07. nóv. 2017 - 07:48Hannes Hólmsteinn Gissurarson

100 ár – 100 milljónir

Í dag, 7. nóvember 2017, eru heil öld liðin frá byltingu bolsévíka, eins og kommúnistar kölluðu sig í Rússlandi. Þennan dag fyrir hundrað árum rændu Lenín og liðsmenn hans völdum af kjörinni lýðræðisstjórn. Í hönd fór sigurför kommúnista um heim allan, en samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2009, týndu 100 milljónir manna lífi af þeirra völdum: Flestir voru sveltir í hel, aðallega í Úkraínu 1932–1933 og Kína 1958–1961, aðrir skotnir, hengdir eða barðir til bana. Sumum var drekkt og lífið murkað úr öðrum í pyndingaklefum eða vinnubúðum. Þótt þessi róttæka hreyfing, sem hóf göngu sína fyrir hundrað árum, yrði smám saman að andlausri stofnun, snerust stjórnmáladeilur um allan heim, líka á Íslandi, löngum um kommúnismann, allt fram til þess að Berlínarmúrinn hrundi 1989. En hvers vegna krafðist kommúnisminn svo margra fórnarlamba? Er alræði óhjákvæmilegt í sameignarkerfi? Hvað getum við lært af þessum ósköpum, sem riðu yfir tuttugustu öld? 

Lenín engu skárri en Stalín

Frá upphafi einkenndist bylting bolsévíka af takmarkalausu ofbeldi. Lenín og liðsmenn hans var ráðnir í að láta ekki fara eins fyrir sér og frönsku byltingarmönnunum á átjándu öld, sem sundruðust, bliknuðu og gáfust loks upp. Á tveimur mánuðum haustið 1918 tók leyniþjónusta bolsévíka, Tsjekan, af lífi um 10–15 þúsund manns. Til samanburðar má nefna, að undir stjórn keisaranna árin 1825–1917 voru dauðadómar kveðnir upp af dómstólum, þar á meðal herdómstólum, samtals 6.323, þar af 1.310 árið 1906, eftir uppreisn árið áður. Mörgum dauðadómum var þá ekki fullnægt. Eðlismunur var því frekar en stigsmunur á stjórn kommúnista og rússnesku keisaranna. Upplýsingar úr skjalasöfnum, sem opnuðust um skeið eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna, sýna, að Lenín var síst mildari en eftirmaður hans Stalín. Á meðan hann hafði völd, streymdu frá honum fyrirskipanir í allar áttir um að sýna andstæðingum bolsévíka hvergi vægð. Aðalsmenn, embættismenn og klerkar voru kallaðir „fyrrverandi fólk“, og þeir, sem ekki voru drepnir eða fangelsaðir, voru sviptir réttindum. Nú var reynt að endurskapa allt skipulagið eftir hugmyndum Marx og Engels, afnema einkaeignarrétt og frjáls viðskipti. Stalín tók upp þráðinn frá Lenín og hóf víðtækan áætlunarbúskap, neyddi bændur af jörðum sínum og inn í samyrkjubú, þótt það kostaði stórfellda hungursneyð í Úkraínu. Jafnframt handtók hann smám saman alla helstu keppinauta sína um völd innan kommúnistaflokksins og neyddi suma þeirra til að játa á sig hinar fáránlegustu sakir í sýndarréttarhöldum, áður en þeir voru skotnir niðri í kjöllurum leyniþjónustunnar.