16. júl. 2017 - 20:00Elín Ósk Arnarsdóttir

Breyttu um lífstíl!

Og nei, þetta er ekki pistill um mataræði og hreyfingu en eflaust margir sem byrja að hugsa um það. Við höfum flest tekið eftir ýktum lífstílsbreytingum hjá fólki á síðustu árum þar sem lífstíllinn er tekinn í gegn. Þá er farið á sérstakt námskeið í ræktinni. Aðhyllst sérstakan matarkúr. Gerst jógakennarar og stundað jóga grimmt. Byrjað í kraftlyftingum. Og lengi mætti nú telja. Allt þetta höfum við verið að gera vegna ákveðinnar uppgötvunar. Við höfum nefninlega áttað okkur á að við þurfum að passa mataræði, hreyfingu og svefn ef við viljum verða gömul og gráhærð. En við gleymdum einu mikilvægu atriði í þessum pælingum okkar; HVAR við ætlum að verða gömul og grá. Þar af leiðandi höfum við því ekki verið mjög meðvituð um að hugsa vel um jörðina okkar þó að auðvitað hafi verið vakning í þeim málum á síðustu árum.

Við fáum þetta hins vegar allt í bakið. Hverju skiptir að vera heilsuhraust ef óstöðugt veðurfar hindrar matjurtarræktun? Þó að við getum hlaupið maraþon og lyft lóðum ráðum við ekki við náttúruhamfarir. Og ekki getum við klifið fjöll eða hjólað um í menguðu lofti. Heilbrigður lífstíll er ekki bara matur og hreyfing heldur er sjálfbærni einn af grunnþáttunum.

Við ættum því öll að temja okkur umhverfisvænan lífstíl. Lífstíl sem minnkar vistsporið okkar. Að minnsta kosti ef við viljum vera heilbrigð, þá þurfum við heilbrigt umhverfi. En hvað felst þá í umhverfisvænum lífstíl? Hvað þarf ég að gera? Það eru ótal margir litlir hlutir sem geta skipt miklu máli í stóra samhenginu. Það þarf bara að vera meðvitaður um þá og hafa vilja til að framkvæma þá. En það er alltaf erfitt að breyta um vana. Alveg eins og það var erfitt að skipta sjónvarpsglápi út fyrir ræktartíma. Þú getur samt hugsað að þú sért vanur/vön svona lífstílsbreytingum og þar af leiðandi verður þetta ekkert mál!

Fyrir ykkur sem hafa áhuga að leggja ykkar af mörkum til að búa í betri heimi eru hér nokkur ráð:

 • takmarka keyrslu
 • takmarka flugferðir, þá sérstaklega stuttar flugferðir og millilendingar
 • stilla neyslu sinni í hóf
 • kaupa notað
 • forðast að henda mat
 • takmarka notkun á einnota hlutum
 • endurvinna pappír, plast, ál, fernur, vax, gler, batterí, raftæki
 • fara frekar í sturtu en bað. Ef þú elskar að liggja í heitu vatni, skelltu þér í sund í heita pottinn 😉
 • velja vörur úr umhverfisvænum umbúðum eða þær sem eru ekki með óþarfa miklar umbúðir
 • velja umhverfivænar vörur
 • borða grænmetisrétt einu sinni í viku
 • slökkva á raftækjum þegar þau eru ekki í notkun
 • hengja þvott á snúruna í stað þess að nota þurrkarann þegar veður leyfir
 • planta trjám til að auka ljóstillífun
 • vera með moltu
 • sameina bílaferðir
 • slökkva ljós þegar þau eru ekki í notkun eða óþörf
 • ekki henda gömlum hlutum heldur selja/gefa
 • sleppt röri á veitingastöðum, tekið bara eina servíettu og sv.frv.
 • nota nestisbox í staðinn fyrir litla plastpoka/álpappír
 • óska eftir því að fá ekki ruslpóst
 • rækta eigin grænmeti, kryddjurtir, kartöflur

Að lokum langar mig að benda á heimasíðuna co2.is en þar er óskað eftir ráðum almennings gegn loftmengun. Það er frábært að leyfa almenningi að hafa áhrif og eigum við að grípa tækifæri sem þessi. Þetta er málefni sem varðar okkur öll og við ættum ekki að bíða þangað til það er orðið of seint.

*the greatest threat to our planet is the belief that someone else will save it*
28.jún. 2017 - 20:43 Elín Ósk Arnarsdóttir

Ekki dæma bókina af kápunni

Ég fer oft á bókasafnið, enda mikill lestrarhestur, og rölti um í leit af góðri bók. Þrátt fyrir að vera meðvituð um að kápan segi ekki allt hefur hún mikil áhrif á val mitt. Ég leita frekar í bók með nýlega, snyrtilega og glansandi kápu en gamla skruddu sem er alveg einlit með gyllta stafi. En ætti ég ekki að gefa bókunum með óheillandi kápur séns? Einhverjar þeirra gætu verið algjörir gullmolar sem ég fer á mis við ef ég læt kápur stýra vali mínu á bókum. Og þetta á við um svo margt fleira en bara bækur.

28.maí 2017 - 16:20 Elín Ósk Arnarsdóttir

Costco hefur kosti

Það hefur ekki farið fram hjá neinum Íslendingi að Costco er búið að opna og hefja söluna. Undanfarnar vikur er búið að fjalla mikið um opnunina á þessu bandaríska fyrirtæki en lágt verð hefur verið í brennideplinum. Við erum orðin vön á því að allar vörur séu rándýrar og fari bara hækkandi með hverju árinu. Þess vegna verða margir spenntir þegar svona verslunarkeðja kemur til landsins.

22.maí 2017 - 08:34 Elín Ósk Arnarsdóttir

Hvít sem mjólk

Við sækjumst eftir því sem við höfum ekki. Íslendingar almennt elska sól og að verða sólbrúnir. Á meðan fólk sem er dökkt á hörund finnst ótrúlega heillandi ad vera hvítur. Frekar kaldhæðnislegt, ekki satt?
25.apr. 2017 - 10:06 Elín Ósk Arnarsdóttir

Hvíla ekki hætta

Það eru örugglega flestir sem upplifa mikinn hraða í samfélaginu. Og sömuleiðis miklar kröfur. Kröfur um útlit, starfsframa, félagslíf, líkamsrækt, áhugamál, heimili og lengi mætti telja. Þú ert ekki maður með mönnum nema þú sért í fullu starfi, hálfu námi, rekandi heimili, virk í félagslífinu, í góðu ástarsambandi, dugleg í líkamsræktinni og vinnandi í sjálfboðastarfi í frítíma þínum.
24.okt. 2016 - 15:00 Elín Ósk Arnarsdóttir

Tími án síma

Systir mín er í enskuáfanga þar sem lagt er áherslu á ritgerðir og lestur lengri texta. Á meðal verkefna var að lesa bókina Fahrenheit 451 og fara í próf upp úr henni. Þar sem ég er svolítill bókaormur óskaði ég eftir því að fá að lesa bókina á eftir systur minni enda hljómaði hún nokkuð spennandi. Þetta er sem sagt framtíðarskáldsaga skrifuð árið 1950 sem fjallar um slökkviliðsmann sem vinnur við að brenna bækur. Í þessari framtíð, tíminn er ekki gefinn upp, eru bækur taldar vera slæmar fyrir mannkynið og eru ólöglegar. Í stað þess að hafa slökkviliðsmenn sem slökkva elda er hópur manna sem hleypur til þegar bækur finnast og brenna þær.


Elín Ósk Arnarsdóttir
Elín Ósk er fædd árið 1995 og býr á Akureyri. Hún útskrifaðist sem stúdent frá Verkmenntaskóla Austurlands árið 2016 og er núna í ársleyfi áður en hún heldur áfram í háskóla.

Árið 2013 greindist Elín með átröskun og hefur hún staðið í baráttu við sjúkdóminn undanfarin ár. Eitt verkfæranna í baráttunni eru skrif. Skrifar hún bæði pistla um átraskanir, líkamsvirðingu og heilbrigt samband við mat en einnig um umhverfismál, samfélagið og daglegt líf. 

Árið 2014 tók Elín þátt með Sigrúnu Daníelsdóttur í verkefni um líkamsvirðingu sem snerist um að gefa leikskólum bók Sigrúnar ,,Kroppurinn er kraftaverk".

SætaSvínið: PertýBinbo