04. okt. 2013 - 16:15Egill Gillz Einarsson

Fréttastofan og jólakúkurinn

Í South Park þáttunum kemur fyrir þokkalega truflandi karakter. Það er jólakúkurinn ástsæli Mr. Hankey the Christmas Poo. Mr. Hankey er dæmi um gróteskan húmor. Hugmyndin er fyndin vegna þess hversu fáránleg hún er, en um leið og maður tengir hana við raunveruleikann hellist viðbjóðurinn yfir mann.

Smekkleysan og fáránleikinn ganga fram af smáborgaranum, t.d. í þessari “auglýsingu” þar sem Mr. Hankey er veiddur upp úr klósettskál og notaður í föndur fyrir alla fjölskylduna.

Við hin sem skiljum grótesku hlæjum, þótt við séum líka með æluna í hálsinum. Við hlæjum þegar höfundarnir gera grín að okkur, hefðum okkar og gildismati. En við getum ekki ætlast til þess að allir hlæi með okkur, sumum er einfaldlega ofboðið.

Árin 2006 og 2007 var spennandi tími í lífi mínu. Ég hafði skapað mér ímynd sem metrómaðurinn Gillzenegger og naut meiri vinsælda og velgengni en mig hafði dreymt um. Það þarf ekki mannfræðing til að sjá að sá karakter eins og Gillz er bæði ýktur og einhliða - vörumerki fremur en raunsönn manneskja. Gillzenegger er ímynd. Náungi eins og Gillz flýr ekki úr sviðsljósinu í faðm fjölskyldunnar þótt einhver reyni að koma honum í fangelsi. Egill Einarsson á það hinsvegar til að kikna í hnjánum eins og aðrar manneskjur. Gillz er markaðssett persóna sem hefur enga veika hlið. Hann fer ekki á límingunum þótt einhver gagnrýni verk hans og persónu, heldur svarar fyrir sig fullum hálsi, lætur allt vaða og ekkert er honum heilagt. Gillzeneggerinn er meiri töffari en veruleikinn á bak við hann. Einfaldlega glerharður.

Úr þessu andrúmslofti spratt Fréttastofa Gillz. Við félagarnir gengumst upp í ungæðishætti og ýktri karlmennskuímynd. Stemningin var að ganga sem lengst og hneyksla sem mest - þora þegar aðrir þegja. Kannski hefðu jólasveinahúfur farið okkur vel. Ég vann það vafasama afrek að ofbjóða öllum þ.m.t. móðir minni. Ég gekk jafnvel fram af sjálfum mér í nokkur skipti.

Femínistar fyrirlitu okkur sem tileinkuðum okkur metrómenninguna. Við sem ekki vorum á kafi í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna, samtökum herstöðvaandstæðinga eða öðru hugsjónastarfi vorum í þeirra huga þriðja flokks fólk. Það hefur lengi þótt sjálfsagt að drulla yfir fólk sem er upptekið af kynferði og kynþokka, tískunni og skemmtanalífinu. Stelpur sem taka þátt í fegurðarsamkeppni eru álitnar heimskar og metnaðarlausar af fólki sem hefur ekki hundsvit á því sem þær þurfa að leggja á sig.  Í dag eru fitness keppnir teknar fyrir á sama hátt. Við höfum líka rangar skoðanir á því hvernig eigi að takast á við tilfinningar. Strákar sem segja hver öðrum að bíta á jaxlinn og setja brjóstkassann út ef eitthvað bjátar á, í stað þess að grenja saman í sjálfshjálparhóp, hljóta að vera illa hugsandi þursar. Okkar áherslur og okkar aðferðir til að takast á við lífið eru “yfirborðslegar”, þær eru ekki nógu pólitískar eða heimspekilegar til að þóknast einhverju fólki sem aldrei hefur útskýrt hversvegna við ættum að þóknast því.

Á þessum tíma átti helst að takast á við þetta rosalega vandamál sem við metrókrakkarnir vorum með því að afmá menningu okkar, uppræta skopskyn okkar og þurrka út þann skýra greinarmun sem við gerum á körlum og konum. Meira að segja litir á fatnaði nýbura urðu að ræðuefni á Alþingi. Þetta nöldur var orðið verulega þreytt og kvöld nokkurt fór ég yfir öll velsæmismörk í skrifum mínum á Fréttastofu Gillz. Hefði mig grunað þá að ég væri að skrifa mest lesnu bloggfærslu Íslandssögunnar hefði ég hugsað mig um tvisvar áður en ég ýtti á “publish” en á því augnabliki var mér ekkert annað í huga en sæluvíman sem fylgdi því að ausa hressilega úr sér yfir þessar leiðindatruntur.

Skiljanlega var fólki ofboðið og mér var sjálfum brugðið þegar ég áttaði mig á því hvað ég hafði gengið langt í ruddaskapnum. Ég tók færsluna út og hélt að málið væri þar með úr sögunni. Svo gott var það nú ekki því einhver hafði vistað afrit af færslunni og síðan hefur henni verið dreift á netinu á nokkurra mánaða fresti. Jájájá ég var hvatvís og naívur og áreiðanlega skíthæll og allur sorinn í bókinni og þetta var hvorki í fyrsta, né síðasta skipti sem ég fór yfir strikið. Eigum við að ræða það svona næstu 10 eða 12 árin?  

Ég mun seint gefa mig út fyrir að vera sú tegund fyrirmyndar sem er feministum þóknanleg. Ég hef meiri áhyggjur af offitufaraldri unglinga en karlrembu og ég mun áfram hlæja að húmor sem Drífu Snædal finnst óviðeigandi.  Að sumu leyti breytast þó viðhorf manns með árunum og mikið vatn er runnið til sjávar síðan ég gerði mig sekan um þann galgopahátt sem einkenndi Fréttastofu Gillz. Síðan hún var og hét hef ég skrifað þrjár bráðskemmtilegar bækur, þar af tvær metsölubækur, rekið áróður gegn reykingum og vímuefnum, hjálpað unglingum að grenna sig og mælt með hreyfingu og hollu mataræði. Það eru þessir hlutir sem ég er stoltur af í dag. Ég er ekki stoltur af sóðaskapnum sem var í gangi á Fréttastofu Gillz. Satt að segja dauðskammast ég mín fyrir þessa mest lesnu færslu Íslandssögunnar enda baðst ég afsökunar á henni opinberlega fyrir mörgum árum. Hún er nefnilega dálítið eins og jólakúkurinn úr South Park þáttunum; ætluð til þess að hneyksla og vekja hlátur í senn, en um leið og maður tengir hana við raunveruleikann vekur hún of mikinn viðbjóð til þess að vera boðleg. Ég veit það, enda er það ekki ég sem hef haldið henni í umferð.

Í umræðu síðustu tveggja ára hefur ákveðinn hópur hamrað á þeirri hugmynd að ég hafi sjálfur séð um að rústa mannorði mínu með þessari bloggfærslu frá árinu 2007. Það er algjör della. Ég varð ekki fyrir neinum óþægindum (öðrum en andúð þeirra sem fyrirlitu mig hvort sem var af pólitískum ástæðum) fyrr en í desember 2011. Fyrir þann tíma lenti ég hvorki í því að missa verkefni né varð ég fyrir skítkasti í persónulegum erindagjörðum á opinberum stöðum. Það var þessi falska nauðgunarkæra og nálgun fjölmiðla og áhrifafólks á það mál sem svipti mig ærunni, en ekki margra ára gömul skrif.

Ennþá er verið að dreifa þessari umræddu hneykslisfærslu frá 2007 ásamt fleiri gömlum skrifum sem fóru fyrir brjóstið á hinum vammlausu. Það eru allar líkur á að þessar færslur komi fyrir augu unglinga sem voru varla orðnir læsir árið 2007 og hefðu aldrei rekist á þennan óhroða nema vegna þess að þeir sem hneyksluðust mest á honum hafa haldið honum lifandi. Þessi dreifingargleði hlýtur að teljast nokkuð sérstök  forvarnaraðgerð hjá einmitt því fólki sem telur að ungdómurinn sé að fara til fjandans mín vegna. Ég býst við að markmiðið með síendurtekinni dreifingu á þessu efni sé frekar það að koma höggi á mig. Sorrý en það er bara ekki alveg að virka. Maður sem hefur gengið í gegnum það helvíti sem ég hef gengið í gegnum síðustu 2 árin, og staðið það af sér, bugast ekki þótt honum sé nuddað upp úr gömlum skít. Skít sem hann á með réttu og er löngu búinn að biðjast afsökunar á. Það er lygin sem meiðir, ekki sannleikurinn.

Ég ætla ekki að biðja óvildarmenn mína að neita sér um fögnuðinn sem fylgir því að veiða trúðakúkinn upp úr klósettinu og máta á hann jólasveinahúfur og kynjagleraugu, en þar sem við eigum það nú sameiginlegt að vera áhugamenn um áhrif mín á æsku þessa lands, langar mig að stinga að ykkur einni hugmynd. Á facebook er hægt að stofna áhugahópa um ákveðin málefni. Það er hægt að hafa þær grúppur lokaðar þannig að efnið sem þar er dreift og rætt blasi ekki við hverjum sem er. Væri ekki upplagt fyrir þá sem endilega vilja lesa sama skítinn aftur og aftur og aftur og aftur og aftur, lýsa viðbjóði sínum og útlista fyrir samherjum sínum hvað þeir sjálfir eru miklu betri, siðlegri, djúpviturri og merkilegri manneskjur en ég, að stofna svona lokaða trúðakúks grúppu sérstaklega fyrir gömul skrif sem vöktu hneykslun? Það væri að minnsta kosti heppilegra ef þetta siðavanda fólk hefur svona miklar áhyggjur af áhrifum mínum á æsku landins enda bendi ég þeim sem vilja halda skrifum mínum að ungdómnum frekar á Heilræði Gillz en eldgamlan og uppþornaðan skít úr Fréttastofunni. 

13.sep. 2013 - 12:50 Egill Gillz Einarsson

Að gefnu tilefni

Hvernig bregst maður við hatursherferð í fjölmiðlum? Ég kann ekki neina góða leið til þess. Ég ætla ekki að rekja forsögu þess máls sem ég er að vísa til því það eru einfaldlega engar líkur á að neinn sem les þetta þekki hana ekki.
28.júl. 2010 - 10:00 Egill Gillz Einarsson

Hvernig á að haga sér á Þjóðhátíð í Eyjum

Þykki hefur farið 38 sinnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Ég hef farið svo oft að ég þekki allar götur í Eyjum, þekki alla starfsmenn allra búða með nafni og er með símanúmerin hjá öllum gæjunum sem keyra bekkjabílana. Þykki hefur lyft sér upp útum allan heim: Í Brasilíu, New York, Vegas, Atlantic City, Köben, Osló, Benidorm, Portúgal, Ibiza ... bara nefna það. Hef partýjað mig í gang allsstaðar. En ég er ekki að ljúga neinu þegar ég segi að Þjóðhátíð í Eyjum er topp 3 skemmtilegasti staðurinn til að keyra þetta vel upp.
29.jan. 2010 - 15:00 Egill Gillz Einarsson

Strákarnir hans Þykka

Það eru nokkrir hlutir sem ég hef gaman að. Ég ríf í járn. Ég sippa stundum rautt með góðri steik. Ég horfi á United á Players og fer stundum á Old Trafford og öskra mig hásan. Þegar ég sippa ekki rautt á laugardegi þá passa ég stundum litlu frændsystkini mín á sunnudögum. Síðan horfi ég á íslenska landsliðið í handbolta á stórmótum og ELSKA ÞAÐ.

19.des. 2009 - 18:00 Egill Gillz Einarsson

Bókaþjóðin hefur kveðið upp sinn dóm!

Ég hef alltaf haldið því fram að Íslendingar séu mesta bókaþjóð í heimi. Það hefur verið hlegið að mér þegar ég hef skellt þessu fram á hátíðlegum stundum. Ekki þarf frekari vitnana við nú þegar það liggur fyrir að bók mín Mannasiðir Gillz er komin í hóp þriggja söluhæstu bóka þessa jólabókaflóðs. Bókaþjóðin hefur talað!
09.des. 2009 - 13:56 Egill Gillz Einarsson

„Kynferðislegt ójafnvægi“ skýrir hegðun Tigersins

Ég er eiginlega hálf miður mín yfir framkomu Tiger Woods sem eitt sinn var uppáhaldsíþróttamaðurinn minn. Maður getur fyrirgefið feilspor, þau eru mannleg. En nú þegar kellingar poppa upp eins og golfkúlfur með msn færslur og talhólfsupptökur frá kallinum þá verður maður að viðurkenna að maðurinn er ekkert annað en óforbetranlegur foleh. Það væri í góðu lagi mín vegna ef hann væri ekki nýkvæntur og með tvö kornung börn.
03.des. 2009 - 08:14 Egill Gillz Einarsson

Konur sem berja menn

Heimilisofbeldi er aldrei réttlætanlegt og ég fæ tár í augun þegar ég les um ófarir Tiger Woods sem er einn af mínum uppáhalds íþróttamönnum. Það að kona hans skuli hafa ráðist á hann með rándýrri golfkylfu er ekki verjanlegt. Hún hefði getað stórslaðað greyið manninn!
20.nóv. 2009 - 08:28 Egill Gillz Einarsson

Rauðhærðir hafa líka tilfinningar

Hræðilegar þessar fréttir sem ég les að rauðhærðir séu að lenda illa í óprúttnum aðilum. Maður vill varla trúa því að það sé til dagur sem sé kallaður „Berjum rauðhærða-dagurinn“. Þetta er víst mjög vinsælt í Bandaríkjunum. Samkvæmt facebook er dagurinn í dag 20.nóvember „Kick a ginger day“. Hvað hafa rauðhærðir gert til að eiga þetta skilið?
09.nóv. 2009 - 09:50 Egill Gillz Einarsson

Femínistar heilnudda salti í sárin

Það er ekkert eðlilegra en að skella sér aðeins á strippbúllu. Þessar rauðsokkur nýta þarna tækifærið til að sparka í liggjandi mann. Þurfa þessir feministar ekki bara .....?
04.nóv. 2009 - 00:00 Egill Gillz Einarsson

Nýtt Lúkasar-mál í uppsiglingu?

Hver man ekki eftir Lúkasarmálinu þegar einhver ólánsamur strákur var hafður fyrir rangri sök að hafa sparkað til dauða krúttið og hundinn Lúkas? Svo var hann lagður í einelti á netinu í kjölfarið og sagan varð ýktari og ýktari. Svo virðist sem að annað Lúkasarmál sé í uppsiglingu eftir að sómapiltarnir Auddi og Sveppi ákváðu bregða sér í bústörfin fyrir næsta þátt að Audda og Sveppa.

Egill Gillz Einarsson
Egill Gillz Einarsson
Egill Einarsson er fæddur í Kópavogi 1980. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi 2001, BS próf í íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík 2009.
Egill byrjaði með æfingakerfið sitt Fjarþjálfun.is árið 2007 sem hefur verið mjög vinsælt hér á landi. Hann er með aðstöðu í Sporthúsinu í Kópavogi.
Egill er einnig hluti af fyrstu íslensku umboðsskrifstofunni fyrir íþróttafólk. Heitir hún Sportic og sér Egill um að vinna í líkamlegu atgervi skjólstæðinga Sportic.
Egill skrifaði bókina Biblía Fallega Fólksins sem Edda gaf út árið 2005. Nýjasta verk hans heitir Mannasiðir Gillz sem Bókafélagið gefur út í Nóvember 2009.
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar