Höfðaði mál gegn konunni sem fór með honum á stefnumót – „Þetta er bilun“

Maður í Texas ríki í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn konu sem fór með honum á stefnumót þann 6. maí síðastliðinn. Maðurinn og konan fóru í bíó í borginni Austin á stórmyndina Guardians of the Galaxy, Vol. 2 í þrívídd í Barton Creek Square kvikmyndahúsinu. Maðurinn, hinn 37 ára gamli Brandon Vezmar, er greinilega ekki sáttur við hvernig stefnumótið heppnaðist.

Samkvæmt kærunni sem Vezmar lagði fram fyrir dómara í Travis sýslu kemur fram að hann krefjist endurgreiðslu 17.31 dollara af hendi konunnar en það er kostnaður fyrir einn bíómiða á mynd í þrívídd. Það eru heilar 1.748 krónur íslenskar.

Ástæða þess að hann krefst endurgreiðslunnar er einföld. Konan sem fór með honum á stefnumótið hætti ekki í símanum.

Þegar dagblaðið Austin Statesman hafði samband við konuna vegna málsóknarinnar hafði hún ekki heyrt af henni.

Guð minn góður. Þetta er bilun,

sagði hin 35 ára gamla kona sem ekki vill láta nafns síns getið við dagblaðið.

Í málsgögnunum kemur fram að Vezmar hafi kynnst konunni á netinu. Bíóferðin 6. maí var fyrsta stefnumótið þeirra.

Þetta var eiginlega stefnumótið frá helvíti,

segir Vezmar en að hans sögn byrjaði konan að fikta í símanum eftir að korter var búið af kvikmyndinni. „Þetta er einn þeirra hluta sem fara hvað mest í taugarnar á mér“ segir Vezmar og bætir við að konan hafi „opnað símann að minnsta kosti 10-20 sinnum á korteri til að lesa og senda sms.“

Að sögn hans bað hann konuna um að hætta í símanum eða fara út úr sýningarsalnum til að ljúka sér af. Hún fór út og sneri ekki til baka. Þá var Vezmar fastur í kvikmyndahúsinu enda fór konan á bíl sínum en hún var farið hans. Hann sendi henni skilaboð nokkrum dögum seinna og bað hana um að endurgreiða sér bíómiðann en hún neitaði. Vezmar heldur því fram að konan hafi með þessu skilaboðasendingum brotið gegn skilmálum kvikmyndahússins og haft „neikvæð“ áhrif á upplifun hans.

Skaðabæturnar sem sóst er eftir eru lágar en prinsippið er mikilvæg þar sem hegðun hins ákærða er ógn við siðmenntað samfélag,

segir í málshöfðuninni.

Að eigin sögn sendi konan aðeins eitt eða tvö sms til vinkonu sinnar sem var að rífast við kærastann sinn. Ég var með símann lágt niðri og var ekki að trufla neinn. Þetta var ekki stöðugt áreiti, segir konan. Hún hafnaði endurgreiðslukröfu Vezmer því „hann bauð mér á stefnumót“ og hyggst leggja fram nálgunarbann á hann því hann hafði samband við litlu systur hennar og krafði hana um endurgreiðslu.

Ég er ekki slæm kona. Ég fór bara á stefnumót,

segir konan að lokum.