04. okt. 2011 - 10:00Brynjar Nielsson

Stjórnlagaráð og stjórnmálaflokkar

Alþingi skipaði 25 manna nefnd eða ráð til að koma með nýja tillögu að stjórnarskrárbreytingum. Var það að mestu sama fólkið og var efst í kosningu til stjórnlagaþings, sem sumir hafa kallað vinsældarkosningu, og Hæstiréttur ómerkti. Það kann að vera að stjórnlagaráðið, sem svo hefur verið kallað, hafi eitthvað oftúlkað hlutverk sitt en hún samdi hvorki meira né minna en frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Ólíkt öðrum nefndum sem Alþingi hefur óskað eftir tillögum frá krafðist stjórnlagaráðið þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um frumvarp þess í heild sinni með hótunum um að ellegar yrði stofnaður stjórnmálaflokkur, sem myndi bjóða fram í næstu þingkosningum.

Í „frumvarpi“ nefndarinnar er langur mannréttindakafli með ýmsum nýmælum og sumum lítt skiljanlegum sem hafa í raun ekkert með mannréttindi að gera. Ég ætla nú ekki að ergja mig með umfjöllun um þann kafla, a.m.k ekki að sinni. Í kaflanum um stjórnskipun Íslands er hins vegar verið að kollvarpa stjórnskipan landsins. Núverandi stjórnskipan landsins er svo sem ekkert heilög en ef vilji er til breytinga er afar mikilvægt að það sé gert með skýrum hætti svo ekki sé verið að velkjast í vafa hvert sé vald forseta Íslands, Alþingis og ráðherra.

Gísli Tryggvason, stjórnlagaráðsmaður, þurfti að benda starfsmönnum ráðsins á að túlkun þeirra á ákveðnum atriðum „frumvarpsins“ væri ekki alls kostar rétt. Nokkrir aðrir stjórnlagaráðsmenn hafa þurft að benda forseta Íslands á, að í nýju stjórnarskránni væri vald forsetans ekki eins mikið og hann sjálfur teldi í þingsetningaræðu sinni. Þótt í lagi sé að hafa matskennd mannréttindaákvæði í stjórnarskrá má ekki vafi leika á því hvert er vald forseta, þings og ráðherra. Kannski er ekkert sniðugt að þekkta og fræga fólkið sé fengið til að semja nýja stjórnarskrá, sem enginn skilur nema það sjálft.

Mesta áhyggjuefnið eru þó hugmyndir ráðsmanna um að stjórnmálaflokkar standi lýðræðinu fyrir þrifum. Því þurfi að kjósa fólk en ekki flokka, sem sumir kalla beint lýðræði. Það sem þjóðin þarf örugglega ekki á erfiðum tímum er sundurlaus hjörð fræga og þekkta fólksins, sem engin veit hvað stendur fyrir, til að sinna þessu mikilvæga löggjafarstarfi. Stjórnmálaflokkar eru nefnilega mikilvægir lýðræðinu. Þar fer fram pólitísk umræða og stefnumótun sem margir koma að. Til að geta sinnt starfi sínu af styrk og yfirsýn þurfa stjórnmálamenn gott bakland. Öflugur stjórnmálaflokkur getur sinnt því hlutverki. Við eigum því að einbeita okkur að því að styrkja stjórnmálaflokkana og bæta umgjörð stjórnmálanna til að öflugt og kraftmikið fólk fáist til stjórnmálastarfa í stað upphlaupslýðs og tækifærissinna.

Það er ekkert að því að fólk taki sig saman og stofni nýja stjórnmálaflokka. Það er hins vegar nauðsynlegt að það fólk deili svipaðri pólitískri hugmyndafræði og lífsýn. Stofnun nýrra flokka kringum vinsæla frasa eins og lýðræði, frjálslyndi, jafnrétti, siðferði og umhverfisvernd er á sandi byggt og hefur aldrei reynst vel. Slíkir flokkar splundrast gjarnan á fyrsta þingi eftir kosningar. Svo þegar betur var að gáð reyndist þetta ágæta fólk hvorki vera lýðræðissinnaðra, frjálslyndara, jafnréttissinnaðra, siðlegra né umhverfisvænna en aðrir. En það eina sem það átti kannski sameiginlegt var lýðskrum og tækifærismennska.

Svona að lokum held ég að við Íslendingar ættum að láta af þeirri aldagömlu lensku að væna alla ráðamenn um spillingu og sérhagsmunagæslu. Við höfum enga ástæðu til að ætla annað en að þeir starfi almennt  af heilindum með almannahag að leiðarljósi. Við getum deilt um leiðir að þessum markmiðum og hvort einstakir stjórnmálamenn hafi staðið sig vel í störfum sínum. Um það snýst hin pólitíska barátta. Það mun hins vegar enginn stjórnmálamaður standa sig vel nema að hann hafi öflugan og samstæðan flokk að baki sér. Það er nefnilega ekki það sama að vera vinsæll lýðskrumari og standa sig vel í að gæta hagsmuna lands og þjóðar.