14. jan. 2012 - 11:00Björn Jón Bragason
Ráðherrar Framsóknarflokks settu sölu á VÍS frá Landsbankanum til S-hópsins sem skilyrði fyrir því að einkavæðingin ríkisbankanna héldi áfram. Þetta kemur fram í grein minni um einkavæðingu Búnaðarbankans sem birtist í nýjasta hefti tímaritsins Sögu.
Í aprílmánuði 1997 keypti Landsbanki Íslands helmingshlut Brunabótafélagsins í VÍS. Við kaup Landsbankans gerðu bankinn og S-hópurinn, sem réð fyrir hinum helmingshlutnum í félaginu, með sér hluthafasamkomulag sem fól í sér að að Landsbankinn fékk því ráðið hver yrði stjórnarformaður, en S-hópurinn valdi forstjóra. Að auki setti Landsbankinn skilyrði um að félagið yrði skráð á hlutabréfamarkað.
Hart var deilt um síðastnefnda atriðið næstu árin, en S-hópurinn var andvígur skráningu félagsins á markað og vildi þess í stað að Landsbankinn og VÍS yrðu sameinuð í eitt félag, enda ljóst að þar með ykjust völd S-hópsins í fjármálalífinu til muna. Þá stefndi S-hópurinn að því að kaupa ráðandi hlut í Landsbankanum. Yfirmenn bankans voru þessu alla tíð andvígir, sem og stjórnmálamenn – bankinn skyldi seldur fyrir opnum tjöldum í almennu útboði, en ekki „bakdyramegin“.
Sumarið 2002 krafðist S-hópurinn þess að hluthafasamkomulaginu frá 1997 yrði rift í ljósi forsendubrests, en ríkið hygðist nú selja bankana til kjölfestufjárfestis, en ekki í dreifðri eignaraðild. Að mati stjórnenda Landsbankans var þetta fyrirsláttur einn hjá S-hópnum enda hafði sú ákvörðun að selja hluti í bönkunum til kjölfestufjárfestis verið tekin árið áður.
Helgi S. Guðmundsson, bankaráðsformaður Landsbankans, mun hafa haft áhyggjur af málinu, en þeir Helgi og Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, voru í miklu og nánu sambandi. Helgi hafði verið formaður bankaráðsins frá árinu 1997, og að auki gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Stjórnendum Landsbankans mislíkaði framkoma S-hópsins. S-hópsmenn hefðu reynt að setja allt í eins mikið uppnám og hægt var og jafnvel verið til í að fara með málið fyrir dóm. Losna þurfti úr þessari úlfakreppu. Einn forystmanna Landsbankans á þessum tíma orðar þetta svo:
Okkur bar umfram allt skylda til að hugsa um hagsmuni Landsbankans.
Hinn 28. ágúst 2002 var samþykkt formlega að selja alla hluti Landsbankans í VÍS til S-hópsins. Salan á VÍS var samþykkt í bankaráði Landsbankans með fjórum atkvæðum gegn einu, en Birgir Þór Runólfsson, annar fulltrúa Sjálfstæðisflokks, var einn á móti. Hins vegar greiddi Guðbjartur Hannesson, fulltrúi Samfylkingarinnar, atkvæði með. Greint var frá kaupum S-hópsins á öllum hlutum Landsbankans í VÍS daginn eftir. Opinberlega sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, svo frá að gott tilboð hefði borist sem Landsbankinn hefði ekki getað hafnað.
Finnur Ingólfsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, tók við starfi forstjóra VÍS um mánaðamótin september/október 2002. Finnur hefur sjálfur sagt svo frá að „pólitísk uppskipting bankakerfisins” sé „algjör tilviljun”, þrátt fyrir að hann fallist á skýrar pólitískar tengingar S-hópsins við Framsóknarflokkinn. Hann hefur sagt frá því opinberlega að hann hafi ekki byrjað að vinna með S-hópnum fyrr en eftir einkavæðingu Búnaðarbankans. Sú fullyrðing stenst hins vegar varla nánari skoðun þar sem hann hlaut að koma að málum sem forstjóri VÍS frá haustinu 2002 og ljóst er að hann var kominn að samningaborðinu hinn 15. nóvember 2002, þegar viljayfirlýsing ríkisins og S-hópsins um kaupin á Búnaðarbankanum var undirrituð. Þá kveðst hann ekki hafa „hagnast persónulega um eina einustu krónu” á einkavæðingu bankanna. Sú staðhæfing er býsna hæpin, svo sem rakið er í grein minni í tímaritinu Sögu.
Stærsti eigandi VÍS varð nú Hesteyri, sem er eignarhaldsfélag Fisk Seafood á Sauðarkróki, dótturfélags Kaupfélags Skagfirðinga, og Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði, en það er fjölskyldufyrirtæki Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem á þessum tíma átti sæti í ráðherranefnd um einkavæðingu. Ekki þurfti að koma á óvart að S-hópurinn skyldi velja Finn Ingólfsson sem forstjóra VÍS. Finnur var sérstakur trúnaðarmaður Halldórs Ásgrímssonar og forkólfar S-hópsins þekktu hann allir vel. Finnur hafði lag á að sameina hópana auk þess sem þeir Helgi S. voru nánir vinir. „Finnur var búinn að hygla þeim öllum og skamma þá alla,“ eins og einn heimildarmaður orðaði það.
Yfirráðin yfir VÍS styrktu mjög stöðu S-hópsins. Tryggingafélag er mikilvægur bakhjarl í fjárfestingum, en á þessum tíma er þó líklegt að menn hafi verið varfærnari í fjárfestingum tryggingafélaga miðað við það sem síðar varð. Ávöxtunin af VÍS varð ævintýraleg næstu ár. Svo dæmi sé tekið þá jukust heildareignir VÍS um 116 prósent milli áranna 2004 og 2005 og eigið fé um 92 af hundraði. Þá jukust heildareignir Hesteyrar stórkostlega á skömmum tíma. Í árslok 2002 voru eignir félagsins metnar á rúma þrjá milljarða króna, en 8,97 milljarða tveimur árum síðar. Hagnaður ársins 2004 nam alls 2,6 milljörðum króna.