18. mar. 2012 - 18:35Ólafur Arnarson
Bravo! Bravi! Bravissimo!

Uppfærsla Íslensku óperunnar á
La Bohème eftir Giacomo Puccini í Hörpu er einu orði sagt dásamleg. Við hjónin ákváðum að láta ekki þessa rómantískustu óperu sem til er fara framhjá okkur, klæddum okkur upp og áttum ógleymanlegt föstudagskvöld í sannkallaðri veislu sem dekraði við bæði augu og eyru.
Uppsetningin er stórfengleg og þetta er stærsta og glæsilegasta uppsetning sem ég hef séð á þessari fallegu óperu. Ég verð að viðurkenna að þetta er einfaldlega einhver glæsilegasta sýning sem ég hef séð í nokkru sýningarhúsi. Leikmynd, búningar, tónlistarflutningur og leikstjórn bera fagmennsku og hugmyndaauðgi aðstandenda sýningarinnar fagurt vitni.
Bergþór Pálsson kemur fram í tveimur hlutverkum, sem bæði kalla meira á leikhæfileika en sönghæfileika og Bergþór sannaði að honum er ekkert að vanbúnaði hvort heldur sem er í leik eða söng. Herdís Anna Jónasdóttir syngur hina daðrandi Musettu og gerir það vel. Ágúst Ólafsson, Hrólfur Sæmundsson og Jóhann Smári Sævarsson skila sínu með sæmd, en þeir syngja hlutverk vina Rodolfos.
Ég beið spenntur eftir að heyra í Gissuri Páli Gissurarsyni og Huldu Björk Garðarsdóttur í hlutverkum Rodolfos og Mimi, elskendanna, sem saman og sitt í hvoru lagi syngja í þessari óperu einhverjar þær fallegustu aríur og dúetta sem óperusagan geymir.
Og þvílík upplifun! Þau voru bæði hreint út sagt frábær. Það var unun að hlusta á Huldu Björk fara með hlutverk hinnar berklaveiku Mimi. Röddin falleg og söngurinn tær og tilfinningaþrunginn. Ég táraðist þegar hún söng aríuna
Mi chiamano Mimi.
Gissur Páll er að stíga sín fyrstu skref í burðahlutverki og það var sérstök upplifun að fá að hlusta á hann í þessu glæsilega tónlistarhúsi. Rödd hans er einhver sú tærasta og tónfegursta tenórrödd sem ég hef nokkru sinni heyrt. Hann hefur þetta „klang“ sem ekki er öllum gefið. Það er ekki hægt að lýsa því – maður bara þekkir það þegar maður heyrir það. Pavarotti hafði þetta sama „klang“. Gissur er vitanlega ekki jafn kraftmikill söngvari og Pavarotti enda stærðarmunurinn mikill. Líklega hægt að nota yfirhafnir Pavarottis sem neyðartjöld í fjölmennum flóttamannabúðum. Það kemur hins vegar engan veginn að sök og maður fær gæsahúð þegar hann syngur aríuna frægu í 1. þætti,
Che gelida manina. Ég fullyrði að Gissur Páll er ný stórstjarna!
Sennilega er hápunktur sýningarinnar dúettinn, sem Rodolfo og Mimi syngja saman í lok 1. þáttar,
O soave fanciulla. Gæsahúð í gegn!

Það skemmdi ekki fyrir að leikurinn var frábær. Óneitanlega er Gissur Páll trúverðugri í hlutverki sveltandi rithöfundar en Pavarotti var nokkurn tíma. En það var ekki bara það. Greinilega hefur leikstjórinn unnið gríðarlega gott verk og allir söngvararnir léku frábærlega. Fyrir vikið urðu hughrifin af tónlistinni meiri en ella.
Ég óska Stefáni Baldurssyni óperustjóra og öllu hans fólki til hamingju með þessa stórglæsilegu uppfærslu á uppáhaldsóperu minni og svo margra annarra. Hljómburðurinn í Eldborgarsal Hörpu er óviðjafnanlegur og tóngæðin frábær. Ég hvet alla, sem þess eiga kost, að tryggja sér miða á þessa frábæru óperu. Mér skilst að sýningar verði aðeins sex. Enginn sannur tónlistarunnandi má missa af La Bohème í Íslensku óperunni.
Hvað getur maður sagt annað en:
Bravo! Bravi! Bravissimo!
23.okt. 2015 - 11:58
Ólafur Arnarson
Nei, ekki strákarnir úr verkamannabústöðunum, heldur strákarnir úr verkfræðinni í Háskólanum. Þeir hafa aldeilis staðið sig, félagarnir. Það sanna dæmin.
28.jan. 2015 - 14:43
Ólafur Arnarson
Al Thani málið var flutt í Hæstarétti í byrjun þessarar viku. Raunar vekur nokkra furðu að Hæstiréttur skyldi láta flytja málið í stað þess að vísa því aftur til meðferðar í héraðsdómi.
18.feb. 2014 - 14:31
Ólafur Arnarson
Ég setti litla stöðufærslu á Facebook ás sunnudaginn, þar sem ég gagnrýndi Gísla Martein Baldursson þáttastjórnanda hjá RÚV yfir framgöngu sína í viðtali sem hann tók við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þennan sama dag. Ég skrifaði að Gísli Marteinn hefði verið eins og skrækur og glefsandi smáhundur.
24.jan. 2014 - 17:47
Ólafur Arnarson
Meirihluti starfshóps sem falið var að koma með tillögur um afnám verðtryggingar af neytendalánum hér á landi í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og þingsályktunartillögu, sem Alþingi samþykkti 28. júní 2013, kaus að leggja fram tillögur um viðhald verðtryggingar í stað þess að fara eftir skipunarbréfi hópsins og leggja fram tímasetta áætlun um afnám hennar.
10.sep. 2013 - 11:04
Ólafur Arnarson
Ef seðlabankastjórinn hefði verið í vinnunni eða ráðið við starf sitt væri það Seðlabankinn, sem ætti kröfurnar á gömlu bankana og þar með nýju bankana, en ekki gammarnir.
26.apr. 2013 - 11:14
Ólafur Arnarson
Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi frá Akranesi, greinir frá því í pistli á Pressunni að honum hafi borist upplýsingar um að hafnar séu viðræður um myndun þriggja flokka ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Þetta sama hef ég heyrt eftir heimildum sem ég tek mark á.
11.apr. 2013 - 11:58
Ólafur Arnarson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, settist í yfirheyrslustólinn hjá fréttamönnum RÚV í gærkvöldi. Svo sem við var að búast var hann aðallega spurður um tillögur flokksins um skuldaleiðréttingu heimilanna og milljarðana sem hann vill sækja til bankanna.
08.mar. 2013 - 14:55
Ólafur Arnarson
Af síðasta pistli Þórólfs Matthíassonar hér á Pressunni verður ekki annað skilið en að hagfræðiprófessorinn sé kominn í hörku rifrildi við sjálfan sig þegar horft er til fyrri skrifa hans um núvirðingu.
05.mar. 2013 - 14:37
Ólafur Arnarson
Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor birtir mikinn langhund hér á Pressunni í gær til að réttlæta Krýsuvíkurleiðina sem hann og Kristinn H. Gunnarsson kjósa að fara við núvirðingu lána.
02.mar. 2013 - 12:02
Ólafur Arnarson
Þórólfur Matthíasson er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Raunar segir sagan að matsnefnd hafi hafnað honum sem óhæfum í starfið á sínum tíma. Þá hafi önnur og umburðarlyndari matsnefnd verið sett í að fara yfir málið og hún hafi gefið honum heimild til að skreyta sig með hinum akademíska starfstitli. Í hjáverkum fæst hann við dómsdagsspádóma og föðurlegar umvandanir.
28.feb. 2013 - 15:23
Ólafur Arnarson
Það er vissulega áhyggjuefni ef hagfræðideild Háskóla Íslands er einhvers konar akademísk ruslakista með þann tilgang helstan að standa vörð um verðtryggingu með öllum tiltækum og ótiltækum ráðum.
23.feb. 2013 - 10:38
Ólafur Arnarson
Í pistli sem birtist hér á Pressunni í fyrradag, 21. febrúar, sakar Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness um ósanningi og villandi málflutning.
25.jún. 2012 - 11:30
Ólafur Arnarson
Í gærkvöldi [fyrrakvöld] hafði Stöð 2 aftur samband við mig og tjáði mér að framboð Þóru Arnórsdóttur hefði gert athugasemdir við að ég sitji í þessum panel þar sem ég væri andsnúinn framboði hennar. Því væri verið að endurskoða panelinn. Í dag [gær] var mér tilkynnt að hætt hefði verið við að hafa panelinn í þættinum. Upphaflega hafði ekki verið gert ráð fyrir panel í þessum þætti og því er eðlilegt að Stöð 2 hætti við að gera breytingar á þættinum, sem frambjóðendur gera athugasemdir við.
16.jún. 2012 - 14:30
Ólafur Arnarson
Leiðin út úr kreppunni á evrusvæðinu felst hins vegar ekki í því að breyta skuldum einkabanka í þjóðarskuldir. Hún felst í því að viðurkenna vond útlán banka sem töpuð og afskrifa þau frekar en að setja heilu þjóðirnar að veði til að þýskir bankar og bandarískir vogunarsjóðir geti haldið upp á jólin með stæl. Að því leytinu til er sterkur samhljómur á milli ástandsins í Evrópu og ástandsins hér á Íslandi. Leiðin til endurreisnar felst ekki í því að hengja skuldamyllusteininn um háls heimilanna heldur liggur hún um allt aðra götu. Í þeirri götu axla bankar og aðrar fjármálastofnanir afleiðingar af óvarkárum útlánum og eigin spákaupmennsku en ekki heimilin eða skattgreiðendur. Þá skapast von fyrir endurreisn og góðan hag raunhagkerfisins, sem á endanum þarf að standa undir lífskjörum í hverju landi.
14.jún. 2012 - 14:30
Ólafur Arnarson
Á þessum tímamótum vil ég þakka Birni Inga, Arnari Ægissyni og öðrum starfsmönnum Pressunnar fyrir ákaflega ánægjulegt samstarf undanfarin þrjú ár. Það samstarf hefur verið hnökralaust og hvergi fallið skuggi á. Það er með eftirsjá sem ég kveð Pressuna til að setja á fót minn eigin vefmiðil. Ég tel samt að það sé rétta skrefið fyrir mig vegna þess að ég tel mig geta sinnt skrifum mínum og samfélagsgagnrýni betur á mínum eigin miðli þar sem ég er ekki bundinn af pistlaforminu.
Björn Ingi hefur góðfúslega boðið mér að pistlar mínir, sem hér eftir munu birtast á Tímarími, birtist enn um sinn líka hér á Pressunni. Fyrir það er ég þakklátur. Ég óska félögum mínum á Pressunni alls hins besta.
12.jún. 2012 - 14:01
Ólafur Arnarson
Nú er komið á daginn að ríkið þarf ekki að leggja 11 milljarða með SpKef inn í Landsbankann heldur 25 milljarða. Ákvörðunin um að halda rekstri Sparisjóðs Keflavíkur áfram eftir að eiginfjárhlutfall hans var komið undir lögbundin mörk, í stað þess að setja hann í slitameðferð, hefur semsagt kostað skattgreiðendur 30 milljarða. Sparisjóður Keflavíkur var ekki kerfislega mikilvægur banki. Það var engin ástæða til að halda rekstri hans áfram. Þetta er dýrt spaug hjá Steingrími J. Sigfússyni, sem hann getur ekki kennt bankahruninu 2008 um vegna þess að eftir að tekið hafði verið tillit til áhrifa þess var eigið fé Sparisjóðs Keflavíkur 5,4 milljarðar. Það eru ákvarðanir Steingríms sem hafa valdið ríkissjóði – og þar með skattgreiðendum – þessu 30 milljarða tjóni.
06.jún. 2012 - 14:30
Ólafur Arnarson
Eðlilegt væri að Héraðsdómur Reykjavíkur setti Grím af sem skiptastjóra í þrotabúi Milestone þar til fullnægjandi skýring hefur komið fram um það í hvaða tilgangi og í hvers þágu hann greiddi næstum 30 milljónir fyrir 17 blaðsíðna skýrslu innan úr embætti sérstaks saksóknara. Raunar virðist full ástæða fyrir héraðsdómstóla að setja fyrirvara við skipan Gríms sem skiptastjóra þrotabúa almennt í ljósi framgöngu hans og þess að hann hefur sjálfstætt viðskiptasamband við Arion banka.
31.maí 2012 - 11:34
Ólafur Arnarson
Samrýmist það markmiðum Háskóla Íslands um að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi að vera með starfandi prófessor sem dæmdur hefur verið fyrir bæði ritþjófnað og rógburð og stundar helst þau skrif að senda lesendabréf í erlend blöð, þegar hann er ekki upptekinn við að safna saman verkum annarra eða níða skóinn af náunganum?
30.maí 2012 - 16:15
Ólafur Arnarson
Er ekki óvenjulegt að háskólaprófessorar séu með svo fáar birtar greinar í viðurkenndum vísindatímaritum? Í mörgum háskólum eru gerðar kröfur um að prófessorar og aðrir kennarar birti reglulega greinar í virtum fræðitímaritum. Í mörgum deildum Háskóla Íslands eru gerðar ríkar kröfur til prófessora. Stjórnmálafræðin er kannski undantekning frá reglunni? Kannski dugar hótfyndni til að fá framgang í þeirri deild?
28.maí 2012 - 17:30
Ólafur Arnarson
En kannski þykir LÍÚ það fullmikið að láta mig verjast í fleiri en einu meiðyrðamáli í einu. Þá er hætt við að þöggunarkeflið breytist í gjallarhorn. Og þá er nú gott að geta kallað í prófessor Hannes sem aldrei hefur brugðist kallinu. Hann getur snúið guðspjallinu upp á andskotann og reynt að útmála mig sem marxista.
22.maí 2012 - 15:01
Ólafur Arnarson
Það er að sjálfsögðu ekki hægt að treysta markaðinum til að miðla upplýsingum um bæði framboð og eftirspurn. Nei, það sér hver maður að miklu skilvirkara er að útgerðin hafi þetta allt á sinni hendi. Tuttugasta öldin sýndi líka og sannaði yfirburði miðstýringar og áætlunarbúskapar framyfir markaðshagkerfið. Öll þekkjum við söguna um Bandaríkin og Vestur-Evrópu sem markaðshagkerfið hneppti í ánauð fátæktar og vöruskorts á meðan frjáls lýðurinn í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu naut ávaxta miðstýrðs áætlunarbúskapar að hætti þeirra félaga Marx og Leníns – hinna miklu hugsuða, sem höfðu svo mikla innsýn í þarfir neytenda að þeir hefðu líkast til plumað sig vel sem útgerðarmenn á Íslandi. Í öllu falli skildu þeir mikilvægi þess að halda virðiskeðjunni óslitinni á einni hendi.
15.maí 2012 - 16:15
Ólafur Arnarson
Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að menn verji hagsmuni sína. Þessar auglýsingar, sem tala máli LÍÚ, minna mig hins vegar óþægilega mikið á gíslamyndböndin, sem voru algeng hér á árum áður þegar hryðjuverkasamtök í mið-austurlöndum tóku gísla og létu þá lofsyngja málstað samtakanna framan í myndavél og grátbiðja stjórnvöld um að verða við kröfum þeirra. Engum kemur til hugar að þar hafi gíslarnir talað frá hjartanu nema þá kannski þeir sem þjáðir voru orðnir af hinu alræmda Stokkhólmsheilkenni. En ég er vitanlega ekki að líkja LÍÚ við mið-austurlensk hryðjuverkasamtök.
10.maí 2012 - 16:20
Ólafur Arnarson
Þetta er undir okkur sjálfum komið. Ef við sitjum bara heima og bölvum í hljóði gerist ekki neitt. Þá komast bankarnir upp með hvað sem er. Þá borgum við stökkbreyttu lánin og kaupaukana hjá rukkurunum.
09.maí 2012 - 18:01
Ólafur Arnarson
Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mikinn tíma til að snúa við blaðinu og sýna í verki að henni sé alvara með að fylgja stefnu flokksins en ekki vernda sérhagsmuni skuggastjórnendanna. Sé þá einhver alvara í málinu. Það dugar ekki að koma með friðþægingu rétt fyrir kosningar. Það hvílir mikil ábyrgð á þeim sem veljast til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Kjósendur gera meiri kröfur til hans en annarra flokka. Betur má ef duga skal.
08.maí 2012 - 15:30
Ólafur Arnarson
Væri hér á Íslandi efnahagsbrotalögregla og fjármálaeftirlit, sem ekki væru með störu á baksýnisspegilinn, myndu þessir aðilar ráðast inn í bankana og fjármálafyrirtækin og stöðva þá löglausu starfsemi, sem þar fer fram. Fólkið í Armani fötunum og Dior drögtunum væri leitt út í járnum og látið svara fyrir gjörðir sínar og aðgerðaleysi.
02.maí 2012 - 19:01
Ólafur Arnarson
Annað hvort átta félagarnir úr viðskiptadeild Háskóla Íslands sig ekki á þessu eða þeim stendur á sama. Verðmat þeirra á Aurum Holding byggir á eftiráspekinni, sem er svo vinsæl hér á landi nú um stundir. Í ljósi þess fjandskapar sem Gylfi Magnússon hefur opinskátt sýnt gagnvart stjórnendum föllnu bankanna er full ástæða til að taka verðmati hans af fullri tortryggni. Þá er ástæða til að leita staðfestingar á fullyrðingum mannsins, sem sagði Alþingi ósatt um gengislánin og þurfti að gjalda fyrir með embættismissi.
01.maí 2012 - 20:49
Ólafur Arnarson
Frá því að landsfundur sjálfstæðisflokksins samþykkti að afnema skyldi verðtryggingu af neytendalánum hafa verðtryggð lán heimilanna hækkað um meira en 40 milljarða – bara svona rétt á meðan þingflokkurinn er að skoða málin og berjast fyrir hagsmunum LÍÚ. Frá hruni eru þetta næstum 300 milljarðar.
27.apr. 2012 - 17:03
Ólafur Arnarson
Gylfi lét af ráðherraembætti 2. september 2010, eftir að hafa orðið uppvís að því að segja þinginu ósatt um gengislánin, en honum hafði verið ljóst allt frá vori 2009 að
verulegur vafi hið minnsta léki á lögmæti þeirra þótt hann segði Alþingi annað. Í stuttu máli má segja að hann hafi verið látinn hætta sem ráðherra í byrjun september vegna þess að fyrirsjáanlegt var að ella myndi Alþingi á hann vantraust vegna ósannsöglinnar um leið og þing kæmi saman nokkrum dögum síðar.
26.apr. 2012 - 15:01
Ólafur Arnarson
Í þessu litla dæmi sjáum við að afkoma útgerðarinnar, sem selur sinn fisk á markaði, er meira en tvöfalt betri en afkoma þeirrar sem veitir aflanum áfram til eigin vinnslu á skiptaverði Verðlagsstofu. Það er ekki nóg með að framlegð og afkoma útgerðarinnar brenglist mjög þegar skiptaverðið er notað heldur sjáum við glögglega að þessi tvöfalda verðlagning hefur gríðarleg áhrif á aflahlut sjómanna og hafnargjöld, sem renna til sveitarfélaga. Hér er ekki horft á óbeina þætti s.s. tekjuskatt og útsvar sjómanna og skattgreiðslur útgerða.
25.apr. 2012 - 13:01
Ólafur Arnarson
Geir hefur sjálfur viðurkennt að hafa gert mistök og sjálfsagt er vandfundinn sá stjórnandi sem ekki gerði mistök í aðdraganda bankahruns. Það er mannlegt að gera mistök. Stærstu mistök Geirs felast sjálfsagt í því að halda hlífiskildi yfir seðlabankastjóranum, sem Geir sjálfur vissi að ekki var mark á takandi. Manninum, sem svo kom fyrir Landsdóm og varð stjörnuvitni saksóknara gegn Geir. Illa launaði Davíð Oddsson velgjörð Geirs, sem fórnaði ríkisstjórn sinni til að Davíð þyrfti ekki að axla ábyrgð sína sem versti seðlabankastjóri nýrrar aldar. Í þeirra boði sitjum við nú uppi með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er þungur kross að bera en fyrir það var ekki ákært í Landsdómsmálinu.
17.apr. 2012 - 16:01
Ólafur Arnarson
Þegar Jóhannesi var bolað út úr Högum eignaðist hann hlut í færeyskri matvörukeðju, sem hann hefur nú selt. Einhverjar vangaveltur hafa verið um að hann hyggist nota afraksturinn af þeirri sölu til að hasla sér nýjan völl á íslenskum smásölumarkaði. Endurkoma Jóhannesar í Bónus væri happafengur fyrir íslenska neytendur. Jóhannes er kaupmaður af lífi og sál. Það þekkja þakklátir íslenskir neytendur. Ekki veitir af lágvöruverðsverslun, sem sannur kaupmaður stýrir en ekki atvinnufjárfestar.
13.apr. 2012 - 15:31
Ólafur Arnarson
Það verður væntanlega bið á því að SFO rjúki í viðamiklar húsleitir og handtökur á grunni upplýsinga frá sérstökum saksóknara á Íslandi. Brennt barn forðast eldinn. Hvenær ætli íslenskir dómstólar taki þá bresku sér til fyrirmyndar og hætti að vera gúmmístimpill fyrir sérstakan saksóknara?
12.apr. 2012 - 14:50
Ólafur Arnarson
Ein og sér er þessi ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB gild ástæða til að snúast gegn aðild Íslands að ESB. Ekki vegna þess að hún sé Íslandi fjandsamleg, sem hún vissulega er, heldur vegna þess að hún bendir til þess að framkvæmdastjórnin sé ófær um að taka skynsamlegar ákvarðanir með hagsmuni ESB að leiðarljósi.
08.apr. 2012 - 14:36
Ólafur Arnarson
Við getum ekki flutt meðgöngu og barnsburð af konum yfir á karla en við getum látið karla taka að sér ýmsar skyldur og fjarvistir frá vinnu, sem til skamms tíma hafa verið hlutskipti kvenna. Við getum tryggt að þegar barn fæðist sé það ekki einungis móðirin, sem þarf að hverfa af vinnumarkaði um stund, heldur líka faðirinn. Virkt fæðingarorlof karla mun einnig stuðla að virkari þátttöku feðra í ummönnun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur. Faðir, sem annast hefur barn sitt í fæðingarorlofi, er líklegri til að vera heima yfir því veiku heldur en sá, sem aldrei hefur þurft að sinna barni sínu einn.
04.apr. 2012 - 17:01
Ólafur Arnarson
Gylfi Arnbjörnsson á að vita betur en svo að láta draga sig á asnaeyrum í máli sem snýst meira um samkeppni á flugmarkaði en kjarasamninga. Vissulega eru íslenskar flugfreyjur að sönnu yndislegar og nánast eins og gyðjur og ávallt er eins og maður sé kominn alla leið heim þegar þær bjóða mann velkominn um borð í íslenska flugvél eftir langferðir erlendis, en er mögulegt að þær hafi ginnt Gylfa líkt og ásynjurnar ginntu nafna hans svo sem Snorri segir frá í Gylfaginningu? Er kannski rétt að tala nú um Gylfaginningu, hina seinni?
03.apr. 2012 - 15:01
Ólafur Arnarson
Einnig gæti efnahags- og viðskiptaráðherra krafið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skýringar á því hver stjórnskipuleg staða Sjávarútvegsráðuneytisins er. Er það sjálfstætt ráðuneyti eða er búið að koma því fyrir í skipuriti LÍÚ? Kröfugerðin til SKE bendir til þess ráðuneyti sjávarútvegs heyri undir boðvald LÍÚ en ekki öfugt.
30.mar. 2012 - 15:30
Ólafur Arnarson
Ekki fáum við að vita hvaða efni Kjartan hefði valið mér vegna þess að á lokadegi keppninnar barst áheit upp á 70 þúsund krónur frá Auðuni Má Guðmundssyni. Auðun á því hæsta áheitið og fær að velja mér umfjöllunarefni í einum pistli, sem væntanlega verður skrifaður á næstunni. Ég hef ekki enn fengið fyrirmæli frá Auðuni. Þegar sá pistill birtist verður þess að sjálfsögðu getið að hann sé skrifaður gegn stuðningsframlagi til Krabbameinsfélagsins.
29.mar. 2012 - 16:19
Ólafur Arnarson
Þetta breytir samt ekki því að það eru auðvitað viss vonbrigði að það skuli virkilega ekki vera einhver stórbokki þarna úti sem er til í að borga a.m.k. 100 þúsund kall fyrir pistil að eigin vali. En, svona er mikið að marka sorpmiðlana í þessu landi.
26.mar. 2012 - 13:30
Ólafur Arnarson
En hugmyndin er góð. Ef það er svona mikill áhugi á að leigja pennann minn býð ég hann hér með til leigu til styrktar góðu málefni. Takist liðinu,
The Sellecks, að safna 50 þúsund krónum alls fyrir Krabbameinsfélagið með áheitum áður en söfnuninni lýkur um næstu helgi mun ég skrifa einn pistil fyrir þann sem mestu hefur heitið á liðið, hvort sem áheitin hafa verið á
mig,
Örn son minn eða
liðið sjálft. Öll áheit á okkur feðga teljast til áheita á liðið. Leigjandinn fær að velja efni pistilsins (innan eðlilegra velsæmismarka að sjálfsögðu).
20.mar. 2012 - 17:01
Ólafur Arnarson
Í kvótakerfinu felst ríkisstuðningur við þau fyrirtæki, sem fá úthlutað aflaheimildum. Engin rök standa til þess að leyfa þessum fyrirtækjum að njóta sérkjara á framleiðslumarkaði þar sem þau keppa við sjálfstæða framleiðendur. Þegar við blasir að þetta fyrirkomulag er beinlínis skaðlegt fyrir þjóðarbúið í heild hljóta ráðamenn að leggjast á eitt til að lagfæra kerfið.