XO hagnast á fyrsta rekstrarárinu: „Eftirspurnin eftir hollum skyndibita fer ört vaxandi“

XO veitingastaður sem staðsettur er í JL húsinu við Hringbraut 119 í Vesturbæ Reykjavíkur hagnaðist um 2,8 m.kr. á fyrsta heila rekstrarári sínu. EBITDA félagsins nam 5,1 m.kr. en rekstrarkostnaður og aðrir gjaldfærðir einskiptisliðir námu hátt í 20. m.kr. á síðasta ári.

XO mun opna sinn annan veitingastað á jarðhæð Norðurturns Smáralindar í apríl en þar eru m.a. höfuðstöðvar Íslandsbanka og ný líkamsræktarstöð World Class til húsa. XO verður staðsett rétt við hlið flaggskipsverslunar H&M á Íslandi í Smáralind.

Rekstrarniðurstöður síðasta árs koma okkur ekki á óvart, við finnum fyrir miklum meðbyr og eftirspurnin eftir hollum skyndibita fer ört vaxandi. Það er megin ástæðan fyrir því að við tökum það stóra skref að opna annan XO veitingastað í Norðurturni Smáralindar. Þrátt fyrir að XO sé svo gott sem staðsett á jaðarsvæði í dag, í Vesturbæ Reykjavíkur, nemur EBITDA yfir 5 m.kr. á okkar fyrsta heila rekstrarári sem er frábært,

segir Gunnar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri XO, en hann segir síðasta ár hafa einkennst af miklum stofnkostnaði:

Síðasta ár einkenndist eðlilega af miklum stofnkostnaði og öðrum einskiptisliðum sem dregur verulega úr þegar rekstur beggja veitingastaðanna verður kominn í eðlilegt horf. Við horfum mjög björtum augum á framtíðina og hlökkum til að bjóða fleirum upp á hollan skyndibita, úr fyrsta flokks hráefni á eins sanngjörnu verði og mögulegt er.