15. feb. 2018 - 20:30Davíð Már Kristinsson

Spáð í spilin

Deildarkeppnin í Olís deild karla hefur farið ágætlega af stað eftir landsliðspásuna.

Línur hafa tekið að skýrast og ég ætla aðeins að rýna í liðið og framhaldið hjá liðunum og mótinu.

FH

FH liðið hefur verið frábært í vetur heilt yfir. Mörgum fannst það djarft hjá Halldóri Jóhanni að bæta ekkert við liðið fyrir tímabilið og notast kannski bara við 8-9 útispilara í róteringunni en hann svaraði öllum "gagnrýnisröddum" að hann gæti alveg gert góða hluti annað tímabilið í röð án þess að fá leikmann/leikmenn. Markvarslan góð, hraðaupphlaup, sterk vörn og góður sóknarleikur þar sem 2-3 manna samspil er mjög gott. Góðir að gera þetta óvænta. Sirkusar osfrv.

En FH er búið að falla á 3 stórum prófum á einu ári. Bikarinn í fyrra, oddaleikur Íslandsmóts og aftur bikarleikurinn í ár. Standast þeir eða falla á 4 prófinu á rúmu ári? Ljóst er líka að þeir missa 2-3 leikmenn eftir tímabil og þeirra skarð verður vandfyllt. Íslandstitill er því krafa í vor í Krikanum.

ÍBV

Harlem Globetrotters íslensku deildarinnar. Voru góðir í haust en enn betri núna. Mikill stígandi og mikil sigling á þeim núna. Mikil gæði alls staðar á vellinum. Mikil skotógnun og þurfa oft lítið að hafa fyrir mörkunum. Arnar Pétursson og leikmannahópurinn eru reynslunni ríkari eftir mikið vonbrigðatímabil í fyrra. Hafa ekki unnið titill síðustu 2 ár og það verður líklega eldgos á Heimaey ef þeir ná ekki í 1 titil. Arnar finnst mér alltaf að verða reyndari og betri þjálfari með árunum og það verður mikil pressa á honum á næstu mánuðum að skila árangri með þetta lið.

Standast lærisveinar hans pressuna og álagið? Haldast menn eins og Róbert Aron og Sigurbergir heilir út tímabilið?

Selfoss

Þvílíkt grín að Selfossi hafi verið spáð 7. sæti deildarinnar fyrir tímabilið. Allir ungir, heimamenn, sem hafa unnið titla í yngri flokkunum og náðu 5. sæti í fyrra. Allir einu ári eldri núna og fengu frábæran línumann til liðs við sig. Fyrrum þjálfari byggði liðið vel upp síðustu 2 ár og vann alla forvinnuna fyrir núverandi þjálfara sem byggir síðan áfram mjög vel á því. Patrekur heppinn að taka við svona góðu liði og góðu búi.

Enginn efast um hæfni Patreks sem þjálfari. Þeir sitja núna í 3 sætinu og eru búnir að vera gríðarlega sprækir og ferskir. Ég er ekki ennþá sannfærður og viss um að Selfoss geti komist í gegnum 5 leikja seríu í undanúrslitum og jafnvel úrslitaviðureign þó þeir séu í stórkostlegu formi líkamlega. Er þetta ekki ekta lið til að verða bikarmeistarar? Þar þurfa þeir "bara" að hitta á 2 góða leiki og vinna 2 leiki í viðbót.

Haukar

Haukar fóru inn í tímabilið drekkhlaðnir af meiðslum og skakkaföllum. Gunni Magg sagði í upphafi móts að hann þyrfti bara að komast í gegnum fyrsta þriðjung mótsins og eftir það myndi hann sjá til sólar. Fyrsta þriðjunginn stóðust þeir það próf og gott betur. Þeir sigldu lengi vel undir radarnum og eru núna að koma ennþá sterkari inn. Vörnin fín, markvarslan ennþá betri og menn eins og Adam Baumruk komnir inn og Tjörvi á leiðinni og þjálfarinn Gunni Magg alltaf jafn klókur. Toppa þeir hreinlega ekki bara í vor og fara í úrslitaviðureignina?

Valur

Hafa ekkert verið frábærir í vetur en heldur ekki slakir. Nú er þjálfarinn Snorri Steinn farinn að spila með liðinu og hann mun klárlega hjálpa þeim heilan helling. Spilandi þjálfara conceptið er samt meira svona 1995-2000 týpa en Snorri er sem betur fer með mjög góðan mann á bekknum með sér, Guðlaug Arnarsson. Saman mynda þeir gott teymi og þetta er best fyrir liðið um þessar mundir að Snorri spili. Ekki er það nú verra að Óskar Bjarni sé búinn að lauma sér á bekkinn eins og í síðasta leik og komi með punkta og dragi góð ráð upp úr pokahorninu. Orri Gíslason er líka kominn aftur eftir smá meiðsli og Sveinn Aron kominn aftur eftir pásu og lán hjá Aftureldingu. 2 alvöru Valsarar sem vita hvað þarf til.

Valur eru dottnir úr bikar og geta núna einbeitt sér að restinni að deildinni og svo úrslitakeppni. Ná þeir að kreista meira úr sínu liði á næstu mánuðum? Vantar þeim kannski tilfinnanlega rétthenta skyttu með sömu skotógnun utan af velli eins og Króatinn var hjá þeim í fyrra?

Afturelding

Mikið vonbrigðatímabil hjá UMFA í vetur. Ekki bara inn á vellinum heldur líka mikil meiðsli og affföll í leikmannahópnum. Einar Andri er góður þjálfari og hefur gert stórkostlega hluti ásamt leikmönnum og stjórn deildarinnar við að byggja upp félagið eftir að þeir fóru niður í 1. deild um árið. Í nokkur skipti hafa þeir verið sárgrætilega nálægt því að vinna titil, bæði í bikar og deild. Eftir svoleiðis vonbrigði, og ég tala nú ekki þegar um þegar það gerist nokkrum sinnum að þá kannski missir leikmannahópurinn trúna og neistinn fer. Spurningin fer ósjálfrátt í hausinn: Komumst við einhvern tímann yfir þröskuldinn?

Fyrst að deildin var og er svona brösótt hjá Aftureldingu hefðu þeir átt að setja allt púður í bikarkeppnina. Þar þarf bara að vinna nokkra einstaka leiki til að ná titli. Þeir þurfa að keyra sig upp fyrir úrslitakeppnina og leikmenn þurfa að núllstilla sig. Allt getur gerst í Playoffs. En trúa leikmennirnir að þeir geti gert óvænta hluti í úrslitakeppninni?

Stjarnan

Ekkert ósvipað tímabil hjá Stjörnunni og hjá Aftureldingu. Vonbrigði, þónokkur meiðsl, verið að spila undir getu og duttu út í bikar en Stjarnan er lið sem á kannski ekki möguleika í úrslitakeppni en hefðu getað skreytt tímabilið með árangri og stemmingu í bikar. Það gerði Stjörnumönnum nú ekki gott að missa Ólaf Gústafsson í upphafi tímabils. Er samt eitthvað hægt að gera kröfur á að Stjarnan sé ofar í töflunni með þennan mannskap? Horfið á hópana hjá liðunum fyrir ofan og svarið svo.

Einar Jónsson hefur yfirgripsmikla þekkingu á leiknum og góður þjálfari. Hann segist hafa fundið kveikjarann og kveikti í liðinu með 20 marka sigri á Víking um daginn. Við taka 2 leikir á móti Fjölni og ÍR. 4 stig þar gefur liðinu byr undir báða vængi og væri það fínt veganesti inn í framhaldið.

Þurfa þessir leikmenn ekki að spila betri vörn? Hver er leiðtoginn í leikmannahópnum sem drífur liðið áfram og er á bakinu á leikmönnum?

ÍR

ÍR-ingar gerðu mjög skynsamlega og gerðu eins vel úr leikmannamálum fyrir tímabilið eins og þeir gátu gert. Þeir eru á þeim stað sem ég bjóst við fyrir tímabilið.

Þeir eru með nokkra lánsmenn, marga ÍR-inga og leikmenn sem komu frá Akureyri. Tiltölulega ungur hópur og ungur og skipulagður þjálfari. Eru þeir ekki bara að tjalda til nokkura ára og ekkert stress?

Rosa sveiflukenndir og skrykkjóttir. Á góðum degi fínir, á slæmum degi mjög slakir. Væri ekki bara flott hjá þeim að komast í úrslitakeppnina á fyrsta ári í Olís eftir fallið?

Verður gaman að sjá hvað þeir gera í 8 liða úrslitum EF Björgvin Hólmgeirsson verður orðinn heill og í toppstandi og spilar með þeim þar.

Grótta

Gróttu menn ekkert öfundsverðir að því með hvaða hóp þeir fóru inn í tímabilið. Maður var ekki beint vongóður fyrir þeirra hönd og biðin eftir fyrsta sigrinum og fyrstu stigunum var ansi löng. En þeir eru með nokkra góða leikmenn í sínum röðum, nokkra lánsmenn og svo unga Gróttu stráka.

Mér finnst Kári Garðarsson, sem er gríðarlega metnaðarfullur og skipulagður þjálfari hafa gert vel úr stöðunni. Sérstaklega eftir að örfhenti Svíinn fór frá þeim og Finnur Ingi meiddist. Ekkert stress á Nesinu eftir að það kom upp.

Þeir væru þó aldrei með 9 stig ef ekki væri fyrir Hreiðar Levý.

Þeir eru þó ekki alveg hólpnir og þurfa áfram að vera á varðbergi að falla ekki. Gríðarlega dýrmætt fyrir Gróttu að hafa getað gefið nokkrum ungum Gróttustrákum séns í vetur. Það hjálpar þeim þegar fram í sækir.

Fram

Spiluðu hálfpartinn yfir getu í fyrra og voru lengi að koma niður úr skýjunum. Manni finnst heil eilífð síðan þeir unnu leik í deildinni. Eru bara búnir að vera lélegir í deildinni í vetur en samt bara einu stigi á eftir Fram. Unnu svo allt í einu í bikar og komnir í Final 4. Mun það trufla stigaleitina í deildinni? Eru náttúrulega með einn efnilegasta markmann Evrópu og Arnar Birkir sem er á góðum degi einn af 5 bestu mönnum deildarinnar.

Þeir eiga Víking og Gróttu í næstu 2 leikjum og það er lífsnauðsynlegt fyrir þá að ná í stig þar. Ef ekkert gerist í þeim leikjum þá gætu þeir bara farið niður.

Flott hjá Fram að gera 5 ára samning við Guðmund Helga Pálsson þjálfara og sýna honum trú og gefa honum vinnufrið. Stöðugleiki í þjálfara- og leikmannamálum er langoftast málið í íslenskum handbolta

Fjölnir

Það hefur oft vantað herslumuninn hjá Fjölni að ná í góð úrslit í vetur. Kristján Donni Kristjánsson hefur tekið stórkostlegum framförum og verið frábær í vetur.

Fullt af ungum og efnilegum Fjölnis mönnum búnir að fá að spreyta sig í vetur. Hefur bara ekki vantað betri markvörslu og kannski einn annan eldri og reyndari leikmann eins og Andra Berg og Svein Þorgeirs með í vörnina og svo að búa til og skora meira í sókninni? Það virðist vera að stjórnin sé ekki alltaf að hjálpa þjálfaranum í ýmsum málum og það náttúrulega gengur ekki. Arnar Gunnarsson hefur gert mjög góða hluti í Grafarvoginum og á skilið endurnýjun á samning. Ef liðið fellur þá mun það missa leikmenn eins og Donna og Breka og félagið vill forðast það eins og heitan eldinn.

Víkingur

Fóru bakdyramegin inn í Olís deildina eins og frægt var orðið og enginn bjóst við neinu. Mikið hrós á Gunnar Gunnarsson þjálfara að hafa náð í 5 stig fyrir áramót. Það var bara mjög vel gert.

En ljóst var þegar Davíð Svansson markmaður ákvað að fara frá þeim eftir fyrri helming mótsins að róðurinn yrði enn þyngri og það myndi kannski smitast eitthvað smá vonleysi í hópinn enda Davíð þeirra besti maður fyrir áramót Það eru margir ungir og viljugir strákar hjá Víking sem langar að verða betri en þeirra hlutskipti verður að falla. Það mun ekki koma neinum á óvart.

En stundum þurfa félög að taka eitt skref afturábak til að taka 2 skref framávið. Haldi þeir hópnum sínum á næsta tímabili gætu þeir vel sigrað 1. deildina sannfærandi.
11.jan. 2018 - 20:21 Davíð Már Kristinsson

Ísland hefur leik á EM í Króatíu

Föstudaginn 12 janúar verður flautað til leiks hjá Íslandi á Evrópumótinu í handknattleik sem haldið er í Króatíu.

17.des. 2017 - 14:47 Davíð Már Kristinsson

Heims um ból

Nú er aðeins vika til jóla og jólaösin, jólastressið og hraðinn eykst, raðirnar og mannmergðin stækkar í verzlunum. Þessi árstími væri æði snautlegur á að horfa, ef ekki væru marglit ljósin til að gefa þessum það frábæra yfirbragð sem nú má hvarvetna líta
07.des. 2017 - 16:44 Davíð Már Kristinsson

iPhone 8 eða mandarína?

Jólin nálgast með öllu tilheyrandi og jólasveinarnir 13 verða bráðum reiðubúnir að koma til byggða með ýmislegt í pokum sínum fyrir að setja í alla þessa skó í gluggunum.
20.nóv. 2017 - 09:11 Davíð Már Kristinsson

Íslands nýjasta nýtt

Sjónvarpsstöðin ÍNN var stofnuð í mars 2007 og svo nú á dögunum var hún lögð niður vegna rekstrar- og skuldavanda.Það verður eftirsjá af fjölmiðlamógúlnum Ingva Hrafni. Virkilega skemmtilegur og skrautlegur fýr. Mörg ógleymanleg móment á ÍNN.
01.nóv. 2017 - 14:59 Davíð Már Kristinsson

Vinstri hægri snú

Þá er þessum kosningum lokið og eftir stendur val þjóðarinnar og það ber að virða. Ég heyrði því fleygt í dag hvort það verði nokkuð búið að mynda nýja stjórn áður en jólin koma og jafnvel líka ekki fyrr en nýtt ár gengur í garð

02.ágú. 2017 - 20:00 Davíð Már Kristinsson

Atlavík ´84

Stærsta ferðahelgi ársins nálgast nú óðfluga, sjálf verzlunarmannahelgin. Skemmtanaþyrstir unglingar, ungmenni og stundum fullorðið fólk þeisast á útihátíðir en fjölskyldurnar leita í fjölskylduhátíðir.
14.júl. 2017 - 19:41 Davíð Már Kristinsson

Jákvæð teikn á lofti

Nýlega bárust fregnir af því að Handknattleikssamband Íslands hefði framlengt samning sinn við Olís sem aðalstyrktar aðili efstu deildar á Íslandi. Efsta deild karla og kvenna mun því heita áfram Olís deildin en 1. deild karla og kvenna fær í fyrsta skipti nafn en þær munu heita Grill 66 deildin.
17.jún. 2017 - 22:37 Davíð Már Kristinsson

Úrslitaleikur á móti Úkraínu

Eftir töluverða útreikninga og úrslit síðustu umferðar er það ljóst að Ísland kemst áfram á næsta heimsmeistaramót með sigri á Úkraínu í Laugardalshöllinni, annað kvöld kl. 18:45. Horfurnar með það voru ekki góðar í upphafi en sem betur fer eigum við ennþá mjög góða von að sjá Ísland keppa á enn einu stórmótinu í handbolta í janúar næstkomandi.
10.maí 2017 - 17:28 Davíð Már Kristinsson

Rýnt í úrslitaeinvígi FH og Vals

Nú er komið að því að úrslitaeinvígið er að hefjast í Olís deild karla og eru það lið FH og Vals sem mætast í úrslitaeinvíginu þetta árið. FH endaði í 1. sæti í deildinni og urðu deildarmeistarar en Valur endaði í 7. sæti og unnu bikarmeistaratitlinn. Bæði þessi lið spila knallharða og gífurlega sterka 6-0 vörn þar sem vel er tekið á því og notaður til þess mikill þungi og kraftur. Valur spilar líka stundum með Ými Gíslason fyrir framan í 5-1 vörn og falla niður í 6-0 er lið leysa inn á móti þeim Sóknarlega eru þessi lið bæði mjög öguð og eru góð í þessu svokallaða framhaldsspili. Þau velja oft ekki fyrsta séns og láta boltann ganga 2-4 sinnum oftar til að fá opnun.
18.apr. 2017 - 22:21 Davíð Már Kristinsson

Undanúrslit Olís deildar kvenna að hefjast

Frábært tímabil hjá Stjörnunni. Deildarmeistarar og bikarmeistarar. Eru með besta hópinn í deildinni - með allsvakalega breidd. Það eru fullt af stelpum sem geta komið inná af bekknum og breytt gangi leiksins
07.apr. 2017 - 18:25 Davíð Már Kristinsson

8-liða úrslit í Olís deild karla að hefjast

Eftir gríðarlega jafna og spennandi deildarkeppni í vetur þar sem á köflum allir gátu unnið alla er komið að úrslitakeppni

Þetta er mín spá fyrir 8 liða úrslit Olís deildar karla
14.des. 2016 - 11:17 Davíð Már Kristinsson

Spáin fyrir 16.umferðina í Olís-deildinni

Handknattleiksþjálfarinn Davíð Már spáir fyrir um 16. umferð Olís deildar karla sem hefst á morgun fimmtudag. Valsararnir hafa verið á fínni siglingu heilt yfir undanfarið en voru hundslappir í síðasta leik þar sem þeir töpuðu sannfærandi á móti Stjörnunni eftir að hafa komist m.a 11-4 yfir. Þeir geta notað Stjörnu leikinn sem mikla hvatningu til að snúa dæminu aftur við.Davíð Már Kristinsson
Akureyskur Vesturbæingur. Starfsmaður Reykjavíkurborgar. Þjálfari. Leikari. Sjálfstætt starfandi. Pistlahöfundur fyrir Pressan.is
Rafland: LG dagar mars 2018