21. jún. 2011 - 14:00Olga Björt Þórðardóttir
Finnst þér gott að fara í fýlu? Aðeins að gefa þér tíma og svigrúm til þess að finna út hvort þú sért ósammála, hefur móðgast eða orðið sár, en sért ekki alveg tilbúin/n í að ræða það nánar?
Að fara úr jafnvægi á þennan hátt þekkjum við líklega öll, enda eru slík viðbrögð afar algeng í samskiptum. Stundum þurfum við einfaldlega aðeins að hugsa málið og höfum alveg rétt á því.
Ef þetta ástand varir svo lengi að það litar önnur samskipti gerum við ekki bara samveru með örðum óbærilega, heldur sjálfum okkur óleik. Ef heilu dagarnir, helgarnar, vikurnar, mánuðirnir, árin, jafnvel áratugirnir fara í það að láta óuppgerðan ágreining hanga í loftinu, þá er eitthvað að.
Það er í raun hægt að líkja því við það að setja úldinn fisk inn í ísskáp eða skítugan táfýlusokk í sokkaskúffuna. Fnykurinn gýs upp um leið og við opnum hirslurnar aftur. Á sama hátt lita óuppgerð mál samskipti.
Fyrir utan það að vera ótrúleg orkusuga, gleðispillir og jafnvægisraskari, er fýla meðal óréttlátustu stjórnunaraðferða í samskiptum. Sálfræðingur sem ég þekki sagði mér að systurnar fýla og þrúgandi þögn flokkuðust undir andlegt ofbeldi.
Við sem þurfum að melta lengi hvar við ætlum að staðsetja fólk og aðstæður sem við réðum ekki við einhverja stundina, getum spáð í það hvað valdi í raun “meltingartruflunum”; hvort þær stafi kannski af einhverju sem við getum leyst eða bætt sjálf.
Hegðun hvers og eins einstaklings er samanlögð útkoma svo ótal margra þátta sem örfáir vita um. Einmitt þess vegna ættum við ekki að taka hana persónulega, þótt það geti oft reynst erfitt. Þar komum við inn á eyðufyllingar.
Eyðufyllingar í samskiptum eru ekki á hvers manns færi. Sumir eru með öflugt innsæi og greina annað fólk og væntingar þess. Aðrir eru góðir mannþekkjarar. Enn aðrir flækjast inn í líf annarra og lifa eftir þeirra hentisemi. Eflaust eru til fleiri dæmi sem þið þekkið.
Þrátt fyrir þetta á enginn að þurfa að fylla í eyður í samskiptum og það er ekki sjálfsagður réttur fullorðinna einstaklinga að aðrir viti hvað þeir eru að hugsa hverju sinni og hvernig megi að nálgast þá. Sama hversu nánir einstaklingar eru. Við getum einfaldlega sagt: „Fyrirgefðu, en ég er bara ekki góð/ur í að fylla í eyður. Viltu segja mér hvað er að?“
Það er alveg hægt að vera skilningsríkur, tillitssamur og hjálpsamur án þess að þurfa að fylla í eyður.
Dæmi um atlögur til eyðufyllinga eru svipbrigði, augnaráð, raddblær, hurðaskellur, grátur, reiðikast og svo fyrrnefndar þögn og fýla. Í raun allt óuppgert sem tjáð er án orða eða athafna. Við verðum að segja það sem við meinum og meina það sem við segjum. Það er sama hvort við erum í hlutverki fjölskyldumeðlims, viðskiptavinar, þjónustuaðila, bílstjóra í umferðinni eða standandi í biðröð (sem Íslendingar eiga líklega Ólympíumet í að kunna ekki).
Það er engin afsökun á slæmri framkomu að dagsformið sé slæmt, álagið mikið eða eitthvað hafi komið upp á, ef við biðjumst ekki afsökunar síðar eða útskýrum málið. Við getum öll stokkið upp á nef okkur einhvern tímann en það á ekki að vera sjálfsagt að okkar nánasta samferðafólk viti hvaða mann/konu við höfum að geyma undir öllum látunum og að það gildi sem afsökun.
Ef við eigum samskipti við einhvern sem er ekki í jafnvægi, reynum að taka það ekki persónulega. Framkoma og framganga eru einungis endurspeglun af veruleika hvers og eins og við stjórnum því hvort það hafi áhrif á okkur.
Setjum okkur í spor þeirra sem við eigum samskipti við ef við erum sjálf í slæmu jafnvægi. Reynum af fremsta megni að byrja vingjarnlega, það gæti ráðið úrslitum um framhaldið. Það vill enginn vera settur í “frystinn”. Enginn.