Kýr réðust á þrjá ferðamenn: Fluttir með þyrlu á sjúkrahús

Þrír ferðamenn voru fluttir á sjúkrahús í gær með þyrlu eftir að kýr réðust á þá. Þetta átti sér stað í austurrísku ölpunum í gær. Ítalskur karlmaður var þar á ferð með hund sinn. Þegar þeir komu að hópi um 50 kúa ákvað maðurinn að ganga beint inn í hópinn með hundinn með sér. Vitni segja að maðurinn hafi öskrað og verið æstur að sjá.

Orf.at skýrir frá þessu. Kýrnar voru ósáttar við Ítalann og hlupu hann niður. Þegar bóndi kom Ítalanum til aðstoðar dreifðist kúahópurinn og hljóp á dönsk hjón á sjötugsaldri. Þetta gerðist í Garnitzenalm.

Þyrla og læknir voru fengin á vettvang til að huga að þeim slösuðu og flytja þau á sjúkrahús. Danirnir dvöldu á sjúkrahúsinu í eina nótt en Ítalinn þarf að liggja þar í nokkra daga til viðbótar.