Wee Heavy hlýtur einstakar viðtökur

Einstök Icelandic Wee Heavy bjórinn sem nýverið kom á markað hefur fengið afar góðar viðtökur. Todd Alström, annar stofnenda og eigenda hins virta fagtímarits Beer Advocate, gaf bjórnum 93 stig af 100 mögulegum með þeim orðum að hér væri um að ræða „ljúffenga norræna útfærslu á þessum klassíska skoska bjórstíl“. Alström tilnefndi Wee Heavy í kjölfarið sem einn af bestu bjórum ársins.

Þá hlaut Icelandic Wee Heavy silfur í flokki Scottish Ales / Wee Heavy í hinni virtu bjórkeppni World Beer Idol í Tékklandi. Aðeins þeir bjórar sem ná tilteknum stigafjölda fjölskipaðrar dómnefndar hljóta medalíur í keppninni og þetta árið voru aðeins 7 gull og 11 silfur veitt í 65 flokkum.

Einstök Wee Heavy er til sölu í Vínbúðum hérlendis, í Fríhöfninni og er einnig fáanlegur á krana á vel völdum veitingahúsum. Hann er bruggaður með m.a. birkireyktu íslensku byggi og hvannarrót.

Bjórarnir frá Einstök fást nú í 22 löndum og 15 ríkjum Bandaríkjanna. Salan hefur vaxið hratt á þeim fimm árum sem fyrirtækið hefur starfað og nú er svo komið að Einstök er stærsti útflytjandi áfengis frá Íslandi árið 2016, skv. bráðabirgðartölum Hagstofu Íslands um verðmæti útflutnings.