23. júl. 2012 - 12:17Brynjar Nielsson

Kröfur Öryrkjabandalagsins

Það hefur verið baráttumál Öryrkjabandalag Íslands að þeir skjólstæðingar þess sem þurfi að fá aðstoð til að greiða atkvæði í kosningum megi koma með sinn eigin aðstoðarmann. Það sé ekki bara réttlætismál heldur mikilvæg mannréttindi. Því hefur ÖBÍ stutt kröfur fólks, sem þannig er ástatt fyrir, til að kæra síðustu forsetakosningar og krefjast ógildingar á þeim.

Sigurður Líndal prófessor hefur kallað þessar kröfur um ógildingu forsetakosninganna mannréttindafrekju. Hægt er að taka undir seinni hluta orðsins en erfitt er að sjá hvar mannréttindin liggja í þessu. Það kann að vera að einhverjum kjósendum, sem ekki geta kosið án aðstoðar, finnist betra að njóta aðstoðar nákominna, vina eða þeirra sem sjá um umönnun viðkomandi. Þau þægindi hafa hins vegar ekkert með réttlæti að gera hvað þá mannréttindi. Réttindin sem hér skipta máli eru þau að kjósandinn geti kosið leynilegri kosningu.

Augljóst er að leyndin verður ekki meiri með heimafengnum aðstoðarmanni sem ekki hefur trúnaðar-og þagnarskyldu samkvæmt lögum, öfugt við starfsmenn kjörstjórna.  Hægt er að færa rök fyrir því að leyndin verði í raun minni verði lögum breytt í samræmi við kröfur ÖBÍ. Allir vita að þrýstingur getur verið frá nákomnum um hvað kjósa skuli, sérstaklega ef þeir eru mjög pólitískir í hugsun. Sama getum við séð fyrir okkur á sambýlum og elliheimilum þar sem öflugur áhrifamaður stjórnar eða starfar. Margir fatlaðir, aldraðir og aðrir sem ekki geta kosið án aðstoðar eru að sjálfsögðu háðir þessu fólki og eiga erfitt með í vissum tilvikum að láta það ekki hafa áhrif á sig í kjörklefanum ef viðkomandi stendur yfir þeim. Þar að auki er það viðbúið að leyndin verði minni þegar kjósandinn er tengdur aðstoðarmanninum eða  í svona miklu návígi við hann. Þessi herferð ÖBÍ er því ekki bara óþörf, eins og formaður MND félagsins hefur bent á, heldur beinlínis vinnur hún gegn hagsmunum og réttindum kjósandans sem ekki getur kosið án aðstoðar.

Sumir hafa haldið því fram, einkum stjórnlagaráðsmenn og andstæðingar forseta Íslands, að Hæstiréttur geti ekki annað en ógilt forsetakosningarnar fyrst stjórnlagaþingskosningar voru ógiltar. Ekki er ólíklegt að stærðfræðingur hafi verið fenginn til að reikna það út. Þessi samanburður er fullkomlega fráleitur. Öfugt við stjórnlagaþingskosningarnar voru forsetakosningarnar í samræmi við kosningalög. Ágallar á stjórnlagaþingskosningunum voru það miklir að kosningin gat ekki talist leynileg. Slíkir ágallar voru hins vegar ekki á forsetakosningunum. Breytir þá engu þótt einstökum kjósendum kunni að þykja betra að hafa aðstoðarmann að eigin vali við kosninguna og telji það til mannréttinda.

Það læðist að manni sá grunur að framganga ÖBÍ nú hafi með úrslit forsetakosninganna að gera frekar en mannréttindabrot gegn skjólstæðingum þess. Að minnsta kosti var ekki krafist ógildingar stjórnlagaþingskosninganna á þessum grunni.(21-31) NRS Gluggar og gler mars 2016
08.ágú. 2011 - 16:00 Brynjar Nielsson

Ofstækismaður í íslensku samfélagi

Björg Eva Erlendsdóttir skrifaði pistil á einhverjum vefmiðlinum sem bar yfirskriftina „Ofstækiskona í íslensku samfélagi”. Við fyrstu sýn virðist höfundurinn vilja deila með fólki þeirri sannfæringu sinni að hún sé ofstækiskona. En auðvitað er það ekki tilefnið heldur það að reyna að sannfæra lesendur um að þetta séu öfugmæli. Hennar skoðanir eru góðar, hófstilltar og réttar og ofstækismennirnir séu í raun formaður Lögmannafélagsins, Gillzenegger, framkvæmdastjóri  Þjóðhátíðar í Eyjum og Jón Stóri. Það er enginn skortur á yfirlæti og hroka í pistli Bjargar Evu eins og gjarnt er með þá sem þurfa að leiðbeina okkur vitleysingunum í gegnum lífið. Það kemur fyrir að formaður Lögmannafélagsins sýni hroka í þjóðmálaumræðunni en slíku yfirlæti hefur hann aldrei náð.

04.ágú. 2011 - 14:00 Brynjar Nielsson

Að skila skömminni þar sem hún á heima

Undarleg umræða hefur farið í gang eftir að Gunnar Þorsteinsson fékk bréf frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að rannsókn vegna kæru nokkurra kvenna um kynferðisbrot Gunnars gegn sér hafi verið felld niður með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í þeirri grein segir að lögregla geti hætt rannsókn ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot eru smávægileg og fyrirsjáanlegt að rannsókn muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Kærendur hafa sjálfsagt fengið samskonar bréf þótt bætt hafi verið við rökstuðningi um að sökin hafi verið fyrnd ef sannast hefði.
20.júl. 2011 - 13:25 Brynjar Nielsson

Varðmenn réttlætisins

Nú er Sævar Ciesielski látinn. Þegar við hittumst á förnum vegi tókum við gjarnan tal saman. Stundum hringdi hann í mig. Við ræddum ekki oft um Guðmundar- og Geirfinns málin. Í þeim fáu samtölum sem þau mál báru á góma fannst mér hann aldrei bitur yfir því að hafa verið sakfelldur. En hann hvorki játaði né neitaði aðild að hvarfi mannanna í okkar samtölum.
07.júl. 2011 - 11:30 Brynjar Nielsson

Símahleranir sérstaks saksóknara og friðhelgi einkalífsins

Í frjálsu samfélagi gilda ýmsar reglur til að vernda frelsi einstaklinga gegn ríkisvaldinu. Þessar reglur flokkast sem mikilvæg mannréttindi og eru því gjarnan í stjórnarskrá. Sú sem flestum okkar er einna mikilvægust er reglan um friðhelgi einkalífsins. Undantekningar eru frá henni undir vissum kringumstæðum, m.a. við rannsókn sakamála, en með þröngum skilyrðum.
30.jún. 2011 - 12:00 Brynjar Nielsson

Meðferð valds

Á tveim stöðum á Laugaveginum rekur sami aðilinn tvo veitingastaði sem bera nöfnin, Monte Carlo og Mónakó. Í þeirri götu og allt um kring er margir aðrir staðir veitingastaðir og barir eins og víðast annarsstaðar í verslunargötum og miðbæjum.
23.maí 2011 - 15:00 Brynjar Nielsson

Að bera ábyrgð á skuldum annarra

Í umfjöllun um skuldamál einstaklinga og fyrirtækja er áberandi hversu auðveldlega eigendur eru samsamaðir við skuldir félaga sem þeir hafa átt hlut í. Stundum nægir ekki í umræðunni að yfirfæra skuldina frá hlutafélaginu yfir til eiganda, heldur eru jafnvel makar eiganda hluthafans samsamaðir skuldum þess. Þetta er merkilegt vegna þess að hlutafélagaformið hefur þekkst síðan á 19 öld og fyrir tæplega 100 árum var skilið á milli fjármála hjóna með þeim hætti að hjón bera almennt ekki ábyrgð á skuldum hvors annnars.  
20.apr. 2011 - 09:30 Brynjar Nielsson

Hverjir eru frjálslyndir?

Ég las í einhverjum vefmiðlinum að Siv Friðleifsdóttir telur að Framsóknarflokkinn skorti  frjálslyndi og af þeim sökum ætti hún erfitt  með að finna sig í flokknum. Mátti helst skilja að hún væri frjálslynd í skoðunum og í afstöðu til stjórnmálanna, en flokksforystan þá að sama skapi  væntanlega stjórnlyndari en æskilegt væri.

11.apr. 2011 - 13:50 Brynjar Nielsson

Rangfærslur formannsins um Icesave

Það hefur farið í taugarnar á mörgum að ég skuli, vegna formennsku minnar í Lögmannafélagi Íslands, taka þátt í þjóðmálaumræðunni. Ég hef átt erfitt með að skilja þennan pirring því ég hef aldrei tjáð mig í nafni Lögmannafélagsins eða ýjað að því að um sjónarmið félagsins væri að ræða. Það virtist hins vegar öllum vera sama um að forsvarsmenn launþegasamtaka og atvinnulífsins tjái afstöðu sína til Icesave laganna. Það var ekki einu sinni gerð athugasemd við hótanir forsvarsmanna þessar félaga í garð launþega þessa lands í baráttunni fyrir samþykki laganna.
06.apr. 2011 - 16:00 Brynjar Nielsson

Að skattleggja tap

Dómur Hæstaréttar í máli Bjarka Diego gegn íslenska ríkinu er um margt athyglisverður. Málið á rót sína að rekja til viðskipta sem áttu sér stað á árinu 2001 og 2003. Í dóminum kemur fram að skattayfirvöld hafi að eigin frumkvæði fengið allar upplýsingar um viðskiptin afhentar í byrjun júní 2005.  Síðan segir orðrétt í dóminum „Ríkisskattstjóri virðist ekkert hafa aðhafst frekar af þessu tilefni fyrr en með bréfi 23. febrúar 2009“.
17.mar. 2011 - 14:10 Brynjar Nielsson

Sleggjudómarinn tekur til sinna ráða

Það er vandasamt verk að vera dómari, en létt og löðurmannlegt verk að vera sleggjudómari. Enginn skortur er á sleggjudómurum, sem hirða ekki um að setja sig inní málsatvik og staðreyndir mála, sem leysa þarf úr. Smugublaðamaðurinn, Björg Eva Erlendsdóttir, virðist mér nú um stundir standa einna fremst í röð sleggjudómara og er hún þó alls ekki ein á ferð.
14.mar. 2011 - 13:00 Brynjar Nielsson

Er ofstækinu engin takmörk sett?

Starfsmaður Isavía hefur legið undir ásökunum í fjölmiðlum og bloggsíðum um kynferðisbrot gegn undirmanni sínum. Forsagan er sú að undirmaðurinn höfðaði einkamál á hendur Ísavíu til greiðslu skaðabóta á grundvelli vinnveitendaábyrgð félagsins á yfirmanninum. Byggðist krafan um bætur á því að yfirmaðurinn hafi áreitt hana kynferðislega í skilningi laga um jafna stöðu kvenna og karla. Fallist var í dóminum á þessa málsástæðu stefnanda og honum dæmdar bætur.
09.feb. 2011 - 10:00 Brynjar Nielsson

Skætingur og hótfyndni

Ég sé að Egill Helgason, þáttastjórnandi og Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, hafa tekið til sín umfjöllun mína um snillinga ársins í síðasta Pressupistli mínum. Og það með réttu. Friðrik Þór Guðmundsson, blaðamaður, virðist einnig hafa gert það, en hann var þó ekki einn af snillingunum í mínum huga. Og svo er einn Eyjubloggari, sem bloggar í boði skattgreiðenda, sem lætur mig fá það óþvegið í einlægri geðshræringu.
07.feb. 2011 - 16:45 Brynjar Nielsson

Snillingar ársins

Hugtökin „lagatækni” og „lagahyggja” njóta nú um stundir talsverða vinsælda í þjómálaumræðunni. Í þeirri umræðu hafa verið mest áberandi blaðamaður ársins, þáttastjórnandi ársins og ritstjóri ársins 1974. Það fer afskaplega mikið í taugarnar á þessum mönnum og skoðanabræðum þeirra, þegar dómstólar dæma eftir lögunum, en ekki „heilbrigðri tilfinningu fólksins”. Þeir telja að eigin skoðanir endurspegli þjóðarvilja og mætti almúginn fá á tilfinninguna að þeir hefðu fengið úthlutað réttlæti og sanngirni í stærri skömmtum en gerist og gengur um annað fólk. Því hefur það valdið þeim miklu harðlífi að dómsvaldið skuli ekki vera búið að setja alla útrásarvíkinga og bankamenn bak við lás og slá. Lögin eiga ekki að skipta máli, heldur réttlæti og sanngirni. Lagatæknin og lagahyggjan hindra framgang réttlætisins.
28.jan. 2011 - 16:30 Brynjar Nielsson

Skyldur dómara

Í því andrúmslofti sem hér hefur ríkt um nokkurt skeið er mikill þrýstingur á dómara að dæma eftir því hvernig vindar blása í þjóðmálaumræðunni. Er þá gjarnan vísað til einhvers óskilgreinds réttlætis og sanngirnis. Það er hins vegar afar mikilvægt að dómstólar bregðist ekki skyldum sínum við að gæta lögbundinna réttinda almennings og samfélagsins þrátt fyrir vaxandi þrýsting pólitískra afla, fjölmiðla og hagsmunahópa um annað. 
22.des. 2010 - 12:00 Brynjar Nielsson

Ráðherrann og aðstoðarmaðurinn

Dómsmálaráðuneytið er fag­ráðuneyti sem alltaf hefur haft talsverða sérstöðu vegna þess að málefni lögreglu, ákæruvalds og dómstóla heyra undir það. Því hefur verið talið æskilegt að starfi dómsmálaráðherra gegni maður sem skilning og þekkingu hefur á helstu málaflokkum sem undir hann heyra. Ef því verður ekki við komið er mjög mikilvægt að hinn pólitíski aðstoðarmaður ráðherra hafi þekkingu á þessum málaflokkum. Nú um stundir er hvorugu að heilsa.Fljótlega þegar þessir nýju pólitísku herrar tóku við dómsmálaráðuneytinu var boðað til samráðsfundar á vegum ráðuneytisins um nauðgunarmál.

21.des. 2010 - 07:00 Brynjar Nielsson

Sjálfseignarstofnanir utanum ekki neitt!!

Á einhverjum vefmiðlinum sá ég að félagsskapur áhugamanna um skoðanir og hugðarefni Evu Joly hefðu í hyggju að koma á fót Stofnun, sem bæri nafn hennar. Markmiðið er hvorki meira né minna en alþjóðleg rannsóknarstofnun sem einbeitir sér að lýðræði, réttlæti og fjölmiðlafrelsi, eins og að slík fyrirbæri séu á einkaleyfaskrá Evu.
08.des. 2010 - 07:54 Brynjar Nielsson

Krossfestingar nútímans

Undanfarin misseri og ár hafa sprottið fram fólk með aðstoð fjölmiðla og borið nafngreinda einstaklinga sökum um refsiverða háttsemi sem á að hafa átt sér stað fyrir tugum ára. Nýjasta dæmið eru ásakanir á umdeildan mann, Gunnar Þorsteinnson, um kynferðisbrot, sem komu fram eftir að hann giftist umdeildri konu, Jónínu Benediktsdóttur. Þær ásakanir komu fram í kjölfar deilna innan trúfélagsins Krossins.
21.okt. 2010 - 11:00 Brynjar Nielsson

Pólitík og sakamál

Nú er hún að kveðja okkur, norsk-franski ráðgjafi sérstaks saksóknara, sem pólitískir samherjar hafa tekið ástfóstri við og kannski einhverjir fleiri. Sumir þeirra vilja meina að sönn ást sé á milli þjóðarinnar og ráðgjafans að undanskildum banka-og útrásarvíkingum og lagatæknum þeirra. Margir trúa því að rannsókn efnahagsbrota í kjölfar hruns fjármálastofnana standi og falli með þessum ráðgjafa. Þess vegna kom það á óvart að enginn skyldi þurfa áfallahjálp þegar ráðgjafinn tilkynnti nýverið að hann væri að láta af störfum.
16.okt. 2010 - 08:00 Brynjar Nielsson

Almenn niðurfærsla skulda

Þessa dagana er mikið rætt um almenna niðurfærslu skulda með lögum. Umræðan hefur verið um allt að 20% niðurfærslu á höfuðstól. Ráðherrar funda út um allan bæ og taka vel í tillögurnar. Sama á við marga þingmenn svo ekki sé talað um fjöldann allan af hinum ýmsu hagsmunasamtökum skuldara.
11.okt. 2010 - 14:00 Brynjar Nielsson

Hverjir draga lappirnar?

Við banka- og gjaldmiðlahrunið í október 2008 var óhjákvæmilegt að víðtækt skuldauppgjör við einstaklinga og fyrirtæki færi fram.  Afleiðingar slíks uppgjörs eru þær að afskrifa þarf skuldir í kjölfar nauðasamninga eða gjaldþrots enda dregur enginn tennur úr tannlausum kjafti.

20.sep. 2010 - 10:45 Brynjar Nielsson

Landsdómur og ráðherraábyrgð

Nú hefur þingnefnd lagt til við Alþingi að fjórir fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir vegna brota á lögum um ráðherraábyrgð. Í því felst, samþykki þingið kærulýsingu nefndarinnar í þingsályktun, að mál gegn þeim verður höfðað fyrir Landsdómi og þess krafist að þeir verði dæmdir til refsingar. Ekki er umdeilt að þessi málsmeðferð er í samræmi við gildandi lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm.
24.ágú. 2010 - 14:00 Brynjar Nielsson

Forvirkar rannsóknarheimildir

Í fjölmiðlum hefur verið haft eftir dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, að hún ætli að beita sér fyrir löggjöf þar sem lögreglu verði veittar svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir til að sporna gegn glæpum. Í forvirkum rannsóknarheimildum felst það að lögreglu er veitt heimild til rannsóknaraðgerða án þess að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um refsivert brot þess eða þeirra sem rannsóknin beinist að.
19.ágú. 2010 - 10:53 Brynjar Nielsson

Ofstæki

Lögreglumaðurinn Björgvin Björgvinsson hefur undanfarin ár verið stjórnandi þeirrar deildar lögreglunnar í Reykjavík sem annast hefur rannsóknir á kynferðisbrotum. Í viðtali við DV nýverið lét hann í ljósi þá skoðun að fórnarlömb nauðgana hefðu stundum getað minnkað líkur á broti með því að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér og hegðun sinni. Fólk setti sjálft sig í aukna hættu með drykkju og dópneyslu.
16.ágú. 2010 - 16:35 Brynjar Nielsson

Er fjórflokkurinn með kennitölu?

Iðulega og sérstaklega nú um stundir hefur verið lenska að tala um „fjórflokkinn” sem afmarkað fyrirbæri sem sé ólýðræðislegt og spillt. Hafa fjölmiðlamenn og álitsgjafar þeirra verið duglegir að koma þessum sjónarmiðum á framfæri sem og margir sem tilheyra hópi svokallaðra bloggara, meira að segja háskólakennarar, sem sumir hverjir, að sögn, voru aldir upp í aftursæti ráðherrabíls og þáðu laun hjá hinum ýmsu stofnunum fyrir lítið eða ekki neitt. Stundum finnst manni að þeir sem tala mest um spillingu annarra séu spilltastir sjálfir.
24.júl. 2010 - 12:14 Brynjar Nielsson

Hamingjusama hóran

Eins og mörgum er kunnugt hef ég skiptst á skoðunum við Höllu Gunnarsdóttur, talsmann Femínistafélagsins, í pistlum mínum á Pressunn um vændi, vændiskaup og annað þvi tengdu. Í síðasta pistli mínum lýsti ég m.a. þeirri skoðun minni, sem byggð er á reynslu af störfum mínum, að það væri ekki neyðin sem ræki konur í Evrópu í vændi og að þær hefðu sama val og aðrar konur.
19.júl. 2010 - 16:25 Brynjar Nielsson

Félagslegur raunveruleiki

Ég er sannfærður um að ég þekki betur félagslegan raunveruleika vændiskvenna en Halla og hennar félagar. Ég hef sinnt lögmannsstörfum fyrir vændiskonur og nektardansmeyjar (þótt þetta tvennt fari ekki endilega saman) og þekki því þennan heim vel. Það er ekki neyðin sem rekur konur í Evrópu í vændi og nektardans. Þær hafa sama val og aðrar konur.
13.júl. 2010 - 17:08 Brynjar Nielsson

Halla Gunnarsdóttir og kynbundið ofbeldi

Fram kom í vefmiðlum í gær að Halla Gunnarsdóttir, talsmaður Femínistafélagsins, hefði ritað pistil á bloggsíðu sinni undir heitinu „Hringavitleysa Brynjars Níelssonar”. Þar var bæði almenningi og mér veitt ókeypis lexía í sakamálaréttarfari og lögfræði almennt. Þótt mér finnist skoðanir Höllu, sem hún hefur oftsinnis viðrað, allt í senn, rangar, vondar og skaðlegar, hef ég enga sannfæringu fyrir því að réttast væri að banna þær, enda myndi það gera illt verra, auk þess að vera í andstöðu stjórnarskrárvarinn rétt hennar til að tjá þær. Ég verð þó að leiðrétta sumt í grein Höllu og skýra annað í minni grein nánar.
11.júl. 2010 - 15:07 Brynjar Nielsson

Réttarríki Höllu Gunnarsdóttur

Talsmanni femínistafélagsins, Höllu Gunnarsdóttur, þótti lítið til íslenska réttarríkisins koma í bloggi sínu fyrir einhverjum dögum síðan. Ástæðan er sú að hvergi koma fram nöfn þeirra sem sakfelldir voru fyrir vændiskaup á meðan nafn afgreiðslukonu í  Bónus, sem dró sér fé í versluninni, var birt. Umrætt blogg talsmannsins varð að óskijanlegum ástæðum stórfrétt næstu daga með tilheyrandi viðtölum í fjölmiðlum.
10.jún. 2010 - 14:45 Brynjar Nielsson

Skipan dómara

Ekki ætla ég að leggja mat á það hvort Ólafur Börkur eða Jón Steinar hafi verið hæfastir umsækjenda á sínum tíma en fullyrða má að báðir voru þeir mjög hæfir, eins og segja má um þá sem Hæstiréttur hafði talið hæfasta. Rétt er að benda á að Ólafur Börkur hafði áður verið farsæll dómstjóri við héraðsdóm og enginn hafði efast um að Jón Steinar var einn allra hæfasti lögmaður landsins þegar hann var skipaður í Hæstarétt.
18.maí 2010 - 09:40 Brynjar Nielsson

Að vera sakborningur

Fram hefur komið í fjölmiðlum að nokkrir starfsmenn Arion banka hafi stöðu sakbornings við rannsókn sérstaks saksóknara á málum sem tengjast Kaupþingi. Ekki var að sökum að spyrja að hávær krafa varð uppi um að viðkomandi starfsmönnum yrði sagt upp eða þeir leystir frá störfum meðan rannsókn færi fram. Gjarnan er vísað til siðferðissjónarmiða til rökstuðnings þeirri kröfugerð. Því er tilefni til að benda á nokkur mikilvæg atriði um réttarstöðu manna við rannsókn mála af þessu tagi, þar sem uppi er grunur um refsiverða háttsemi.
06.apr. 2010 - 20:00 Brynjar Nielsson

Leikhúsfræði og nektardans

Stundum þegar fólki er heitt í hamsi vilja taugarnar bresta, samhengi hlutanna raskast og rökhugsun fer fjandans til. Slíkt ólán hefur hent ungan leikhúsfræðing, Karen Maríu Jónsdóttur í snarpri gagnrýni sinni á viðleitni mína til að vernda hið opna, frjálsa og umburðarlynda þjóðfélag, gegn hugmyndafræði forræðishyggju um mannlega breytni og breyskleika. Á okkar tímum birtast gæslumenn rétthugsunar og „góðrar háttsemi“ helst í gervi hvatvísra femínista, sem telja sig hafa ráð og rænu til að leiðbeina samtíð sinni á svipaðan máta og íhlutunarsöm trúaryfirvöld gerðu fyrr á öldum.
05.apr. 2010 - 09:30 Brynjar Nielsson

Hið heilbrigða þjóðfélag

Það er skrítið að þeir sem tala mest um hinn „dökka raunveruleika“ nektardansstaða eru þeir sem ekkert til þekkja og hafa aldrei inn á slíka staði komið. Þegar smíða á löggjöf um slíka starfsemi er helst talað við slíkt fólk og það kallað til ráðgjafar. Þetta er sama heilkennið og þegar semja á löggjöf um áfengi og móta stefnu stjórnvalda í áfengismálum. Þá er helst leitað til þeirra sem ekki neyta vörunnar eða þeirra sem kunna ekki með hana að fara.
29.mar. 2010 - 15:54 Brynjar Nielsson

Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil!

Alþingi hefur síðustu misseri sett ýmis lög sem takmarka mjög  frelsi manna til athafna og atvinnu. Nefna má lög um bann við kaupum á vændi, bann við nektardansi, lög um fjölda fólks af sitt hvoru kyni í stjórnum félaga, bann við notkun fólks undir átján ára aldri á ljósabekkjum o.s. frv. 
23.feb. 2010 - 18:00 Brynjar Nielsson

Óþarfa viðkvæmni fræðimanna

Vegna pistils míns hér á Pressunni um fræðimenn og fræðasamfélagið hef ég fengið viðbrögð frá Birni Vali Gíslasyni, þingmanni Vg og Eiríki Bergmann Einarssyni, stjórnmálafræðingi. Í pistil mínum fann ég að því að Anne Sibert, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Ísland á vegum Samfylkingarinnar skyldi hafa tjáð sig opinberlega um að Íslendingar gætu greitt samkvæmt icesave-samkomulaginu á sama tíma og verið væri að reyna að semja um hagstæðari samning. Tók ég þar undir þau sjónarmið og þá gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, að þetta tvennt færi ekki saman.
21.feb. 2010 - 13:30 Brynjar Nielsson

Fræðimenn og fræðasamfélagið

Hinn 13. febrúar sl. birti kona nokkur, Anne Sibert að nafni, grein í tímariti þar sem hún gat þess m.a. að Íslendingar gætu vel ráðið við fjárskuldbindingar samkvæmt fyrirliggjandi Icesave-samningi. Mér skilst að konan sé prófessor í hagfræði einhvers staðar í útlöndum og sitji í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands á vegum Samfylkingarinnar.
18.feb. 2010 - 15:00 Brynjar Nielsson

Sýknudómur Hæstaréttar

Undanfarin tvö kvöld hefur verið í Kastljósi ítarleg umfjöllun um dóm Hæstaréttar, uppkveðnum 11. febrúar s.l., þar sem maður var sýknaður af kynferðisbroti sem hann var sakaður um. Ekki ætla ég að agnúast út í fjölmiðla fyrir að fjalla um dóma og sönnunarfærslu fyrir dómi en þessi úttekt Kastljóssins var undarleg þótt ekki sé meira sagt.
29.jan. 2010 - 14:00 Brynjar Nielsson

Stefnuleysi dómstóla

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur, ritar grein í Pressuna sem ber heitið „Andskotast yfir stefnuleysi”  til að leiðrétta vitleysuna í mér og skýra sjónarmið sín um sönnunargildi sálfræðimats vegna áfallastreitu, sem svo er kölluð. Eins og í upphaflegri grein sinni um efnið í Morgunblaðinu kvartar Þórdís yfir stefnuleysi dómstóla um sönnunargildi sálfræðimats vegna áfallastreitu brotaþola fyrir dómi.
24.jan. 2010 - 14:00 Brynjar Nielsson

Áfallastreita og misskilningur

Í gær birtist í Pressunni grein eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem á að vera svar við rangfærslum og villum í minni grein sem birtist í gær á sama vefmiðli.  Þórdís gerir einkum athugasemd við fjögur atriði í minni grein ef ég skil hana rétt:
22.jan. 2010 - 14:24 Brynjar Nielsson

Áfallastreituröskun og sönnun

Það er gott og tímabært að fram fari umræða um sönnunarfærslu og sönnunarmat í sakamálum. Slík umræða  hófst  um miðja síðustu viku í Morgunblaðinu þegar Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hneykslaðist á því að mat sálfræðings á áfallastreitu brotaþola dygði ekki eitt sér til sakfellingar í kynferðisbrotamálum. Með því væri vegið að starfsheiðri sálfræðinga. Sérstaklega þótti henni slæmt að dómari einn, sem telji slík möt sálfræðinga hafi lítið sem ekkert sönnunargildi, skuli vera skipaður til æviloka. Þórdís er að vísu ekki sú fyrsta úr þeim hópi, sem kenna sig við kvenfrelsi, er ýjar að því að nauðsynlegt sé að losna við „óæskilega” menn í dómskerfinu. Það er undarlegt hvað þessu sama fólki er tíðrætt um mannréttindi og lýðræði.
21.jan. 2010 - 13:34 Brynjar Nielsson

110% leið er ekki í boði fyrir alla

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Lilju Móseasdóttur, alþingismann og formann efnahags- og viðskiptanefndar  að það sé undarlegt að úrræði sem bankarnir bjóða um afskriftir skulda sem eru 110% umfram eignir sé í boði fyrir alla.  Nefnir Lilja sérstaklega að með því sé verið að opna á afskriftir hjá bankastarfsmönnum, læknum og fleiri hátekjumönnum.  Lilja segir ennfremur að þetta sé ekki í samræmi við vilja Alþingis sem miði að því að laga fjárhagsskuldbindingar einstaklinga að eignastöðu og greiðslugetu. 
24.nóv. 2009 - 10:07 Brynjar Nielsson

Skrípó og farsi eða gagnsæi og heiðarleiki?

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Jóhannes Jónsson og nokkrir erlendir fjárfestar hafa gert Arion banka tilboð um nýtt hlutafé 1998 ehf., móðurfélag Haga.  Samkvæmt tilkynningu frá bankanum ætlar hann að taka sér tíma fram í janúar til að meta tilboðið og bera saman við aðra kosti í stöðunni. Það sé í samræmi við þá meginreglu bankans að leita lausna á skuldavanda fyrirtækja með eigendum og stjórnendum. Samkvæmt tilkynningu bankans gerir þetta tilboð ekki ráð fyrir að bankinn afskrifi nokkuð af skuldum 1998.
15.nóv. 2009 - 18:57 Brynjar Nielsson

Réttlæti og vit

Ég ritaði pistil hér á Pressunni 11. nóvember sem virðist hafa valdið nokkrum usla hjá þeim sem hafa ríkari réttlætiskennd en við hin. Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt og fjárfestir, sem var aðili þess máls sem ég fjallaði um í pistli mínum, lætur hafa eftir sér að ég sé ágætur í hegningarlögunum en virðist ekki skilja íslenskt viðskiptalíf. Ég veit nú ekki hversu ágætur ég er í hegningarlögunum en viðurkenni fúslega að ég skil ekkert í íslensku viðskiptalífi, kannski sem betur fer. Hefði ég skilið það ætti ég kannski stóran hlut í gömlu gjaldþrota bönkunum og skuldaði kúlulán.
11.nóv. 2009 - 13:30 Brynjar Nielsson

Réttlæti og sanngirni

Réttlætið er vandmeðfarið og sitt sýnist hverjum. Við erum oftast mjög sjálfmiðuð í allri umræðu um réttlæti og sanngirni. Þess vegna er mikilvægt að hafa dómstóla sem dæma eftir lögunum og láta ekki geðshræringu háværra manna rugla sig í því mikilvæga starfi.
03.nóv. 2009 - 11:43 Brynjar Nielsson

Tengsl mín við grunaða í bankahruninu

Fyrir nokkrum dögum skrifaði Jóhann Hauksson á vefmiðli DV langa grein sem var helguð mér. Viðbrögð hans við gagnrýni minni á ráðningu Evu Joly, sem hann kallar árásir, er að gera mig tortryggilegan. Það á svo sem við um marga aðra.
28.okt. 2009 - 17:09 Brynjar Nielsson

Traust eða pólitískt sjónarspil

Ég gerðist svo djarfur í pistli hér í fyrradag að lýsa þeirri skoðun minni að það væri bruðl og óþarfi að ráða Evu Joly fyrir 80 miljónir króna á ári sem ráðgjafa við rannsóknir sérstaks saksóknara.
26.okt. 2009 - 07:40 Brynjar Nielsson

Niðurskurður og bruðl

Nú eru til umfjöllunar í þinginu  kreppufjárlög. Ríkisstjórnin segir að allir verði að leggja sitt af mörkum, sem auðvitað er hárrétt. En þingmönnum er mikill vandi á höndum því hvergi má skera niður. Eins og svo oft áður ætla stjórnvöld að fara í flatan niðurskurð þótt prósentan sé mismikil. Þessi aðferð gengur ekki í samdrætti sem á engin fordæmi í sögu lýðveldisins. Fjárveitingavaldið á ekkert val þegar kemur að grunnstoðum stjórnskipunar landsins, eins og dómstólum og ákæruvaldi. Ef þessar stofnanir geta ekki sinnt hlutverki sínu er ekki hægt að tala um samfélag eða ríki.
05.okt. 2009 - 08:42 Brynjar Nielsson

Skúbb

Í fréttaaukanum á Rúv í gærkvöldi sagði merkur fréttamaður frá því í Kompásstíl að fulltrúi Coca Cola á Norðurlöndum hafi hótað því að Vífilfell yrði svipt sérleyfinu á Coca Cola ef gengið yrði að veðum hjá félögum í eigu Þorsteins M. Jónssonar.
29.sep. 2009 - 14:37 Brynjar Nielsson

Hvað er í lagi?

Í einhverju blaði í síðustu viku var lítil fréttaklausa um að nærri 400 stúdentar við Háskóla Íslands hefðu þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt á þeim. Í fréttinni kom fram að athuga ætti hvort sama væri upp á teningnum í öðrum háskólum. Frekari umfjöllun var ekki að sjá um þessa frétt í vikunni sem leið.
10.sep. 2009 - 13:17 Brynjar Nielsson

Vísindin og sannleikurinn

Margt hugsjónafólk hefur ríka tilhneigingu til þess að líta svo á að pólitískar skoðanir þess eigi eitthvað skylt við vísindi og sannleika. Hin pólitíska skoðun er þá gjarnan klædd í búning fræða og til prýðis hnýtt fögur slaufa mannréttinda utanum herlegheitin.
25.ágú. 2009 - 23:00 Brynjar Nielsson

Hvenær eru menn sakborningar?

Við rannsókn sakamála í tengslum við bankahrunið er fjöldinn allur af mönnum komnir með stöðu sakbornings. Margir virðast halda að lögregla og aðrir rannsakendur sakamála geti bara eftir geðþótta ákveðið að þeir sem  talað er við eða talið er að búi yfir upplýsingum um þau mál sem til rannsóknar eru skuli hafa réttarstöðu sakbornings. 
1 2 3 4 5 

Brynjar Níelsson
Hæstaréttarlögmaður. Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson - 19.5.2016
Að sýna sjálfum sér virðingu
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson - 21.5.2016
Icesave - enn og aftur
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 27.5.2016
Vanþekking og vanstilling fréttamanns
Akureyri vikublað
Akureyri vikublað - 24.5.2016
Ekkert djók heldur lífsins alvara
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 18.5.2016
Íslenskt verkafólk yfirgefið
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 22.5.2016
Dósentsmálið 1937
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 25.5.2016
Icesave-málið, Jón og menntamennirnir
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.5.2016
Nordau á Íslandi
Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson - 27.5.2016
Vinstra megin við miðju
Aðsend grein
Aðsend grein - 27.5.2016
Aftur heim
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 30.5.2016
Skýring óháðs sérfræðings á bankahruninu
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson - 29.5.2016
Áskorun til alþingismanna
Fleiri pressupennar