20. apr. 2009 - 13:31Oddur Steinarsson
Nú stefnir annar stjórnarflokkanna að því að setja á hátekjuskatt. Þeir vísa til Norðurlandanna í þessu tilliti. Vissulega eru hátekjuskattar hér í Svíþjóð, en hér er annað sem kemur á móti. Vaxta- og barnabætur eru ÓTEKJUTENGDAR. Vaxtabæturnar eru 30% af óverðtryggðum vöxtum og munar töluvert um. Norðmenn eru með svipað kerfi. Barnabæturnar duga rúmlega fyrir greiðslum fyrir leikskóla og skóla barnanna.
Þegar við fluttum út fyrir tveimur árum fóru báðar dætur okkar á leikskóla og áttum við mánaðarlega afgang af barnabótum hér. Heima á Íslandi var kostnaður fyrir dagmóður og leikskóla góður hluti ráðstöfunartekna okkar og barnabæturnar sáralitlar. Vextir af húsnæðislánum hér eru nú um 2,3 % óverðtryggðir og síðan 30% af því í vaxtabætur. Hæst fóru vextirnir í rúm 6% í fyrrasumar (þannig rúm 4% eftir vaxtabætur).
Það er að mínu mati ekki bjóðandi að íþyngja enn frekar launafólki heima með hátekjuskatti nema eitthvað komi á móti. Margir þeirra sem lenda í hátekjuskatti eru að vinna myrkrana á milli til að framfleyta sér og sínum. Það er ekki bjóðandi að hafa tekjutengingu á vaxta- og barnabótum og bæta síðan hátekjuskatti við. Margir eru einnig búnir með langskólanám og hafa haft litlar tekjur á námsárunum og skulda síðan námslán. Þessi hópur er með aðgerðum Vinstri Grænna að borga þannig hærra skatthlutfall af ævitekjum þó að ævitekjurnar séu ekki hærri í heildina, heldur koma tekjurnar á skemmri tíma þar sem starfsævi þeirra er styttri.
Vinstri Grænir ! Það verður að vera annað hvort, annars er ekki hægt að vísa til Norðurlandanna.
Eitt langar mig að benda á að lokum. Hér í Svíþjóð er atvinnuleysi iðnaðarmanna að aukast. Hefur sænska ríkið því boðið upp á skattaafslátt til að hvetja almenning í framkvæmdir og endurbætur. Felur þetta í sér skattaafslátt að nemur 50% af heildarkostnaði við vinnu iðnaðarmanns upp að 100.000 SEK (um 1,5 milljón ISK). Ef iðnaðarmaður tekur 3736 kr með vsk. á tímann, þá fær maður 735 kr til baka samkvæmt íslenska kerfinu en 1868 kr samkvæmt sænska kerfinu. Ég held að stjórnvöld heima ættu að skoða þetta, þar sem virðisaukaskattsendurgreiðslan heima er hálf hjákátleg miðað við þessar aðgerðir hér úti.
Oddur Steinarsson er sérfræðingur í heimilislækningum og MBA, búsettur í Svíþjóð.