Ólafur Arnarson
10. jún. 2011 - 17:00Ólafur Arnarson

Fyrrverandi tilvonandi og tilvonandi fyrrverandi...

Þegar aðrar þjóðir lenda í efnahagskrísum leita þær til frjálslyndra, markaðssinnaðra stjórnmálaafla til að vísa veginn út úr ógöngunum. En, það var ekki hægt hér á Íslandi eftir hrunið vegna þess að eini stjórnmálaflokkurinn sem lagst hefur á sveig með markaðshagkerfi – alla vega í orði kveðnu – hafði leitt ríkisstjórn í tæpa tvo áratugi fyrir hrun og var álitinn hluti vandans en ekki lausnarinnar.

Þess vegna sitjum við Íslendingar uppi með afleita ríkisstjórn sem greinilega ræður ekki við verkefni sitt. Með þessu er því ekki haldið fram að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum hefði verið eitthvað betri kostur eftir kosningarnar 2009. Sá flokkur hefur sína djöfla að draga og líður fyrir að gamlir syndaselir og sérhagsmunaverðir hafa enn allt of mikil áhrif á stefnu flokksins og baráttumál. Hugsanlega hefði þó Sjálfstæðisflokkurinn verið skömminni skárri en núverandi hörmungarstjórn, sem samanstendur af gamla Alþýðubandalaginu. Allir ráðherrar hennar, fyrir utan Jóhönnu Sigurðardóttur, eru fyrrverandi alþýðubandalagsmenn. Jóhanna sjálf hefur svo alla tíð í raun verið eitthvað til vinstri við Alþýðubandalagið þó að sögulegar og ættfræðilegar tilviljanir hafi ráðið því að hún fann sér á tímabili skjól í Alþýðuflokknum.

Öllum má ljóst vera, að slík ríkisstjórn ræður ekki við efnahagslega endurreisn. Ráðherrar hennar og hugmyndafræðingar virðast telja hagvöxtinn myndast hjá ríkinu sjálfu og að embættismannakerfið skili meiri útflutningstekjum en framleiðsluatvinnuvegir. Einhverjir hefðu þó alla vega vonast til að að félagslegt réttlæti yrði í hávegum haft hjá svo ættgöfugri ríkisstjórn.

Fyrrverandi tilvonandi erfðaprins

Ráðandi afl í ríkisstjórninni er fjármálaráðherrann, sjálfur fyrrverandi tilvonandi erfðaprins Alþýðubandalagsins eins og Margrét Frímannsdóttir lýsir svo vel í ævisögu sinni, Stelpan frá Stokkseyri. Landsmenn kynnast nú á eigin skinni erfðaprinsinum úr Þistilfirði og verkum hans. Ekki hafði „norræna velferðarstjórnin“ fyrr tekið við völdum en fjármálaráðherrann gaf erlendum kröfuhöfum gömlu bankanna skotleyfi á íslenska skuldara. Þar með var útséð með „skjaldborgina“, sem forsætisráðherra talaði um í tíma og ótíma en minnist ekki á lengur.

Í stað þess að nýta svigrúmið, sem neyðarlögin gáfu íslenskum stjórnvöldum til að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimila og fyrirtækja, var ákveðið að gefa mörg hundruð milljarða úr landi til spákaupmanna á Wall Street. Því til viðbótar hóf „norræna velferðarstjórnin“ baráttu fyrir því að íslenska þjóðin gengi í opna ábyrgð upp á þúsund milljarða gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum. Annars átti víst allt að fara til fjandans á Íslandi og enginn myndi vilja tala við okkur framar. Við vitum hvernig það fór. Í Icesave og fleiri málum hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar gengið fram með lygum og loddaraskap.

Innheimtumaður banka

Ríkisstjórnin kom á laggirnar nýju embætti Umboðsmanns skuldara. Það er reist á grunni hinnar gömlu Ráðgjafarstofu heimilanna, sem starfaði undir handarjaðri og fyrir reikning bankanna. Lítil breyting virðist hafa orðið á þó að nafni og tilgangi embættisins hafi verið breytt í orði kveðnu. Upphaflega átti Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor á Bifröst, að veita embætti Umboðsmanns skuldara forystu. Hann þurfti að segja sig frá embættinu vegna þess að fram í dagsljósið komu upplýsingar um að hann hefði í eina tíð skuldað þó nokkra peninga og jafnvel þurft skuldaaðlögun sjálfur. Það þótti ótækt að umboðsmaður skuldara hefði reynslu af því sjálfur að skulda peninga. Sjálfsagt hafa bankarnir lekið skuldasögu Runólfs til fjölmiðla til að koma á hann óorði.

Plottið gekk upp og bankarnir héldu sinni manneskju í embættinu. Fyrrverandi forstöðumaður Ráðgjafarstofu heimilanna – sem í raun réttri var framlenging á innheimtustarfsemi bankanna – var ráðinn Umboðsmaður skuldara. Hvað hefur síðan gerst? Jú, tæplega þrjúþúsund manns hafa óskað eftir liðsinni embættisins. Eru þá ótaldir þeir, sem vísað er frá umboðsmanni vegna þess að vonlaust sé fyrir þá að hljóta úrlausn sinna mála. Tuttugu og tveir hafa lokið greiðsluaðlögun, eða vel innan við 1 prósent. Afköst embættisins hrjáðum skuldurum til hjálpar mælast sem sagt í prómillum.

Já, sértæku aðgerðir ríkisstjórnarinnar til hjálpar skuldurum þessa lands hafa reynst haldlitlar. Hagsmunir kröfuhafa hafa verið í fyrirrúmi og ekki verður betur séð en að Umboðsmaður skuldara sé í raun hluti af innheimtukerfi bankanna – sérhæft embætti með þann tilgang að reikna nákvæmlega út hversu mikið er hægt að kreista út úr hverjum og einum viðskiptavini. Nú skal ekki kastað rýrð á starfsfólk embættisins. Þar vinna um 60 manns, sem margir eru eflaust ágætis fólk, sem vill láta gott af sér leiða. Það má hins vegar velta fyrir sér hvort ekki hefði verið ódýrara og skilvirkara fyrir ríkið að einfaldlega velja 50-100 manns af handahófi úr hópi skuldara og niðurgreiða skuldir þess hóps þannig að þær yrðu viðráðanlegar frekar en að halda úti stórum vinnustað, sem afgreiðir 22 viðskiptavini á 10 mánuðum. Er þetta ekki ansi dýr atvinnubótavinna?

Þegar bankarnir sjálfir bregðast við gagnrýni og kynna úrræði fyrir skuldara – eins og Landsbankinn gerði á dögunum – er fyrsta hugsun fjármálaráðherra sú að skattleggja verði skuldarana, sem njóta góðs af úrræðunum. Manni verður einfaldlega flökurt. Skattlagningarhugmyndir erfðaprinsins eru einstaklega ógeðfelldar og afhjúpa væntanlega hans innsta eðli.

Upphefðin kemur að utan

Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi barði fjármálaráðherra sér á brjóst og nefndi útlendinga til vitnis um að allt væri nú á uppleið á Íslandi. Forsætisráðherra tók ekki þátt í umræðunni – sem er nokkuð óvenjulegt ef mér skjátlast ekki – heldur sat drýldin undir henni þannig að kyndilburðurinn féll í hlut erfðaprinsins fyrrverandi tilvonandi. Ef ég man rétt skrifaði fjármálaráðherra í fyrrasumar greinaflokk um upprisu efnahagslífsins hér á landi – upprisu, sem enginn merkti nema hann í sínum ráðherrastól. Ekki varð upprisan þá en núna er semsagt komið að því. Útlendingar eru yfir sig hrifnir af hagstjórn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og starfsmenn Fjármálaráðuneytisins spá hagvexti.

Kannski einhver ætti að benda sérfræðingum OECD og öðrum útlendingum, sem mæra hagstjórn Steingríms J., á biðraðirnar eftir mat hér í landi hinnar „norrænu velferðarstjórnar“. Þeir, sem eru hvað hrifnastir af árangri stjórnarinnar, ættu kannski að prófa að búa hér á landi í svosem mánuð og reyna að lifa af lágmarkslaunum – já, og þeir ættu kannski líka að prófa að lifa við það skattaumhverfi, sem Steingrímur J. býr þessari þjóð og atvinnulífi hennar.

Sérfræðingar OECD ættu að reyna fyrir sér við fyrirtækjarekstur og prófa að fara í banka hér á landi. Þá kæmust þeir væntanlega að því að hér á landi starfa ekki bankar heldur einungis innlánsstofnanir og innheimtufyrirtæki. Það er nefnilega ekki búið að fjármagna nýju bankana. Þeir sjá einungis um að innheimta fyrir kröfuhafa gömlu bankanna eins og frægt er orðið.

Fjármálaráðherra fór með ósannindi

Í gær var tilkynnt um skuldabréfaútgáfu íslenska ríkisins erlendis. Fjármálaráðherra fagnar henni svo sem vænt má. Ekki eru liðnir nema tveir mánuðir síðan þjóðin hafnaði Icesave samningum ríkisstjórnarinnar rétt eina ferðina. Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar málaði fjármálaráðherra skrattann á vegginn og sagði allt helfrjósa hér á landi ef samningnum yrði hafnað. Enginn myndi vilja lána Íslendingum peninga.

Fjármálaráðherra laug að þjóðinni í aðdraganda Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það er ekki gengið frá milljarða skuldabréfaútboði á einni nóttu. Það tekur marga mánuði að undirbúa slíkt. Undirbúningur skuldabréfaútboðsins, sem tilkynnt var um í gær, hefur því verið langt kominn í apríl, þegar fjármálaráðherra hótaði þjóðinni útilokun frá alþjóðlegum fjármálamörkuðum ef Icesave yrði hafnað. Þar talaði hann gegn betri vitund. Það er eins og erfðaprinsinn fyrrverandi tilvonandi geti varla hóstað upp úr sér einu einasta sönnu orði.

Enginn hræddur nema Steingrímur

Í dag tilkynnti svo Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að ef Íslendingar greiði ekki Icesave kröfur Breta og Hollendinga innan þriggja mánaða muni stofnunin höfða mál gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum vegna málsins. Þessi hótun er fyrirsjáanleg og í takt við það sem Per Sanderud forseti ESA hefur áður látið í ljós. Sanderud hefur komið fram af þjósti við Íslendinga í þessu máli. Það er óþarfi að kippa sér upp við þetta. Nú blasir við að eignir Landsbankans duga fyrir kröfum Breta og Hollendinga og þeir geta veskú beðið eftir því að þær verði greiddar út en hirt þrotabúið ella. Sennilega láta flestir þóttafullar hótanir Sandruds sem vind um eyru þjóta nema kannski helst Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, sem ærist af skelfingu í hvert sinn, sem útlendingur hótar málshöfðun.

Sjálfstæðisflokkurinn er laskaður. Þó að einstakir þingmenn hans og jafnvel forystan sjálf reyni að hamra á stóru málunum er starfandi innann flokksins eins konar fimmta herdeild, sem hefur þann tilgang einan að standa vörð um hagsmuni LÍÚ og halda Íslandi utan við ESB. Þó að þetta sé fámennur hópur er hann áhrifamikill innan flokksins og slær vopnin úr höndum flokksforystunnar við hvert tækifæri. Lýsandi dæmi um skaðleg áhrif fimmtu herdeildarinnar er sú orka og sá tími, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur varið í andstöðu við frumvörp ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnun.

Pólitískur kjánaskapur í boði 5. herdeildarinnar

Þessi frumvörp eru umdeild innan stjórnarflokkanna og lítil hætta á að þau fari í gegn um Alþingi nema vel útvötnuð. Sérhagsmunaverðirnir leynast víðar en í Sjálfstæðisflokknum. Samt hefur Sjálfstæðisflokkurinn kosið að gera sig að samnefnara þeirra, sem ekki vilja breyta neinu í sjávarútvegi – samnefnara þeirra, sem standa í vegi þjóðarvilja í sjávarútvegsmálum. Fyrir vikið minnkar fylgi flokksins og fylgi stjórnarinnar eykst á sama tíma og svik fjármálaráðherra við heimilin og fyrirtækin eru afhjúpuð.

Raunar er stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum óútskýranleg. Sama ríkisstjórnin og vill ganga í ESB berst nú fyrir því að fiskveiðistjórnunarkerfið – sem er í raun helsta tromp okkar í samningaviðræðum við ESB – verði lagt í rúst. Þetta er eins og öfugmælavísa.

Ögmundur kominn á jötuna

Einu sinni var Ögmundur Jónasson í fylkingarbrjósti Sigtúnshópsins, sem hafði farið illa út úr misgengi launa og lána. Þá hafði Ögmundur réttlætiskennd og barðist fyrir málstað þeirra, sem svínað var á. Nú situr Ögmundur í ríkisstjórn, sem er búin að afsala hagvexti næstu ára í hendur útlendra spákaupmanna. Ögmundur hefur lagt blessun sína yfir þá gjörð Steingríms J. Sigfússonar að afhenda mörg hundruð milljarða, sem áttu að fara í leiðréttingar lána, beint til hrægamma á Wall Street. Það er greinilegt að Sigtúnshópur Ögmundar er búinn að koma ár sinni vel fyrir borð og sennilega hefur enginn úr hópnum lánað börnum sínum veð til íbúðakaupa.

Tilvonandi fyrrverandi ráðherrar

Jóhanna Sigurðardóttir lætur eins og hún sé hokin með kústinn að sópa burt vandanum, sem hún og Steingrímur J. fengu í arf eftir „hrunflokkana“ og „hrunstjórnina“. Hún lætur þess ógetið að hún gegndi lykilráðherraembætti í „hrunstjórninni“. Það var hún, sem keyrði Íbúðalánasjóð áfram í aukin útlán 2008 eftir að hafa skuldbundið sig til að draga úr útlánum sjóðsins. Það var skilyrði af hálfu norrænna seðlabanka fyrir lánafyrirgreiðslu við Seðlabanka Íslands að dregið yrði úr umsvifum ÍLS. Jóhanna lofaði að verða við því en sveik það loforð – ekki fyrsta og ekki síðasta loforðið, sem hún svíkur.

Já, Steingrímur J. er fyrrverandi tilvonandi erfðaprins Alþýðubandalagsins. Stelpan frá Stokkseyri setti strik í reikninginn hjá honum og í kjölfarið stofnaði hann VG til að fá nú einhvers staðar að vera formaður. Nú getur þjóðin huggað sig við að ekkert varir að eilífu. Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og aðrir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eru blessunarlega tilvonandi fyrrverandi ráðherrar. Fólkið í biðröðinni eftir matargjöfum getur yljað sér við þá tilhugsun, að það eru ekki nema tæp tvö ár í mesta lagi þar til kjósendur fá tækifæri til að sparka skussunum út. Þessi ríflega 99 prósent, sem ekki fá úrlausn sinna mála hjá Umboðsmanni skuldara, bíða án efa spennt eftir því að fá tækifæri til að láta ráðherra þessarar ríkisstjórnar og stuðningsmenn hennar á Alþingi axla pólitíska ábyrgð.23.okt. 2015 - 11:58 Ólafur Arnarson

Strákarnir úr verkó spjara sig

Nei, ekki strákarnir úr verkamannabústöðunum, heldur strákarnir úr verkfræðinni í Háskólanum. Þeir hafa aldeilis staðið sig, félagarnir. Það sanna dæmin.
28.jan. 2015 - 14:43 Ólafur Arnarson

Hvað hyggst Hæstiréttur fyrir?

Al Thani málið var flutt í Hæstarétti í byrjun þessarar viku. Raunar vekur nokkra furðu að Hæstiréttur skyldi láta flytja málið í stað þess að vísa því aftur til meðferðar í héraðsdómi. 
18.feb. 2014 - 14:31 Ólafur Arnarson

Aðeins meira um viðtalið

Ég setti litla stöðufærslu á Facebook ás sunnudaginn, þar sem ég gagnrýndi Gísla Martein Baldursson þáttastjórnanda hjá RÚV yfir framgöngu sína í viðtali sem hann tók við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þennan sama dag. Ég skrifaði að Gísli Marteinn hefði verið eins og skrækur og glefsandi smáhundur.
24.jan. 2014 - 17:47 Ólafur Arnarson

Varnarræða verðtryggingar

Meirihluti starfshóps sem falið var að koma með tillögur um afnám verðtryggingar af neytendalánum hér á landi í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og þingsályktunartillögu, sem Alþingi samþykkti 28. júní 2013, kaus að leggja fram tillögur um viðhald verðtryggingar í stað þess að fara eftir skipunarbréfi hópsins og leggja fram tímasetta áætlun um afnám hennar.
10.sep. 2013 - 11:04 Ólafur Arnarson

Fúskarinn í Seðlabankanum hlóð í snjóhengjuna og skapaði skotleyfið

Ef seðlabankastjórinn hefði verið í vinnunni eða ráðið við starf sitt væri það Seðlabankinn, sem ætti kröfurnar á gömlu bankana og þar með nýju bankana, en ekki gammarnir.
26.apr. 2013 - 11:14 Ólafur Arnarson

Stjórn gegn heimilunum?

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi frá Akranesi, greinir frá því í pistli á Pressunni að honum hafi borist upplýsingar um að hafnar séu viðræður um myndun þriggja flokka ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Þetta sama hef ég heyrt eftir heimildum sem ég tek mark á.
11.apr. 2013 - 11:58 Ólafur Arnarson

Stöngin inn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, settist í yfirheyrslustólinn hjá fréttamönnum RÚV í gærkvöldi. Svo sem við var að búast var hann aðallega spurður um tillögur flokksins um skuldaleiðréttingu heimilanna og milljarðana sem hann vill sækja til bankanna.
08.mar. 2013 - 14:55 Ólafur Arnarson

Þrætubókarlist fyrir lengra komna

Af síðasta pistli Þórólfs Matthíassonar hér á Pressunni verður ekki annað skilið en að hagfræðiprófessorinn sé kominn í hörku rifrildi við sjálfan sig þegar horft er til fyrri skrifa hans um núvirðingu.
05.mar. 2013 - 14:37 Ólafur Arnarson

Lestrarkennsla fyrir byrjendur?

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor birtir mikinn langhund hér á Pressunni í gær til að réttlæta Krýsuvíkurleiðina sem hann og Kristinn H. Gunnarsson kjósa að fara við núvirðingu lána.
02.mar. 2013 - 12:02 Ólafur Arnarson

Kann Robert Shiller ekki að reikna, Þórólfur?

Þórólfur Matthíasson er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Raunar segir sagan að matsnefnd hafi hafnað honum sem óhæfum í starfið á sínum tíma. Þá hafi önnur og umburðarlyndari matsnefnd verið sett í að fara yfir málið og hún hafi gefið honum heimild til að skreyta sig með hinum akademíska starfstitli. Í hjáverkum fæst hann við dómsdagsspádóma og föðurlegar umvandanir.
28.feb. 2013 - 15:23 Ólafur Arnarson

Akademísk ruslakista?

Það er vissulega áhyggjuefni ef hagfræðideild Háskóla Íslands er einhvers konar akademísk ruslakista með þann tilgang helstan að standa vörð um verðtryggingu með öllum tiltækum og ótiltækum ráðum.
23.feb. 2013 - 10:38 Ólafur Arnarson

Kristinn H. Gunnarsson fer með rangt mál

Í pistli sem birtist hér á Pressunni í fyrradag, 21. febrúar, sakar Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness um ósanningi og villandi málflutning.
25.jún. 2012 - 11:30 Ólafur Arnarson

Hvaða spurningar var Þóra hrædd við?

Í gærkvöldi [fyrrakvöld] hafði Stöð 2 aftur samband við mig og tjáði mér að framboð Þóru Arnórsdóttur hefði gert athugasemdir við að ég sitji í þessum panel þar sem ég væri andsnúinn framboði hennar. Því væri verið að endurskoða panelinn. Í dag [gær] var mér tilkynnt að hætt hefði verið við að hafa panelinn í þættinum. Upphaflega hafði ekki verið gert ráð fyrir panel í þessum þætti og því er eðlilegt að Stöð 2 hætti við að gera breytingar á þættinum, sem frambjóðendur gera athugasemdir við.
16.jún. 2012 - 14:30 Ólafur Arnarson

Evrópa upplifir íslenskan veruleika

Leiðin út úr kreppunni á evrusvæðinu felst hins vegar ekki í því að breyta skuldum einkabanka í þjóðarskuldir. Hún felst í því að viðurkenna vond útlán banka sem töpuð og afskrifa þau frekar en að setja heilu þjóðirnar að veði til að þýskir bankar og bandarískir vogunarsjóðir geti haldið upp á jólin með stæl. Að því leytinu til er sterkur samhljómur á milli ástandsins í Evrópu og ástandsins hér á Íslandi. Leiðin til endurreisnar felst ekki í því að hengja skuldamyllusteininn um háls heimilanna heldur liggur hún um allt aðra götu. Í þeirri götu axla bankar og aðrar fjármálastofnanir afleiðingar af óvarkárum útlánum og eigin spákaupmennsku en ekki heimilin eða skattgreiðendur. Þá skapast von fyrir endurreisn og góðan hag raunhagkerfisins, sem á endanum þarf að standa undir lífskjörum í hverju landi.
14.jún. 2012 - 14:30 Ólafur Arnarson

Nýr vefmiðill hefur göngu sína

Á þessum tímamótum vil ég þakka Birni Inga, Arnari Ægissyni og öðrum starfsmönnum Pressunnar fyrir ákaflega ánægjulegt samstarf undanfarin þrjú ár. Það samstarf hefur verið hnökralaust og hvergi fallið skuggi á. Það er með eftirsjá sem ég kveð Pressuna til að setja á fót minn eigin vefmiðil. Ég tel samt að það sé rétta skrefið fyrir mig vegna þess að ég tel mig geta sinnt skrifum mínum og samfélagsgagnrýni betur á mínum eigin miðli þar sem ég er ekki bundinn af pistlaforminu.

Björn Ingi hefur góðfúslega boðið mér að pistlar mínir, sem hér eftir munu birtast á Tímarími, birtist enn um sinn líka hér á Pressunni. Fyrir það er ég þakklátur. Ég óska félögum mínum á Pressunni alls hins besta.
12.jún. 2012 - 14:01 Ólafur Arnarson

Hvað gera fjórmenningarnir við Steingrím?

Nú er komið á daginn að ríkið þarf ekki að leggja 11 milljarða með SpKef inn í Landsbankann heldur 25 milljarða. Ákvörðunin um að halda rekstri Sparisjóðs Keflavíkur áfram eftir að eiginfjárhlutfall hans var komið undir lögbundin mörk, í stað þess að setja hann í slitameðferð, hefur semsagt kostað skattgreiðendur 30 milljarða. Sparisjóður Keflavíkur var ekki kerfislega mikilvægur banki. Það var engin ástæða til að halda rekstri hans áfram. Þetta er dýrt spaug hjá Steingrími J. Sigfússyni, sem hann getur ekki kennt bankahruninu 2008 um vegna þess að eftir að tekið hafði verið tillit til áhrifa þess var eigið fé Sparisjóðs Keflavíkur 5,4 milljarðar. Það eru ákvarðanir Steingríms sem hafa valdið ríkissjóði – og þar með skattgreiðendum – þessu 30 milljarða tjóni.
06.jún. 2012 - 14:30 Ólafur Arnarson

Hvað með vændiskaupandann?

Eðlilegt væri að Héraðsdómur Reykjavíkur setti Grím af sem skiptastjóra í þrotabúi Milestone þar til fullnægjandi skýring hefur komið fram um það í hvaða tilgangi og í hvers þágu hann greiddi næstum 30 milljónir fyrir 17 blaðsíðna skýrslu innan úr embætti sérstaks saksóknara. Raunar virðist full ástæða fyrir héraðsdómstóla að setja fyrirvara við skipan Gríms sem skiptastjóra þrotabúa almennt í ljósi framgöngu hans og þess að hann hefur sjálfstætt viðskiptasamband við Arion banka.
31.maí 2012 - 11:34 Ólafur Arnarson

Prófessorinn heldur ekki þræði

Samrýmist það markmiðum Háskóla Íslands um að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi að vera með starfandi prófessor sem dæmdur hefur verið fyrir bæði ritþjófnað og rógburð og stundar helst þau skrif að senda lesendabréf í erlend blöð, þegar hann er ekki upptekinn við að safna saman verkum annarra eða níða skóinn af náunganum?
30.maí 2012 - 16:15 Ólafur Arnarson

Prófessorinn samur við sig

Er ekki óvenjulegt að háskólaprófessorar séu með svo fáar birtar greinar í viðurkenndum vísindatímaritum? Í mörgum háskólum eru gerðar kröfur um að prófessorar og aðrir kennarar birti reglulega greinar í virtum fræðitímaritum. Í mörgum deildum Háskóla Íslands eru gerðar ríkar kröfur til prófessora. Stjórnmálafræðin er kannski undantekning frá reglunni? Kannski dugar hótfyndni til að fá framgang í þeirri deild?
28.maí 2012 - 17:30 Ólafur Arnarson

Þöggunarkefli eða gjallarhorn?

En kannski þykir LÍÚ það fullmikið að láta mig verjast í fleiri en einu meiðyrðamáli í einu. Þá er hætt við að þöggunarkeflið breytist í gjallarhorn. Og þá er nú gott að geta kallað í prófessor Hannes sem aldrei hefur brugðist kallinu. Hann getur snúið guðspjallinu upp á andskotann og reynt að útmála mig sem marxista.
22.maí 2012 - 15:01 Ólafur Arnarson

Marx og Lenín í útgerð á Íslandi?

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að treysta markaðinum til að miðla upplýsingum um bæði framboð og eftirspurn. Nei, það sér hver maður að miklu skilvirkara er að útgerðin hafi þetta allt á sinni hendi. Tuttugasta öldin sýndi líka og sannaði yfirburði miðstýringar og áætlunarbúskapar framyfir markaðshagkerfið. Öll þekkjum við söguna um Bandaríkin og Vestur-Evrópu sem markaðshagkerfið hneppti í ánauð fátæktar og vöruskorts á meðan frjáls lýðurinn í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu naut ávaxta miðstýrðs áætlunarbúskapar að hætti þeirra félaga Marx og Leníns – hinna miklu hugsuða, sem höfðu svo mikla innsýn í þarfir neytenda að þeir hefðu líkast til plumað sig vel sem útgerðarmenn á Íslandi. Í öllu falli skildu þeir mikilvægi þess að halda virðiskeðjunni óslitinni á einni hendi.
15.maí 2012 - 16:15 Ólafur Arnarson

Gott hjá Ólínu

Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að menn verji hagsmuni sína. Þessar auglýsingar, sem tala máli LÍÚ, minna mig hins vegar óþægilega mikið á gíslamyndböndin, sem voru algeng hér á árum áður þegar hryðjuverkasamtök í mið-austurlöndum tóku gísla og létu þá lofsyngja málstað samtakanna framan í myndavél og grátbiðja stjórnvöld um að verða við kröfum þeirra. Engum kemur til hugar að þar hafi gíslarnir talað frá hjartanu nema þá kannski þeir sem þjáðir voru orðnir af hinu alræmda Stokkhólmsheilkenni. En ég er vitanlega ekki að líkja LÍÚ við mið-austurlensk hryðjuverkasamtök.
10.maí 2012 - 16:20 Ólafur Arnarson

Nú er nóg komið!

Þetta er undir okkur sjálfum komið. Ef við sitjum bara heima og bölvum í hljóði gerist ekki neitt. Þá komast bankarnir upp með hvað sem er. Þá borgum við stökkbreyttu lánin og kaupaukana hjá rukkurunum.
09.maí 2012 - 18:01 Ólafur Arnarson

Skuggastjórnendur Sjálfstæðisflokksins?

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mikinn tíma til að snúa við blaðinu og sýna í verki að henni sé alvara með að fylgja stefnu flokksins en ekki vernda sérhagsmuni skuggastjórnendanna. Sé þá einhver alvara í málinu. Það dugar ekki að koma með friðþægingu rétt fyrir kosningar. Það hvílir mikil ábyrgð á þeim sem veljast til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Kjósendur gera meiri kröfur til hans en annarra flokka. Betur má ef duga skal.
08.maí 2012 - 15:30 Ólafur Arnarson

Dodge eða norræn velferð?

Væri hér á Íslandi efnahagsbrotalögregla og fjármálaeftirlit, sem ekki væru með störu á baksýnisspegilinn, myndu þessir aðilar ráðast inn í bankana og fjármálafyrirtækin og stöðva þá löglausu starfsemi, sem þar fer fram. Fólkið í Armani fötunum og Dior drögtunum væri leitt út í járnum og látið svara fyrir gjörðir sínar og aðgerðaleysi.
02.maí 2012 - 19:01 Ólafur Arnarson

Atvinnubótavinna fyrir eftiráspekinga?

Annað hvort átta félagarnir úr viðskiptadeild Háskóla Íslands sig ekki á þessu eða þeim stendur á sama. Verðmat þeirra á Aurum Holding byggir á eftiráspekinni, sem er svo vinsæl hér á landi nú um stundir. Í ljósi þess fjandskapar sem Gylfi Magnússon hefur opinskátt sýnt gagnvart stjórnendum föllnu bankanna er full ástæða til að taka verðmati hans af fullri tortryggni. Þá er ástæða til að leita staðfestingar á fullyrðingum mannsins, sem sagði Alþingi ósatt um gengislánin og þurfti að gjalda fyrir með embættismissi.
01.maí 2012 - 20:49 Ólafur Arnarson

Takk fyrir það, þingmenn!

Frá því að landsfundur sjálfstæðisflokksins samþykkti að afnema skyldi verðtryggingu af neytendalánum hafa verðtryggð lán heimilanna hækkað um meira en 40 milljarða – bara svona rétt á meðan þingflokkurinn er að skoða málin og berjast fyrir hagsmunum LÍÚ. Frá hruni eru þetta næstum 300 milljarðar.
27.apr. 2012 - 17:03 Ólafur Arnarson

Er Gylfi réttur maður?

Gylfi lét af ráðherraembætti 2. september 2010, eftir að hafa orðið uppvís að því að segja þinginu ósatt um gengislánin, en honum hafði verið ljóst allt frá vori 2009 að verulegur vafi hið minnsta léki á lögmæti þeirra þótt hann segði Alþingi annað. Í stuttu máli má segja að hann hafi verið látinn hætta sem ráðherra í byrjun september vegna þess að fyrirsjáanlegt var að ella myndi Alþingi á hann vantraust vegna ósannsöglinnar um leið og þing kæmi saman nokkrum dögum síðar.
26.apr. 2012 - 15:01 Ólafur Arnarson

Afkoman er tvöfalt betri

Í þessu litla dæmi sjáum við að afkoma útgerðarinnar, sem selur sinn fisk á markaði, er meira en tvöfalt betri en afkoma þeirrar sem veitir aflanum áfram til eigin vinnslu á skiptaverði Verðlagsstofu. Það er ekki nóg með að framlegð og afkoma útgerðarinnar brenglist mjög þegar skiptaverðið er notað heldur sjáum við glögglega að þessi tvöfalda verðlagning hefur gríðarleg áhrif á aflahlut sjómanna og hafnargjöld, sem renna til sveitarfélaga. Hér er ekki horft á óbeina þætti s.s. tekjuskatt og útsvar sjómanna og skattgreiðslur útgerða.
25.apr. 2012 - 13:01 Ólafur Arnarson

Málamyndaréttarfar?

Geir hefur sjálfur viðurkennt að hafa gert mistök og sjálfsagt er vandfundinn sá stjórnandi sem ekki gerði mistök í aðdraganda bankahruns. Það er mannlegt að gera mistök. Stærstu mistök Geirs felast sjálfsagt í því að halda hlífiskildi yfir seðlabankastjóranum, sem Geir sjálfur vissi að ekki var mark á takandi. Manninum, sem svo kom fyrir Landsdóm og varð stjörnuvitni saksóknara gegn Geir. Illa launaði Davíð Oddsson velgjörð Geirs, sem fórnaði ríkisstjórn sinni til að Davíð þyrfti ekki að axla ábyrgð sína sem versti seðlabankastjóri nýrrar aldar. Í þeirra boði sitjum við nú uppi með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er þungur kross að bera en fyrir það var ekki ákært í Landsdómsmálinu.
17.apr. 2012 - 16:01 Ólafur Arnarson

Jóhannes aftur á matvörumarkaðinn?

Þegar Jóhannesi var bolað út úr Högum eignaðist hann hlut í færeyskri matvörukeðju, sem hann hefur nú selt. Einhverjar vangaveltur hafa verið um að hann hyggist nota afraksturinn af þeirri sölu til að hasla sér nýjan völl á íslenskum smásölumarkaði. Endurkoma Jóhannesar í Bónus væri happafengur fyrir íslenska neytendur. Jóhannes er kaupmaður af lífi og sál. Það þekkja þakklátir íslenskir neytendur. Ekki veitir af lágvöruverðsverslun, sem sannur kaupmaður stýrir en ekki atvinnufjárfestar.
13.apr. 2012 - 15:31 Ólafur Arnarson

Bretar brenna sig á sérstökum saksóknara

Það verður væntanlega bið á því að SFO rjúki í viðamiklar húsleitir og handtökur á grunni upplýsinga frá sérstökum saksóknara á Íslandi. Brennt barn forðast eldinn. Hvenær ætli íslenskir dómstólar taki þá bresku sér til fyrirmyndar og hætti að vera gúmmístimpill fyrir sérstakan saksóknara?
12.apr. 2012 - 14:50 Ólafur Arnarson

Blessuð sé minning hennar

Ein og sér er þessi ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB gild ástæða til að snúast gegn aðild Íslands að ESB. Ekki vegna þess að hún sé Íslandi fjandsamleg, sem hún vissulega er, heldur vegna þess að hún bendir til þess að framkvæmdastjórnin sé ófær um að taka skynsamlegar ákvarðanir með hagsmuni ESB að leiðarljósi.
08.apr. 2012 - 14:36 Ólafur Arnarson

Jafnréttisþankar á páskum

Við getum ekki flutt meðgöngu og barnsburð af konum yfir á karla en við getum látið karla taka að sér ýmsar skyldur og fjarvistir frá vinnu, sem til skamms tíma hafa verið hlutskipti kvenna. Við getum tryggt að þegar barn fæðist sé það ekki einungis móðirin, sem þarf að hverfa af vinnumarkaði um stund, heldur líka faðirinn. Virkt fæðingarorlof karla mun einnig stuðla að virkari þátttöku feðra í ummönnun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur. Faðir, sem annast hefur barn sitt í fæðingarorlofi, er líklegri til að vera heima yfir því veiku heldur en sá, sem aldrei hefur þurft að sinna barni sínu einn.
04.apr. 2012 - 17:01 Ólafur Arnarson

Gylfaginning hin seinni?

Gylfi Arnbjörnsson á að vita betur en svo að láta draga sig á asnaeyrum í máli sem snýst meira um samkeppni á flugmarkaði en kjarasamninga. Vissulega eru íslenskar flugfreyjur að sönnu yndislegar og nánast eins og gyðjur og ávallt er eins og maður sé kominn alla leið heim þegar þær bjóða mann velkominn um borð í íslenska flugvél eftir langferðir erlendis, en er mögulegt að þær hafi ginnt Gylfa líkt og ásynjurnar ginntu nafna hans svo sem Snorri segir frá í Gylfaginningu? Er kannski rétt að tala nú um Gylfaginningu, hina seinni?
03.apr. 2012 - 15:01 Ólafur Arnarson

Er ráðuneytið deild innan LÍÚ?

Einnig gæti efnahags- og viðskiptaráðherra krafið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skýringar á því hver stjórnskipuleg staða Sjávarútvegsráðuneytisins er. Er það sjálfstætt ráðuneyti eða er búið að koma því fyrir í skipuriti LÍÚ? Kröfugerðin til SKE bendir til þess ráðuneyti sjávarútvegs heyri undir boðvald LÍÚ en ekki öfugt.
30.mar. 2012 - 15:30 Ólafur Arnarson

Takk fyrir okkur!

Ekki fáum við að vita hvaða efni Kjartan hefði valið mér vegna þess að á lokadegi keppninnar barst áheit upp á 70 þúsund krónur frá Auðuni Má Guðmundssyni. Auðun á því hæsta áheitið og fær að velja mér umfjöllunarefni í einum pistli, sem væntanlega verður skrifaður á næstunni. Ég hef ekki enn fengið fyrirmæli frá Auðuni. Þegar sá pistill birtist verður þess að sjálfsögðu getið að hann sé skrifaður gegn stuðningsframlagi til Krabbameinsfélagsins.
29.mar. 2012 - 16:19 Ólafur Arnarson

Aðeins klukkutími eftir!

Þetta breytir samt ekki því að það eru auðvitað viss vonbrigði að það skuli virkilega ekki vera einhver stórbokki þarna úti sem er til í að borga a.m.k. 100 þúsund kall fyrir pistil að eigin vali. En, svona er mikið að marka sorpmiðlana í þessu landi.
26.mar. 2012 - 13:30 Ólafur Arnarson

Leigupenni í boði - einstakt tækifæri!

En hugmyndin er góð. Ef það er svona mikill áhugi á að leigja pennann minn býð ég hann hér með til leigu til styrktar góðu málefni. Takist liðinu, The Sellecks, að safna 50 þúsund krónum alls fyrir Krabbameinsfélagið með áheitum áður en söfnuninni lýkur um næstu helgi mun ég skrifa einn pistil fyrir þann sem mestu hefur heitið á liðið, hvort sem áheitin hafa verið á mig, Örn son minn eða liðið sjálft. Öll áheit á okkur feðga teljast til áheita á liðið. Leigjandinn fær að velja efni pistilsins (innan eðlilegra velsæmismarka að sjálfsögðu).
20.mar. 2012 - 17:01 Ólafur Arnarson

Verðmætum kastað í sjóinn

Í kvótakerfinu felst ríkisstuðningur við þau fyrirtæki, sem fá úthlutað aflaheimildum. Engin rök standa til þess að leyfa þessum fyrirtækjum að njóta sérkjara á framleiðslumarkaði þar sem þau keppa við sjálfstæða framleiðendur. Þegar við blasir að þetta fyrirkomulag er beinlínis skaðlegt fyrir þjóðarbúið í heild hljóta ráðamenn að leggjast á eitt til að lagfæra kerfið.

Ólafur Arnarson
Ólafur Arnarson er fæddur í Reykjavík 1963. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1983 hóf hann nám við Háskóla Íslands. Hann flutti sig um set til New York og lauk BBA prófi í hagfræði frá Baruch College við City University of New York árið 1989.

Meðfram námi var Ólafur fréttaritari DV í New York. 1989 – 90 starfaði Ólafur sem fréttamaður í afleysingum á fréttastofu Ríkissjónvarpsins og sem fréttaritari RÚV í New York. Vorið 1990 tók Ólafur við starfi framkvæmdastjóra þingflokks sjálfstæðismanna og gegndi því starfi þar til hann tók við starfi aðstoðarmanns menntamálaráðherra í ágúst 1991.

Haustið 1994 hóf Ólafur MBA nám við Owen Graduate School of Management við Vanderbilt háskóla í Nashville í Tennessee fylki í Bandaríkjunum. Að námi loknu, 1996, réð hann sig sem fjármálastjóra í heilsuvörudeild Procter & Gamble í Frankfurt í Þýskalandi. 1998 flutti hann sig um set og tók við starfi í hlutabréfaafleiðudeild Dresdner Kleinwort Benson fjárfestingabankans í London. Seint á árinu 1999 tók hann við framkvæmdastjórastarfi hjá Lehman Brothers í London og stýrði eignastýringu fyrir Norðurlönd.

2003 flutti Ólafur ásamt fjölskyldu sinni aftur heim til Íslands. Hann hefur starfað með íslenskum fyrirtækjum í tengslum við fjárfestingar í Bretlandi og Skandinavíu. Einnig hefur hann tekið að sér verkefni fyrir banka og fjármálastofnanir. Þá hefur Ólafur unnið með alþjóðlegum eignastýringarfyrirtækjum, sem leitað hafa fyrir sér með viðskipti við íslenska fagfjárfesta. Árið 2008 starfaði Ólafur að viðskiptaþróun hjá Landic Property.

Ólafur skrifaði bókina „Sofandi að feigðarósi“, sem JPV útgáfa gaf út í apríl 2009. Þetta var fyrsta bókin, sem beinlínis var skrifuð um bankahrunið haustið 2008 og fór hún beint í fyrsta sæti metsölulista Eymundsson og sat þar sleitulaust næstu 6 vikur.

Ólafur er kvæntur Sólveigu Sif Hreiðarsdóttur viðskiptafræðingi og eiga þau fjögur börn.

Vinsælustu pistlar
Ólafs Arnarsonar
Pressuúttektir
Ólafur Arnarson
 1. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fjárlagafrumvarp Steingríms J. byggir á óskhyggju
 2. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave bjargaði Ögmundi - ríkisstjórnin líka hólpin
 3. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Bankarnir brjóta eigin reglur - og komast upp með það
 4. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ræða Obama í nótt: Mótum framtíðina en óttumst hana ekki
 5. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Viljum við missa þetta fólk? Megum við missa það?
 6. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þetta eru andlitin á bak við skuldirnar, kæra Jóhanna
 7. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ætlum við að drepa okkur?
 8. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hverjir ættu að biðjast afsökunar - og á hverju?
 9. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fellur ríkisstjórnin? Hverjir yrðu þá ráðherrar?
 10. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Sjálfseyðingarhvöt Íslendinga
 11. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Köld eru kvennaráð
 12. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Íslendingar borga ekki Icesave...einir!
 13. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hin vanhelgu vé Davíðs, Kjartans og Björgólfsfeðga
 14. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Umsóknin samþykkt - hvað nú?
 15. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave margfalt verri en Versalasamningurinn
 16. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þarf alltaf að byrja að skera á Grensás?
 17. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Spron var tekinn af lífi
 18. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Trúgirni og átrúnaður Íslendinga
 19. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ó vakna þú mín Þyrnirós...
 20. Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hvernig varð Seðlabankinn gjaldþrota?
Sjá fleira
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 06.4.2018
Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 05.4.2018
Dröslaði bróður mínum í kirkju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Hvað segi ég í Las Vegas?
Sverrir Björn Þráinsson
Sverrir Björn Þráinsson - 05.4.2018
Hjónin Laufey og Bjarki losuðu sig við 33 kg á 12 vikum
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 31.3.2018
Heimsókn Øverlands
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 29.3.2018
„Heyrðu“
Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson - 05.4.2018
Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 07.4.2018
Málið okkar
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 09.4.2018
RÚV er tímaskekkja
Davíð Már Kristinsson
Davíð Már Kristinsson - 27.3.2018
Dymbilvika
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir - 06.4.2018
Skömmin
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 14.4.2018
Grafir án krossa
Brynjar Nielsson
Brynjar Nielsson - 17.4.2018
Grímulaus pólitík
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson - 21.4.2018
Þrjár örlagasögur
Fleiri pressupennar