Hólmkell Hreinsson í yfirheyrslu


Hólmkell Hreinsson er amtsbókavörður og Bítlaaðdáandi.

Fullt nafn, aldur og starfstitill:

„Hólmkell Hreinsson, 56 ára, amtsbókavörður.“

Nám:

„BA í bókasafns- og upplýsingafræði og bókmenntafræði og er nú í námi í opinberri stjórnsýslu.“

Fjölskylduhagir:

„Kvæntur Kristínu Sóleyju Sigursveinsdóttur og eigum við tvö uppkomin börn, Svein og Huldu.“

Fæddur og uppalinn?

„Fæddur á Akureyri en alinn upp í Sunnuhlíð á Svalbarðsströnd.“

Í hverju ertu bestur?

„Að baka úr vatnsdeigi. Allavega bestur í fjölskyldunni.“

Í hverju ertu lakastur?

„Ég fer alveg rosalega vitlaust með tölur. Það vissara að vara sig á mér þegar kemur að því. Aldur minn er samt réttur hér að framan.“

Hvað ætlaðirðu að verða þegar þú yrðir stór?

„Sennilega bóndi, svo náttúrufræðingur en hefði orðið hvorugri stéttinni til sóma.“

Hverju mundirðu breyta ef þú værir einræðisherra í einn dag?

„Ég hef ímigust á einræðisherrum svo ég held að ég myndi afþakka boðið eða koma á lýðræði í heiminum, því fleiri vita meira en færri.“

Fyrirmynd?

„Allt fólk sem er til fyrirmyndar, sem er miklu fleira en margan grunar.“

Uppáhaldstónlistarmaður?

„Það eru margir í uppáhaldi og fer vinsældalistinn eftir hugarástandi. Bítlarnir standa samt alltaf upp úr.“

Uppáhaldsbók?

„Sú bók sem hafði mest áhrif á mig á áhrifatíma bóka er „Veröld sem var“ eftir Stefan Zweig. Annars er ég svo hrifnæmur að þær eru mjög margar.“

Uppáhaldsrithöfundur?

„Þær konur og karlar sem hafa skrifað allar þær bækur sem hafa vakið hjá mér nýjar og óvæntar hugsanir.“

Fallegasti staður á Íslandi?

„Auðvitað er það Sunnuhlíð á Svalbarðsströnd. Allt annað væri skrök.“

Uppáhaldskvikmynd?

„Sú mynd sem ég sá oftast í bíó var Rocky Horror Picture Show, en svo horfum við fjölskyldan alltaf á Love Actually á aðventunni.“

Uppáhaldsstjórnmálamaður?

„Olof Palme.“

Uppáhaldsmatur?

„Önd í alls kyns útgáfu.“

Uppáhaldsdrykkur?

„Drekk mest af vatni og kaffi, svo það hlýtur að vera uppáhalds.“

Leyndur hæfileiki?

„Ég kann utanað mjög margar sjónvarpsauglýsingar frá upphafsdögum sjónvarpsins í Eyjafirði.“

Facebook eða Twitter?

„Facebook, en samt líka Twitter.“

Snapchat eða Instagram?

„Snapchat. Kann sorglega lítið á Insta. Er þar með fjölda vina sem ég þekki ekki neitt og skil ekki hvernig komust þar inn.“

Á hvaða útvarpsstöð er stillt í bílnum þínum?

„Yfirleitt á Rás 2.“

Greinin birtist fyrst í Akureyri vikublað.