11. jan. 2014 - 09:46Brynjar Nielsson

Al Thanímálið: Úttekt

Frá fyrirtöku málsins í Héraðsdómi.

Frá fyrirtöku málsins í Héraðsdómi. Pressphotos.biz

Inngangur:

Eftir uppkvaðningu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í svokölluðu Al Thani-máli gerðist ég svo djarfur að lýsa því yfir að ég væri ósammála niðurstöðunni og teldi dóminn rangan.  Það var eins og við manninn mælt, margir risu upp á afturlappirnar vegna þessarar afstöðu minnar. Það kom mér svo sem ekki á óvart miðað við andrúmsloftið sem verið hefur í íslensku samfélagi eftir hrun bankanna. Það kom mér hins vegar á óvart hvað margir telja óeðlilegt að þingmaður tjái skoðun sína opinberlega um niðurstöðu í dómsmáli.

Nú hafa þingmenn áður tjáð sig um niðurstöðu í dómsmálum. Nærtækt dæmi er Guðmundar-og Geirfinnsmálið og sumir haft stór orð um dómsmorð. Þingmenn og ráðherra hafa lýst sig ósammála sýknudómum í kynferðisbrotamálum. Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist að stjórnmálamenn, sem og aðrir, ættu frekar að hafa áhyggjur af dómum þar sem þeir telja ranglega hafi verið sakfellt en röngum sýknudómum að þeirra mati. En því virðist nú oftast vera öfugt farið. Svo má ekki gleyma því að ég er enn starfandi lögmaður og hef árum saman stundað kennslu í sakamálaréttarfari. Með hliðsjón af því, auk þess að þekkja málið mjög vel, mætti halda því fram að ég væri ágætlega til þess fallinn að setja fram gagnrýni á dóminn.

Dómsvald er mikilvægt vald og vandmeðfarið. Oft eru þar mikilvægir hagsmunir og réttindi einstaklinga undir sem og hagsmunir samfélagsins alls. Alveg eins og í stjórnsýslunni þar sem teknar eru ákvarðanir sem varða mikilvæg réttindi og hagsmuni borgaranna. Því er nauðsynlegt að dómsvaldið fái réttmæta gagnrýni eins og aðrir þættir ríkisvaldsins.

Í dómsmálum, þar sem ríkisvaldið höfðar mál gegn einstaklingum til refsingar, er mikilvægt að hinir ákærðu njóti réttlátrar málsmeðferðar, að sanna verði sökina og að engum sé refsað nema skýr refsiheimild sé í lögum sem nær yfir þann verknað sem ákært er fyrir. Þetta eru grunnreglur réttarríkisins. Ef einhver telur að ekki sé farið eftir þessum reglum í hvívetna, á viðkomandi að láta í sér heyra og þá ekki síst þingmenn. Enda er oft svo að dómsniðurstaða kallar á viðbrögð löggjafans til breytinga á lögum. Ef Hæstiréttur túlkar til að mynda hlutdeildarákvæði hegningarlaga með sama hætti og héraðsdómur gerir í Al Thani málinu tel ég fulla ástæðu fyrir löggjafann að taka það ákvæði til endurskoðunar.

Fram hefur komið krafa um að ég rökstyðji skoðun mína á dómsniðurstöðunni og hefur gætt nokkurs pirrings vegna þess að rökstuðningurinn kom ekki strax fram. Einhverjir, m.a. Þorbjörn Þórðarson, mag jur og vitni ákæruvaldsins í Al Thani-málinu, hafa talið að ég hefði engar forsendur fyrir þessari skoðun þar sem ég hefði ekki setið þinghöld undir rekstri málsins í héraðsdómi. Það er ekki hrist fram úr erminni að skrifa rökstudda gagnrýni á mál af þessari stærðargráðu, jafnvel þótt málið sé í sjálfu sér ekki flókið. Ég hafði hins vegar allar forsendur til að mynda mér skoðun á niðurstöðu dómsins því ég þekkti málið vel. Hafði ég aðgang að sönnunargögnum að miklu leyti sem verjandi sakbornings, sem að lokum sætti ekki ákæru. Önnur gögn, svo sem greinargerðir ákærðu, fékk ég á sínum tíma sendar vegna áhuga á málinu sjálfu.

Ég ætla því að reyna að rökstyðja hér af hverju ég tel dóminn rangan. Mikilvægt er að hafa í huga að rök og varnir ákærðu eru ekki rakin í forsendum dómsins. Atvikalýsing er tekin upp úr greinargerð ákæruvaldsins, sem er hluti af ákærunni. Þessi framsetning í dómnum veldur því að engin leið er fyrir þá sem vilja kynna sér báðar hliðar málsins að gera það með því einu að lesa dóminn. Þetta er auðvitað alvarlegur galli á dómnum því tilgangur með birtingu dóma í réttarríkjum er ekki síst sá að allir geti kynnt sér málavexti og röksemdir frá báðum hliðum og hvernig dómari kemst að niðurstöðu á grundvelli réttarheimilda. Úr þessu verður að bæta því annars er lítil von til þess að lesendur geti myndað sér heilsteypta skoðun á réttmæti sakargifta í málum af þessu tagi.

I. kafli ákærunnar:

Í þessum kafla kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Hreiðar Már hafi gerst sekur um umboðssvik við lánveitingu til félagsins Brooks. Sönnun um sök byggist alfarið á framburði Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar, viðskiptastjóra bankans. Svo hægt sé að taka afstöðu til þessa ákæruliðar þarf að rekja helstu staðreyndir málsins. Upplýst er að Hreiðar Már kom á fundi með framkvæmdastjóra lánasviðs og tveimur viðskiptastjórum síðdegis fimmtudaginn 18. september 2008. Ekki er deilt um það að tilgangur fundarins hafi verið að koma fyrirhuguðum viðskiptum Sheikh Mohammed í ferli innan bankans. Viðskiptastjórar hafa samkvæmt skilgreindum verkferlum það hlutverk að útbúa lánsbeiðnir, senda til lánanefnda, halda utan um skjalafrágang o.s.frv. Ekki er deilt um það að áhersla var á að vinna þetta hratt og ætlunin var að lána umrædda fjármuni til Brooks fyrir helgina.

Viðskiptastjórinn, Halldór Bjarkar, útbjó lánsbeiðni vegna Brooks en gaf fyrirmæli til fjárstýringar um útgreiðslu lánsins, án þess að fá áður samþykki lánanefndarmanna. Enginn þeirra, sem sátu fundinn 18. september, heldur því fram að Hreiðar Már hafi á þeim fundi gefið fyrirmæli um að lánið skyldi veitt án samþykkis lánanefndar eða að hefðbundnum ferlum skyldi ekki fylgt að öðru leyti. Við skýrslugjöf Halldórs Bjarkar um þetta efni hjá lögreglu og slitastjórn vísaði hann m.a. til þess að hann hefði einfaldlega talið að samþykki lægi þegar fyrir þar sem forstjóri bankans hefði verið á umræddum fundi og einnig hans næsti yfirmaður, Bjarki Diego.

Einnig liggja fyrir gögn í málinu sem sýna að Halldór Bjarkar hefur í öðrum tilvikum leitað samþykkis frá lánanefndarmönnum með skömmum fyrirvara, þá með því að senda út tölvupósta. Samþykki hefur í sumum tilvika borist innan fáeinna mínútna en fyrir dómi sagði Halldór að tími hefði ekki alltaf gefist til þess arna. Þegar gögn voru borin undir hann, sem sýndu að í öðrum tilvikum hefði hann aflað samþykkis með miklu skemmri fyrirvara, kom í fyrsta skipti. eftir því sem næst verður komist. fram sú skýring að fyrirmælin um að greiða þetta út án samþykkis lánanefndar, hafi ekki komið fyrr en talsvert síðar eða skömmu fyrir útgreiðslu lánsins, sem var á föstudeginum. Það hafi verið í tveggja manna tali hans og Hreiðars Más. Þessu hefur Hreiðar alfarið neitað og ekkert í gögnum málsins sem bendir til að þeir hafi átt símtal eftir umræddan fund. Fram er komið að Hreiðar var erlendis á þessum tíma. Halldór Bjarkar gekk reyndar lengra og kvaðst hafa borið þetta undir Bjarka Diego. Aðspurður fyrir dómi þvertók Bjarki fyrir að hafa átt samskipti af þessum toga við Halldór Bjarkar og hafi aldrei komið fram nokkur fyrirmæli um að greiða lánið út án þess að samþykki lægi fyrir, enda hefðu það verið mjög óeðlileg fyrirmæli.

Í forsendum héraðsdóms segir á bls. 79 að ósennilegt verði að telja að viðskiptastjóri hafi tekið ákvörðun um að veita lán til félagsins án þess að hafa skýr fyrirmæli yfirboðara sinna. Framburður Halldórs Bjarkars var talinn trúverðugur um þátt hans í lánveitingunni. Af þeim sökum er lagt til grundvallar að Hreiðar Már hafi gefið fyrirmæli, bæði um form lánsins (peningamarkaðslán) og að það skyldi greitt út án þess að samþykki lánanefndar lægi fyrir.

Sakfelling dómsins byggist því á framburði Halldórs Bjarkar um það sem fór fram í tveggja manna tali hans og ákærða Hreiðars Más. Alla jafna hefur framburður eins vitnis um sök ekki sönnunargildi í sakamáli, án verulegs stuðnings í öðrum gögnum. Sönnunargildi slíks framburðar er ekkert ef vitnið er að koma sjálfu sér undan sök en fyrir liggur að vitnið fyrirskipaði útgreiðslu lánsins. Ef enginn yfirmaður gaf fyrirmæli um veitingu lánsins hefði vitnið framið hinn meinta refsiverða verknað. Síðan skiptir auðvitað verulega máli þegar metið er sönnunargildi vitna, hvort framburður þess sé stöðugur og samræmis gæti í meginatriðum frá upphafi til loka máls. Svo var ekki eins og sjá má af því sem rakið er hér að ofan.  Til að styðja við sakfellingu ákærða er sagt í dómnum að ósennilegt verði að telja að viðskiptastjóri hafi tekið ákvörðun um að veita lánið án skýrra fyrirmæla yfirboðara sinna. Það lá fyrir ákvörðun um að veita lánið svo viðskiptastjórinn tók hana aldrei en það þarf ekki að vera ósennilegt að framkvæma þá ákvörðun án formlegs samþykkis lánanefndar. Viðskiptastjórinn kann að hafa talið samþykki hennar formsatriði eða gert ráð fyrir að það hafi verið fengið.

Í þessum I. ákærulið er Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþing Lux, ákærður fyrir hlutdeild í umboðsvikum Hreiðars Más. Eins og að framan greinir komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Hreiðar Már hefði tekið ákvörðun um að brjóta innri reglur bankans í tveggja manna tali hans og Halldórs Bjarkar, enda hélt því enginn fram að það hafi gerst á áðurnefndum símafundi 18. september 2008, ekki einu sinni Halldór Bjarkar. Það segir sig sjálft að Magnús Guðmundsson var ekki viðstaddur tveggja manna tal Hreiðars Más og Halldórs Bjarkar. En hvað segir í forsendum dómsins fyrir sakfellingu Magnúsar? Dómurinn vísar fyrst til þess að ákvæði um lánamörk og lánaheimildir hafi verið þær sömu fyrir Kaupþing banka og Kaupþing Lúx.

Svo segir orðrétt: „Ákærða Magnúsi gat því ekki dulist að er meðákærði, Hreiðar Már, gaf fyrirmæli um lánveitinguna, að hún gæti ekki farið fram innan þeirra heimilda er meðákærði hefði.“

Undir venjulegum kringumstæðum dylst mönnum það sem fer fram í tveggja manna tali annarra.

Ákæruliður II.
 
Í ákærulið II eru Hreiðari Má og Sigurði Einarssyni gefið að sök umboðssvik í tengslum við lánveitingu til félagsins Gerland og er Ólafur Ólafsson ákærður fyrir hlutdeild í broti þeirra. Hlutabréfaviðskiptin vegna kaupa Al Thani gengu í grundvallaratriðum út á það að bankinn afhenti eigin bréf en fékk kröfu sömu fjárhæðar á móti með veði í bréfunum og að auki sjálfskuldarábyrgð fyrir helmingi kaupverðsins, þ.e. 12,8 milljarða. Um er að ræða ábyrgð frá einum auðugasta manni veraldar.

Lánin átti að bóka á tvö félög, Gerland og Serval, og þaðan var fjármununum veitt áfram til kaupanda (alfarið í eigu Sheikh Mohamed) og svo áfram til Kaupþings. Þetta voru því eðli málsins samkvæmt einungis færslur í kerfum Kaupþings (bókun lána). Engir fjármunir fóru út úr bankanum. Þetta er staðfest með gögnum og framburðum. Aldrei gat komið til þess að lántakar sætu eftir með einhverja fjármuni sem unnt væri að ráðstafa til annarra þarfa.

Lánið til félagsins Serval fór til lánanefndar. Upplýst er og viðurkennt, m.a. af Halldóri Bjarkar, að lánsbeiðnin innihélt ekki lán til félagsins Gerland fyrir hrein mistök eða misskilning milli viðskiptastjóra. Þessi mistök uppgötvuðust ekki við meðferð málsins hjá lánanefnd. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, m.a. sú að lánsbeiðnin vegna Serval var ekki fyrir 90 m evra (helmingur kaupverðsins) heldur 150 m evra, sem kann að hafa valdið misskilningi. Þá verður ekki séð að neinum þeirra sem fundinn sátu hafi mátt vera kunnugt um nöfn þeirra félaga sem um ræðir. Umfjöllun á fundinum var hins vegar um fjármögnun allra kaupanna og sjálfskuldarábyrgð fyrir helmingi þeirra - þetta staðfestu fundarmenn fyrir dómi. Mistök sem þessi eiga sér vitanlega stað en öryggisventillinn á m.a. að vera sá, að þeir sem fylgja eftir samþykktum lánanefndar gangi úr skugga um að viðeigandi samþykki sé fyrir hendi. Þar kemur aftur við sögu viðskiptastjórinn, Halldór Bjarkar, og fyrir liggur að hann gerði það ekki. Hugsanlega hefur hann ekki talið það skipta öllu máli, enda enginn peningur að fara út úr bankanum, ólíkt því sem almennt á við um lánveitingar.

Um Sigurð og Hreiðar Má er sagt í dómnum, að eftir þennan lánanefndarfund hafi þeim ekki getað dulist (bls. 85) að lán yrði veitt af bankanum sem lánanefnd þyrfti að samþykkja. Síðan vísar dómurinn í 68. gr. hlutafélagalaga og kemst að þeirri makalausu niðurstöðu að framkvæmdastjóri og stjórnarformaður hlutafélags „beri ríka ábyrgð á ólögmætum athöfnum undirmanna sinna er tengist meðferð fjármuna félagsins“. Þeim hafi ekki getað dulist að lán sem var greitt út 29. september (5 dögum eftir lánanefndarfund) hafi verið utan heimilda þeirra til lánveitinga.

Með þessu er verið að leggja á stjórnendur bankans hlutlæga refsiábyrgð á verkum undirmanna. Ekkert liggur fyrir  í málinu um að Hreiðar Már og Sigurður hafi vitað af framkvæmd lánamálsins eftir að aðkomu þeirra að málinu lauk á fundi lánanefndar. Þetta var banki með starfsemi í 11 löndum og á fjórða þúsund starfsmanna. Ábyrgð þeirra getur tekið til þess að tryggja að viðeigandi ferlar séu fyrir hendi í bankanum. Þeir geta hins vegar ekki persónulega fylgst með athöfnum allra starfsmanna í bankanum. Þetta er að mínu mati fráleit ályktun.

Því má svo bæta við um þátt Sigurðar að hann hafði vitanlega enga formlega stöðu innan bankans, þ.e. heimild til lánveitingarinnar. Hann sat ekki margnefndan fund 18. september og átti enga aðkomu að þessum lánamálum utan fundar lánanefndar. Hann hefur einungis lýst því með almennum hætti að hann hafi verið samþykkur viðskiptunum í grunninn, enda taldi hann þau einstaklega góð fyrir bankann.

Þrátt fyrir óvenju umfangsmikla gagnaöflun í málinu, símhlustanir, rannsókn á tölvupóstum, framlagningu mörg þúsund skjala og vitnisburð tugi vitna, er hvergi að finna þess stað að Sigurður Einarsson hafi haft vitneskju eða komið að framkvæmd samningsins og sannarlega er það ekki hluti af starfsskyldum hans. Allt að einu er hann sakfelldur fyrir að honum hafi ekki getað „dulist að lán yrði veitt af bankanum sem lánanefnd þyrfti að samþykkja”.

Hér er það ekki ákæruvaldsins að sanna sektina heldur þarf ákærði Sigurður að sanna sakleysi sitt, sem auðvitað er þvert á grundvallarreglur réttarríkisins sem finna má í stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu og lögum um meðferð sakamála.

Ólafur Ólafsson er síðan talinn hlutdeildarmaður á þeim grunni að honum hafi ekki getað dulist að lánveitingin til Gerland hafi verið umfram heimildir Hreiðars Más og Sigurðar. Engin gögn eða framburðir styðja þetta svo séð verði. Þvert á móti voru fjölmörg vitni sem staðfestu að enginn viðskiptamaður eða hluthafi hefði haft aðstöðu til að kynna sér eða getað vitað hvernig innri reglum bankans var háttað að þessu leyti. Þessi fullyrðing í dóminum virðist helst rökstudd með því að Ólafur sé viðskiptamenntaður og reyndur í viðskiptum.

Í umboðssvikum er ekki nægjanlegt að ákærðu hafi veitt lán sem þeim var ekki heimilt heldur verður sá gjörningur að fela í sér verulega fjártjónshættu fyrir bankann. Hvernig má það vera að það skapist fjártjónshætta við það að áhættu banka er breytt úr því að vera áhætta á eigin hlutabréf yfir í að vera krafa með vöxtum sem nýtur beinnar eða óbeinnar tryggingar í sömu hlutabréfum? Þetta er í versta falli breytt áhætta en ekki aukin. Þá á eftir að taka tillit til þess að við bættist trygging upp á 12,8 milljarða króna, hvorki meira né minna. Með því var verulega dregið úr áhættu bankans á eignarhaldi bréfanna frá því sem áður var. Staða bankans styrktist við sjálfskuldarábyrgðina - um það verður ekkert deilt. Hver er þá fjártjónshættan? Hún er að sjálfsögðu engin, enda varð ekkert fjártjón af viðskiptunum. Ákvörðun um að breyta áhættu bankans vegna bréfanna var gerð í þeim tilgangi að draga úr fjártjónshættu bankans og gerði það í raun.

Í dómnum er fullyrt að gríðarlegt fjártjón hafi orðið af viðskiptunum. Þetta er auðvitað alrangt. Bankinn var á endanum betur settur upp á um 3,5 milljarða. Þetta er einfalt reikningsdæmi. Sheikh Mohamed greiddi þessa fjárhæð vegna viðskiptanna. Hann hefði reyndar átt að greiða mun meira, en á því bera ákærðu ekki ábyrgð. Ef ekki hefði komið til viðskiptanna hefðu bréfin verið í eigu bankans við fall. Þau hefðu orðið verðlaus og ekkert komið í staðinn. Þetta staðfestu slitastjórnarmenn og útskýrðu hvers vegna viðskiptunum við Sheikh Mohamed hefði ekki verið rift. Þau voru sannanlega hagfelld fyrir bankann og því þykir mér furðu sæta að dómurinn var annarrar skoðunar.

Viðskiptin með hlutabréfin voru ein viðskipti þótt lánað hafi verið í gegnum tvö félög. Annar leggur lánsins hefði aldrei getað átt sér stað án hins. Það er hins vegar svo að jafnvel þótt menn loki augunum fyrir öllum þessum staðreyndum og horfi á lánið til Gerland sem einhvers konar sjálfstæðan gerning var samt sem áður hvorki um að ræða fjártjón né fjártjónsáhættu. Það fór ekki króna út úr bankanum.

Ákæran um markaðsmisnotkun:

Ákæran um markaðsmisnotkun er byggð á tveimur þáttum. Annars vegar að skylt hafi verið að geta um aðkomu Ólafs Ólafssonar að viðskiptunum. Þar liggur til grundvallar sú kenning ákæruvaldsins að hann hafi átt að njóta hlutdeildar í kaupum Sheikhsins. Hins vegar er því haldið fram að bankanum hafi borið að upplýsa að kaupin væru fjármögnuð af honum.

Það verður ekki betur séð en að báðar forsendur séu kolrangar með hliðsjón af gögnum málsins. Dómurinn telur rétt að slá því föstu að Ólafur hafi átt að njóta ávinnings af fjárfestingu Sheikh Mohamed. Það er erfitt að fara yfir þetta í stuttu máli en í málinu liggja fyrir ýmis gögn, t.d. Head of Terms, þar sem meginþættir viðskiptanna eru staðfestir og undirritaðir af Sheikh Mohamed, stjórnar- og hluthafasamþykktir fyrir Gerland og Serval, sú staðreynd að félag í eigu Sheikh Mohamed var eini kaupandi þessara bréfa o.s.frv. Þá hafa allir, sem að kaupunum komu, staðfest í bak og fyrir að aldrei nokkurn tímann hafi staðið til að Ólafur nyti hlutdeildar í kaupunum af nokkrum toga. Sheikinn sjálfur og ráðgjafi hans eru þar ekki undanskildir en staðfesting þeirra á að Sheikinn hafi verið kaupandi bréfanna liggur fyrir í málinu. Í því sambandi má benda á að forsenda þess að hagnaði yrði komið til Ólafs í einhverju formi hefði vitanlega alltaf verið sú að Sheikinn samþykkti það. Engin gögn þess efnis eða framburðir liggja fyrir í málinu. Þá verður því nú vart haldið fram að það sé líklegt að Sheikinn, sem tók mikla áhættu í þessum viðskiptum, hafi ætlað að gefa Ólafi Ólafssyni stóran hluta mögulegs hagnaðar.

Á hverju byggir héraðsdómur þá fullyrðingu sína að Ólafur hafi átt að njóta ávinnings af fjárfestingu sheiksins? Að þessu leyti virðist byggt á drögum að skjali sem lögfræðingarnir Eggert Hilmarsson og Bjarnfreður Ólafsson köstuðu sín á milli áður en skilmálar viðskiptanna voru endanlega ákveðnir. Þar virðist vera gert ráð fyrir því sem nefnt hefur verið hagnaðartengt lán, þ.e. að endurgreiðsla lánsins vegna kaupanna hafi með einhverjum hætti átt að taka mið af hugsanlegum hagnaði af fjárfestingunni. Frá slíku láni var aldrei gengið og upplýst er í málinu að hvorugur þeirra Eggerts og Bjarnfreðs var nokkurn tímann í sambandi við Hreiðar Má, Ólaf eða Sheikinn í þessari vinnu. Þeir voru í einhverjum skattalegum hugleiðingum og virtust hafa skilið það svo að til stæði að ganga frá einhverju slíku láni. Þeir áttu enga aðkomu að viðskiptunum sjálfum og gátu ekkert borið um það hvað aðilar höfðu í raun samið um. Þetta taldi dómurinn hins vegar nægja til að telja yfir allan vafa hafið að Ólafur hefði átt að njóta einhvers hagnaðar, enda Eggert talinn trúverðugt vitni. Hér skiptir engu máli hvort Eggert (sem er náfrændi minn) var trúverðugur eða ekki því staðreyndin virðist vera sú að hann vissi ekkert um viðskiptin og hafði einungis þá aðkomu að vinna að lögfræðilegri útfærslu á hugsanlegum viðskiptum, sem ljóst er að urðu aldrei hluti af raunverulegum viðskiptaskilmálum.

Hinn þátturinn í markaðsmisnotkuninni sem byggt er á snýr að því að bankanum hafi borið að upplýsa hvernig kaupin voru fjármögnuð. Sérstakur saksóknari hafði vísað til reglna Kauphallar um útgefendur fjármálagerninga og talið að af þeim mætti leiða þá reglu að upplýsa bæri um fjármögnun hlutabréfaviðskipta. Þetta var eins rangt og verið gat og hrakið með vísan til réttra reglna (sem settar voru á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti), framlagningu þúsund síðna af tilkynningum, þar sem ekkert er getið um fjármögnun, og framburði fjölda einstaklinga fyrir dómi sem staðfestu að þetta hefði aldrei verið gert, né væri það skylt. Þar á meðal voru nokkrir lögmenn með mikla reynslu á þessu sviði.

Héraðsdómur lætur hjá líða að leysa úr þessu, enda kannski ekki hægt. Þess í stað fer dómurinn þá leið að benda á að sjálfskuldarábyrgð bæti ekki lausafjárstöðu bankans á erfiðum tímum og engir fjármunir hafi komið inn í bankann. Engin trygging hafi verið að baki láninu til Gerland og bankinn því borið þar sem kallað er hálf markaðsáhætta. Þá virðist dómurinn draga í efa að viðskiptin hafi verið raunveruleg þar sem annar aðili hafi mörgum vikum áður einungis viljað greiða 399 krónur á hvern hlut en ekki 690 eins og Sheikinn. Undirliggjandi er einhver vantrú á því að Sheikinn geti hafa verið svo vitlaus að kaupa í bankanum á þessu verði á þessum tíma. Gögn málsins eru þó skýr um að viðskiptin voru raunveruleg.

Með vísan til þess telur dómurinn kaupin vera blekkingu að stofni til og sýndarmennsku. Hver var blekktur? Er verið að segja að viðskiptin hafi ekki verið raunveruleg og í hverju var sýndarmennskan fólgin? Þessu er ósvarað og þetta er einfaldlega óskiljanlegt.

Þótt það sé ekki sagt með berum hætti þá virðist dómurinn þeirrar skoðunar að það hafi átt að upplýsa um fjármögnun bankans. Ef bankinn telst bera helming markaðsáhættunnar vegna þess að hann fjármagnaði kaupin og var „einungis“ með tryggingu fyrir 50% kaupverðsins, er það þannig að stór hluti allra veðbréfaviðskipta hér á landi frá upphafi kauphallarviðskipta eru markaðsmisnotkun. Flest öll stærri viðskipti eru fjármögnuð, í heild eða að hluta. Flöggun eða tilkynningar í slíkum tilvikum lúta hins vegar bara að kaupanda og seljanda vegna breytinga á atkvæðisrétti. Fjármögnunaraðila er ekki getið með einhverjum hætti sem aðila sem ber hluta markaðsáhættunnar. Í augum flestra sem þekkingu og reynslu hafa af þessum viðskiptum er þetta fráleitt.

Ákærðu eru síðan ekki taldir eiga neinar málsbætur við ákvörðun refsingar þótt staðreyndin sé nú sú að bankinn var miklu betur settur eftir viðskiptin en fyrir þau.

Ég ætla að láta vera að fjalla hér um aðfinnslur dómsins við verjendur, sem áttu samtal við vitni undir meðferð málsins, og réttarfarssektir á hendur Ragnari Hall og Gesti Jónssyni  enda varða þau atriði ekki sekt eða sýknu ákærðu. Lögskýringar dómsins  hvað þessi atriði varðar standast ekki að mínu viti og ég mun kannski síðar skrifa örlítla grein um það.

Lokaorð:

Ég segi eins og mag. jur Þorbjörn Þórðarson, sem er mér svo hugleikinn, að ég veit ekki hvort einhverjir ákærðu eru sekir um allt eða að hluta um það sem þeim er gefið að sök. Ég get hins vegar metið það út frá fyrirliggjandi gögnum hvort sekt sé sönnuð. Eins og ég hef rakið hér og rökstutt eru gögn málsins ekki þannig að sekt ákærðu sé sönnuð svo yfir skynsamlegan vafa sé hafið. Í raun tel ég langt frá því að svo sé.

Aðrir kunna að segja að samkvæmt lögum sé sönnunarmat dómara í sakamálum frjálst. Sönnunarmat dómara er hins vegar ekki frjálsara en svo að verði sönnun véfengd með skynsamlegum rökum ber að sýkna. Það gilda ákveðnar sönnunarreglur sem fræðin og dómaframkvæmd hafa mótað á löngum tíma. Samkvæmt þeim reglum er ekki hægt að sakfella mann eingöngu á grundvelli framburðar annars manns um það hvað á milli þeirra fór í tveggja manna tali. Sérstaklega á þetta við ef viðmælandinn sæti ella uppi með sökina. Hvað þá að hægt sé að sakfella þriðja manninn fyrir hlutdeild við slíkar aðstæður.

Í kjölfar hruns bankanna og afleiðinga þess kom fram krafa um refsiábyrgð stjórnenda bankanna.  Reiðiviðbrögð eru skiljanleg þegar einstaklingar verða fyrir tjóni og samfélagið allt. Í þessu andrúmslofti var sett á laggirnar embætti sérstaks saksóknara til þess að rannsaka hvort stjórnendur bankanna hefðu gerst brotlegir við refsilög í störfum sínum. Gífurlegur þrýstingur varð strax á þetta nýja embætti, bæði frá almenningi og stjórnvöldum. Þess var krafist að sérstakur saksóknari færi í umfangsmiklar handtökur og að farið yrði fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum. Til að auka þungann í rannsókninni, fengu stjórnvöld útlendan pólitíkus til aðstoðar sérstökum saksóknara. Sú ágæta kona var ekki byrjuð í vinnunni þegar hún lýsti því yfir að þessir bankamenn hefðu framið alvarlega glæpi. Talsverð ánægja varð með störf sérstaks saksóknara þegar ljóst var að allir stjórnendur og flestir millistjórnendur bankanna höfðu fengið stöðu sakborninga og beinlínis fagnað (ráðherrar ekki síst) þegar bankastjórarnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þótt enginn sé í gæsluvarðhaldi lengur eru þeir enn margir í stöðu sakbornings án ákæru, sumir í vel á fimmta ár, með tilheyrandi útskúfun og hörmungum fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Svo er bara yppt öxlum.

Við svona aðstæður er auðvitað hætt við að grunnreglur réttarríkisins skolist eitthvað til og málsmeðferðin verði ekki réttlát, slegið verði af sönnunarkröfum og túlkun refsiákvæða breytist. Þrýstingurinn er mikill og vitað er að komi ekki til ákæru, sakfellingar og þungra refsinga munu óánægjuöldur rísa með miklum hávaða.

Ég lýsti áhyggjum mínum af þessu ástandi strax á árinu 2009. Ekki minnkuðu þær þegar dómstólar féllust á gæsluvarðhaldskröfu á grundvelli rannsóknarhagsmuna tveimur árum eftir að meint brot áttu að hafa verið framin og löngu eftir að viðkomandi fengu stöðu sakborninga. Svo ekki sé talað um heimildir sem dómstólar veittu sérstökum saksóknara til símhlustana á grundvelli almannahagsmuna þar sem refsing fyrir brot sem grunur var um náði ekki því lágmarki sem skilyrt er í heimildarákvæðinu til símhlustunar. Að mínu mati er það fráleitt að ætla að það séu meiri almannahagsmunir fólgnir í því að upplýsa meint umboðssvik þessara manna en annarra.

Varnaðarorðum mínum og nokkurra annarra hefur ekki verið gefinn mikill gaumur. Hefur frekar verið gert lítið úr þeim í fjölmiðlum og við sakaðir um að ganga erinda glæpamanna. Fjölmiðlar stóðu sig ekki vel þegar höfð voru uppi varnaðarorð fyrir hrun um rekstur og áhættu bankanna og óþarfi er að rifja upp viðbrögð við gagnrýnisröddum þá. Þetta er því ekkert nýtt í íslensku samfélagi. Og ef einhverjir skyldu vera búnir að gleyma því þá er ég hættur að gæta hagsmuna sakaðra manna sérstaklega og gæti nú hagsmuna almennings sem þingmaður. Svo geta menn deilt um það hversu vel mér hefur tekist til í þeim störfum.17.apr. 2018 - 11:28 Brynjar Nielsson

Grímulaus pólitík

Enginn skortur er á alls konar alþjóðlegum stofnunum og samtökum sem kenna sig við mannréttindi og hvers kyns góðmennsku. Dæmi um slík fyrirbæri er Evrópuráðið og nefndir þess eins og ECRI og GRECO og svo má auðvitað ekki gleyma ýmsum nefndum Sameinuðu þjóðanna. Margir halda að hér sé um að ræða einhverjar hlutlausar nefndir skipuðu fagfólki, sem geti leiðbeint okkur. Það er mikill misskilningur. Þarna er pólitíkin allsráðandi þótt hún sé sveipuð skikkju hlutleysis, fræða og vísinda.

09.apr. 2018 - 09:20 Brynjar Nielsson

RÚV er tímaskekkja

Í Evrópu eru menn að átta sig á hversu mikil tímaskekkja ríkisreknir ljósvaka- og netmiðlar eru. Og ekki bara timaskekkja heldur fullkomlega óeðlilegt út frá jafnræðis-og samkeppnissjónarmiðum. Eins og oft áður eru Danir fyrstir að rakna úr rotinu.
05.apr. 2018 - 16:00 Brynjar Nielsson

Dröslaði bróður mínum í kirkju

Bróðir minn, þekktur sem "okkar maður", hefur skrifað nokkrar færslur á fésbókina um samveru okkar hér á Spáni. Frásagnir af sundafrekum og kraftgöngum hans og báglegu ástandi mínu eru með öllu ósannar. Okkar maður hefur ekki gengið lengra en til sprúttsalans úti á horni. Gangan tekur hálftíma hjá honum, sem mun vera heimsmet í hægagangi. Náði þó að drösla honum í dag í kirkju en þurfti áður að hafa talsvert fyrir því að fela á honum hornin og halann.


25.mar. 2018 - 23:34 Brynjar Nielsson

Lokað fyrir ræðuhöld

Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór, bauð vinum og vandamönnum til veislu í gær í tilefni af fimmtugsafmæli sínu, sem var að vísu fyrir mörgum mánuðum síðan. Mér sýndist þar nær eingöngu mæta vandamenn. Fram komu skemmtikraftar á heimsmælikvarða og fluttar ræður þar sem reynt var eftir fremsta megni að hæla afmælisbarninu. Þegar kom að stjórnarmönnum Fýlupúkafélagsins, sennilega hans einu vinum, að halda ræðu, var skyndilega lokað fyrir frekari ræðuhöld. Menn hafa lagt fram vantrauststillögu á ráðherra af minna tilefni.
09.mar. 2018 - 15:41 Brynjar Nielsson

Klæðast eins og niðursetningar í þingsal

Staksteinar Moggans hittir oft naglann á höfuðið. Fróðlegt væri að vita hver heldur þar á penna. Hann gerði að umtalsefni í morgun fyrirspurnaæði þeirra stjórnarandstæðinga sem vinna hörðum höndum við að auka traust þingsins með upphrópunum um spillingu, glæpi og óheiðarleika pólitískra andstæðinga sinna og embætttismanna. Magn og eðli fyrirspurna er orðið slíkt að stjórnsýslan er við það að lamast. Benda má fyrirspurnamönnum á að flestar þessar upplýsingar geta menn aflað sjálfir eða gegnum upplýsingaþjónustu þingsins. Svo má einnig benda þeim á að endurgreiðsla vegna aksturs þingmanna eru smápeningar miðað við að halda rándýrum embættismönnum uppteknum í óþarfa snatti. Þar að auki sinna þeir ekki mikilvægum störfum á meðan.

16.feb. 2018 - 13:13 Brynjar Nielsson

Viðkvæmir Píratar

Píratar eru viðkvæmari en aðrir og er gjarnan misboðið ef þeir eru gagnrýndir. Þar sem Pírötum er ógerlegt að tjá einfalda hugsun í stuttu máli sendir borgarfulltrúi þeirra þingmönnum Reykjavíkur langt bréf um ekki neitt. Þar kemur þó fram að hann krefjist afsökunarbeiðni frá utanríkisráðherra vegna þess að með honum á fund borgarfulltrúa og þingmanna Reykjavíkur mætti oddviti sjálfstæðismanna í komandi borgarstjórnarkosningum.
25.jan. 2018 - 11:22 Brynjar Nielsson

Þjóðviljinn var hlutlausari en Kjarninn

Óháði og hlutlausi fjölmiðillinn, Kjarninn, er reglulega með fréttaskýringar um aukinn ójöfnuð og misskiptingu í íslensku samfélagi. Í nýjustu fréttaskýringunni kemur fram að virði verðbréfa í eigu Íslendinga hækkuðu um 23 milljarða að nafnvirði á árinu 2016. Þar af hækkuðu bréf ríkustu 10% þjóðarinnar um 21.8 milljarð.
18.okt. 2017 - 13:29 Brynjar Nielsson

Einfaldur sannleikur setur allt á annan endann

Öll kosningabarátta vinstri flokkanna snýst um að koma höggi á einstaka frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í stað þess að ræða framtíðina og hvað má læra af fortíðinni. Nú þegar öllum er að verða ljóst að þetta blessaða lögbann er ekkert á vegum Sjálfstæðisflokksins eða formanns hans er endurspilað gamalt lag um að formaðurinn sé í engum tengslum við almenning vegna þess að hann hafi komið úr viðskiptalífinu og hafi átt í viðskiptum með 50 milljónir. Nú hneykslast þetta sama fólk yfir því að ég skuli segja að þessi upphæð sé ekki fjarri því sem margir eigi í íslensku samfélagi. Það er eins og einfaldur sannleikur geti sett allt á annan endann í íslensku samfélagi. Sannleikurinn gerir okkur frjáls sagði einhver fyrir löngu síðan.
16.okt. 2017 - 10:45 Brynjar Nielsson

Er gott að fá borgarstjórnarflokkana í ríkisstjórn?

Stærstu hagsmunamál reykvíkinga nú um stundir eru húsnæðismál og samgöngumál. Varla er ágreiningur um að þessi mál eru í lamasessi í borginni. Miðað við skoðanakannanir má ætla að kjósendur líti svo á að Sjálfstæðisflokkurinn beri mesta ábyrgð á því. Það er mikill misskilningur.
11.okt. 2017 - 18:22 Brynjar Nielsson

Bagalegt að Samfylkingin sé enn í henglum

Mörgum finnst sérstakt að á Íslandi, öfugt við öll önnur lýðræðisríki, skuli róttækur sósíalistaflokkur hafa tæplega þriðjungs fylgi þjóðarinnar og það á sama tíma og kaupmáttur almennings hefur vaxið um tugi prósenta á fáum árum. Ekki er skýringa að leita í því að þessi flokkur og forverar hans hafi staðið sig vel í ríkisstjórn þá sjaldan þeir hafi verið í þeim. Enn síður er það vegna þess að þeir sem hafa stjórnað síðustu ár hafi ekki staðið sig vel. Eina skýringin er sú að hinir vinstriflokkarnir eru í rusli. Kemur kannski ekki á óvart með Piratana en það er bagalegt að Samfylkingin, sem átti að verða frjálslyndur krataflokkur, skuli vera enn í henglum
09.okt. 2017 - 14:59 Brynjar Nielsson

Blekkingin er algjör

Til eru flokkar á Íslandi sem lofa að auka útgjöld ríkisins um nokkur hundruð milljarða á næstu árum.
26.sep. 2017 - 16:31 Brynjar Nielsson

Verður maður að stóla á Sigmund Davíð?

Ég sé að Píratar og Samfylkingin eru nú að reyna að slá öll fyrri met í populisma. Þekkt er að lýðskrum af þessu tagi getur gagnast til skemmri tíma en allir svona flokkar þurrkast samt út fljótt. Það ferli er þegar hafið hjá þessum tveim flokkum.
16.sep. 2017 - 12:10 Brynjar Nielsson

Fullkomin flón

Ég var einn af þeim skeptísku þegar ríkisstjórnin var mynduð í byrjun árs. Að fara í eins manns meirihlutastjórn með tveim smáflokkum með ekkert bakland, þar sem nánast allir innanborð voru reynslulausir, hlyti að skapa vanda. Svo væri ekki vænlegt til árangurs að leggja lag sitt við flokka sem pikka upp af samfélagsmiðlunum mál sem þeir halda að séu til vinsælda fallið. Í þeim efnum komst BF að vísu ekki með tærnar þar sem Viðreisn var með hælana. Er eins og enginn ætli að læra af óförum Samfylkingarinnar.

14.sep. 2017 - 10:56 Brynjar Nielsson

Slefandi fyrir framan tölvuna á borgaralaunum

Það hefur verið fróðlegt fyrir þjóðina að hlusta á stjórnarandstöðuna á Eldhúsdeginum í gærkvöldi. Kapteinn Pírata gaf okkar innsýn í framtíðarsamfélag þeirra þar sem þjóðin mun sitja slefandi fyrir framan tölvuna allan daginn á borgaralaunum. Síðan komi kunnuglegir frasar hjá ræðumönnum Pírata um spillingu, óheiðarleika og mannvonsku annarra. Var það sennilega liður í því að bæta umræðuhefð og virðingu alþingis, sem þeim er mjög umhugað um. Afskaplega mikilvægt fyrir okkur á þinginu að hafa mannréttindalögfræðing menntaðan í Hollandi til að leiðbeina okkur. Við fávitarnir duttum eiginlega í lukkupottinn.
11.sep. 2017 - 11:16 Brynjar Nielsson

Ragnar Reykás varð ekki til úr engu

Hin fræga persóna Spaugstofunnar, Ragnar Reykás, varð ekki til úr engu. Hann er víða og verður meira áberandi með hverjum deginum. Þegar Ragnar telur að ákvarðanir stjórnmálamanna séu ekki í samræmi við lög bregst hann hart við og sakar þá um misnotkun valds, spillingu og óheiðarleika. En þegar stjórnmálamenn fara að lögum, sem Ragnari finnst vond og óréttlát eða henta honum ekki, breytist tónninn. Þá er stjórnmálamaðurinn illa innrættur, skortir mannúð og tekur jafnvel málsstað ofbeldismanna og óþverralýðs.
23.ágú. 2017 - 22:20 Brynjar Nielsson

Druslulegur klæðaburður í dómsölum

Miklar umræður hafa skapast um klæðaburð málflytjenda fyrir dómi. Eiríkur Jónsson birti bréf sem honum barst þar sem bréfritara fannst óviðeigandi að saksóknari væri í flegnum bol. Fólkið sem telur að tjáningarfelsi eigi bara við um þeirra eigin skoðanir brást við með sama ofstæki og fyrri daginn. Á svipstundu var þetta skilgreint sem kynbundið ofbeldi. Sjálfur á ég íslandsmet í druslulegum klæðaburði í dómsölum og þegar ég gat ekki hnýtt bindi úr skóreimum eða fengið lánaða skyrtu af nærstöddum var ég sendur heim með skömm.
21.ágú. 2017 - 11:44 Brynjar Nielsson

Hvar annars staðar fengi svona flokkur fjórðung atkvæða?

Þar sem ég hef talsverðan áhuga á fornaldarfræðum finnst mér gaman að hlusta á fréttir frá flokksráðsfundum Vg. Gamlar sósíalískar frelsishetjur, sem gáfu út Þjóðviljann og tímaritið Rétt, sætu örugglega glaðir á flokksráðsfundunum væru þeir á lífi. Sjálfum finnst mér tvennt standa upp úr í fréttum af síðasta flokksráðsfundi. Annars vegar óánægja með Björn Val sem varaformann þar sem hann vogaði sér að selja olíuborpöllum vöru og þjónustu og hins vegar sú merkilega uppgötvun að það myndi auka jöfnuð í samfélaginu og taka við sem flestu af fátækasta fólki heims.
16.ágú. 2017 - 20:11 Brynjar Nielsson

Það fær mig enginn til að rjúfa þagnarskyldu

Stundum fallast manni hendur yfir óheiðarleika og illgirni netsóða. Mörg gáfnaljós í þeim hópi geta ekki sætt sig við það að ég sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vilji ekki leka trúnaðarupplýsingum sem nefndinni barst í tengslum við skoðun á framkvæmd stjórnvalda við uppreist æru. Því er unnið hörðum höndum að sá tortryggni í minn garð og Sjálfstæðisflokksins og látið að því liggja að við séum að verja Róbert Downey, sem mun vera einn af þeim fjölmörgu sem hafa fengið uppreist æru síðustu áratugi. Leitaði mesta ofstækisfólkið til herra Google í þessum tilgangi.

08.ágú. 2017 - 14:27 Brynjar Nielsson

Ég fór á Þjóðhátíð

Fór á þjóðhátíð í Eyjum annað árið í röð.Var í 30 ár með mikla fordóma gagnvart hátíðinni eins og rétthugsunarliðið, sem finnur henni allt til foráttu og reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkur fari þangað eða komist með góðu móti. Eyjamenn eru snillingar að halda stórar hátíðir, skipulag til fyrirmyndar og fagmennskan mikil. Gleði skein af hverju andliti og jafnvel mátti sjá gleðiviprur á mér ef vel var að gáð. Fjórar nætur fyrir menn á mínum aldri er kannski full langur tími á svona hátíð. Ég horfði á Heilsuhælið i Hveragerði í hillingum á heimleiðinni.
27.júl. 2017 - 11:37 Brynjar Nielsson

Hef ekki áhuga á MMA

Stundum er ég spurður að því hvort ég telji ekki rétt að banna bardagaíþróttina MMA með lögum. Kemur spurningin oftar upp þegar okkar maður tapar bardaga. Þótt ég sé fullkomlega áhugalaus um þessa íþrótt og finnist hún ekki geðsleg hef ég engan áhuga á slíku banni. Ég er ekki ólíkur femínistum að því leyti að ég tel að fullráða fók eigi að ráða yfir líkama sínum. En öfugt við þá tel ég að fólk eigi að ráða yfir líkama sínum líka þegar það gerir eitthvað með hann sem mér er ekki þóknanlegt. Í því felst fegurð frelsisins.
06.júl. 2017 - 10:15 Brynjar Nielsson

Ekkert má segja við okkur feita fólkið

Mikill tvískinnungur hrjáir okkur flest og ekki síst í allri umræðu um hegðun okkar. Ekkert má segja við okkur feita fólkið án þess að fordómasvipan fari á loft. Skiptir þá engu máli að offita er langmesta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar. Hins vegar er ekkert tiltökumál í hugum okkar að banna tískufyrirtækjum að ráða fyrirsætur undir kjörþyngd. Og það segir enginn neitt við því að fyrirtæki geri það að skilyrði í atvinnuauglýsingum að umsækjandi neyti ekki tóbaks. Hvað ætli að yrði sagt ef sömu bönn og skilyrði væri á þá sem eru í yfirþyngd?
03.júl. 2017 - 08:48 Brynjar Nielsson

Það þarf að vera frjálslynda og umburðarlynda fólkinu þóknanlegt

Margir eru uppteknir af því að láta aðra vita hvað þeir eru frjálslyndir, víðsýnir og umburðarlyndir og beri mikla virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og menningu. Mannréttindi eru þeim ofarlega í huga, ekki síst tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi og að allir ráði yfir líkama sínum. Svo undarlegt sem það er berst þetta sama fólk fyrir því að öðrum sé refsað fyrir "rangar og skaðlegar" skoðanir. Og svo má fólk alls ekki ráða yfr líkama sínum nema með þeim hætti að það sé frjálslynda og umburðarlynda fólkinu þóknanlegt.
20.jún. 2017 - 09:36 Brynjar Nielsson

Blaðabarnið gleymir

Alltaf jafn fróðlegt og upplýsandi að lesa umfjöllun prentmiðla um störf og mætingar alþingismanna í nefndum alþingis. Nýlega las ég að ég hafi verið með fullkomna mætingu í efnahags- og viðskiptanefnd en mætingin slægleg í stórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðustu vikur þingsins. En blaðabarnið var auðvitað búið að gleyma því að helst mátti ég ekki sjást á svæðinu þegar málefni Ólafs í Samskipum var til meðferðar í nefndinni og alls ekki þegar Landsréttarmálið bar á góma.
17.jún. 2017 - 17:11 Brynjar Nielsson

Reiði og hefnd

Reiði og hefnd er mannleg tilfinning og mjög skiljanleg, ekki síst hjá þeim sem brotið er gegn. Fyrr á öldum var reiðin og hefndin allsráðandi þegar mönnum varð á eða gerðust brotlegir. Ef hinn brotlegi varð ekki að gjalda með lífi sínu á kvalarfullan eða niðurlægjandi hátt varð refsingin að minnsta kosti þannig að lífið yrði óbærilegt. Stundum er þetta tímabil nefnt Myrkar miðaldir.


24.maí 2017 - 11:48 Brynjar Nielsson

Vitleysan grasserar áfram þrátt fyrir rannsóknir sem sýna annað

Heilbrigðiskerfið er ónýtt, ójöfnuður meiri en annars staðar og kjör launþega verri. Spilling grasserar og einkarekstur og nýfrjálshyggja er allt að drepa.
05.maí 2017 - 12:06 Brynjar Nielsson

Varðandi sameiningu framhaldsskóla

Stjórnarandstöðuþingmenn, bæði botnfreðnir sósíalistar og þeir sem kenna sig við frjálslyndi og umburðarlyndi, voru í miklu uppnámi í gær þegar fréttist að menntamálaráðuneytið væri með til skoðunar sameiningu Fjöltækniskólans og Fjölbrautarskólans í Ármúla.
11.apr. 2017 - 12:18 Brynjar Nielsson

Sósíalistar eru ekkert nýtt

Sérkennilegur áhugi fjölmiðla á stofnun Sósíalistaflokks Gunnars Smára. Eins og að menn haldi að hér sé eitthvað nýtt á ferð. Vinstri grænir og Alþýðufylkingin er uppfull sósíalistum og slatti af þeim í Samfylkingunni. Virðist vera einkenni þeirra sem berja hausnum við steininn að þurfa að vera í mörgum flokkum.
22.mar. 2017 - 13:29 Brynjar Nielsson

Margar samúðarkveðjur

Mér hafa borist margar samúðarkveðjur vegna fráfalls söngvara og hljómsveitarstjóra stórbandsins Sven - Ingvars. Tónlistarsmekkur okkar hjónanna er afar ólíkur eins og margt annað. Samt hafa ekki komið alvarlegir brestir í hjónabandinu nema þegar ég spila Sven - Ingvars þegar hún er heima.
19.mar. 2017 - 15:23 Brynjar Nielsson

Smartland leggur mig í einelti

Ég sæti einelti af hálfu Smartlands. Þar er haldið fram að ég búi í 70 ára gömlum líkama og vitnað í ónýta tölvu.
02.mar. 2017 - 16:28 Brynjar Nielsson

Bannfæringarfólkið

Merkilegt hvað bannfæringar eru að verða algengar í svona „umburðarlyndu“ samfélagi. Vogi sér einhver að efast um hinn vísindalega sannleika um veðurfarsbreytingar af mannavöldum eða kynbundinn launamun er viðkomandi umsvifalaust bannfærður. Svo ekki sé talað um þá sem hafa einhvern vott að þjóðerniskennd í hjarta sínu.

13.feb. 2017 - 11:20 Brynjar Nielsson

Ekki nógu agaður í baráttunni við vambarpúkann

Hef komist að því að langvarandi fýla leiðir til mikillar þyngdaraukningar. Nú er svo komið að ég kemst ekki í nokkra flík með góðu móti. Verð að grípa í taumana svo ég fái áfram að sofa í hjónarúminu. Vandinn er hins vegar sá að ég er ekki nógu agaður og staðfastur í baráttunni við vambarpúkann nema að komast í einhverja keppni.

11.jan. 2017 - 11:38 Brynjar Nielsson

Ég styð þessa ráðherraskipan

Sjaldan eða aldrei eru menn á eitt sáttir þegar þegar kemur að vali í ráðherraembætti. Ég hef reifað áður mín sjónamið um hvað eigi að ráða í þeim efnum. Þau urðu ekki ofan á að öllu leyti í þetta sinn. Engu að síður studdi ég þessa ráðherraskipan enda úrvalsfólk hér á ferð. Nú þurfa þingmenn flokksins að fylkja sér um ráðherrana og styðja þá til góðra verka fyrir land og þjóð og láta persónulegar skoðanir og metnað ekki trufla sig um of.

04.jan. 2017 - 14:02 Brynjar Nielsson

Einhverjir myndu segja að þessar tilraunir væru fullreyndar

Búið er að stofna hóp á netinu sem heitir Sósíalistaflokkurinn. Þar birtast gömlu kommarnir sem voru upp á sitt besta snemma á áttunda áratug síðustu aldar ásamt sögulausum yngri mönnum. Dustað er rykið af öllum gömlu frösunum og haldið fram að forsenda velferðar og nýsköpunar sé sósíalismi á vegum ríkisvaldsins. Mætti halda að þetta ágæta fólk hafi verið í dái síðustu 40 ár.

03.jan. 2017 - 15:10 Brynjar Nielsson

Nútíma sósíalistar eru semsagt umbótasinnar

Nú um stundir er vinsælt að kalla sig frjálslyndan umbótasinna. Einnig er farið að endurskilgreina sósíalismann sem heitir nú félagshyggja. Nútíma sósíalistar eru semsagt frjálslyndir félagshyggjumenn og umbótasinnar. Maður fær óbragð í munninn við það eitt að skrifa þetta.
28.des. 2016 - 15:47 Brynjar Nielsson

Þingmaður Pírata rekur rýting í bak samstarfsmanna

Þingmaður Pírata, Eva Pandóra, sakar aðra þingmenn um fúsk og slæleg vinnubrögð, ekki síst fyrir að afgreiða frumvarpið um jöfnun lífeyrisréttinda nú fyrir jól. Um sé að ræða mikið hagsmunamál sem hefði þurft meiri tíma til að vinna.

22.des. 2016 - 14:30 Brynjar Nielsson

Pyntingastefnan ber ekki árangur

Ekki vil ég gera lítið úr fíknivanda. Sumir glíma við matarfíkn og/eða sykurfíkn, aðrir áfengis og jafnvel spilafíkn og svo framvegis. Einu hugmyndir stjórnmálamanna í glímunni við fíkn einstakra manna er að banna öllum neyslan eða háttsemina eða að skattleggja alla til dauðs. Þótt sumir borði of mikið af sykri og öðru óhollu, spili rassinn úr buxunum í fjárhættuspilum eða staupi meira en góðu hófi gegnir, er kannski óþarfi að banna hófsemdarmönnum í þessum efnum alla gleði eða okra á þeim til að draga úr henni. Gæti kannski verið til bóta að menn bæru almennt meiri ábyrgð á sjálfum sér í stað þess að stjórnmálamenn kvelji alla aðra. Ég get heldur ekki séð að þessi pyntingastefna beri nokkurn árangur.
13.des. 2016 - 12:27 Brynjar Nielsson

Kjósendur Pírata eru hafðir að algerum fíflum

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn þurftu hvor um sig að gefa eftir í sínum stefnumálum við myndun síðustu ríkisstjórnar voru það svikin loforð. Nú þegar fimmflokkarnir frægu hentu meira og minna öllum sínum loforðum og prinsippum á haugana, til að ná völdum, heitir það málamiðlun og að vera lausnarmiðaður.

05.des. 2016 - 16:39 Brynjar Nielsson

Menn hafa gert verri rit að skyldulesningu í skólum

Stundum getur tiltekt gert gagn. Í einni slíkri fann bókina Um frelsið eftir John Stuart Mill, sem er grundvallarrit um hið frjálsa lýðræðisamfélag vesturlanda. Hollt væri fyrir þá, sem sífellt tala fyrir alls konar skerðingum á tjáningar- og atvinnufrelsi í því skyni að búa til betra samfélag, að glugga aðeins í bókina.
30.nóv. 2016 - 13:42 Brynjar Nielsson

Hættum þessari 3ja hjóls umræðu

Nú er erfitt að mynda ríkisstjórn því enginn vill vera 3ja hjól undir vagni síðustu ríkisstjórnar. Af sömu ástæðu gætu sjálfstæðismenn ákveðið að fara ekki í stjórn með VG og Samfylkingunni því hann vill ekki vera 3ja hjól undir vagni Jóhönnustjórnarinnar frá 2009-2013.

24.nóv. 2016 - 10:28 Brynjar Nielsson

Píratar enda á ruslahaugum sögunnar

Mér skilst að Píratar hafi verið stofnaðir til að berjast gegn spilltum, óheiðarlegum og valdasjúkum fjórflokki. Enginn skortur var á loforðum gagnvart kjósendum og ekki skyldi prinsippum haggað. Öllu þessu var svo hent á rusalhaugana til að geta myndað vinstri stjórn, sem kjósendur höfðu þó hafnað með afgerandi hætti. Einhver myndi kalla þetta hreina og tæra valdasýki.

09.nóv. 2016 - 14:31 Brynjar Nielsson

Mín skýring á sigri Trump

Margir velta því fyrir sér hvernig það gat gerst að maður eins og Donald Trump var kosinn forseti í rótgrónu lýðræðisríki. Eflaust eru margar samverkandi ástæður fyrir því. Sjálfur tel ég meginástæðuna þá að stuðningsmenn Hillary tóku upp ólýðræðislegar aðferðir vinstri manna í evrópu með því að hleypa upp pólitískum fundum andstæðinga sinna, kalla þá heimska og ómenntaða rasista og rugluð gamalmenni og eitthvað þaðan af verra. Kannski hafa bandaríkjamenn engan humor fyrir menntasnobbuðu elítunni, sem heldur að hún sé svo gáfuð.

24.okt. 2016 - 10:15 Brynjar Nielsson

Leyfum þeim að endurreisa höfuðborgina fyrst

Mér skilst að stjórnarandstaðan sé þessa dagana að mynda næstu ríkisstjórn sem á að endurreisa Ísland á grundvelli félagslegs jöfnuðar og réttlætis.
19.okt. 2016 - 17:07 Brynjar Nielsson

Alþýðufylkingin er heiðarlegri en VG

Einhversstaðar sá ég að fylgi VG væri á flugi. Flokkar eins og VG eru í öðrum löndum jaðarflokkar sem eru að berjast við að ná 5% fylgi til að koma manni á þing. Þótt formaður VG sé afar geðsleg kona og margt gott fólk þar innanborðs er stefna flokksins alltaf jafnslæm og skaðleg.

10.okt. 2016 - 11:37 Brynjar Nielsson

Heimsóttum Bandaríkin og vorum dregnir út af klósettinu

Ég segi farir mínar ekki sléttar eftir heimsókn til Bandaríkjanna. Við fjórir miðaldra karlar keyptum lestarmiða á netinu frá Boston til New York. Þegar á lestarstöðina kom var miðasölubás þessa lestarkompanýs lokaður. Töldum við þá duga að staðfesta greiðslu með snjallsímanum og gengum um borð. En það var öðru nær. Á næstu stoppustöð voru við dregnir af klósettinu, með nánast allt niðrum okkur, leiddir út og gegnum lestarstöðina með öll augu á okkur, af sterklegum lögreglumönnum.

07.okt. 2016 - 17:35 Brynjar Nielsson

Við erum öll jafnaðarmenn

Samfylkingarfólk segir að íslendingar séu jafnaðarmenn upp til hópa og skilur því ekki af hverju fylgið hrynur af þeim. En hvað er að vera jafnaðarmaður? Öll erum við jafnaðarmenn ef sú stefna snýst um að halda uppi almannatryggingarkerfi, aðgangi að heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir alla. En ef hún snýst um ríkisvæðingu og jafna kjör allra óháð framlagi eru fáir jafnaðarmenn, sem betur fer. Slík jafnaðarmennska er auðvitað aðför í hinu frjálsa samfélagi og er í raun gamaldags sósíalismi. Því miður hefur Samfylkingin sogast í þá "jafnaðarmennsku" og ekki er pláss fyrir tvo flokka í því rugli öllu saman. Þess vegna hríðfellur fylgið.

30.sep. 2016 - 11:24 Brynjar Nielsson

Fæ hroll af loforðaflaumi vinstrimanna

Það fer um mann hrollur þegar hlustað er á loforðaflaum vinstri flokkanna í upphafi kosningabaráttunnar. Um leið og glitta fer í batnandi ástand og horfur er ekkert mál er að lofa öllum öldruðum og öryrkjum 300 þúsund á mánuði úr almannatryggingum án nokkurs tillits til tekna og eigna viðkomandi. Öll heilbrigðisþjónusta, hverju nafni sem hún nefnist, skal vera gjaldfrí. Bæta skal tugum milljarða í heilbrigðiskerfið og skólakerfið, annað eins í samgöngur og svona má lengi telja.
08.sep. 2016 - 13:26 Brynjar Nielsson

Mikill er happafengur Viðreisnar

Afskaplega er það þungbært þegar góðir og öflugir Sjálfstæðismenn yfirgefa flokkinn. Mikill er happafengur Viðreisnar og ég óska þessu góða fólki velfarnaðar á nýjum vettvangi. Hins vegar hafa flækst fyrir mér skýringar þessa fyrrum félaga á sinnaskiptunum. Ég hef ekki fengið það á hreint hvort þau hafi fjarlægst stefnu Sjálfstæðisflokksins eða hvort flokkurinn hafi ekki fylgt stefnu sinni sem skyldi.

06.sep. 2016 - 11:39 Brynjar Nielsson

Voðaleg áhugasemi um „beint lýðræði“ hjá öðrum en sjálfum sér

Margir hafa velt sér upp úr slælegri þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í sögulegu samhengi.
31.ágú. 2016 - 10:50 Brynjar Nielsson

Ég sækist eftir 3.sæti

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi kosningar og sækist eftir 3. sætinu. Ég legg áherslu á áframhaldandi aðgerðir til að treysta efnhagslegan stöðugleika með aðhaldi í ríkisfjármálum. Forsenda velferðar allra er öflugt atvinnulíf og stöðugleiki. Og forsenda öflugs atvinnulífs er trú á einstaklinginn og sköpuð sé eðlileg umgjörð fyrir hann til athafna og sköpunar. Ég er trúr grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins og tel að við þurfum að leita oftar lausna þar í glímu við þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.

29.ágú. 2016 - 13:50 Brynjar Nielsson

Ég er kallaður Ebbi á mínu heimili

Ég er þátttakandi í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík þótt lítið hafi farið fyrir mér í baráttunni. Hef ég mjög verið gagnrýndur fyrir slugs og nísku, ekki síst af mínu heimilisfólki, fyrir að tíma ekki að bjóða í kokteila eða vöfflukaffi. Það sé því ekki tilviljun að ég sé kallaður Ebbi á minu heimili, sem mun vera stytting á Ebenezer Scrooge, þekktri persónu í jólaævintýri Dickens.


Brynjar Níelsson
Hæstaréttarlögmaður. Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.3.2018
Lokað fyrir ræðuhöld
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 25.3.2018
Berjumst gegn græðgisvæðingu
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar