Crinkle smákökur - Ekta súkkulaðisæla

Nú er fyrsti sunnudagur í aðventu liðinn. Það er einn af mínum uppáhalds sunnudögum og hef ég haldið í hefð frá móður minni að baka alltaf jólasmákökur á þessum degi. 

Í ár hafði ég frekar lítinn tíma þennan sunnudag, einfaldlega vegna mikilla anna í alls kyns jólaskemmtunum með börnin, þannig að ég ákvað að baka eitthvað einfalt. Nefnilega Crinkle smákökur. 

Þeir sem hafa búið í Bandaríkjunum vita að Crinkle smákökur eru afskaplega vinsælar þar. Þetta eru mjúkar súkkulaðikökur með góðu og djúpu súkkulaðibragði og til að setja punktinn yfir i-ið er flórsykri dustað yfir kökurnar áður en þær eru bakaðar. Það er sko blanda sem ekki getur klikkað! 

Þessi uppskrift er afskaplega einföld, en ég held að það sé ómögulegt að finna flókna uppskrift að Crinkle kökum. Fegurðin í þessum smákökum er í einfaldleika þeirra og mér finnst mjög gott að vita af nokkrum í boxinu inn í búri þegar óvænta gesti ber að garði. Svo ekki sé minnst á hve mikill draumur er að búa til eitthvað svona einfalt þegar nokkrir krakkar hanga utan í manni. 

Það er nefnilega ofboðslega einfalt að leyfa þeim að taka virkan þátt í þessum bakstri. Sjö ára dóttir mín hafði til dæmis mjög gaman að því að velta kökunum upp úr flórsykrinum.Crinkle smákökur falla í kramið hjá öllum, að því er virðist – hvort sem fólk elskar súkkulaði eða ekki. 

Það er bara eitthvað við þessar kökur sem gera mann glaðan og ekki skemmir fyrir að vera með stórt glas, stútfullt af mjólk á kantinum svo kökurnar renni extra ljúflega niður.Hráefni

3/4bolli sykur
1/4bolli olía 
1tsk vanilludropar 
2 egg 
1bolli hveiti 
1/2bolli kakó 
1tsk instant kaffi 
1tsk lyftiduft 
1/4tsk salt 
1/2bolli flórsykur

Aðferð

Blandið saman sykri, olíu og vanilludropum. Bætið eggjunum því næst saman við, einu í einu.Blandið hveiti, kakói, instant kaffi, lyftiduft og salti vel saman við þar til allt er blandað saman. Deigið líkist meira blautu kökudeigi en smákökudeigi.

Pakkið deiginu inní plastfilmu og kælið í ísskáp í að minnsta kosti 2 klukkustundir.

Hitið ofninn í 180°C og setjið smjörpappír á ofnplötur.

Hellið flórsykrinum í skál. Takið deigið úr ísskápnum og búið til litlar kúlur úr því, sem þið síðan veltið vel og vandlega upp úr flórsykrinum. Það er mikilvægt að kúlan sé algjörlega hulin með flórsykri því eitthvað af honum bráðnar ofan í kökudeigið við bakstur.Raðið kúlunum á ofnplöturnar og bakið í 10-12 mínútur. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur áður en þið takið þær af plötunum og hámið í ykkur.

Hér er hægt að nálgast fleiri gómsætar uppskriftir á vef Blöku.