Theresa May hyggst setja strangar skorður á tjáningarfrelsi á netinu

Þann 8. júní næstkomandi fara fram þingkosningar í Bretlandi og bendir allt til stórsigurs Íhaldsflokksins undir stjórn Theresu May, núverandi forsætisráðherra. Í stefnuskrá flokksins fyrir kosningarnar kemur fram að beri flokkur hennar sigur úr býtum mun það hafa í för með sér umtalsverðar breytingar á reglugerðum er varða internetnotkun, með það að markmiði að gera Bretland að „leiðandi afli í stjórnun á notkun persónuupplýsinga og internetsins“ samkvæmt stefnuskránni.

Í samtali við Buzzfeed hafa háttsettir heimildarmenn innan Íhaldsflokksins staðfest að þetta orðalag stefnuskrár flokksins þýði að settar verði umtalsverðar hömlur á hvað fólk megi birta og deila á netinu. Fyrir skömmu voru sett í lög í Bretlandi skilyrði á hendur fyrirtækja sem selja Internetþjónustu að vista upplýsingar um netnotkun viðskiptavina sinna og heimila yfirvöldum að komast inn í samskiptaforrit á borð við WhatsApp til að lesa skilaboð fólks.

Með þessu segjast Íhaldsmenn vilja berjast gegn notkun hryðjuverkamanna á netinu og tryggja að hvergi sé öruggt fyrir þá þar. Til þess að ná fram þessum markmiðum virðist sem svo að þrengt muni verða mjög að samfélagsmiðlum og að stjórnvöld muni hafa mun ríkari afskipti af því sem fram fer á slíkum síðum.

Auk þess er gert ráð fyrir að löggjöf er varði klámsíður verði hert til muna og ríkisstjórnin myndi hafa völd til að hamla mjög aðgengi að síðum sem geyma efni sem er aðeins ætlað fullorðnum. Allar undanþágur frá slíkum aðgangshömlum þyrftu að vera samþykktar af ráðherrum.

Í stefnuskránni kemur auk þess fram að hugsanlega verði gripið til þess ráðs að banna leitarvélum á borð við Google að vísa fólki á klámsíður.

Við færa ábyrgðina til iðnaðarins að vísa ekki notendum – jafnvel óviljandi – á síður sem innihalda hatursorðræðu, klám eða annað efni sem valdið getur skaða

segir í stefnuskránni. Samkvæmt tillögum Íhaldsflokksins væru tæknifyrirtæki skylduð til að fjarlægja allt efni sem fólk birti á netinu þegar það var undir 18 ára aldri. Þessar reglur eru í anda þeirra hugmynda flokksins að sömu, ströngu reglur eigi að gilda í netheimum og raunheimum samkvæmt The Independent.

Upphafspunktur okkar er að reglur netsins eigi að endurspegla þær sem stjórna lífi okkar í raunheimum.