OECD: Sjálfsvígstíðni ungra karlmanna á Íslandi með því hæsta sem gerist - Tölur koma á óv

Aðeins Finnar eru með hærri sjálfsvígstíðni ungra karlmanna en Íslendingar, samkvæmt tölum frá OECD. Tölurnar koma á óvart þar sem mikill árangur hefur náðst í forvarnarstarfi á undanförnum árum.

Tölurnar miðast við fjölda sjálfsvíga á hverja 100 þúsund íbúa í ríkjum OECD á árinu 2009. Yfir heildina eru Íslendingar á pari við aðrar Norðurlandaþjóðir og er sjálfsvígstíðni kvenna sérstaklega lág hér á landi.

Íslendingar eru hins vegar í öðru sæti á eftir Finnum ef einungis er litið á karlmenn í aldurshópnum 15 til 24 ára. Ný-Sjálendingar eru þar í þriðja sæti.

Salbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu, segir þessar tölur koma sér á óvart í ljósi þess að góður árangur hafi náðst í forvarnarmálum á undanförnum árum, þá ekki síst meðal karlmanna í yngsta aldurshópnum. Þannig hafi verið skráð eitt sjálfsvíg árið 2009 í aldurshópnum 15 til 20 ára og þrjú í aldurshópnum 21 til 30 ára. Engar konur í þessum aldurshópum féllu fyrir eigin hendi.

Árið 2000 var sérlega slæmt að þessu leyti og þá var fyrst farið að tala um forvarnir. Skólasamfélagið hefur virkan stuðning og það hefur skilað mjög góðum árangri.
Árið 2000 framdi 51 einstaklingur sjálfsvíg, þar af 46 karlmenn. Salbjörg segir að ekki hafi enn fundist skýringar á þessari háu tíðni þetta tiltekna ár.

Árið 2009 féllu 36 einstaklingar fyrir eigin hendi. Í þeim hópi voru 29 karlmenn og 7 konur.

Við höfum haft áhyggjur af miðaldra karlmönnum því þær tölur hafa staðið í stað. Það sem vantar þar er fyrst og fremst fræðsla á vinnustaði. En hvert og eitt sjálfsvíg er náttúrulega mikill harmleikur og það má ekki gleyma því að á hverju ári eru um 2.500 syrgjendur.