þar lét Davíð Oddsson í ljós þungar áhyggjur af framtíðarfjármögnun bankanna og urðu nokkur orðaskipti milli hans og Þorgerðar sem tók viðvörunum hans fálega. Út á við urðu seðlabankastjórarnir að gæta orða sinna en Davíð sagði þó á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: „Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og framhjá henni verður ekki horft að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“

Þetta haust tilkynntu stjórnendur Kaupþings að þeir hygðust kaupa hollenskan banka, NIBC. Davíð taldi að þessi kaup yrðu Kaupþingi ofviða og lagði hart að stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins, Jóni Sigurðssyni, að beita sér fyrir því að Fjármálaeftirlitið kæmi í veg fyrir þau. Á fundi með Davíð í Seðlabankanum kvaðst Jón þá og því aðeins gera það að Davíð tæki fulla ábyrgð á málinu og gerði Davíð það. Voru Kaupþingsmenn eflaust fegnir því að lokum að þeir fengu ekki leyfi til kaupanna.
Í ársbyrjun 2008 ákváðu bankastjórar Seðlabankans að fá til landsins breskan sérfræðing í bankaáföllum, Andrew Gracie, en hann hafði stjórnað æfingu norrænu og baltnesku bankanna haustið áður. Í skýrslu sem Gracie tók saman kvað hann möguleika á því að Glitnir félli í október 2008 þegar bankinn þyrfti á víðtækri endurfjármögnun lána að halda. Taldi hann stjórnvöld verða að gera áætlun um hvernig við skyldi bregðast. Davíð afhenti forsætisráðherra skýrslu Gracies. En bankastjórarnir báru sig vel í samtölum við forsætisráðherra og bankarnir sýndu vænan hagnað um þær mundir samkvæmt ársreikningum, sem virt endurskoðunarfyrirtæki skrifuðu upp á. Erlend matsfyrirtæki og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virtust ekki sjá sérstakt tilefni til róttækra aðgerða þótt þessir aðilar mæltu almenn varnaðarorð.

Í ferðum sínum erlendis urðu Davíð og starfsbræður hans í Seðlabankanum varir við síaukna tortryggni gagnvart íslensku bönkunum. Bent var á að þeir hefðu vaxið svo hratt að íslenski seðlabankinn og ríkissjóður hefðu ekki bolmagn til að bjarga þeim einir og óstuddir. Nokkurrar gremju gætti hjá keppinautum bankanna á erlendum sparifjármarkaði og evrópskir seðlabankastjórar töldu hina djörfu íslensku aðkomumenn ógna innstæðutryggingum í Evrópu. Forsvarsmenn Seðlabanka Evrópu reiddust líka þegar þeir komust að því að íslensku bankarnir hefðu fyrir tilstilli útibúa sinna í Lúxemborg fengið verulega lausafjárfyrirgreiðslu, stundum með veðum í skuldabréfum sem þeir gáfu út hver á annan en Davíð gaf þeim nafnið ástarbréf. Sumir evrópskir fjármálamenn létu enn fremur í ljós áhyggjur af fjárhag aðaleigenda bankanna, sérstaklega Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem var stærsti einstaki skuldunautur þeirra.

 

Seðlabankar loka dyrum

Davíð Oddsson og félagar hans tveir í Seðlabankanum óskuðu eftir fundi með ráðamönnum 7. febrúar 2008 og sátu hann auk þeirra forsætisráðherra, fjármálaráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ásamt embættismönnum. Þar greindi Davíð frá samtölum sínum við erlenda fjármálamenn sem hann kvað afar tortryggna á íslensku bankana. Erfitt yrði fyrir þá að öðru óbreyttu að endurnýja þau erlendu lán sem falla myndu í gjalddaga haustið 2008 og á öndverðu ári 2009. Davíð var ómyrkur í máli og þegar hann gekk út af fundinum sagði hann við félaga sína: „Ef þetta hreyfir ekki við þessu fólki þá er ekkert sem gerir það.“ Honum tókst þó ekki að sannfæra Ingibjörgu Sólrúnu um að alvara væri á ferðum. Hún skrifaði hjá sér á minnisblaði að fundurinn hefði verið „eins manns útaustur“.

Vandinn var sá að Seðlabankinn gat prentað krónur en ekki pund, dali, evrur eða danskar, norskar og sænskar krónur. Næstu mánuði leituðu Davíð og félagar hans fyrir sér um gjaldeyrisskiptasamninga við aðra seðlabanka sem hefði endurvakið trú á mætti íslenska ríkisins til að aðstoða bankana. Í fyrstu var Íslendingum vel tekið en eftir nokkra skoðun hafnaði Englandsbanki þó málaleitan þeirra. Skrifaði Mervyn King Davíð í apríl að ástæðan væri að íslenska bankakerfið væri of stórt. Davíð var raunar sammála King um þetta og hafði hreyft því við bankamenn að heppilegt væri að flytja Kaupþing úr landi, selja traustan norskan banka í eigu Glitnis og færa Icesave-reikninga Landsbankans úr útbúi bankans í Lundúnum í dótturfélag hans breskt, Heritable banka. Hann hafði þó ekkert vald til að fylgja slíkum hugmyndum eftir. Ef eitthvert slíkt vald var til þá var það hjá Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðherra. Hitt var annað mál, eins og bankamenn bentu á, að sala eigna var lítt framkvæmanleg í miðri kreppu þegar aðeins fékkst fyrir þær lágt verð. Davíð og félagar hans héldu nokkra aðra fundi með forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal 1. og 16. apríl og 7. og 15. maí, þar sem þeir endurtóku viðvaranir sínar frá 7. febrúar. Davíð hitti einnig Steingrím J. Sigfússon, leiðtoga Vinstri grænna, á tveimur fundum sumarið og haustið 2008 þar sem hann gerði honum í trúnaði grein fyrir áhyggjum sínum af bönkunum.

Svo virðist sem sammæli hafi orðið um það á kvöldverðarfundi seðlabankastjóra G-10 ríkjanna (öflugustu iðnríkjanna) í Basel 4. maí 2008 að neita Íslandi um alla fyrirgreiðslu. Hollenski seðlabankastjórinn var Landsbankanum reiður fyrir að hefja innlánasöfnun í Hollandi og bankastjóri Evrópska seðlabankans kvartaði undan skuldabréfasölu íslensku bankanna til seðlabanka Lúxemborgar. Eftir fundinn náði Davíð Oddsson tali af sænska seðlabankastjóranum, Stefan Ingves, sem hafði áður verið hinn vinsamlegasti en var nú eins og snúið roð í hund. Ingves sagði Davíð að Ísland gæti ekki vænst neinnar aðstoðar nema bankarnir minnkuðu. Davíð tókst þó fyrir harðfylgi að gera gjaldeyrisskiptasamninga síðar í mánuðinum við seðlabanka Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. Var Ingves afar tregur til þess að samþykkja samningana. Varð Davíð að hringja af fundinum með norrænum starfsbræðrum sínum í forsætisráðherra, sem þá var staddur á Vestfjörðum, og fá hann til að lofa því að ríkisstjórnin myndi beita sér eftir megni fyrir minnkun bankanna, hóflegum kjarasamningum og endurskoðun húsnæðislánakerfisins. Skrifuðu nokkrir ráðherrar síðan undir skriflega yfirlýsingu því til staðfestingar. Ingves þótti hins vegar lítt til um efndirnar og á seðlabankastjórafundi í Basel í júní virti hann íslensku seðlabankastjórana ekki viðlits. Þegar hann neyddist til að heilsa Eiríki Guðnasyni, af því að þeir tóku af tilviljun sömu lyftuna, rétti hann fram vinstri hönd.

 

Spáin sem rættist

Nú var nýtt áhyggjuefni komið til sögu. Þar eð Landsbankinn hafði safnað innlánum í Bretlandi í útbúi, en ekki dótturfélagi, voru þau tryggð í hinum íslenska Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta, ekki hliðstæðum breskum sjóði. Ljóst var að íslenski sjóðurinn hafði enga burði til að greiða innstæðueigendum út eignir sínar kæmi til þess að Landsbankinn félli. Eftir að athygli var vakin á þessu í breska þinginu lagði breska fjármálaeftirlitið til að innstæðurnar yrðu færðar í breska lögsögu en jafnmikið af eigum Landsbankans á móti. Davíð Oddsson var frá upphafi þeirrar skoðunar að engin ríkisábyrgð væri á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta en æskilegt væri engu að síður að færa Icesave-reikningana í breska lögsögu. Hann sagði við bankastjóra Landsbankans á fundi í Seðlabankanum 31. júlí 2008: „Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það. En þið hafið ekkert leyfi til þess að gera íslensku þjóðina gjaldþrota.“ Vandi Landsbankans var hins vegar að breska Fjármálaeftirlitið vildi ekki leyfa honum að flytja eignir í áföngum á móti innstæðunum svo að lánalínur yrðu ekki lausar.

Sama dag og Davíð mælti þessi orð við bankastjóra Landsbankans var staddur hér á landi kanadíski hagfræðingurinn William White, sem verið hafði einn af yfirmönnum BIS, Alþjóðagreiðslumiðlunarbankans, í Basel. Davíð bauð honum til kvöldverðar í Perlunni. Þeir röbbuðu saman um ástandið á fjármálamörkuðum. White taldi mikla andstöðu við að bjarga bönkum með almannafé en það yrði samt að lokum gert: „Það er búið að ákveða að einn stór banki verður látinn fara á hausinn, það verða Lehman-bræður, og síðan eitt land og það verðið þið.“ Davíð spurði hissa: „Hvað ert þú búinn að fá þér marga gin og tonic?“ White svaraði: „Aðeins einn.“

Þótt þeir Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra tækju viðvaranir Davíðs alvarlega gegndi öðru máli um forystumenn Samfylkingarinnar. Í Fréttablaðinu 4. september lagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir til að bankarnir héldu áfram innlánasöfnun sinni erlendis. Spá Whites gekk hins vegar eftir. Lehman-bræður urðu gjaldþrota 15. september. Nú hertist hin alþjóðlega lánsfjárkreppa um allan helming. Bankar þorðu alls ekki að lána hver öðrum. Skuldatryggingaálagið á íslensku bankana, sem hafði lækkað eftir gjaldeyrisskiptasamningana við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, rauk upp. Það jók ekki traustið á Íslandi þegar bandaríski seðlabankinn gerði gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs 24. september. Allir tóku eftir því að íslenska seðlabankann vantaði. Davíð Oddsson hringdi strax í Tim Geithner, bankastjóra Seðlabankans í New York, og bað um sams konar gjaldeyrisskiptasamning. Geithner sagði að íslensku bankarnir rækju ekki eins víðtæka starfsemi í Bandaríkjunum og norrænu bankarnir svo að þeir hefðu ekki sömu þörf á bandaríkjadölum. Hann skyldi hins vegar skoða málið. Málaleitan Davíðs var fljótlega synjað.

Stór lán féllu í gjalddaga hjá Glitni 15. október. Bankanum tókst ekki að endurnýja þau eða afla fjár til að greiða þau svo að hann leitaði til Seðlabankans um neyðarlán í evrum. Að ráði Seðlabankans og höfðu samráði við stjórnarandstöðuna ákvað ríkisstjórnin sunnudaginn 28. september að kaupa 75% í Glitni fyrir 600 milljónir evra. Þegar Davíð var sagt að ekki ætti að boða Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sem fór með bankamál á fundinn þar sem þetta ætti að ákveða krafðist hann þess að heyra þetta af munni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem stödd var í Bandaríkjunum. Geir H. Haarde hringdi í hana úr fjármálaráðuneytinu, þar sem nokkrir fleiri voru viðstaddir, og staðfesti hún þetta við Davíð. Vonir stóðu til þess að kaupin á Glitni myndu endurvekja traust á bankanum. En tímasetningin gat ekki verið verri. Mánudaginn 29. september náði hin alþjóðlega lánsfjárkreppa einmitt hámarki. Seðlabankar um allan heim prentuðu peninga í gríð og erg og tóku á móti við alls konar skuldabréfum frá bönkum, jafnvel hlutabréfum í fyrirtækjum. Matsfyrirtæki lækkuðu matið á íslenska bönkunum og líka á íslenska ríkinu. Davíð varð ljóst að bankarnir væru að falla. Hann kallaði saman viðbúnaðarhóp, sem skyldi vera starfsliði Seðlabankans til aðstoðar, og bað um fund með ríkisstjórninni þriðjudaginn 30. september.

 

Sögulegur ríkisstjórnarfundur

Þegar Davíð Oddsson kom inn í Stjórnarráðið þennan þriðjudagsmorgun, var þar fjöldi blaðamanna fyrir framan fundaherbergi ríkisstjórnarinnar. Þar var líka Sævar Ciesielski, sem sloppið hafði inn í húsið og var mjög órólegur. Um leið og hann sá Davíð gekk hann til hans. Davíð tók í hönd hans og sagði: „Ja, þetta hlýtur að vera mikilvægt fyrst við erum báðir kallaðir til skrafs og ráðagerða.“ Sævar róaðist mjög við að sjá og heyra Davíð. Hið sama átti ekki við um alla ráðherrana eftir að Davíð kom inn á ríkisstjórnarfundinn og sagði að líklega myndi allt bankakerfið hrynja á næstu tíu til fimmtán dögum. Þau Össur Skarphéðinsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir brugðust ókvæða við þegar Davíð bætti við að hann væri að vísu andvígur þjóðstjórnum en að skilyrði fyrir henni gætu nú verið að myndast. Íslendingar yrðu að sameinast gegn yfirvofandi hættu. Skilja yrði að erlendan og innlendan hluta bankakerfisins og reisa varnarvegg um hinn innlenda.

Eftir fundinn skundaði Davíð í Seðlabankann og hitti viðbúnaðarhópinn. Hann sagði honum að mestu máli skipti nú að girða Ísland af, vernda þjóðina fyrir skakkaföllum vegna yfirvofandi bankahruns. Fyrsta markmiðið væri að forðast greiðslufall ríkissjóðs, síðan að halda uppi greiðslumiðlunarkerfi, þá að gæta hags innstæðueigenda og annarra kröfuhafa bankanna en loks hlutafjáreigenda í bönkunum. Næstu sólarhringa lagði viðbúnaðarhópurinn nótt við dag og stakk Ragnar Önundarson upp á því að veita innstæðueigendum forgang fram yfir aðra kröfuhafa bankanna. Eftir nokkurt hik tóku aðrir nefndarmenn undir þetta. Á sama tíma sóttu Bretar mjög fast að íslenska ríkið ábyrgðist skriflega skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og beitti Davíð sér hart gegn því. Voru Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen sammála honum um þetta. Aðrir vildu ganga til móts við Breta.

Næstu daga gekk á ýmsu. Látlausir fundir voru í Ráðherrabústaðnum. Breskir ráðherrar hringdu í Geir H. Haarde og kváðu Kaupþing hafa fært mikið fé frá dótturfélagi sínu í Bretlandi til Íslands en Kaupþingsmenn vísuðu þessum ásökunum á bug. Þegar Geir stakk upp á því laugardaginn 4. október að skipaður yrði neyðarhópur, sem stjórnaði aðgerðum í bankahruninu og Davíð yrði formaður hans, tóku Samfylkingarmenn því svo illa að stjórnarslit virtust vera í sjónmáli. Davíð vildi ekki láta brjóta á persónu sinni, lagði til við Geir að hann yrði sjálfur formaður slíks neyðarhóps og yfirgaf Ráðherrabústaðinn. Hann fékk Englandsbanka til að senda sérfræðing í fjármálaáföllum, Marc Dobler, til Íslands til að aðstoða starfsfólk Seðlabankans og viðbúnaðarhópinn við að móta tillögur um úrlausn vandans. Dobler lagði til, eins og Davíð hafði gert, að skilja að innlendan og erlendan hluta bankakerfisins, færa innlendar innstæður í nýja banka og eignir á móti. Þegar Davíð taldi útséð að sér tækist að sannfæra ráðherra Samfylkingarinnar um slíkar aðgerðir sendi hann einkaþotu eftir nokkrum ráðgjöfum Seðlabankans hjá fjármálafyrirtækinu JP Morgan og hittu þeir fjóra ráðherra aðfaranótt 6. október.

Þeir Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen voru í meginatriðum sammála Davíð um það sem gera þyrfti en allt strandaði á Samfylkingunni. Ráðgjafarnir með Michael Ridley í broddi fylkingar gátu hins vegar sannfært ráðherra Samfylkingarinnar um varnarveggshugmyndina, aðskilnað innlendrar og erlendrar starfsemi bankanna. Eins og Össur Skarphéðinsson sagði síðar við Rannsóknarnefnd Alþingis voru tillögur þeirra svipaðar og Davíð hafði reifað á fundi ríkisstjórnarinnar 30. september. Mánudaginn 6. október voru síðan neyðarlögin samþykkt á Alþingi með atkvæðum allra flokka nema Vinstri grænna sem sátu hjá: Innstæðueigendur, erlendir jafnt og innlendir, fengu forgangskröfur í bú bankanna og nýir bankar voru stofnaðir í eigu ríkisins, innlendar innstæður fluttar í þá og eignir á móti en aðrar skuldir og eignir færðar í þrotabú þeirra sem sett voru í slitameðferð.

 

Umsátrið um Ísland

Geir H. Haarde og Davíð Oddsson vildu reyna til þrautar að bjarga leifunum af bankakerfinu. Þess vegna veitti Seðlabankinn Kaupþingi 500 milljóna evra lán þennan sama mánudag, 6. október, gegn veði í FIH banka í Danmörku sem var í eigu Kaupþings. Höfðu danskir embættismenn fullvissað Davíð um að bankinn væri miklu meira virði. Seðlabankinn gætti þess að taka allsherjarveð fyrir öllum skuldum Kaupþings við bankann. Einnig var reynt að útvega stórt lán á hagstæðum kjörum frá Rússum. Hringdi sendiherra Rússa á Íslandi, Víktor Tataríntsev, í Davíð snemma morguns þriðjudaginn 7. október og sagði slíkt lán standa til boða. Gaf hann Davíð leyfi til að segja frá því opinberlega sem Davíð gerði að höfðu samráði við forsætisráðherra. En nokkrum klukkutímum síðar hringdi sendiherrann aftur og kvað snurðu hlaupna á þráðinn. Höfðu Rússar eflaust haft spurnir af því að einhverjir íslenskir ráðamenn væru að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um fyrirgreiðslu og áhugi þeirra dofnað. Annar möguleiki er að vestrænir ráðamenn hafi haft samband við Pútín, forsætisráðherra Rússlands, og gert honum grein fyrir að Ísland væri á vestrænu áhrifasvæði. Á sama tíma gekk breska ríkisstjórnin mjög hart fram gegn Íslendingum. Hún lokaði dótturfélagi Kaupþings í Bretlandi og olli með því falli Kaupþings á Íslandi. Jafnframt beitti breska stjórnin að nauðsynjalausu hryðjuverkalögum á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Ísland stóð uppi einangrað. Næstu vikur unnu starfsfólk Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins með aðstoð ýmissa starfsmanna hinna föllnu banka sannkallað kraftaverk við að halda uppi greiðslumiðlunarkerfi innan lands og utan.

Davíð var ekki hrifinn af því að Ísland skyldi í þessum hremmingum leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lán. Hvað hafði það að gera við lán sem stæði óhreyft á bankareikningi í New York og bæri háa vexti? Hann undi samt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Hitt sætti hann sig ekki við að Ísland viðurkenndi ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í tengslum við Icesave-reikninga Landsbankans. Hann mótmælti því í harðorðu bréfi til forsætisráðherra 22. október 2008: „Er það virkilega svo að íslensk stjórnvöld ætli án lagaheimildar að taka á sig stórkostlegar erlendar skuldbindingar að kröfu Breta o.fl. Slíkar byrðar myndu sliga íslenskan almenning sem ekkert hefur til saka unnið.“ Taldi hann dómstóla eina bæra til að skera úr um það hvort Íslendingar bæru sem þjóð og ríki ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans.

Nú tók að gæta ókyrrðar á Íslandi. Þótt bankastjórar Seðlabankans hefðu einir áhrifamanna varað við hröðum vexti bankanna og undirbúið í kyrrþey og með aðstoð erlendra sérfræðinga ráðstafanir til að minnka tjónið af hugsanlegu hruni þeirra var mótmælaaðgerðum vegna bankahrunsins aðallega beint að Seðlabankanum en miklu síður að stærsta skuldunaut bankanna, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, en hann og hópur hans skuldaði þeim um þúsund milljarða króna þegar yfir lauk. Sú tortryggni, sem vaknað hafði erlendis í garð bankanna, hafði ekki síst verið hans vegna. Hvað sem því leið mátti heita samfellt umsátur um Seðlabankann í árslok 2008 og ársbyrjun 2009. Samfylkingin þoldi ekki álagið og gekk úr stjórn Geirs H. Haarde í janúarlok 2009. Ný vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur braut viðtekna venju um sjálfstæði seðlabanka og hrakti seðlabankastjórana þrjá úr starfi.

 

Fjallið tók jóðsótt

Alþingi skipaði í árslok 2008 rannsóknarnefnd um bankahrunið og skilaði hún skýrslu í apríl 2010. Þar var niðurstaðan um seðlabankastjórana þrjá að þeir hefðu gerst sekir um vanrækslu í tveimur málum. Hið fyrra sneri að Landsbankanum. Seðlabankastjórarnir hefðu ekki átt að hafna strax hugmyndum frá Landsbankanum í ágúst 2008 um flókna fjármálagerninga, þar á meðal fyrirgreiðslu Seðlabankans, sem hefðu það að markmiði að auðvelda færslu Icesave-reikninganna úr útbúinu í Lundúnum í dótturfélag. Þess í stað hefðu þeir átt að rannsaka fjárhag Landsbankans og skoða betur athugasemdir breska Fjármálaeftirlitsins. Bankastjórarnir bentu á það sér til varnar að Landsbankinn hefði ætlast til þess að fyrirgreiðsla Seðlabankans við hann yrði leynileg og það hefði aldrei staðist. Það hefði líka verið mjög hæpið hvort bankinn hefði haft lagaheimild til að veita þá fyrirgreiðslu sem Landsbankinn leitaði eftir. Enn fremur hefði Seðlabankinn ekki haft sama aðgang að upplýsingum um fjármálafyrirtæki og Fjármálaeftirlitið.

Hitt málið sem nefndin taldi fela í sér vanrækslu sneri að Glitni. Seðlabankastjórarnir hefðu átt að leita til sérfræðinga um verðmat á Glitni þegar bankinn hafnaði í september 2008 ósk Glitnis um neyðarlán en lagði þess í stað til við ríkisstjórnina að ríkið keypti 75% í bankanum fyrir 600 milljónir evra. En þessi ásökun var jafnhæpin og hin fyrri. Það var ríkisstjórnin sem ákvað að kaupa hlut í Glitni ekki Seðlabankinn. Hafa þurfti snör handtök því að afgreiða varð málið um helgi áður en markaðir yrðu opnaðir á mánudag. Í miðri fjármálakreppu er erfitt að verðmeta banka: Þeir geta verið einskis virði á einni stund og mikils virði á annarri. Engir sérfræðingar geta reiknað út neitt „eðlilegt verð“ við þær aðstæður. Tillaga Seðlabankans miðaðist við þær tvær forsendur að bankann vantaði 600 milljónir evra til að standa skil á afborgunum lána og að ríkið vildi eiga ráðandi hlut án þess að færa hlutafé eigendanna niður of mikið. Við þessar aðstæður var verðmatið eðlilegt.

Rannsóknarnefnd Alþingis gerði hins vegar ekki ágreining við seðlabankastjórana um sjálfar ákvarðanirnar, að hafna beiðni Landsbankans í ágúst um fyrirgreiðslu og beiðni Glitnis í september um þrautavaralán. Taldi hún þær báðar eðlilegar. En báðar ásakanirnar um vanrækslu í tengslum við þær voru í raun um að Seðlabankinn hefði átt að láta gera fleiri skýrslur, panta fleiri sérfræðiálit eða semja fleiri minnisblöð á ögurstund þegar taka þurfti snöggar ákvarðanir. Á sama tíma voru Hank Poulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, að taka ákvarðanir í síma eða á skyndifundum um hundruð milljarða lán eða kaup nánast fyrirvaralaust. Til dæmis fékk Bear Sterns 30 milljarða dala neyðarlán frá Seðlabankanum í New York svo að JP Morgan Chase gæti keypt fyrirtækið fyrir 2 dali á hlut. Þegar hluthafar létu í ljós óánægju sína var verðið hækkað hið snarasta í 10 dali á hlut. Eftir að fjöldi íslenskra lögfræðinga og hagfræðinga hafði rannsakað Seðlabankann hátt og lágt í eitt og hálft ár með rúm fjárráð og ótakmarkaðan aðgang að upplýsingum fundu þeir þær tvær hugsanlegu vanrækslusyndir, að vantað hefði skjalavinnu að baki tveimur ákvörðunum sem þó hefðu sjálfar verið eðlilegar. Hvorug hin hugsanlega vanrækslusynd breytti þó neinu um bankahrunið. Hér hafði fjallið tekið jóðsótt og fæðst lítil mús.

 

Hrun og endurreisn

Meginskýring Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu er ekki beinlínis röng, heldur ófullkomin. Nefndin taldi bankahrunið hafa orðið vegna þess að bankarnir hefðu vaxið of hratt og orðið of stórir í hlutfalli við seðlabanka og ríkissjóð. Þetta var vissulega nauðsynlegt skilyrði bankahrunsins en ekki nægilegt. Gler brotnar ekki aðeins af því að það sé brothætt, heldur af því að eitthvað gerist. Vissulega höfðu bankarnir vaxið of hratt og stjórnendur þeirra og eigendur farið langt fram úr sjálfum sér svo að hér myndaðist kerfi sem var viðkvæmt eða „brothætt“. En ástæðan til þess, að íslenska bankakerfið féll á meðan hið svissneska (sem var hlutfallslega jafnstórt) hélt velli var að svissneski seðlabankinn fékk lausafjárfyrirgreiðslu frá Bandaríkjunum en íslenska seðlabankanum var neitað um slíka fyrirgreiðslu bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, jafnframt því sem breska Verkamannaflokksstjórnin olli falli Kaupþings með því að loka dótturfélagi þess í Lundúnum og setja hryðjuverkalög á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Þarfnast hin harkalega og jafnvel fólskulega framkoma þeirra Alistairs Darlings og Gordons Browns skýringa en á daginn hefur komið að ásakanir þeirra um ólöglegar millifærslur til Íslands voru tilhæfulausar, jafnframt því sem bresku bankarnir í eigu Íslendinga reyndust við uppgjör eiga fyrir skuldum þótt þeir væru einu bresku bankarnir sem Verkamannaflokksstjórnin bjargaði ekki.

Davíð Oddsson og félagar hans tveir í Seðlabankanum sáu hætturnar fyrr og skýrar en aðrir og vöruðu við þeim hvað eftir annað í trúnaði í fárra manna hópi en töluðu fyrir daufum eyrum fram eftir árinu 2008. Fjölmiðlar veittu bönkunum ekkert aðhald nema helst Morgunblaðið. Kaupþing fluttist ekki úr landi, Glitnir seldi ekki hinn norska banka sinn og Landsbankinn færði Icesave-reikningana ekki úr útbúi í dótturfélag. Hitt er annað mál að neyðarlögin sem viðbúnaðarhópur Seðlabankans og starfsfólk bankans, viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins undirbjuggu saman með aðstoð erlendra sérfræðinga, reyndust hið besta. Sparifjáreigendur róuðust og ekki kom til áhlaups á bankana. Breytingin úr gömlu bönkunum í nýja banka tókst vonum framar og greiðslumiðlun við útlönd raskaðist lítt. Með neyðarlögunum var tryggt að ríkissjóður tæki ekki á sig risastórar skuldbindingar vegna bankahrunsins en það auðveldaði leikinn að ríkissjóður var nánast skuldlaus. Barátta Davíðs gegn Icesave-samningunum tveimur átti líka sinn þátt í því að þjóðin hafnaði þeim í tveimur atkvæðagreiðslum og málstaður hans vann fullnaðarsigur með úrskurði EFTA-dómstólsins í janúar 2013. Þjóðin losnaði við risaskuldir. Eins og Hannes Finnsson biskup skrifaði eftir móðuharðindin, dynja oft á Íslendingum erfiðleikar en þeir eru furðufljótir að jafna sig eftir þá. Ein meginástæðan til þess hversu vel hefur gengið er að á örfáum haustdögum árið 2008 var reistur varnarveggur um Ísland. Því var bjargað sem bjargað varð.

(Grein í Morgunblaðinu á sjötugsafmæli Davíðs Oddssonar 17. janúar 2018.)
19.feb. 2018 - 10:29 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hugleiðingar á 65 ára afmælinu

En eins og hvalirnir og farfuglarnir kem ég alltaf aftur, þegar vorar. Ég vona, að ég eigi eftir að koma oft heim aftur.
12.feb. 2018 - 09:03 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Spurning drottningar

Drottning spurði: „Hvers vegna sá enginn hana fyrir, úr því að hún reyndist svo alvarleg?“
12.feb. 2018 - 08:49 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hún líka

Mér finnst samt skrýtið, að ég hef hvergi séð á þetta minnst í fræðum íslenskra kvenfrelsissinna
27.jan. 2018 - 05:47 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Andmælti Davíð, en trúði honum samt

Það af hluta­bréf­um sín­um, sem Þor­gerður og maður henn­ar fluttu ekki í einka­hluta­fé­lag sitt, var leyst úr veðbönd­um. Þau seldu það fyr­ir 72,4 millj­ón­ir króna þriðju­dag­inn 30. sept­em­ber 2008 …
20.jan. 2018 - 07:22 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Líftaug landsins

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands hélt málstofu 16. janúar um nýútkomið stórvirki í íslenskri sagnfræði.
13.jan. 2018 - 18:19 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Trump, Long og Jónas frá Hriflu

En nú reyna þeir, sem gátu ekki fellt hann í forsetakjöri, að koma á hann höggi með því að segja, að hann sé ekki heill á geðsmunum.
06.jan. 2018 - 11:40 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Bókabrennur

Til þess að eyða bókum þarf ekki alltaf að brenna þær.
30.des. 2017 - 17:24 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Koestler og tilvistarspekingarnir

Koestler var annálaður kvennamaður, og tókst honum eitt sinn að sænga hjá Beauvoir, sem annars var oftast förunautur Sartres.
27.des. 2017 - 06:52 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Koestler og bæjarstjórnarkosningar

Hitt vita færri, að Koestler skipti líka nokkru máli í kosningum á Íslandi.
16.des. 2017 - 09:43 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Svipmynd úr bankahruninu

Utan dyra fjölgaði ofbeldismönnum, og loks hafði lögreglan samband við Davíð og kvaðst ekki lengur geta tryggt öryggi hans.
09.des. 2017 - 09:16 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Var Laxness gyðingahatari?

Nýlega hélt hann því fram í netpistli, að Halldór Kiljan Laxness hefði verið gyðingahatari.
05.des. 2017 - 11:53 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Laxness um skjólkenningu Baldurs

En það er eins og Halldór Laxness hafi verið forspár, þegar hann orti til íslenskra barna:
25.nóv. 2017 - 08:59 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Landsdómsmálið

Í öðru lagi var Geir sýknaður af öllum þeim ákæruatriðum sem naumur meirihluti Alþingis sótti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis
18.nóv. 2017 - 07:18 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Fjórði fundurinn

Í fjórða lagi kemst ég að þeirri niðurstöðu í væntanlegri skýrslu til fjármálaráðuneytisins að snjallræði hafi verið í október 2008 að gera innstæður að forgangskröfum í bú banka.
17.nóv. 2017 - 15:08 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ég fresta skýrslunni: Hvers vegna?

Hvað svo sem missagt er í þessum fræðum, er skylt að hafa það, sem sannara reynist.
11.nóv. 2017 - 09:46 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Banki í glerhúsi

En voru ráðamenn Danske Bank ekki í glerhúsi, þegar þeir grýttu Íslendinga?
07.nóv. 2017 - 07:48 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

100 ár – 100 milljónir

Í dag, 7. nóvember 2017, eru heil öld liðin frá byltingu bolsévíka, eins og kommúnistar kölluðu sig í Rússlandi.
05.nóv. 2017 - 07:43 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Voldugur Íslandsvinur

Í grúski mínu rakst ég heldur óvænt á þriðja Íslandsvininn. Hann er enginn annar en William Gladstone.
29.okt. 2017 - 07:50 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Stjórnmálamenn munu huga að baklandinu

Nú keppast hinir „óháðu“ álitsgjafar RÚV og sumra annarra fjölmiðla við að reyna að lesa vinstri stjórn út úr niðurstöðum kosninganna. Þeir gleyma því, að stjórnmálamenn þurfa alltaf að huga að baklandinu.
28.okt. 2017 - 10:59 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Undur framfaranna

„Heimurinn mun ekki farast fyrir skort á undrum, heldur aðeins fyrir skort á undrun,“ sagði breski rithöfundurinn Chesterton.
23.okt. 2017 - 09:36 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Johan Norberg í dag kl. fimm

Sænski sagnfræðingurinn og sjónvarpsmaðurinn Norberg telur í nýrri bók, Framförum, að stóru fréttirnar séu ekki alltaf sagðar,
21.okt. 2017 - 15:34 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Response to frequent questions by foreign journalists

Here are some of my responses to foreign journalists who are curious about the situation in Iceland:
21.okt. 2017 - 08:18 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ísland og Púertó Ríkó

Sem betur fer ákváðu Íslendingar að slá skjaldborg um landið og leggja ekki meiri skuldbindingar á ríkissjóð en hann réði við.
14.okt. 2017 - 17:30 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Þriðja stærsta gjaldþrotið?

Hvað gengur fólki til að dreifa ýkjusögum um land sitt og þjóð?
07.okt. 2017 - 12:46 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Voru bankarnir gjaldþrota?


Bankahrunið 2008 var vissulega stórt. En óþarfi er að gera meira úr því en efni standa til.
01.okt. 2017 - 10:04 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Blefken er víða

Eichengreen kveður aðalheimildarmann sinn um Ísland vera Sigrúnu Davíðsdóttur.
01.okt. 2017 - 10:02 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

David D. Friedman

Talar Friedman á málstofu, sem lagadeild, hagfræðideild og sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands halda saman á mánudag kl. fjögur í stofu 202 í Odda.
20.sep. 2017 - 14:18 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hverjir geta talað í nafni þjóðarinnar um stjórnarskrá?

Í kosningum til stjórnlagaþings var þátttakan aðeins 36,8%. M.ö.o. höfðu 63,2% ekki áhuga.
18.sep. 2017 - 11:42 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Við Ólafur Þ. Harðarson ræðum um vald forseta

Samkennari minn í stjórnmálafræði, Ólafur Þ. Harðarson, skrifaði á Facebook:
16.sep. 2017 - 09:26 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Lastað þar sem lofa skyldi

Ríkissjóður var nánast skuldlaus árið 2008. Þetta var áreiðanlega úrslitaatriði um, að ekki fór verr.
09.sep. 2017 - 20:53 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Bloggið sem hvarf

Skiljanlegt er því, að Gauti skyldi eyða bloggi sínu.
02.sep. 2017 - 10:39 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Fróðlegur bandarískur dómur

Vorið 2011 var kveðinn upp úrskurður í Hæstarétti Bandaríkjanna, sem kemur þessu máli við.
01.sep. 2017 - 09:59 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Deilt um einstefnuna í Háskólanum

Og þá verður líka að tryggja, að andstæð sjónarmið nýfrjálshyggjumannanna sjálfra komist líka að, því að vísindin eru frjáls samkeppni hugmynda.
29.ágú. 2017 - 07:02 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Rannsókn ASÍ á skattbyrði og tekjudreifingu

Ég taldi, að persónuafsláttur ætti ekki að hækka í samræmi við laun, því að þá greiddu menn ætíð sama hlutfall af tekjum sínum í skatt óháð því, hvort þær hækkuðu
26.ágú. 2017 - 06:55 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Vinarbragð Mitchells

Þetta á við um þá sjö þingmenn neðri málstofu breska þingsins, sem skrifuðu undir bókun um Ísland frá Austin Mitchell
22.ágú. 2017 - 10:21 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Útvarpsviðtal við mig um minnismerki

Það væri hins vegar eins óviðkunnanlegt að sjá brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni, fyrsta og eina formanni kommúnistaflokks Íslands, við hátíðasal Háskóla Íslands og það hefði verið að sjá brjóstmynd af einhverjum formanni nasistaflokks þar.

19.ágú. 2017 - 06:53 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Bernanke um Ísland

Ef þriggja milljarða dala samningur hefði ekki dugað, þá hefði átt að gera tíu milljarða dala samning.
12.ágú. 2017 - 06:15 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ný syndaaflausn

Líklega hafa engir tveir viðburðir greypst eins í huga þjóðarinnar og Tyrkjaránið 1627 og bankahrunið 2008.
05.ágú. 2017 - 08:46 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Neyðarlögin og stjórnarskráin

Þeir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa báðir lagt orð í belg um síðasta fróðleiksmola minn.
29.júl. 2017 - 10:06 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Voru neyðarlögin eignaupptaka?

Samkvæmt lögmálinu um tvennar afleiðingar voru neyðarlögin því ekki óréttmæt eignaupptaka.
28.júl. 2017 - 10:20 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ekki var brotist inn á Facebook-síðu Þorvaldar!

Hatursáróður gegn hægri sinnuðum hvítum körlum, sem styðja bandaríska Lýðveldisflokkinn?
26.júl. 2017 - 14:34 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hefur einhver komist í Facebook-síðu Þorvaldar?

Á Facebook-síðu Þorvaldar Gylfasonar eru reifaðar þær kenningar, að morðið á Kennedy og árásiná Tvíburaturnina hafi verið tvö risastór samsæri annarra en þeirra, sem sakaðir hafa verið um ódæðin.

 

22.júl. 2017 - 10:04 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Samábyrgð Íslendinga eða Breta?

Ekki var því um neina samábyrgð Íslendinga á Icesave-reikningunum að ræða. Hinu má velta fyrir sér, hvort skilyrði Millers og annarra heimspekinga fyrir þjóðarábyrgð eigi við um Breta
15.júl. 2017 - 11:47 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ábyrgðin á óeirðunum 2008–9

Þetta voru alvarlegustu götuóeirðir Íslandssögunnar, og mátti litlu muna, að lögreglan biði lægri hlut fyrir óeirðaseggjunum.

08.júl. 2017 - 12:56 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ábyrgð og samábyrgð

Á bak við tjöldin? Er hér ekki komið rannsóknarverkefni fyrir samtökin Gagnsæi?
01.júl. 2017 - 13:22 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Íslenska blóðið ólgar

Nú hefur Baldur Símonarson efnafræðingur sent mér frekari fróðleik um þennan auðjöfur með íslenskt blóð í æðum.
24.jún. 2017 - 19:24 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Auðjöfur af íslenskum ættum

Eftir nokkurt grúsk komst ég að því, að þessi danski auðjöfur var íslenskur að langfeðgatali.

17.jún. 2017 - 10:27 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Kammerherrann fær fyrir kampavíni

Seðlabankinn virðist ekkert geta fengið af þessu mikla fé. Hann tapar mörgum tugum milljarða.
11.jún. 2017 - 10:11 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Átakanleg saga kvenhetju

Er ekki samlíðunin uppspretta hins æðsta söngs? Samlíðunin með þeim Ástu Sóllilju og Yeonmi Park á jörðinni?
07.jún. 2017 - 00:32 Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hæg voru heimatök

Ef til vill datt einhverjum í hug annað íslenskt spakmæli, Illur fengur illa forgengur, þegar sænska fjármálaeftirlitið lokaði HQ banka árið 2010 vegna alls kyns fjárglæfra.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út. 

Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

Sigrún Dóra Jónsdóttir
Sigrún Dóra Jónsdóttir - 30.1.2018
Til varnar sonum mínum
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson - 22.1.2018
Átökin um landið helga
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.1.2018
Þjóðviljinn var hlutlausari en Kjarninn
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 27.1.2018
Andmælti Davíð, en trúði honum samt
Ingrid Kuhlman
Ingrid Kuhlman - 31.1.2018
Hvenær ertu búinn að aðlagast?
Lovísa María Emilsdóttir
Lovísa María Emilsdóttir - 31.1.2018
Æfðu þig í að finna fyrir gleði, þakklæti og hamingju!
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 05.2.2018
Ríkari mannréttindavernd barna á Íslandi
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 09.2.2018
Uppgjör í verkalýðshreyfingunni!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 12.2.2018
Spurning drottningar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 12.2.2018
Hún líka
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 16.2.2018
Viðkvæmir Píratar
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 15.2.2018
Spáð í spilin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.2.2018
Hugleiðingar á 65 ára afmælinu
Fleiri pressupennar