Áströlsk kona óskaði eftir aðstoð lögreglu í Minneapolis sem skutu hana til bana

Síðastliðinn laugardag hringdi hin fjörtíu ára gamla Justine Damond á lögregluna vegna meintrar líkamsárásar. Tveir lögreglumenn fóru á staðinn og skömmu síðar var Damond látin. Nú stendur yfir rannsókn á málinu en lögreglumennirnir voru með slökkt á svokölluðum líkamsmyndavélum sem lögreglumönnum í borginni er skylt að bera.

Justine Damond var fædd og uppalin í Ástralíu. Hún hafði lagt stund á nám í dýralækningum í Sydney áður en hún söðlaði um fyrir þremur árum og flutti til Minneapolis borgar í Minnesota ríki í Bandaríkjunum til að vera með unnusta sínum Dan. Þau ætluðu að gifta sig í næstu viku.

Samkvæmt vefsíðu Damond kenndi hún jóga og hugleiðslu ásamt því að bjóða upp á ýmis konar námskeið.

Justine Damond

Skömmu fyrir klukkan 23 að staðartíma mættu tveir lögreglumenn að heimili Damond vegna tilkynningar um hugsanlega líkamsárás í húsasundi fyrir aftan húsið sem hún sjálf hafði hringt inn, samkvæmt Betsy Hodges borgarstjóra Minneapolis.

Samkvæmt dagblaðinu Minnesota Star-Tribune segja þrjú vitni að atburðinum að tveir lögreglumenn saman í lögreglubíl hefðu rennt í hlaðið. Damond mun hafa komið út á náttfötunum og gengið í átt að lögreglubílnum og rætt við lögregluþjóninn sem ók honum. Þar sem Damond stóð við bílstjórahurð lögreglubílsins dró lögreglumaðurinn í farþegasætinu upp skotvopn sitt og skaut hana gegnum bílstjórahurðina. Ekkert vopn fannst á Damond eða á vettvangi og lögreglumennirnir voru með slökkt á líkamsmyndavélum sínum og sömuleiðis var myndbandsupptakan í lögreglubílnum óvirk eftir því sem fregnir herma.

Stjúpsonur Damond, Zach, birti á Facebook myndband þar sem hann segir eftirfarandi:

Í einföldu máli má segja, mamma mín er látin því lögreglumaður skaut hana án nokkurrar ástæðu. Ég krefst svara. Ef einhver getur aðstoðað, hringið á lögregluna og krefjist svara. Ég er kominn með nóg af þessu ofbeldi. Þetta er svo mikið kjaftæði. Ameríka er ömurleg. Þessar löggur þurfa öðruvísi þjálfun.


Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Minneapolis kemur fram að „á einhverjum tímapunkti“ hafi einhver verið skotinn en myndavélin í lögreglubílnum hafi verið óvirk.

Fyrir nákvæmlega ári síðan varð það skylda fyrir lögreglumenn í borginni að vera með líkamsmyndavélar og á að vera kveikt á þeim þegar aðstæður koma upp þar sem slíkt gæti verið til gagns og telja flestir að þegar lögreglumenn fari í útkall flokkist sem slíkt, eitthvað sem lögregluþjónarnir sem hlut eiga að málinu munu eflaust þræta fyrir.

Morðið á Damond er einungis það nýjasta í langri röð slíkra atvika þar sem bandarískir lögreglumenn myrða fólk í köldu blóði. Oftast nær er um að ræða svart fólk eða aðra minnihlutahópa og ekki oft sem hvítt fólk, hvað þá frá Ástralíu verða fórnarlömb lögreglunnar.

Áströlsk yfirvöld hafa blandað sér í málið og veita fjölskyldu Damond aðstoð. Lögreglumennirnir tveir hafa verið sendir í launað leyfi á meðan rannsókn stendur yfir. Minningarathöfn um Damond var haldin í Minneapolis í gær.