17. des. 2017 - 14:47Davíð Már Kristinsson
Nú er aðeins vika til jóla og jólaösin, jólastressið og hraðinn eykst, raðirnar og mannmergðin stækkar í verzlunum.
Þessi árstími væri æði snautlegur á að horfa, ef ekki væru marglit ljósin til að gefa þessum það frábæra yfirbragð sem nú má hvarvetna líta.
Allir hlaupa til handa og fóta að útrétta og gera og græja svo hægt sé að hringja inn jólin á sem bestan máta.
Hljóðstyrkurinn á jólalögunum hækkar umtalsvert, hitinn verður meiri á bakara- og blástursofnunum, brosin breikka, spurningunum "Er ekki nóg að gera?" fjölgar og hendurnar fara enn hærra á loft til að heilsa kunningjanum á förnum vegi.
Skrefhraði fólks í Kringlunni, Smáralind og á Laugaveginum verður hraðari og fólk skautar á milli búða jafn lystilega og Svetlana skautadrottning gerði á Vetrarólympíuleikunum í Nagano '98 og lýðurinn hefur stundum ekki tíma til að stoppa við og spjalla við náungann vegna leitar að næstu gjöf og pakka.
Höfum það öll hugfast að sýna biðlund, þolinmæði og ekki síst kurteisi við starfsfólk í verzlunum. Ég hugsa alltaf extra vel til þessa fólks rétt fyrir jólin.
Þau eru undir gífurlega álagi, vinna á löngum vöktum og hafa stundum varla tíma til að fara í kaffi eða mat því þau eru að þjónusta og afgreiða okkur almúgann. Að fá svívirðingar, neikvæðar athugasemdir eða dónaskap er það síðasta sem þau eiga skilið og hvað þá á sjálfri aðventunni, hátíð ljóss og friðar.
Föðmum fjölskylduna, vini, ættingja og allt fólk sem við elskum og tjáum því hvað okkur þykir vænt um það og gleymum heldur ekki okkar minnsta bróður eins og ort var í kvæðinu góða. Minnumst ástvina okkar sem farnir eru á undan okkur frá jarðneska lífinu til þess eilífa og hlúum að öllu því sem virkilega nærir hjarta og sál. Brosum til hvors annars, gefum klapp á bakið og faðmlag til allra þeirra sem þurfa þykir.
Öllum þeim sem þetta lesa sendi ég bestu óskir um gleðilega jólahátíð og gæfuríks komandi árs.