27. ágú. 2014 - 14:46Brynjar Nielsson

Trúverðugleiki stjórnsýslunnar eða pólitík?

Lekamálið er nú um stundir í tveim þáttum; annars vegar um lekann sjálfan, sem er refsivert brot og hins vegar um meint óeðlileg afskipti ráðherrans af rannsókn þess brots. Rétt þykir mér að fjalla stuttlega um málið eins að það horfir við mér, sem þingmanni og lögmanni.

Ástæðulaust er að gera lítið úr því þegar gögn, sem trúnaður gildir um, kemst í hendur óviðkomandi. Fara verður að lögum sem eru í gildi á hverjum tíma og skiptir þá engu þótt ég og margir aðrir teljum að persónulegar upplýsingar sem skipti máli við úrlausn mála í stjórnsýslunni eigi að koma fram í úrskurðum, alveg eins og í dómsmálum. Öfugt við önnur mál þar sem trúnaðarupplýsingar úr stjórnsýslunni hafa komist í hendur óviðkomandi, hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum og víðar í átta mánuði. DV, sem hefur skrifað og fjallað um málið nokkur hundruð sinnum, og pólitískir andstæðingar innanríkisráðherra hafa haldið því fram að það hafi ekkert með pólitík að gera heldur trúverðugleika stjórnsýslunnar.

Og talandi um trúverðugleika og traust. Þessi skyndilegi áhugi DV og pólitískra andstæðinga ráðherrans á trausti og trúverðugleika stjórnsýslunnar kemur mér svolítið á óvart, svona í sögulegu samhengi. Hvorki DV né núverandi stjórnarandstæðar höfðu miklar áhyggjur af trúverðugleika og trausti stjórnsýslunnar þegar DV birti persónuupplýsingar um ákveðinn stjórnmálamann sem lekið hafði úr FME. Sumir hafa í gegnum tíðina haft talsverða velþóknun á leka á persónupplýsingum ef það gagnast þeirra pólitísku baráttu. Margt af þessu fólki hafði til dæmis engar sérstakar áhyggjur af niðurstöðu dómstóla um að sérstakur saksóknari hafði ekki farið að lögum við rannsóknir sakamála þegar koma að hlerunum og hlustun. Þegar horft er til þessa og að DV var byrjað að hamast á ráðherranum vegna framkvæmda laga um hæslisleitendur áður en Lekamálið kom upp, er ljóst í mínum huga að málið er fyrst og fremst pólitískt þótt það snúi auðvitað öðrum þræði um trúverðugleika og traust stjórnsýslunnar.

Svo þegar fyrir lá að illa gengi að upplýsa við rannsókn lögreglu hver lak skjalinu úr ráðneytinu fór umræðan að snúast um óeðlileg afskipti ráðherra af rannsókn málsins. Ég tel engin óeðlileg afskipti ráðherra hafi verið af rannsókn málsins. Verður ekki annað séð en að fyrrverandi lögreglustjóri sé sama sinnis, þótt eftir á að hyggja megi eflaust segja að eitt og annað í samskiptum þeirra hafi verið óheppilegt. Óskir um að rannsókn verði hraðað sem kostur er og fyrirspurnir um fyrirkomulag á meðferð viðkvæmra trúnaðarupplýsinga og gögn sem varða öryggismál, er mjög eðlileg og raunar skylda ráðherra að tryggja öryggi slíkra gagna. Einnig verður að skoða samskipti ráðherra og lögreglustjóra í því samhengi að hér var um fordæmalausar aðstæður að ræða. Þess vegna er samskipti þeirra mikil og ekki verður annað séð að fyrirkomulagið á þeim samskiptum verið í samræmi við það sem báðir höfðu komið sér saman um og talið eðlilegt við þessar kringumstæður. Þá útskýrði ráðherrann samskipti hennar við lögreglustjórann fyrrverandi með skýrum hætti í Kastljósi í gær og trúverðugum. Meðan lögreglustjórinn dregur ekki í efa þær skýringar er ástæðulaust fyrir okkur hin að gera það.

Hvað sem þessu öllu líður er hægt að skilja þá gagnrýni að ráðherra skyldi ekki segja sig frá málaflokknum þegar rannsókn lögreglu hófst, sérstaklega þegar hún beindist meðal annars að pólitískum aðstoðarmönnum hennar. Ég skil einnig gagnrýni á framkvæmd lögreglu á rannsókn málsins og meðferð umboðsmanns alþingis á málinu. Leki að þessu tagi getur varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þrátt fyrir að fyrir lægi samkvæmt rannsókn ráðneytisins sjálfs að ekkert benti til þess að skjalið hafi verið sent úr ráðneytinu með rafrænum hætti fór lögregla í tölvu og símagögn starfsmanna, meðal annars ráðherrans sjálfs. Í þessum gögnum er alls konar trúnaðargögn um einstaklinga auk gagna sem varða öryggismál, ekki bara okkar, heldur annarra þjóða. Sérstaklega var tekið fram að við þessa rannsókn yrði ekki gætt meðalhófs. Ég set spurningarmerki við slíka lögreglurannsókn og spyr mig hvers vegna gengið var fram með þessum hætti málinu en ekki öðrum þar sem lekið hafa persónulegar upplýsingar úr stjórnsýslunni.

Ég tel að við þurfum að læra af þessu máli og þeim fordæmalausu aðstæðum sem upp komu. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir alþingi að skoða þetta mál í heild sinni eins og ráðherrann hefur talið. Skoða þarf hvernig bregðast eigi við, hver staða ráðherra eigi að vera við aðstæður sem þessar, hvernig haga skuli rannsóknum og hvort breyta þurfi reglum í því sambandi. Í því felst engin árás á eða hótun gegn lögreglu, ákæruvaldi og umboðsmanni alþingis.17.apr. 2018 - 11:28 Brynjar Nielsson

Grímulaus pólitík

Enginn skortur er á alls konar alþjóðlegum stofnunum og samtökum sem kenna sig við mannréttindi og hvers kyns góðmennsku. Dæmi um slík fyrirbæri er Evrópuráðið og nefndir þess eins og ECRI og GRECO og svo má auðvitað ekki gleyma ýmsum nefndum Sameinuðu þjóðanna. Margir halda að hér sé um að ræða einhverjar hlutlausar nefndir skipuðu fagfólki, sem geti leiðbeint okkur. Það er mikill misskilningur. Þarna er pólitíkin allsráðandi þótt hún sé sveipuð skikkju hlutleysis, fræða og vísinda.

09.apr. 2018 - 09:20 Brynjar Nielsson

RÚV er tímaskekkja

Í Evrópu eru menn að átta sig á hversu mikil tímaskekkja ríkisreknir ljósvaka- og netmiðlar eru. Og ekki bara timaskekkja heldur fullkomlega óeðlilegt út frá jafnræðis-og samkeppnissjónarmiðum. Eins og oft áður eru Danir fyrstir að rakna úr rotinu.
05.apr. 2018 - 16:00 Brynjar Nielsson

Dröslaði bróður mínum í kirkju

Bróðir minn, þekktur sem "okkar maður", hefur skrifað nokkrar færslur á fésbókina um samveru okkar hér á Spáni. Frásagnir af sundafrekum og kraftgöngum hans og báglegu ástandi mínu eru með öllu ósannar. Okkar maður hefur ekki gengið lengra en til sprúttsalans úti á horni. Gangan tekur hálftíma hjá honum, sem mun vera heimsmet í hægagangi. Náði þó að drösla honum í dag í kirkju en þurfti áður að hafa talsvert fyrir því að fela á honum hornin og halann.


25.mar. 2018 - 23:34 Brynjar Nielsson

Lokað fyrir ræðuhöld

Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór, bauð vinum og vandamönnum til veislu í gær í tilefni af fimmtugsafmæli sínu, sem var að vísu fyrir mörgum mánuðum síðan. Mér sýndist þar nær eingöngu mæta vandamenn. Fram komu skemmtikraftar á heimsmælikvarða og fluttar ræður þar sem reynt var eftir fremsta megni að hæla afmælisbarninu. Þegar kom að stjórnarmönnum Fýlupúkafélagsins, sennilega hans einu vinum, að halda ræðu, var skyndilega lokað fyrir frekari ræðuhöld. Menn hafa lagt fram vantrauststillögu á ráðherra af minna tilefni.
09.mar. 2018 - 15:41 Brynjar Nielsson

Klæðast eins og niðursetningar í þingsal

Staksteinar Moggans hittir oft naglann á höfuðið. Fróðlegt væri að vita hver heldur þar á penna. Hann gerði að umtalsefni í morgun fyrirspurnaæði þeirra stjórnarandstæðinga sem vinna hörðum höndum við að auka traust þingsins með upphrópunum um spillingu, glæpi og óheiðarleika pólitískra andstæðinga sinna og embætttismanna. Magn og eðli fyrirspurna er orðið slíkt að stjórnsýslan er við það að lamast. Benda má fyrirspurnamönnum á að flestar þessar upplýsingar geta menn aflað sjálfir eða gegnum upplýsingaþjónustu þingsins. Svo má einnig benda þeim á að endurgreiðsla vegna aksturs þingmanna eru smápeningar miðað við að halda rándýrum embættismönnum uppteknum í óþarfa snatti. Þar að auki sinna þeir ekki mikilvægum störfum á meðan.

16.feb. 2018 - 13:13 Brynjar Nielsson

Viðkvæmir Píratar

Píratar eru viðkvæmari en aðrir og er gjarnan misboðið ef þeir eru gagnrýndir. Þar sem Pírötum er ógerlegt að tjá einfalda hugsun í stuttu máli sendir borgarfulltrúi þeirra þingmönnum Reykjavíkur langt bréf um ekki neitt. Þar kemur þó fram að hann krefjist afsökunarbeiðni frá utanríkisráðherra vegna þess að með honum á fund borgarfulltrúa og þingmanna Reykjavíkur mætti oddviti sjálfstæðismanna í komandi borgarstjórnarkosningum.
25.jan. 2018 - 11:22 Brynjar Nielsson

Þjóðviljinn var hlutlausari en Kjarninn

Óháði og hlutlausi fjölmiðillinn, Kjarninn, er reglulega með fréttaskýringar um aukinn ójöfnuð og misskiptingu í íslensku samfélagi. Í nýjustu fréttaskýringunni kemur fram að virði verðbréfa í eigu Íslendinga hækkuðu um 23 milljarða að nafnvirði á árinu 2016. Þar af hækkuðu bréf ríkustu 10% þjóðarinnar um 21.8 milljarð.
18.okt. 2017 - 13:29 Brynjar Nielsson

Einfaldur sannleikur setur allt á annan endann

Öll kosningabarátta vinstri flokkanna snýst um að koma höggi á einstaka frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í stað þess að ræða framtíðina og hvað má læra af fortíðinni. Nú þegar öllum er að verða ljóst að þetta blessaða lögbann er ekkert á vegum Sjálfstæðisflokksins eða formanns hans er endurspilað gamalt lag um að formaðurinn sé í engum tengslum við almenning vegna þess að hann hafi komið úr viðskiptalífinu og hafi átt í viðskiptum með 50 milljónir. Nú hneykslast þetta sama fólk yfir því að ég skuli segja að þessi upphæð sé ekki fjarri því sem margir eigi í íslensku samfélagi. Það er eins og einfaldur sannleikur geti sett allt á annan endann í íslensku samfélagi. Sannleikurinn gerir okkur frjáls sagði einhver fyrir löngu síðan.
16.okt. 2017 - 10:45 Brynjar Nielsson

Er gott að fá borgarstjórnarflokkana í ríkisstjórn?

Stærstu hagsmunamál reykvíkinga nú um stundir eru húsnæðismál og samgöngumál. Varla er ágreiningur um að þessi mál eru í lamasessi í borginni. Miðað við skoðanakannanir má ætla að kjósendur líti svo á að Sjálfstæðisflokkurinn beri mesta ábyrgð á því. Það er mikill misskilningur.
11.okt. 2017 - 18:22 Brynjar Nielsson

Bagalegt að Samfylkingin sé enn í henglum

Mörgum finnst sérstakt að á Íslandi, öfugt við öll önnur lýðræðisríki, skuli róttækur sósíalistaflokkur hafa tæplega þriðjungs fylgi þjóðarinnar og það á sama tíma og kaupmáttur almennings hefur vaxið um tugi prósenta á fáum árum. Ekki er skýringa að leita í því að þessi flokkur og forverar hans hafi staðið sig vel í ríkisstjórn þá sjaldan þeir hafi verið í þeim. Enn síður er það vegna þess að þeir sem hafa stjórnað síðustu ár hafi ekki staðið sig vel. Eina skýringin er sú að hinir vinstriflokkarnir eru í rusli. Kemur kannski ekki á óvart með Piratana en það er bagalegt að Samfylkingin, sem átti að verða frjálslyndur krataflokkur, skuli vera enn í henglum
09.okt. 2017 - 14:59 Brynjar Nielsson

Blekkingin er algjör

Til eru flokkar á Íslandi sem lofa að auka útgjöld ríkisins um nokkur hundruð milljarða á næstu árum.
26.sep. 2017 - 16:31 Brynjar Nielsson

Verður maður að stóla á Sigmund Davíð?

Ég sé að Píratar og Samfylkingin eru nú að reyna að slá öll fyrri met í populisma. Þekkt er að lýðskrum af þessu tagi getur gagnast til skemmri tíma en allir svona flokkar þurrkast samt út fljótt. Það ferli er þegar hafið hjá þessum tveim flokkum.
16.sep. 2017 - 12:10 Brynjar Nielsson

Fullkomin flón

Ég var einn af þeim skeptísku þegar ríkisstjórnin var mynduð í byrjun árs. Að fara í eins manns meirihlutastjórn með tveim smáflokkum með ekkert bakland, þar sem nánast allir innanborð voru reynslulausir, hlyti að skapa vanda. Svo væri ekki vænlegt til árangurs að leggja lag sitt við flokka sem pikka upp af samfélagsmiðlunum mál sem þeir halda að séu til vinsælda fallið. Í þeim efnum komst BF að vísu ekki með tærnar þar sem Viðreisn var með hælana. Er eins og enginn ætli að læra af óförum Samfylkingarinnar.

14.sep. 2017 - 10:56 Brynjar Nielsson

Slefandi fyrir framan tölvuna á borgaralaunum

Það hefur verið fróðlegt fyrir þjóðina að hlusta á stjórnarandstöðuna á Eldhúsdeginum í gærkvöldi. Kapteinn Pírata gaf okkar innsýn í framtíðarsamfélag þeirra þar sem þjóðin mun sitja slefandi fyrir framan tölvuna allan daginn á borgaralaunum. Síðan komi kunnuglegir frasar hjá ræðumönnum Pírata um spillingu, óheiðarleika og mannvonsku annarra. Var það sennilega liður í því að bæta umræðuhefð og virðingu alþingis, sem þeim er mjög umhugað um. Afskaplega mikilvægt fyrir okkur á þinginu að hafa mannréttindalögfræðing menntaðan í Hollandi til að leiðbeina okkur. Við fávitarnir duttum eiginlega í lukkupottinn.
11.sep. 2017 - 11:16 Brynjar Nielsson

Ragnar Reykás varð ekki til úr engu

Hin fræga persóna Spaugstofunnar, Ragnar Reykás, varð ekki til úr engu. Hann er víða og verður meira áberandi með hverjum deginum. Þegar Ragnar telur að ákvarðanir stjórnmálamanna séu ekki í samræmi við lög bregst hann hart við og sakar þá um misnotkun valds, spillingu og óheiðarleika. En þegar stjórnmálamenn fara að lögum, sem Ragnari finnst vond og óréttlát eða henta honum ekki, breytist tónninn. Þá er stjórnmálamaðurinn illa innrættur, skortir mannúð og tekur jafnvel málsstað ofbeldismanna og óþverralýðs.
23.ágú. 2017 - 22:20 Brynjar Nielsson

Druslulegur klæðaburður í dómsölum

Miklar umræður hafa skapast um klæðaburð málflytjenda fyrir dómi. Eiríkur Jónsson birti bréf sem honum barst þar sem bréfritara fannst óviðeigandi að saksóknari væri í flegnum bol. Fólkið sem telur að tjáningarfelsi eigi bara við um þeirra eigin skoðanir brást við með sama ofstæki og fyrri daginn. Á svipstundu var þetta skilgreint sem kynbundið ofbeldi. Sjálfur á ég íslandsmet í druslulegum klæðaburði í dómsölum og þegar ég gat ekki hnýtt bindi úr skóreimum eða fengið lánaða skyrtu af nærstöddum var ég sendur heim með skömm.
21.ágú. 2017 - 11:44 Brynjar Nielsson

Hvar annars staðar fengi svona flokkur fjórðung atkvæða?

Þar sem ég hef talsverðan áhuga á fornaldarfræðum finnst mér gaman að hlusta á fréttir frá flokksráðsfundum Vg. Gamlar sósíalískar frelsishetjur, sem gáfu út Þjóðviljann og tímaritið Rétt, sætu örugglega glaðir á flokksráðsfundunum væru þeir á lífi. Sjálfum finnst mér tvennt standa upp úr í fréttum af síðasta flokksráðsfundi. Annars vegar óánægja með Björn Val sem varaformann þar sem hann vogaði sér að selja olíuborpöllum vöru og þjónustu og hins vegar sú merkilega uppgötvun að það myndi auka jöfnuð í samfélaginu og taka við sem flestu af fátækasta fólki heims.
16.ágú. 2017 - 20:11 Brynjar Nielsson

Það fær mig enginn til að rjúfa þagnarskyldu

Stundum fallast manni hendur yfir óheiðarleika og illgirni netsóða. Mörg gáfnaljós í þeim hópi geta ekki sætt sig við það að ég sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vilji ekki leka trúnaðarupplýsingum sem nefndinni barst í tengslum við skoðun á framkvæmd stjórnvalda við uppreist æru. Því er unnið hörðum höndum að sá tortryggni í minn garð og Sjálfstæðisflokksins og látið að því liggja að við séum að verja Róbert Downey, sem mun vera einn af þeim fjölmörgu sem hafa fengið uppreist æru síðustu áratugi. Leitaði mesta ofstækisfólkið til herra Google í þessum tilgangi.

08.ágú. 2017 - 14:27 Brynjar Nielsson

Ég fór á Þjóðhátíð

Fór á þjóðhátíð í Eyjum annað árið í röð.Var í 30 ár með mikla fordóma gagnvart hátíðinni eins og rétthugsunarliðið, sem finnur henni allt til foráttu og reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkur fari þangað eða komist með góðu móti. Eyjamenn eru snillingar að halda stórar hátíðir, skipulag til fyrirmyndar og fagmennskan mikil. Gleði skein af hverju andliti og jafnvel mátti sjá gleðiviprur á mér ef vel var að gáð. Fjórar nætur fyrir menn á mínum aldri er kannski full langur tími á svona hátíð. Ég horfði á Heilsuhælið i Hveragerði í hillingum á heimleiðinni.
27.júl. 2017 - 11:37 Brynjar Nielsson

Hef ekki áhuga á MMA

Stundum er ég spurður að því hvort ég telji ekki rétt að banna bardagaíþróttina MMA með lögum. Kemur spurningin oftar upp þegar okkar maður tapar bardaga. Þótt ég sé fullkomlega áhugalaus um þessa íþrótt og finnist hún ekki geðsleg hef ég engan áhuga á slíku banni. Ég er ekki ólíkur femínistum að því leyti að ég tel að fullráða fók eigi að ráða yfir líkama sínum. En öfugt við þá tel ég að fólk eigi að ráða yfir líkama sínum líka þegar það gerir eitthvað með hann sem mér er ekki þóknanlegt. Í því felst fegurð frelsisins.
06.júl. 2017 - 10:15 Brynjar Nielsson

Ekkert má segja við okkur feita fólkið

Mikill tvískinnungur hrjáir okkur flest og ekki síst í allri umræðu um hegðun okkar. Ekkert má segja við okkur feita fólkið án þess að fordómasvipan fari á loft. Skiptir þá engu máli að offita er langmesta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar. Hins vegar er ekkert tiltökumál í hugum okkar að banna tískufyrirtækjum að ráða fyrirsætur undir kjörþyngd. Og það segir enginn neitt við því að fyrirtæki geri það að skilyrði í atvinnuauglýsingum að umsækjandi neyti ekki tóbaks. Hvað ætli að yrði sagt ef sömu bönn og skilyrði væri á þá sem eru í yfirþyngd?
03.júl. 2017 - 08:48 Brynjar Nielsson

Það þarf að vera frjálslynda og umburðarlynda fólkinu þóknanlegt

Margir eru uppteknir af því að láta aðra vita hvað þeir eru frjálslyndir, víðsýnir og umburðarlyndir og beri mikla virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og menningu. Mannréttindi eru þeim ofarlega í huga, ekki síst tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi og að allir ráði yfir líkama sínum. Svo undarlegt sem það er berst þetta sama fólk fyrir því að öðrum sé refsað fyrir "rangar og skaðlegar" skoðanir. Og svo má fólk alls ekki ráða yfr líkama sínum nema með þeim hætti að það sé frjálslynda og umburðarlynda fólkinu þóknanlegt.
20.jún. 2017 - 09:36 Brynjar Nielsson

Blaðabarnið gleymir

Alltaf jafn fróðlegt og upplýsandi að lesa umfjöllun prentmiðla um störf og mætingar alþingismanna í nefndum alþingis. Nýlega las ég að ég hafi verið með fullkomna mætingu í efnahags- og viðskiptanefnd en mætingin slægleg í stórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðustu vikur þingsins. En blaðabarnið var auðvitað búið að gleyma því að helst mátti ég ekki sjást á svæðinu þegar málefni Ólafs í Samskipum var til meðferðar í nefndinni og alls ekki þegar Landsréttarmálið bar á góma.
17.jún. 2017 - 17:11 Brynjar Nielsson

Reiði og hefnd

Reiði og hefnd er mannleg tilfinning og mjög skiljanleg, ekki síst hjá þeim sem brotið er gegn. Fyrr á öldum var reiðin og hefndin allsráðandi þegar mönnum varð á eða gerðust brotlegir. Ef hinn brotlegi varð ekki að gjalda með lífi sínu á kvalarfullan eða niðurlægjandi hátt varð refsingin að minnsta kosti þannig að lífið yrði óbærilegt. Stundum er þetta tímabil nefnt Myrkar miðaldir.


24.maí 2017 - 11:48 Brynjar Nielsson

Vitleysan grasserar áfram þrátt fyrir rannsóknir sem sýna annað

Heilbrigðiskerfið er ónýtt, ójöfnuður meiri en annars staðar og kjör launþega verri. Spilling grasserar og einkarekstur og nýfrjálshyggja er allt að drepa.
05.maí 2017 - 12:06 Brynjar Nielsson

Varðandi sameiningu framhaldsskóla

Stjórnarandstöðuþingmenn, bæði botnfreðnir sósíalistar og þeir sem kenna sig við frjálslyndi og umburðarlyndi, voru í miklu uppnámi í gær þegar fréttist að menntamálaráðuneytið væri með til skoðunar sameiningu Fjöltækniskólans og Fjölbrautarskólans í Ármúla.
11.apr. 2017 - 12:18 Brynjar Nielsson

Sósíalistar eru ekkert nýtt

Sérkennilegur áhugi fjölmiðla á stofnun Sósíalistaflokks Gunnars Smára. Eins og að menn haldi að hér sé eitthvað nýtt á ferð. Vinstri grænir og Alþýðufylkingin er uppfull sósíalistum og slatti af þeim í Samfylkingunni. Virðist vera einkenni þeirra sem berja hausnum við steininn að þurfa að vera í mörgum flokkum.
22.mar. 2017 - 13:29 Brynjar Nielsson

Margar samúðarkveðjur

Mér hafa borist margar samúðarkveðjur vegna fráfalls söngvara og hljómsveitarstjóra stórbandsins Sven - Ingvars. Tónlistarsmekkur okkar hjónanna er afar ólíkur eins og margt annað. Samt hafa ekki komið alvarlegir brestir í hjónabandinu nema þegar ég spila Sven - Ingvars þegar hún er heima.
19.mar. 2017 - 15:23 Brynjar Nielsson

Smartland leggur mig í einelti

Ég sæti einelti af hálfu Smartlands. Þar er haldið fram að ég búi í 70 ára gömlum líkama og vitnað í ónýta tölvu.
02.mar. 2017 - 16:28 Brynjar Nielsson

Bannfæringarfólkið

Merkilegt hvað bannfæringar eru að verða algengar í svona „umburðarlyndu“ samfélagi. Vogi sér einhver að efast um hinn vísindalega sannleika um veðurfarsbreytingar af mannavöldum eða kynbundinn launamun er viðkomandi umsvifalaust bannfærður. Svo ekki sé talað um þá sem hafa einhvern vott að þjóðerniskennd í hjarta sínu.

13.feb. 2017 - 11:20 Brynjar Nielsson

Ekki nógu agaður í baráttunni við vambarpúkann

Hef komist að því að langvarandi fýla leiðir til mikillar þyngdaraukningar. Nú er svo komið að ég kemst ekki í nokkra flík með góðu móti. Verð að grípa í taumana svo ég fái áfram að sofa í hjónarúminu. Vandinn er hins vegar sá að ég er ekki nógu agaður og staðfastur í baráttunni við vambarpúkann nema að komast í einhverja keppni.

11.jan. 2017 - 11:38 Brynjar Nielsson

Ég styð þessa ráðherraskipan

Sjaldan eða aldrei eru menn á eitt sáttir þegar þegar kemur að vali í ráðherraembætti. Ég hef reifað áður mín sjónamið um hvað eigi að ráða í þeim efnum. Þau urðu ekki ofan á að öllu leyti í þetta sinn. Engu að síður studdi ég þessa ráðherraskipan enda úrvalsfólk hér á ferð. Nú þurfa þingmenn flokksins að fylkja sér um ráðherrana og styðja þá til góðra verka fyrir land og þjóð og láta persónulegar skoðanir og metnað ekki trufla sig um of.

04.jan. 2017 - 14:02 Brynjar Nielsson

Einhverjir myndu segja að þessar tilraunir væru fullreyndar

Búið er að stofna hóp á netinu sem heitir Sósíalistaflokkurinn. Þar birtast gömlu kommarnir sem voru upp á sitt besta snemma á áttunda áratug síðustu aldar ásamt sögulausum yngri mönnum. Dustað er rykið af öllum gömlu frösunum og haldið fram að forsenda velferðar og nýsköpunar sé sósíalismi á vegum ríkisvaldsins. Mætti halda að þetta ágæta fólk hafi verið í dái síðustu 40 ár.

03.jan. 2017 - 15:10 Brynjar Nielsson

Nútíma sósíalistar eru semsagt umbótasinnar

Nú um stundir er vinsælt að kalla sig frjálslyndan umbótasinna. Einnig er farið að endurskilgreina sósíalismann sem heitir nú félagshyggja. Nútíma sósíalistar eru semsagt frjálslyndir félagshyggjumenn og umbótasinnar. Maður fær óbragð í munninn við það eitt að skrifa þetta.
28.des. 2016 - 15:47 Brynjar Nielsson

Þingmaður Pírata rekur rýting í bak samstarfsmanna

Þingmaður Pírata, Eva Pandóra, sakar aðra þingmenn um fúsk og slæleg vinnubrögð, ekki síst fyrir að afgreiða frumvarpið um jöfnun lífeyrisréttinda nú fyrir jól. Um sé að ræða mikið hagsmunamál sem hefði þurft meiri tíma til að vinna.

22.des. 2016 - 14:30 Brynjar Nielsson

Pyntingastefnan ber ekki árangur

Ekki vil ég gera lítið úr fíknivanda. Sumir glíma við matarfíkn og/eða sykurfíkn, aðrir áfengis og jafnvel spilafíkn og svo framvegis. Einu hugmyndir stjórnmálamanna í glímunni við fíkn einstakra manna er að banna öllum neyslan eða háttsemina eða að skattleggja alla til dauðs. Þótt sumir borði of mikið af sykri og öðru óhollu, spili rassinn úr buxunum í fjárhættuspilum eða staupi meira en góðu hófi gegnir, er kannski óþarfi að banna hófsemdarmönnum í þessum efnum alla gleði eða okra á þeim til að draga úr henni. Gæti kannski verið til bóta að menn bæru almennt meiri ábyrgð á sjálfum sér í stað þess að stjórnmálamenn kvelji alla aðra. Ég get heldur ekki séð að þessi pyntingastefna beri nokkurn árangur.
13.des. 2016 - 12:27 Brynjar Nielsson

Kjósendur Pírata eru hafðir að algerum fíflum

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn þurftu hvor um sig að gefa eftir í sínum stefnumálum við myndun síðustu ríkisstjórnar voru það svikin loforð. Nú þegar fimmflokkarnir frægu hentu meira og minna öllum sínum loforðum og prinsippum á haugana, til að ná völdum, heitir það málamiðlun og að vera lausnarmiðaður.

05.des. 2016 - 16:39 Brynjar Nielsson

Menn hafa gert verri rit að skyldulesningu í skólum

Stundum getur tiltekt gert gagn. Í einni slíkri fann bókina Um frelsið eftir John Stuart Mill, sem er grundvallarrit um hið frjálsa lýðræðisamfélag vesturlanda. Hollt væri fyrir þá, sem sífellt tala fyrir alls konar skerðingum á tjáningar- og atvinnufrelsi í því skyni að búa til betra samfélag, að glugga aðeins í bókina.
30.nóv. 2016 - 13:42 Brynjar Nielsson

Hættum þessari 3ja hjóls umræðu

Nú er erfitt að mynda ríkisstjórn því enginn vill vera 3ja hjól undir vagni síðustu ríkisstjórnar. Af sömu ástæðu gætu sjálfstæðismenn ákveðið að fara ekki í stjórn með VG og Samfylkingunni því hann vill ekki vera 3ja hjól undir vagni Jóhönnustjórnarinnar frá 2009-2013.

24.nóv. 2016 - 10:28 Brynjar Nielsson

Píratar enda á ruslahaugum sögunnar

Mér skilst að Píratar hafi verið stofnaðir til að berjast gegn spilltum, óheiðarlegum og valdasjúkum fjórflokki. Enginn skortur var á loforðum gagnvart kjósendum og ekki skyldi prinsippum haggað. Öllu þessu var svo hent á rusalhaugana til að geta myndað vinstri stjórn, sem kjósendur höfðu þó hafnað með afgerandi hætti. Einhver myndi kalla þetta hreina og tæra valdasýki.

09.nóv. 2016 - 14:31 Brynjar Nielsson

Mín skýring á sigri Trump

Margir velta því fyrir sér hvernig það gat gerst að maður eins og Donald Trump var kosinn forseti í rótgrónu lýðræðisríki. Eflaust eru margar samverkandi ástæður fyrir því. Sjálfur tel ég meginástæðuna þá að stuðningsmenn Hillary tóku upp ólýðræðislegar aðferðir vinstri manna í evrópu með því að hleypa upp pólitískum fundum andstæðinga sinna, kalla þá heimska og ómenntaða rasista og rugluð gamalmenni og eitthvað þaðan af verra. Kannski hafa bandaríkjamenn engan humor fyrir menntasnobbuðu elítunni, sem heldur að hún sé svo gáfuð.

24.okt. 2016 - 10:15 Brynjar Nielsson

Leyfum þeim að endurreisa höfuðborgina fyrst

Mér skilst að stjórnarandstaðan sé þessa dagana að mynda næstu ríkisstjórn sem á að endurreisa Ísland á grundvelli félagslegs jöfnuðar og réttlætis.
19.okt. 2016 - 17:07 Brynjar Nielsson

Alþýðufylkingin er heiðarlegri en VG

Einhversstaðar sá ég að fylgi VG væri á flugi. Flokkar eins og VG eru í öðrum löndum jaðarflokkar sem eru að berjast við að ná 5% fylgi til að koma manni á þing. Þótt formaður VG sé afar geðsleg kona og margt gott fólk þar innanborðs er stefna flokksins alltaf jafnslæm og skaðleg.

10.okt. 2016 - 11:37 Brynjar Nielsson

Heimsóttum Bandaríkin og vorum dregnir út af klósettinu

Ég segi farir mínar ekki sléttar eftir heimsókn til Bandaríkjanna. Við fjórir miðaldra karlar keyptum lestarmiða á netinu frá Boston til New York. Þegar á lestarstöðina kom var miðasölubás þessa lestarkompanýs lokaður. Töldum við þá duga að staðfesta greiðslu með snjallsímanum og gengum um borð. En það var öðru nær. Á næstu stoppustöð voru við dregnir af klósettinu, með nánast allt niðrum okkur, leiddir út og gegnum lestarstöðina með öll augu á okkur, af sterklegum lögreglumönnum.

07.okt. 2016 - 17:35 Brynjar Nielsson

Við erum öll jafnaðarmenn

Samfylkingarfólk segir að íslendingar séu jafnaðarmenn upp til hópa og skilur því ekki af hverju fylgið hrynur af þeim. En hvað er að vera jafnaðarmaður? Öll erum við jafnaðarmenn ef sú stefna snýst um að halda uppi almannatryggingarkerfi, aðgangi að heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir alla. En ef hún snýst um ríkisvæðingu og jafna kjör allra óháð framlagi eru fáir jafnaðarmenn, sem betur fer. Slík jafnaðarmennska er auðvitað aðför í hinu frjálsa samfélagi og er í raun gamaldags sósíalismi. Því miður hefur Samfylkingin sogast í þá "jafnaðarmennsku" og ekki er pláss fyrir tvo flokka í því rugli öllu saman. Þess vegna hríðfellur fylgið.

30.sep. 2016 - 11:24 Brynjar Nielsson

Fæ hroll af loforðaflaumi vinstrimanna

Það fer um mann hrollur þegar hlustað er á loforðaflaum vinstri flokkanna í upphafi kosningabaráttunnar. Um leið og glitta fer í batnandi ástand og horfur er ekkert mál er að lofa öllum öldruðum og öryrkjum 300 þúsund á mánuði úr almannatryggingum án nokkurs tillits til tekna og eigna viðkomandi. Öll heilbrigðisþjónusta, hverju nafni sem hún nefnist, skal vera gjaldfrí. Bæta skal tugum milljarða í heilbrigðiskerfið og skólakerfið, annað eins í samgöngur og svona má lengi telja.
08.sep. 2016 - 13:26 Brynjar Nielsson

Mikill er happafengur Viðreisnar

Afskaplega er það þungbært þegar góðir og öflugir Sjálfstæðismenn yfirgefa flokkinn. Mikill er happafengur Viðreisnar og ég óska þessu góða fólki velfarnaðar á nýjum vettvangi. Hins vegar hafa flækst fyrir mér skýringar þessa fyrrum félaga á sinnaskiptunum. Ég hef ekki fengið það á hreint hvort þau hafi fjarlægst stefnu Sjálfstæðisflokksins eða hvort flokkurinn hafi ekki fylgt stefnu sinni sem skyldi.

06.sep. 2016 - 11:39 Brynjar Nielsson

Voðaleg áhugasemi um „beint lýðræði“ hjá öðrum en sjálfum sér

Margir hafa velt sér upp úr slælegri þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í sögulegu samhengi.
31.ágú. 2016 - 10:50 Brynjar Nielsson

Ég sækist eftir 3.sæti

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi kosningar og sækist eftir 3. sætinu. Ég legg áherslu á áframhaldandi aðgerðir til að treysta efnhagslegan stöðugleika með aðhaldi í ríkisfjármálum. Forsenda velferðar allra er öflugt atvinnulíf og stöðugleiki. Og forsenda öflugs atvinnulífs er trú á einstaklinginn og sköpuð sé eðlileg umgjörð fyrir hann til athafna og sköpunar. Ég er trúr grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins og tel að við þurfum að leita oftar lausna þar í glímu við þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.

29.ágú. 2016 - 13:50 Brynjar Nielsson

Ég er kallaður Ebbi á mínu heimili

Ég er þátttakandi í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík þótt lítið hafi farið fyrir mér í baráttunni. Hef ég mjög verið gagnrýndur fyrir slugs og nísku, ekki síst af mínu heimilisfólki, fyrir að tíma ekki að bjóða í kokteila eða vöfflukaffi. Það sé því ekki tilviljun að ég sé kallaður Ebbi á minu heimili, sem mun vera stytting á Ebenezer Scrooge, þekktri persónu í jólaævintýri Dickens.


Brynjar Níelsson
Hæstaréttarlögmaður. Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.
sætaSvínið: pasrtýkaroke
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar