Róbert Michelsen skrifar um Boðbera - Skref áfram í íslenskri kvikmyndagerð

Handritshöfundur og leikstjóri: Hjálmar Einarsson
Aðalhlutverk: Darri Ingólfsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir
Aukahlutverk: Jón Páll Eyjólfsson, Pétur Einarsson, Hjalti Rögnvaldsson, Móeiður Júníusdóttir
Lengd: 100 mínútur

Boðberi er glæný íslensk kvikmynd og önnur í röðinni það sem liðið er af þessu ári, en Kóngavegur kom út síðla vetrar. Boðberi er allsérstök kvikmynd og á marga vegu mjög ólík þeim íslensku myndum sem maður á að venjast.

Viðtal BÍÓFilmunnar, samstarfsvef Pressunnar, við leikstjóra Boðbera, Hjálmar Einarsson, sem birtist á frumsýningardaginn 7. júlí, má lesa HÉR.

Páll er hinn venjulegi Jón úti í bæ, sem berst í bökkum, reynir að borga skuldir og halda sér á floti, á hröðum tímum í samfélagi sem tekur ekki tillit til þeirra sem aðlagast ekki nógu fljótt. Það breytist hins vegar þegar hann skyndilega fær vitranir um lífið eftir dauðann. Í fyrstu tekur hann vitrununum með opnum huga en uppgötvar svo djöfulleg áform sem gerjast í samfélaginu. Spilling er víðsvegar í kerfi íslensku stjórnsýslunnar og tekur Páll það í eigin hendur að uppræta hana - á sinn eigin hátt.

Nokkurn veginn svona hljómar söguþráður Boðbera. Það er ekki hægt að fara neitt rosalega ítarlega í söguþráðinn án þess að gefa of mikið upp um framvinduna því söguþráðurinn kemur nokkuð á óvart. Ég var orðinn frekar spenntur að sjá myndina enda fannst mér stiklan mjög áhugaverð og gaf í skyn að þarna væri á ferð hörkuspennandi, ofbeldisfullur og yfirnáttúrulegur spennutryllir sem endurspeglaði íslenskt nútímasamfélag.

Það er margt jákvætt við myndina en einnig margt neikvætt. Boðberi fer vel af stað. Aðalpersónan Páll virkaði strax vel á mig, mjög viðkunnanlegur náungi með stóra drauma en hálfgerður lúser, pikkfastur í hinu týpíska íslenska harki; þ.e. að vinna nógu andskoti mikið til að geta staðið við skuldbindingarnar. Sagan helst mjög áhugaverð framan af enda sjáum við Pál fá þessar vitranir og hann byrjar að sjá hluti sem hann botnar ekkert í, hann kynnist stelpu á kristilegri samkomu sem hann byrjar svo með og móttekur orð guðs í kjölfarið. Sagan átti marga fína spretti og það voru nokkur atriði þar sem ég skellti upp úr, sem kom skemmtilega á óvart því ég bjóst ekki við neinum bröndurum. Myndin er samt sem áður engin gamanmynd, þetta er alvöruþrungin dramamynd sem er langt í frá auðmeltanleg.

Það sem mér þykir hvað best við myndina er hvað hún er óíslensk á svo marga vegu. Íslenskar kvikmyndir glíma yfirleitt við þann hvimleiða galla að samtölin eru svo yfirborðskennd, háfleyg og stirð að ég fæ undantekningarlaust kjánahroll hvað eftir annað. Boðberi fellur sem betur fer ekki í þann flokk sem er mikill kostur. Samtölin voru sannfærandi og „nútímaleg”.

Samtölin hefðu ekki gengið upp nema með góðum leikurum en þeir skila þeim á mjög náttúrulegan hátt. Í heildina er frammistaða leikara til fyrirmyndar og þá sérstaklega hjá aðalleikaranum Darra sem er liggur við í hverju einasta skoti myndarinnar. Myndin stendur og fellur með honum og hann er það þéttur í sínum leik að myndin stendur styrkum fótum. Ísgerður Elfa var sannfærandi í sínu hlutverki (sem var reyndar tiltölulega auðvelt). Saman mynda þau Darri og Ísgerður sannfærandi par á skjánum, það má greinilega finna kemestríu á milli þeirra. Jón Páll var hrikalega flottur sem prédikarinn og Pétur Einarsson með sína sterku og flottu rödd átti tjaldið í þeim atriðum sem hann var í. Þá átti stórleikarinn Gunnar Eyjólfsson skemmtilega innkomu. Ekki voru allir jafn sannfærandi, t.d. var sá sem lék forsætisráðherrann, Einar Gunnarsson, mjög slappur og var ótrúverðugur í sínu hlutverki en hann var eingöngu í myndinni í sirka eina og hálfa mínútu.

Tónlistin í myndinni, sem er eftir Bandaríkjamanninn Karl Pestka, er mjög góð og hæfir vel viðfangsefninu. Tónlistin er lágstemmd en þegar það kom snarpur og skemmtilegur eltingarleikur, þá færðist meira fjör í tónlistina.

Það sem dregur myndina niður er gloppótt handrit og tæknivinnslan en það var ekkert sem eyðilagði upplifunina. Myndin virkar alveg á meðan maður er að horfa á hana, maður spáir ekkert mikið í holur í söguþræðinum og hvort hann virki yfir höfuð fyrr en eftir á og þá kemur í ljós að mörgum spurningum er ósvarað. Það er líka viss kostur því frá því ég fór á myndina, þá hef ég ekki hætt að hugsa um hana því sagan er svo tvíræð að ég er ennþá að gera upp við mig hvort Páll sé einfaldlega geðveikur og að búa til þessar vitranir sínar eða hvort hann raunverulega fær þessar vitranir og trúir því að hann sé að vinna verk guðs.

Tæknivinnsla fer fyrir ofan garð og neðan. Kvikmyndataka missti stundum marks með of miklum nærmyndum, skot áttu það til að vera aðeins úr fókus og það er alltaf smá hristingur á tökuvélinni. Þá var lýsingu greinilega ábótavant sem og hljóði. Tæknibrellur voru samt mjög góðar, sérstaklega þegar tekið er mið af því að myndin var gerð fyrir lítinn sem engan pening. Mér var alveg sama þó að tæknibrellurnar litu í sumum tilfellum út fyrir að vera heimagerðar, það truflaði mig ekki neitt. Margar af brellunum voru líka faldar, ýmislegt sem áhorfandinn telur að sé t.d. förðun er í raun stafræn förðun, unnin í eftirvinnslu. Ég tek ofan fyrir leikstjóranum og brellumeisturum hans fyrir að ná því að gera þær þetta góðar. Í fljótu bragði man ég heldur ekki eftir annarri íslenskri mynd sem reiðir sig svo mikið á tæknibrellur og má leikstjórinn vera stoltur frumkvöðull í þeim efnum.

Niðurstaða: Boðberi er ágætis skemmtun, hún er verulega öðruvísi en maður á að venjast og skilur áhorfandann eftir mjög hugsi því myndin skilur eftir margar spurningar. Handritið er spurningamerki en ef maður pælir ekkert of mikið í sögunni, þá ættu allir að geta notið myndarinnar. Leikarar fá stóran plús fyrir að vera sannfærandi og leikstjórinn kemst sömuleiðis vel frá sínum þætti sem potturinn og pannan í öllu ferlinu. Það er óhætt að mæla með Boðbera sem nálgast viðfangsefni sitt á opinskáan og heiðarlegan hátt. Myndin er skref áfram í íslenskri kvikmyndagerð og ætti hver og einn ætti að sjá myndina, þó það væri ekki nema til að styrkja íslenska, óháða kvikmynd!

Róbert F. Michelsen / BÍÓfilman.is