05. jún. 2013 - 10:51Björn Jón Bragason

Borg án greiðra samgangna?

Hann læsist í gegnum umferðarysinn.
Hann iðar í bílanna þröng.
Undrandi kolakarlarnir hlusta
á kranans máttuga söng.
Eitthvað, sem skeði, sló örstutt glampa
á augun þreytt og köld.
– Þarna kom Súlan og beygði yfir bæinn.
Botnía fer í kvöld.

Þannig hljóma síðustu ljóðlínurnar í hinu þekkta kvæði Tómasar Guðmundssonar „Við höfnina“. Borgarskáldið Tómas sá fegurðina í hversdagslegri Reykjavík og hér eru samgöngurnar yrkisefnið, bílarnir, skipin og flugvélarnar og inn í það blandast „máttugur söngur“ kolakranans. Súlan, sem minnst er á var sjóflugvél af Junkers gerð sem Flugfélag Íslands hf. keypti til landsins árið 1928 og Botnía var farþegaskip Sameinaða gufuskipafélagsins (Det Forenede Dampskibsselskab).

Þessar ljóðlínur koma upp í hugann við lestur á drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2030, sem vinstrimeirihlutinn í borginni kynnti á dögunum. Þar er orðagjálfrið hvergi sparað en að mestu leyti er það innantómt. Sér í lagi skortir á að hugað sé að framtíð samgangna í höfuðborginni, en líklega eiga fá lönd í heiminum jafnmikið undir greiðum samgöngum og Ísland.

Samgöngur á landi

Í fyrra gerðu borgaryfirvöld samkomulag við ríkisvaldið um að ekki yrði ráðist í neinar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2022 og í aðalskipulagsdrögunum er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum mislægum gatnamótum heldur stendur beinlínis til að þrengja að umferð, svo undarlega sem það hljómar.

Nýlegar samantektir hafa leitt í ljós að nítján af tuttugu hættulegustu gatnamótum höfuðborgarsvæðisins eru ljósastýrð og á sama svæði verður 43 prósent alvarlegra slysa. Þrátt fyrir það sömdu borgaryfirvöld við ríkið um að ekki ein einasta króna af vegafé rynni til umferðarmannvirkja á þessu svæði fram til ársins 2022. Forysta Samfylkingarinnar í borgarstjórn, með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar, er lítt með hugann við hagsmuni borgarbúa.

Oft er talað um ábyrgð ökumanna, en hún er ekki lítil ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem neita að horfast í augu við umferðarvandann og taka á honum af festu.

Reykjavíkurhöfn

Hafnargerðin í Reykjavík er líklega einhver arðbærasta framkvæmd sem ráðist hefur verið í hérlendis. Án hafnar með veglegum varnargörðum gat Reykjavík ekki gert tilkall til þess að teljast höfuðstaður landsins. Höfnin var ein af meginforsendum öflugrar togaraútgerðar sem lagði grunninn að velsæld þjóðarinnar. Tómas Guðmundsson sagði eitt sinn að við höfnina „streymdi blóðið örast í æðum borgarinnar, ungrar og vaxandi“.

Í núverandi aðalskipulagi vantar áætlanir um framtíðarhafnarmannvirki og svæði fyrir hvers kyns hafnsækna starfsemi. Siglingar í okkar heimshluta munu án efa aukast mikið á komandi árum og áratugum, meðal annars vegna stórkostlegra umsvifa á Grænlandi og að ekki sé minnst á það ef siglingaleiðin yfir Norðurheimskautið opnast. Mikil verðmæti eru fólgin í þeim höfnum í okkar heimshluta sem eru íslausar árið um kring.

Helst hefur verið rætt um þessi mál frá sjónarhóli hreppapólitíkur og meðal annars reifaðar hugmyndir um stórskipahafnir norðanlands. En þegar allt kemur til alls þá er aðeins einn staður hér á landi þar sem finna má alla grunnþjónustu á einum stað og það er í höfuðborginni. Reykjavík má ekki láta sér úr greipum ganga þau framtíðartækifæri sem felast í stórauknum siglingum á norðurslóðum.

Reykjavíkurflugvöllur

Ein meginforsenda hins nýja aðalskipulags er að Reykjavíkuflugvöllur verði lagður niður. Þar með hyrfi úr borginni sú margháttaða starfsemi sem tengist vellinum, en alls er talið að um eitt þúsund störf fylgi flugvellinum í Vatnsmýri.

Flugvöllurinn er einstaklega vel staðsettur í næsta nágrenni við æðstu mennta- og stjórnsýslustofnanir þjóðarinnar, auk nálægðar við hvers kyns aðra þjónustu og verslanir. Að ekki sé minnst á mikilvægi þess að stutt sé frá flugvellinum að aðalsjúkrahúsi landsins.

Mikil sóknartækifæri eru fólgin í auknu flugi og flugtengdri starfsemi í Vatnsmýri. Nýjustu farþegaþotur eru hljóðlátari í aðflugi heldur en Fokkerar Flugfélagsins og því þyrfti aukið millilandaflug um völlinn ekki að valda borgarbúum ónæði. Aukin umsvif á Grænlandi bjóða einnig upp á mikla möguleika og svo mætti lengi telja. Hér eins og annars staðar skiptir meginmáli að borgaryfirvöld, líkt og önnur stjórnvöld, skapi skilyrði fjölbreytts atvinnurekstrar. Það er síðan verkefni hins frjálsa framtaks að koma fram með hugmyndirnar og skapa verðmætin.

Malbikið angar

Á kynningarfundi um aðalskipulagið á dögunum, nefndi einn borgarfulltrúinn að „of mikið pláss“ færi undir hafnarmannvirki og götur og í ofanálag vildi hann flugvöllinn burt. Það er illa komið fyrir stjórnmálunum í borginni ef nauðsynleg samgöngumannvirki eru álitin „þvælast fyrir“. Öflugt atvinnulíf fær ekki þrifist nema með góðum samgöngum. Hún er ekki glæsileg framtíðarsýnin sem að mestu leyti byggir á innantómu orðagjálfri en ekki því hvernig raunverulega eigi að skapa skilyrði öflugs atvinnurekstrar. Samgöngur eru þar lykilatriði.

Ef til vill skortir okkur skáld til að enduruppgötva fegurðina í samgöngum borgarinnar, eða líkt og Tómas orti forðum: „Malbikið angar og flugvélar bruna yfir bæinn“. Borg án greiðra samgangna er deyjandi borg.

10.júl. 2017 - 14:17 Björn Jón Bragason

Versti umhverfissóði landsins

Ekki skorti á skrúðmælgi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þegar stjórnendur á annað hundrað fyrirtækja voru fengnir til að undirrita „umhverfisyfirlýsingu“ í Höfða með tilheyrandi fjölmiðlauppistandi nokkru áður en alls tólf fulltrúar borgarinnar héldu til Parísar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar voru heimsbyggðinni meðal annars kynnt áform Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
24.des. 2015 - 16:20 Björn Jón Bragason

„Staðarákvörðun ókunn, allir á lífi“ Í haust eru liðin 65 ár frá Geysisslysinu – Björgunarvél festist á Vatnajökli

Geysir, milllandavél Loftleiða, átti að lenda á Reykjavíkurflugvelli tíu mínútum eftir miðnætti föstudaginn 15. september 1950, en vélin hafði haldið frá Lúxemborg klukkan 16:30 að íslenskum tíma. Engir farþegar voru um borð, aðeins sex manna áhöfn. Eðlilegt loftskeyta- og talsamband var við vélina frá Reykjavíkurflugvelli er hún var í nánd við Færeyjar. Þá var klukkan 21:30. Tæpri hálfri klukkustund síðar náðist aftur samband við vélina og taldi flugstjórinn hana nærri landi. Flugvélin yrði á undan áætlun og myndi lenda í Reykjavík klukkan 23:30.
06.des. 2015 - 21:00 Björn Jón Bragason

Lögreglustöðin grýtt og bílum hvolft

Mörgum finnst nóg um sprengingar, ærsl og læti á gamlárskvöld nú til dags. Þau ólæti eru þó ekkert í líkingu við það sem tíðkaðist í höfuðstaðnum á fyrri hluta síðustu aldar. Snemma varð það siður í Reykjavík eftir klukkan 21:00 á gamlárskvöld að fólk safnaðist saman í götum bæjarins til að kasta skoteldum, kínverjum og púðursprengjum. Árið 1924 keyrðu sprengingar í Austurstræti svo fram úr hófi að stórar rúður í búðargluggum sprungu.
18.nóv. 2015 - 13:44 Björn Jón Bragason

Er Grænland íslensk nýlenda?

Líklega þykir flestum spurningin í titli þessa pistils fjarstæðukennd. Á fyrri hluta síðustu aldar kom þetta álitaefni þó reglulega til umræðu hérlendis og samþykktar voru margar tillögur á Alþingi um að kannað yrði þjóðréttarlegt tilkall Íslendinga til Grænlands. Mikil skrif urðu um málið, en enginn af fjallaði þó um það af jafnmiklum lærdóm og dr. juris Jón Dúason.
20.sep. 2015 - 13:32 Björn Jón Bragason

Pólitískir óvitar

Vinstrimeirihluti Dags B. Eggertssonar í borgarstjórn samþykkti á dögunum – að óathuguðu máli – að sniðganga vörur frá Ísrael, svo sem frægt er orðið að endemum. En borgarstjórinn var gerður afturreka með viðskiptabannið þegar ljóst var að hann hafði stórskaðað íslenska hagsmuni. Ætla má að grundvöllur ákvörðunarinnar hafi verið ólögmætur, því „kveðjugjöf“ til borgarfulltrúa Samfylkingar mun seint teljast málefnaleg sjónarmið. Sjálfur hefur borgarstjórinn þegið boðsferðir til Kínverska alþýðulýðveldisins sem á heimsmet í mannréttindabrotum, en ekki hefur hann þó ljáð máls á að borgin leggi viðskiptabann á Kína.
05.sep. 2015 - 13:28 Björn Jón Bragason

Borgarstjóri þolir ekki dagsljósið

Fáir stjórnmálamenn þrá athygli fjölmiðla jafnheitt og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Samfylkingarinnar. Til marks um það eru 14 manns á launum hjá borgarbúum við að sinna kynningarmálum fyrir borgarstjórann í sérstakri áróðursmáladeild. Þetta gekk meira að segja svo langt í sumar að myndir birtust af borgarstjóranum á strætisvagnaskýlum borgarinnar, þó svo að enn séu þrjú ár til kosninga.
03.júl. 2015 - 09:00 Björn Jón Bragason

Þingmennskan á aldrei að vera fullt starf

Fyrir tæpri hálfri öld deildu þeir um það Bjarni Benediktsson og Eysteinn Jónsson hvort þingmennskan ætti að vera fullt starf eða einungis hlutastarf. Bjarni taldi að þingmennskan ætti aldrei að verða fullt starf; það væri nauðsynlegt fyrir þingmenn að gegna samhliða öðrum störfum úti í þjóðlífinu. Að mati Bjarna mætti ekki rjúfa lífræn tengsl þingsins við atvinnulífið í landinu með því að gera alla þingmenn að atvinnustjórnmálamönnum. Þvert á móti bæri að ýta undir að til þingstarfa veldust menn sem áunnið hefðu sér traust, hver á sínu sviði þjóðlífsins. 
24.jún. 2015 - 18:51 Björn Jón Bragason

Er versluninni að blæða út?

Á umliðnum árum og áratugum hefur sérvöruverslun í miðbæ Reykjavíkur hnignað mjög og fyrir því eru ýmsar ástæður.
12.maí 2015 - 15:35 Björn Jón Bragason

Að ráðast á Alþingi


06.maí 2015 - 11:01 Björn Jón Bragason

Vinstri grænir talibanar?

Margrét Frímannsdóttir sigraði naumlega í kjöri um formann Alþýðubandalagsins árið 1995, en flestir bjuggust við að keppinautur hennar og „erfðaprins“ flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, næði kjöri. Margrét tók til við að uppfylla kosningaloforð sitt um stofnun nýs sameinaðs flokks vinstrimanna og árið 1998 var stofnaður þingflokkur Samfylkingarinnar, nýs flokks sem átti að sameina flokka á vinstri væng stjórnmálanna. Ýmsum hörðum vinstrimönnum mislíkaði sameiningin og þeir stofnuðu nýjan flokk, Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Þetta flokksbrot úr Alþýðubandalaginu bauð fyrst fram árið 1999 með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar. Ætla má að saga íslenskra vinstrimanna hefði orðið allt önnur hefði Steingrímur haft betur í formannskjörinu 1995.

Björn Jón Bragason
Björn Jón Bragason er sagnfræðingur og lögfræðingur. Eftir hann liggja fjölmargar fræðigreinar, auk bókanna Hafskip í skotlínu, Bylting og hvað svo og Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits, en sú síðastnefnda hefur líka komið út í enskri þýðingu.
Sigrún Dóra Jónsdóttir
Sigrún Dóra Jónsdóttir - 30.1.2018
Til varnar sonum mínum
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 25.1.2018
Þjóðviljinn var hlutlausari en Kjarninn
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 27.1.2018
Andmælti Davíð, en trúði honum samt
Ingrid Kuhlman
Ingrid Kuhlman - 31.1.2018
Hvenær ertu búinn að aðlagast?
Lovísa María Emilsdóttir
Lovísa María Emilsdóttir - 31.1.2018
Æfðu þig í að finna fyrir gleði, þakklæti og hamingju!
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 05.2.2018
Ríkari mannréttindavernd barna á Íslandi
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 09.2.2018
Uppgjör í verkalýðshreyfingunni!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 12.2.2018
Spurning drottningar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 12.2.2018
Hún líka
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 16.2.2018
Viðkvæmir Píratar
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 15.2.2018
Spáð í spilin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 19.2.2018
Hugleiðingar á 65 ára afmælinu
Sara Pálsdóttir
Sara Pálsdóttir - 22.2.2018
Umskurður drengja
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson - 22.2.2018
Gyðingdómur í sögu og samtíð - námskeið
Fleiri pressupennar